Hvað er Biblíu- og smáritafélagið Varðturninn?
Biblíu- og smáritafélagið Varðturninn (Watch Tower Bible and Tract Society) er félag sem er ekki rekið í hagnaðarskyni. Félagið var lögskráð árið 1884 samkvæmt lögum Pennsylvaniaríkis í Bandaríkjunum. Vottar Jehóva nota það til að styðja starf sitt um allan heim en það felur meðal annars í sér útgáfu biblía og biblíutengdra rita.
Samkvæmt stofnskrá félagsins er það trúarlegt og sinnir fræðslu og góðgerðastarfsemi, sérstaklega með því að prédika og kenna fagnaðarerindið um ríki Guðs í höndum Jesú Krists. Meðlimir eru aðeins þeir sem fá boð en það byggist ekki á því hversu mikið þeir hafa gefið í frjáls framlög. Meðlimir félagsins og stjórnendur aðstoða hið stjórnandi ráð Votta Jehóva.
Lögskráð félög á vegum Votta Jehóva
Vottar Jehóva nota fjölda lögskráðra félaga í mismunandi löndum auk Biblíu- og smáritafélagsins Varðturninn. Sum þeirra nota orð eins og „Watch Tower,“ „Watchtower“ eða þýðingu á þessum orðum sem hluta af nafni sínu.
Þessi félög hafa gert okkur kleift að áorka miklu síðan þau voru lögskráð eins og eftirfarandi dæmi sýna.
Ritun og útgáfa. Við höfum gefið út um 220 milljónir biblía og 40 milljarða eintaka af biblíutengdum ritum. Rit okkar eru fáanleg á meira en 900 tungumálum. Fólk getur lesið Biblíuna á vefsíðunni jw.org á netinu án endurgjalds á fleiri en 160 tungumálum og fengið svör við biblíuspurningum eins og „Hvað er Guðsríki?“
Menntun. Við starfrækjum ýmsa skóla fyrir biblíufræðslu. Síðan 1943 hafa til dæmis um 9000 vottar Jehóva sótt Biblíuskólann Gíleað og fengið rækilega kennslu. Hún hefur veitt þeim menntun til að þjóna sem trúboðar eða til að styrkja og efla starf okkar um heim allan. Og í hverri viku fá milljónir manna, þar á meðal þeir sem eru ekki vottar, kennslu sem fer fram á samkomum í öllum söfnuðum okkar. Einnig fer fram lestrarkennsla og gefin hefur verið út kennslubók á 120 tungumálum til að kenna fólki að lesa og skrifa.
Góðgerðarstarf. Við höfum hjálpað fórnarlömbum hamfara efnislega hvort sem þær eru af mannavöldum, eins og þjóðarmorðið í Rúanda, eða af völdum náttúrunnar eins og jarðskjálftinn á Haítí árið 2010.
Enda þótt margt hafi áunnist með lögskráðum félögum á okkar vegum er starf okkar ekki háð þeim. Hver og einn kristinn maður hefur þá ábyrgð að hlýða tilskipun Guðs að prédika og kenna fagnaðarerindið. (Matteus 24:14; 28:19, 20) Við trúum því að Guð styðji starf okkar og haldi áfram að ,gefa vöxtinn‘.– 1. Korintubréf 3:6, 7.