Hvað óttast margir?
Hvað óttast margir?
„Fólk þarf ekki að vera trúað til að halda að það stefni í stórhamfarir hjá mannkyninu.“ — STEPHEN O’LEARY, DÓSENT VIÐ HÁSKÓLANN Í SUÐUR-KALIFORNÍU. *
ERTU sammála orðunum hér að ofan? Í þessari greinasyrpu er fjallað um nokkrar ástæður þess að margir horfa með ugg og ótta til framtíðarinnar. En líka er bent á hvers vegna við megum treysta að lífið á jörðinni líði ekki undir lok. Það er ærin ástæða til að vera bjartsýnn þrátt fyrir ýmsar uggvænlegar staðreyndir sem þú átt eftir að lesa um.
Hættan á kjarnorkustyrjöld er veruleg. Árið 2007 stóð eftirfarandi í tímaritinu Bulletin of the Atomic Scientists: „Mannkynið hefur ekki staðið frammi fyrir svona ískyggilegum valkostum síðan fyrstu kjarnasprengjunum var varpað á Hírósíma og Nagasaki.“ Hvað bjó að baki þessum válegu orðum? Í tímaritinu kom fram að árið 2007 væru enn til um 27.000 kjarnavopn, þar af 2.000 sem „hægt væri að skjóta á loft með nokkurra mínútna fyrirvara“. Afleiðingarnar yrðu hrikalegar þótt ekki væru sprengdar nema örfáar af þessum sprengjum.
Hefur dregið úr hættunni á kjarnorkustyrjöld síðan 2007? Fimm helstu kjarnorkuveldin — Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kína og Rússland — hafa „annaðhvort sett upp ný kjarnavopnakerfi eða hafa tilkynnt að það sé á döfinni“. Þetta kemur fram í árbók Alþjóðlegu friðarrannsóknarstofnunarinnar í Stokkhólmi fyrir árið 2009. * Í árbókinni er því hins vegar haldið fram að þessi ríki séu ekki þau einu sem eigi kjarnavopn. Talið er að Indverjar, Pakistanar og Ísraelar eigi hverjir um sig á bilinu 60 til 80 kjarnasprengjur. Einnig er talið að á heimsvísu séu til taks alls 8.392 kjarnasprengjur sem bíði þess að þeim sé skotið á loft.
Loftslagsbreytingar geta valdið miklum hamförum. Í áðurnefndu tímariti, Bulletin of the Atomic Scientists, segir enn fremur:
„Hætturnar af völdum loftslagsbreytinga eru næstum jafn skelfilegar og af völdum kjarnavopna.“ Virtir vísindamenn taka undir þessar alvarlegu viðvaranir, þeirra á meðal Stephen Hawking, prófessor við Cambridge-háskóla, og sir Martin Rees, rektor Trinity College við Cambridge-háskóla. Þeir telja að óábyrg beiting tækninnar og áhrif manna á umhverfið geti valdið óafturkræfum breytingum á lífríki jarðar og jafnvel valdið því að siðmenningin líði undir lok.Milljónir manna hafa áhyggjur af heimsendaspám. Ef slegin eru inn orðin „end of the world“ (heimsendir) og ártalið „2012“ í leitarvél á Netinu koma upp hundruð síðna með tilgátum þess efnis að heimsendir verði það ár. Ástæðan er sú að fornt dagatal Maya-indíána, sem kallað er „langa talningin“, tekur enda árið 2012. Margir virðast óttast að þetta sé einhvers konar vísbending um að siðmenningin í núverandi mynd líði undir lok það ár.
Margt trúarlega sinnað fólk telur að því sé spáð í Biblíunni að jörðin eigi eftir að farast í bókstaflegri merkingu. Þeir telja að allir hinir trúuðu fari þá til himna en aðrir menn verði látnir þjást í einhverri allsherjarringulreið á jörð eða þeim verði kastað í helvíti.
Er því virkilega haldið fram í Biblíunni að jörðin eigi eftir að eyðileggjast eða farast? Jóhannes postuli skrifaði: „Trúið ekki öllum sem segjast hafa andann, reynið þá heldur og komist að því hvort andinn sé frá Guði.“ (1. Jóhannesarbréf 4:1) Væri ekki ráð að draga fram Biblíuna, í stað þess að trúa bara því sem aðrir segja, og sjá með eigin augum hvað hún segir um endi veraldar? Niðurstaðan gæti komið þér á óvart.
[Neðanmáls]
^ gr. 2 Úr greininni „Disasters Fuel Doomsday Predictions“ (Náttúruhamfarir ýta undir dómsdagsspár) sem birtist á vefsíðu MSNBC 19. október 2005.
^ gr. 5 Skýrslan í árbók Alþjóðlegu friðarrannsóknarstofnunarinnar í Stokkhólmi (SIPRI) fyrir árið 2009 var skrifuð af Shannon N. Kile en hann er rannsóknarmaður og yfirmaður áætlunar SIPRI um takmörkun vígbúnaðar og útbreiðslu kjarnavopna, Vitaly Fedchenko, rannsóknarmanni við sömu deild SIPRI og Hans M. Kristensen sem er forstöðumaður upplýsingadeildar um kjarnavopn hjá Samtökum bandarískra vísindamanna.
[Rétthafi myndar á bls. 4]
Sveppaský: U.S. National Archives photo; fellibylur: WHO/League of Red Cross og U.S. National Archives photo