22. NÓVEMBER 2024
ÚR ÝMSUM ÁTTUM
Átak um allan heim í að hefja biblíunámskeið í september 2024 bar frábæran árangur
Í september 2024 tóku vottar Jehóva í 240 löndum þátt í sérstöku átaki í að hefja biblíunámskeið. Bræður og systur um allan heim notuðu hvert tækifæri sem gafst til að sýna biblíunámsaðferðina með hjálp ritsins Von um bjarta framtíð. Hér eru nokkrar hvetjandi frásögur frá þessum sérstaka mánuði.
Síle
Þrítug kona í Síle sá ritatrillu þegar hún var í strætó. Hún skannaði reitamerkið á skiltinu sem auglýsti ókeypis biblíunámskeið úr sæti sínu í strætisvagninum. Það leiddi hana inn á jw.org. Eftir að hafa lesið greinina „Hverjum getur þú treyst? – Hvað segir Biblían?“ á vefsíðunni okkar bað hún um að fá heimsókn. Stuttu síðar fengu hjón í söfnuðinum beiðnina hennar og heimsóttu hana. Hún sagði þeim að hún hefði verið að biðja Guð um hjálp til að vita hvernig hún gæti tilbeðið hann á réttan hátt. Þau buðu henni biblíunámskeið og hún vildi endilega byrja strax. Í námsstundinni sagðist konan vera mjög ánægð með myndböndin í námsefninu. Hún er nú þegar búin að fara yfir þrjá kafla í Von um bjarta framtíð og heldur áfram að kynna sér Biblíuna.
Senegal
Kona í Senegal heyrði út um gluggann hjá sér á tal tveggja systra sem voru að ræða við mann um Biblíuna. Það sem hún heyrði vakti áhuga hennar svo að hún flýtti sér út til að ná að tala við þær áður en þær færu. Þær ræddu um óréttlætið í heiminum og systurnar sýndu henni Jesaja 32:16, 17 og loforð Biblíunnar um framtíðina í kafla 02 í Von um bjarta framtíð. Konan fór að gráta og sagði þeim frá nokkrum mjög erfiðum vandamálum sem hún var að glíma við. Þær hugguðu hana og lásu fyrir hana 1. Pétursbréf 5:7. Síðan buðu þær henni biblíunámskeið sem hún þáði strax.
Taívan
Bróðir nokkur var í boðuninni hús úr húsi á Taívan og ræddi við ungan mann sem sagðist hafa áhyggjur af framtíð sinni. Bróðirinn las Jesaja 65:21, 22 og spurði manninn hvort hann myndi vilja lifa í heimi þar sem allir hefðu ánægju af vinnunni sinni. Síðan notaði hann lið 4 í kafla 02 í bæklingnum Von um bjarta framtíð til að útskýra fyrir manninum hvaða von Biblían gefur og sýndi honum auk þess hvernig biblíunámskeið fer fram. Ungi maðurinn sagðist hafa haft ánægju af samtalinu og þáði biblíunámskeið. Nokkrum vikum síðar sýndi pabbi hans áhuga á því sem hann var að læra og var með í námsstundinni. Núna eru þeir báðir að kynna sér Biblíuna.
Úkraína
Bræður okkar sem voru í boðuninni hús úr húsi í litlu þorpi í Úkraínu sýndu manni Daníel 2:44. Þeir sögðu honum að ríki Guðs sé eina stjórnin sem getur í raun og veru leyst vandamál mannkynsins. Maðurinn sagði vottunum spenntur að hann læsi Biblíuna og væri með margar spurningar. Hann sagðist hafa verið að bíða eftir að vottarnir kæmu til hans og að hann hefði jafnvel reynt að finna ríkissal í nágrenninu. Bræðurnir sögðu honum að biblíunámskeið myndi hjálpa honum að fá svör við spurningum hans og buðust til að sýna honum hvernig það færi fram. Maðurinn þáði það fúslega og er núna í biblíunámi.
Það gleður okkur mjög að heyra þessar fréttir af átakinu okkar um allan heim! Við þökkum Jehóva fyrir að blessa það sem bræður okkar og systur um allan heim leggja á sig til að hjálpa einlægu fólki að kynnast honum og orði hans betur. – 1. Þessaloníkubréf 2:13.
Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir af bræðrum og systrum í ýmsum löndum sem tóku glöð þátt í þessu sérstaka boðunarátaki í september 2024.
Búlgaría
Síle
Grikkland
Ísland
Filippseyjar
Rúanda
Bandaríkin
Simbabve