Eru dauðasyndirnar sjö til?
Svar Biblíunnar
Biblían talar ekki um sjö dauðasyndir. Hún kennir hins vegar að fólk sem iðkar alvarlegar syndir fái ekki frelsun. Hún talar til dæmis um alvarlegar syndir eins og kynferðislegt siðleysi, skurðgoðadýrkun, dulspeki, reiðiköst og ofdrykkju sem „verk holdsins“. Síðan bætir hún við: „Þeir sem stunda slíkt erfa ekki ríki Guðs.“ – Galatabréfið 5:19–21. a
Nefnir Biblían ekki ‚sjö hluti sem eru Jehóva andstyggð‘?
Jú. Í Orðskviðunum 6:16 segir: „Sex hluti hatar Jehóva, sjö eru honum andstyggð.“ En listinn sem fylgir á eftir í Orðskviðunum 6:17–19 er ekki hugsaður sem tæmandi. Hann lýsir nokkrum grunnflokkum þess sem er rangt og nær yfir rangar hugsanir, orð og verk. b
Hvað er átt við með orðinu dauðasynd?
Sumar biblíuþýðingar tala um dauðasynd í 1. Jóhannesarbréfi 5:16. Orðið sem þar er þýtt „dauðasynd“ er líka hægt að þýða „synd sem leiðir til dauða“. Hver er munurinn á „synd sem leiðir til dauða“ og „synd sem leiðir ekki til dauða“? – 1. Jóhannesarbréf 5:16.
Biblían kennir að allar syndir leiði til dauða. En lausnarfórn Jesú Krists getur frelsað okkur frá synd og dauða. (Rómverjabréfið 5:12; 6:23) „Synd sem leiðir til dauða“ er sú synd sem fórn Krists afmáir ekki. Sá sem drýgir slíka synd er svo ákveðinn að fylgja þeirri stefnu að hann breytir aldrei viðhorfi sínu og breytni. Biblían talar einnig um að þeim sem drýgir slíka synd ‚verði ekki fyrirgefið‘. – Matteus 12:31; Lúkas 12:10.
a Þær 15 syndir sem eru nefndar í Galatabréfinu 5:19–21 eru ekki hugsaðar sem tæmandi listi vegna þess að á eftir upptalningunni segir: „og annað þessu líkt“. Lesandinn er þannig hvattur til að nota dómgreind til að koma auga á sambærilega hegðun sem er ekki talin upp en er ‚þessu lík‘.
b Í Orðskviðunum 6:16 er dæmi um hebreskt orðalag sem ber eitthvað tvennt saman til að leggja áherslu á það síðarnefnda. Slíkt orðalag kemur oft fyrir í Ritningunum. – Jobsbók 5:19; Orðskviðirnir 30:15, 18, 21.