Hoppa beint í efnið

BÝR HÖNNUN AÐ BAKI?

Hæfileiki hormóna til að stýra starfsemi líkamans

Hæfileiki hormóna til að stýra starfsemi líkamans

 Til að líkaminn geti starfað eðlilega þarf blóðið öllum stundum að innihalda tiltekið magn rafvaka, til dæmis kalsíum. En það er dagamunur á því hversu mikið af slíkum efnum fólk innbyrðir. Hvernig nær líkaminn að halda magni rafvaka stöðugu?

 Heilbrigður mannslíkami stýrir magni rafvaka með því að framleiða og geyma hormón og losa þau út í blóðrásina. Hormón eru lífræn efnasambönd sem stýra ýmissi starfsemi í líkamanum. Jafnvel örlítið magn af hormónum getur haft mikil áhrif á líkamann. Í alfræðiritinu Encyclopedia Britannica segir að losun hormóna sé „ekki tilviljunarkennt ferli heldur nákvæmt og margbrotið.“

 Kalkkirtlar í hálsinum finna til dæmis þegar magnið af kalsíum í blóðinu breytist ögn. Þessir kirtlar, sem eru venjulega fjórir að tölu, eru hver á stærð við hrísgrjón.

 Þegar kirtlarnir skynja að kalsíumið hefur farið niður fyrir ákveðið magn gefa þeir strax – stundum á nokkrum sekúndum – frá sér hormón sem gefur beinunum boð um að losa kalsíum út í blóðið úr forðanum þar. Þetta hormón örvar líka nýrun til að hætta að sía kalsíum úr blóðinu og mjógirnið til að hækka magnið af kalsíum sem það tekur úr fæðunni.

 Ef blóðið inniheldur hins vegar of mikið kalsíum losar annar kirtill, skjaldkirtillinn, annað hormón. Þetta hormón gefur boð til beinanna um að taka í sig og geyma meira kalsíum og nýrnanna um að sía út meira kalsíum en vanalega.

 Þessi hormón eru aðeins tvö af yfir hundrað hormónum sem líkaminn notar til að stilla og stýra ýmsum ferlum í líkamanum.

 Hvað heldur þú? Þróaðist hæfileiki hormóna til að stýra líkamsstarfseminni? Eða býr hönnun að baki?