Jesús — hvað segir fólk um hann?
Jesús — hvað segir fólk um hann?
„Jesús frá Nasaret . . . er án efa áhrifamesta persóna sögunnar.“ — H. G. Wells, enskur sagnfræðingur.
„Kristur er . . . einstakur í hópi allra hetja mannskynssögunnar.“ — Philip Schaff, svissneskur guðfræðingur og sagnfræðingur.
HVER getur kallast mesta mikilmenni sem lifað hefur? Við hvað á að miða til að meta hvort maður sé mikill? Er það herstjórnarsnilli hans, líkamsburðir eða gáfur? Eða ætti að miða við hversu mikil áhrif orð hans og verk hafa á fólk og hvers konar fyrirmynd hann er?
Taktu eftir hvað sagnfræðingar, vísindamenn, fræðimenn, rithöfundar, stjórnmálaleiðtogar og aðrir — bæði fyrr og nú — hafa sagt um manninn frá Nasaret, Jesú Krist:
„Maður þyrfti að hagræða sannleikanum nokkuð mikið ef maður ætlaði að neita því að áhrifamesta persóna — ekki aðeins síðastliðin tvö þúsund ár heldur alla mannkynssöguna — hafi verið Jesús frá Nasaret.“ — Reynolds Price, bandarískur skáldsagnahöfundur og biblíufræðingur.
„Algerlega saklaus maður var fús til að fórna lífi sínu í þágu annarra, líka óvina sinna, og greiddi þar með lausnargjald fyrir allan heiminn. Þetta var hin fullkomna dáð.“ — Mohandas K. Gandhi, andlegur og pólitískur leiðtogi Indlands.
„Þegar ég var barn fékk ég bæði fræðslu byggða á Biblíunni og Talmúðinum. Ég er gyðingatrúar en ég heillast af þessum einstaka manni frá Nasaret.“ — Albert Einstein, þýskur vísindamaður.
„Í mínum huga er Jesús Kristur mikilfenglegasta persóna allra tíma, bæði sem Guðssonur og Mannssonur. Allt sem hann sagði og gerði hefur gildi fyrir okkur sem nú lifum og það er ekki hægt að segja um neinn annan mann, lífs eða liðinn.“ — Sholem Asch, pólskur ritgerðahöfundur, tilvitnun úr Christian Herald; leturbreyting þeirra.
„Í 35 ár var ég níhílisti í orðsins fyllstu merkingu og trúði ekki á neitt. En fyrir fimm árum sannfærðist ég um að Jesús væri raunveruleg persóna. Ég fór að trúa á kenningar hans og skyndilega tók líf mitt stakkaskiptum.“ — Leo Tolstoy greifi, skáldsagnahöfundur og heimsspekingur.
„Líf [Jesú] hefur haft meiri áhrif á okkur en líf nokkurs annars hér á jörð og áhrifin halda áfram að aukast.“ — Kenneth Scott Latourette, bandarískur sagnfræðingur og rithöfundur.
„Eigum við að ætla að guðspjöllin séu einungis skáldskapur? Kæri vinur, það er ekkert sem gefur til kynna að svo sé. Hins vegar er saga Sókratesar, sem enginn dirfist að efast um, ekki nærri því jafn vel skrásett og saga Jesú Krists.“ — Jean-Jacques Rousseau, franskur heimspekingur.
Það er ljóst að ef einhver verðskuldar að vera fyrirmynd okkar í lífinu þá er það Jesús Kristur. Páll var lærður maður á fyrstu öldinni sem gerðist fylgjandi Jesú og fékk það verkefni að boða öðrum þjóðum boðskap hans. Páll hvatti okkur til að ‚beina sjónum okkar til Jesú‘. (Hebreabréfið 12:2; Postulasagan 9:3) Hvernig getur Jesús kennt okkur að lifa lífinu? Hvernig getur líf hans verið okkur til góðs?