Hvað merkir það að endurfæðast?
Svar Biblíunnar
Þeir sem „fæðast að nýju“ eignast nýtt samband við Guð. (Jóhannes 3:3, 7) Guð ættleiðir þá sem börn sín. (Rómverjabréfið 8:15, 16; Galatabréfið 4:5; 1. Jóhannesarbréf 3:1) Staða þeirra breytist eins og gerist hjá þeim sem eru ættleiddir. Þeir tilheyra nú fjölskyldu Guðs. – 2. Korintubréf 6:18.
Hvers vegna fæðist fólk að nýju?
Jesús sagði: „Enginn getur séð ríki Guðs nema hann fæðist að nýju.“ (Jóhannes 3:3) Endurfæðing er grundvallaratriði til að geta ríkt með Kristi í ríki Guðs. Þetta ríki er staðsett á himnum. Þess vegna segir Biblían að þeir sem „endurfæðast“ fái arfleifð sem er „geymd á himnum“. (1. Pétursbréf 1:3, 4) Þeir sem fæðast að nýju eru sannfærðir um að þeir muni „ríkja með [Kristi] sem konungar“. – 2. Tímóteusarbréf 2:12; 2. Korintubréf 1:21, 22.
Hvernig fæðist fólk að nýju?
Þegar Jesús ræddi um þetta mál sagði hann að þeir sem endurfæðast „fæðist af vatni og anda“. (Jóhannes 3:5) Þetta orðalag vísar til skírnar í vatni og skírnar með heilögum anda sem kemur á eftir hana. – Postulasagan 1:5; 2:1–4.
Jesús var sá fyrsti sem fæddist að nýju. Hann var skírður í Jórdan og síðan smurði (eða skírði) Guð hann með heilögum anda. Þannig endurfæddist Jesús sem andasmurður sonur Guðs og fékk þá von að snúa aftur til himna. (Markús 1:9–11) Guð uppfyllti þessa von með því að reisa Jesú upp sem andaveru. – Postulasagan 13:33.
Aðrir sem fæðast að nýju skírast líka í vatni áður en þeir fá heilagan anda. a (Postulasagan 2:38, 41) Þeir hljóta þar með örugga von um líf á himni sem Guð mun uppfylla í upprisu hinna dánu. – 1. Korintubréf 15:42–49.
Ranghugmyndir um endurfæðingu
Ranghugmynd: Fólk þarf að endurfæðast til að bjargast eða verða kristið.
Staðreynd: Fórn Krists bjargar ekki aðeins þeim sem fæðast að nýju og ríkja með Kristi á himni heldur líka jarðneskum þegnum Guðsríkis. (1. Jóhannesarbréf 2:1, 2; Opinberunarbókin 5:9, 10) Seinni hópurinn hefur þann möguleika að lifa að eilífu í paradís á jörð. – Sálmur 37:29; Matteus 6:9, 10; Opinberunarbókin 21:1–5.
Ranghugmynd: Fólk getur valið að endurfæðast.
Staðreynd: Allir geta átt samband við Guð og hlotið björgun. (1. Tímóteusarbréf 2:3, 4; Jakobsbréfið 4:8) En Guð velur þá sem fæðast að nýju, það er að segja þá sem hann smyr með heilögum anda. Samkvæmt Biblíunni er það að endurfæðast „undir Guði og miskunn hans komið … en ekki undir löngun eða viðleitni mannsins“. (Rómverjabréfið 9:16) Að fæðast að nýju má líka þýða að fæðast „að ofan“ en það sýnir skýrt að það er Guð sem velur þá sem fæðast að nýju. – Jóhannes 3:3, neðanmáls.
a Undantekning frá þessu var Kornelíus og heimilisfólk hans. – Postulasagan 10:44–48.