Eignastu náið samband við þann sem heyrir bænir
Eignastu náið samband við þann sem heyrir bænir
MARGIR sem segjast trúa á Guð geta ekki útskýrt hvers vegna þeir gera það. Þeir geta heldur ekki útskýrt hvers vegna trúarbrögðin valda oft skaða eða hvers vegna Guð leyfir þjáningar. Í besta falli biðja þeir til Guðs sem þeir þekkja í rauninni ekki.
Þú getur hins vegar átt nánara samband við Guð en það. Þú getur byggt upp trú þína með því að afla þér þekkingar á Guði sem mun vekja hjá þér löngun til að sýna honum ástúð og þakklæti. Ósvikin trú er byggð á staðreyndum. (Hebreabréfið 11:1) Ef þú lærir sannleikann um Guð geturðu kynnst honum og talað við hann eins og vin. Lítum á hvað nokkrir einstaklingar, sem báðu til Guðs jafnvel þótt þeir efuðust um tilvist hans, hafa að segja um reynslu sína.
◼ Patricia, sem minnst var á í fyrstu greininni. „Eitt sinn þegar ég og nokkrir vinir mínir vorum saman komin fóru þeir að ræða um trúmál. Ég hafði sagt þeim að ég hefði farið út úr húsinu til að þurfa ekki að hlusta á samræður pabba míns, sem var trúleysingi, við einn af vottum Jehóva sem hafði bankað á dyrnar hjá okkur. ,En kannski er eitthvað til í þessu hjá vottunum,‘ sagði einn af vinum mínum.
,Við getum nú auðveldlega komist að því,‘ sagði ein vinkona mín. ,Hvers vegna kíkjum við ekki bara á samkomu hjá þeim?‘ Og það gerðum við. Jafnvel þótt við værum full efasemda héldu nokkur okkar áfram að mæta á samkomur einfaldlega vegna þess að vottarnir voru svo vingjarnlegir.
Einn sunnudaginn heyrði ég hins vegar nokkuð sem breytti viðhorfi mínu. Ræðumaðurinn útskýrði hvers vegna mannkynið þjáist. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir að maðurinn var í upphafi skapaður fullkominn og að synd og dauði hafi átt upptök sín hjá einum manni og runnið svo í arf til allra manna. Ræðumaðurinn útskýrði einnig hvers vegna dauði Jesú var nauðsynlegur til að mannkynið gæti öðlast aftur það sem fyrsti maðurinn glataði. * (Rómverjabréfið 5:12, 18, 19) Skyndilega kom allt heim og saman. ,Það er til Guð sem er annt um okkur,‘ hugsaði ég. Ég hélt áfram að kynna mér Biblíuna og í fyrsta sinn á ævinni gerði ég mér grein fyrir því að ég gat beðið til einhvers sem var til í raun og veru.“
◼ Mike, sem einnig var minnst á í fyrstu greininni. „Dag einn bönkuðu vottar Jehóva upp á hjá okkur og konan mín bauð þeim inn vegna
þess að hún hafði áhuga á að vita meira um eilíft líf hér á jörð. Ég varð pirraður. Á meðan gestirnir komu sér fyrir í stofunni bað ég konuna mína um að tala við mig frammi í eldhúsi. Ég sagði við hana: ,Hvað ertu að hugsa? Þú getur ekki bara gleypt við svona hlutum!‘Hún svaraði: ,Jæja, þú getur þá bara farið sjálfur inn og sýnt þeim fram á að þeir hafi rangt fyrir sér.‘
Ég gat auðvitað ekki sýnt fram á eitt né neitt. En þeir voru mjög vingjarnlegir og gáfu mér bók sem svaraði spurningunni um það hvort lífið hefði orðið til við þróun eða sköpun. Rökin í bókinni voru mjög skýr og byggð á traustum grunni. Mér fannst ég þurfa að vita meira um Guð. Ég fór að kynna mér Biblíuna með vottunum og innan skamms varð mér ljóst að það sem í henni stendur er allt annað en það sem ég hafði áður haldið. Eftir því sem ég lærði meira um Jehóva urðu bænir mínar markvissari. Sumt í fari mínu var ekkert sérstaklega viðkunnanlegt svo að ég bað til Guðs um hjálp. Ég er sannfærður um að Jehóva svaraði bænum mínum.“
◼ Andrew, sem býr á Englandi. „Ég hafði sterkar skoðanir og mikinn áhuga á vísindum. En ég
trúði á þróunarkenninguna vegna þess að aðrir héldu því fram að hún væri staðreynd. Ég hafnaði trúnni á Guð vegna illskunnar í heiminum.Stundum hugsaði ég samt með mér: ,Ef til er Guð þarna uppi, þá langar mig til að vita hver tilgangurinn er með þessu öllu saman. Af hverju er svona mikið um glæpi og stríð?‘ Þegar ég átti erfitt bað ég stundum um hjálp en ég vissi ekki við hvern ég var að tala.
Seinna gaf einhver konunni minni smárit sem gefið er út af Vottum Jehóva og heitir Mun þessi heimur bjargast? Ég hafði oft velt þessari spurningu fyrir mér. Smáritið fékk mig til að hugsa um hvort það gæti verið þess virði að skoða hvað Biblían hefur að segja. Einhverju síðar, þegar ég var í fríi, fékk ég bókina The Bible – God’s Word or Man’s? (Biblían – orð Guðs eða manna?) * Þegar ég sá að Biblían samræmist sönnum vísindum fannst mér ég verða að kynna mér hana betur. Ég þáði því boðið þegar einn af vottum Jehóva bauðst til að fræða mig um Biblíuna. Mér fannst Jehóva verða mér raunverulegri þegar ég skildi smátt og smátt fyrirætlun hans og ég fór að geta talað opinskátt við hann í bænum mínum.“
◼ Jane, kona frá London sem var alin upp í mótmælendatrú. „Hræsnin innan trúarbragðanna og allar þjáningarnar í heiminum leiddu til þess að ég gaf trúarbrögð upp á bátinn. Ég hætti líka í háskóla og fór að afla mér tekna með því að syngja og spila á gítar. Þá kynntist ég Pete. Hann hafði alist upp sem kaþólikki og misst trúna eins og ég.
Við bjuggum í yfirgefnu húsi ásamt fleirum sem höfðu hætt í skóla og höfðu áhuga á austurlenskum trúarbrögðum. Það spunnust oft miklar umræður um tilgang lífsins og við vorum vön að ræða saman langt fram á nætur. Jafnvel þótt við Pete tryðum ekki á Guð fannst okkur að það hlyti að vera til einhvers konar kraftur sem viðhéldi lífinu.
Eftir að við fluttum til Norður-Englands til að leita okkur að vinnu sem tónlistarmenn eignuðumst við son. Eina nóttina varð hann veikur og ég tók á það ráð að biðja til Guðs, sem ég trúði ekki á. Skömmu síðar versnaði samband okkar Pete og ég fór frá honum með barnið okkar. Aftur bað ég um hjálp ef ske kynni að einhver væri að hlusta á bænir mínar. Ég vissi ekki að Pete væri að gera nákvæmlega það sama.
Síðar sama dag bönkuðu tveir vottar Jehóva upp á hjá Pete og sýndu honum nokkur hagnýt ráð úr Biblíunni. Pete hringdi í mig og spurði hvort ég væri til í að kynna mér Biblíuna með honum og vottunum. Við lærðum fljótlega að til þess að þóknast Guði þyrftum við að gifta okkur. Það virtist nánast óhugsandi þar sem samband okkar stóð á brauðfótum.
Okkur langaði til að læra meira um Guðsríki, uppfyllingu biblíuspádóma og um það af hverju mennirnir þjást. Smám saman skildum við að Guð ber umhyggju fyrir mönnunum og okkur langaði til að hlýða honum. Við gengum því í hjónaband. Viskan í orði Guðs hefur reynst okkur mikil hjálp við uppeldi barnanna okkar þriggja. Við erum sannfærð um að Jehóva heyrði bænir okkar.“
Kynntu þér staðreyndirnar
Fólkið, sem vitnað var í hér á undan, hefur líkt og milljónir annarra séð í gegnum blekkingar falstrúarbragðanna og öðlast skilning á því hvers vegna Guð leyfir þjáningar. Þú tókst kannski eftir að í öllum tilvikum var það nákvæm þekking á Biblíunni sem sannfærði þau um að Jehóva heyrir í raun bænir.
Myndir þú vilja skoða sannanirnar fyrir því að Guð sé til? Vottar Jehóva vilja gjarnan aðstoða þig við að læra sannleikann um Jehóva og hjálpa þér að eignast náið samband við þann „sem heyrir bænir“. – Sálmur 65:3.
[Neðanmáls]
^ gr. 6 Nánari upplýsingar um lausnarfórn Jesú er að finna í 5. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? gefin út af Vottum Jehóva.
^ gr. 12 Gefin út af Vottum Jehóva en ekki til á íslensku.
[Innskot á bls. 10]
„Mér fannst Jehóva verða mér raunverulegri þegar ég skildi smátt og smátt fyrirætlun hans og ég fór að geta talað opinskátt við hann í bænum mínum.“
[Mynd á bls. 9]
Ósvikin trú er byggð á staðreyndum og því að kynna sér sannleikann um Guð.