Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jesús — besta fyrirmyndin

Jesús — besta fyrirmyndin

Jesús — besta fyrirmyndin

LANGAR þig til að verða betri og ánægðari manneskja? Pétur postuli útskýrir hvernig það er hægt. Hann skrifar: „Kristur leið einnig fyrir ykkur og lét ykkur eftir fyrirmynd til þess að þið skylduð feta í fótspor hans.“ (1. Pétursbréf 2:21) Já, Jesús Kristur lifði einstöku lífi og gerði margt sem við getum lært af. Með því að fræðast um hann og taka líf hans okkur til fyrirmyndar getum við orðið betri og ánægðari einstaklingar. Við skulum skoða nánar nokkra eiginleika sem einkenndu þennan merkilega mann og sjá hvernig við getum notið góðs af fordæmi hans.

Jesús var öfgalaus. Þótt Jesús hafi sagt að hann ætti „hvergi höfði sínu að að halla“ var hann hvorki meinlætamaður né hvatti aðra til þess. (Matteus 8:20) Hann fór í stórveislur. (Lúkas 5:29) Fyrsta kraftaverk hans var að breyta vatni í eðalvín í brúðkaupsveislu og það sýnir að hann var hvorki andfélagslegur né meinlætamaður. (Jóhannes 2:1-11) En Jesús lét samt skýrt í ljós hvað skipti hann mestu máli. Hann sagði: „Minn matur er að gera vilja þess sem sendi mig og fullna verk hans.“ — Jóhannes 4:34.

Hefurðu skoðað líf þitt og athugað hvernig þú getur haft jafnvægi á milli efnislegra og andlegra mála?

Jesús var þægilegur í viðmóti. Í Biblíunni er Jesú lýst sem hlýjum og geðþekkum manni. Hann var ekki pirraður þegar fólk kom til hans með vandamál eða flóknar spurningar. Við eitt tækifæri stóð hann í mannþröng og kona, sem hafði verið veik í 12 ár, snerti klæði hans í von um lækningu. Hann ýtti henni ekki frá sér þótt hún hafi kannski virst ósvífin heldur sagði vingjarnlega: „Dóttir, trú þín hefur bjargað þér.“ (Markús 5:25-34) Börnum leið líka vel í návist hans og voru ekki hrædd um að hann hunsaði þau. (Markús 10:13-16) Framkoma hans við lærisveinana einkenndist af hreinskilnum og vingjarnlegum samræðum. Þeir hikuðu ekki við að nálgast hann. — Markús 6:30-32.

Eiga aðrir auðvelt með að nálgast þig?

Hann sýndi hluttekningu og samúð. Einn af stærstu kostum Jesú var hversu auðvelt hann átti með að setja sig í spor annarra, sýna hluttekningu og aðstoða þá. Jóhannes postuli segir frá því að þegar Jesús sá Maríu gráta vegna dauða Lasarusar, bróður síns, „komst hann við, varð djúpt hrærður“ og „grét“. Fólk sem fylgdist með gat auðveldlega séð hversu vænt Jesú þótti um þessa fjölskyldu og hann skammaðist sín ekki fyrir að láta það í ljós. Hann sýndi sannarlega samúð þegar hann reisti síðan vin sinn aftur til lífs. — Jóhannes 11:33-44.

Öðru sinni kom maður til Jesú, sem var haldinn holdsveiki en það er hræðilegur sjúkdómur sem gerði það að verkum að hann þurfti að búa í einangrun. Hann sárbændi Jesú um lækningu og sagði: „Drottinn, ef þú vilt getur þú hreinsað mig.“ Svar Jesú var hjartnæmt: „[Hann] rétti út höndina, snart hann og mælti: ‚Ég vil, verð þú hreinn!‘ “ (Matteus 8:2, 3) Jesús læknaði fólk ekki bara til að uppfylla spádóma heldur vildi hann hjálpa því. Allt sem hann gerði stjórnaðist af einni frægustu setningu hans: „Eins og þér viljið að aðrir menn geri við yður, svo skuluð þér og þeim gera.“ — Lúkas 6:31.

Sýna verk þín að þú hefur samúð með öðrum?

Jesús var skilningsríkur og skarpskyggn. Þótt Jesús hafi aldrei gert mistök krafðist hann þess ekki að aðrir væru fullkomnir eða lét eins og hann væri yfir þá hafinn. Hann var heldur aldrei ósanngjarn. Eitt sinn sýndi „bersyndug“ kona trú sína og þakklæti með því að þvo fætur Jesú með tárum sínum. Jesús leyfði henni það en gestgjafi hans dæmdi konuna harkalega og hneykslaðist. Jesús skildi einlægni hennar og fordæmdi hana ekki fyrir syndir hennar heldur sagði: „Trú þín hefur frelsað þig, far þú í friði.“ Hlýleg viðbrögð Jesú hafa mjög líklega fengið konuna til að segja skilið við fyrra líferni sitt. — Lúkas 7:37-50.

Ertu þekktur fyrir að vera fljótur til að hrósa og seinn til að dæma?

Hann var óhlutdrægur og sýndi öðrum virðingu. Jesú þótti einstaklega vænt um lærisveininn Jóhannes. Kannski var það vegna þess að þeir náðu vel saman eða tengdust fjölskylduböndum. * Engu að síður tók hann Jóhannes aldrei fram yfir hina lærisveinana eða var honum vilhallur. (Jóhannes 13:23) Og þegar Jóhannes og Jakob bróðir hans báðu Jesú um háa stöðu í ríki Guðs svaraði hann þeim: „Ég ræð því ekki hver situr mér til hægri handar eða vinstri.“ — Markús 10:35-40.

Jesús sýndi öðrum alltaf virðingu. Hann var ekki haldinn sömu fordómum og samtímamenn hans. Til dæmis var mjög algengt að konur væru álitnar óæðri karlmönnum. En Jesús sýndi konum alltaf tilhlýðilega virðingu. Fyrsta skiptið sem hann sagði opinskátt að hann væri Messías sagði hann það við konu sem var ekki Gyðingur heldur Samverji, en Gyðingar almennt fyrirlitu Samverja og heilsuðu þeim ekki. (Jóhannes 4:7-26) Og konur fengu þann heiður að vera fyrstar vitni að upprisu Jesú. — Matteus 28:9, 10.

Ertu sanngjarn í samskiptum þínum við fólk sem talar annað tungumál eða er af öðrum kynþætti, þjóðerni eða kyni?

Hann var skyldurækinn sonur og bróðir. Líklega missti Jesús fósturföður sinn, Jósef, þegar hann var enn á unglingsaldri. Sennilega sá hann fyrir móður sinni og yngri systkinum með því að vinna sem smiður. (Markús 6:3) Og á síðustu stundum lífs síns fól hann lærisveininum Jóhannesi að sjá um móður sína eftir sinn dag. — Jóhannes 19:26, 27.

Geturðu líkt eftir Jesú þegar þú gegnir skyldum þínum gagnvart fjölskyldunni?

Jesús var sannur vinur. Jesús var framúrskarandi vinur. Hvernig þá? Hann hafnaði ekki vinum sínum þegar þeim varð á, jafnvel þótt þeir gerðu sömu mistökin aftur og aftur. Lærisveinar hans hegðuðu sér ekki alltaf eins og hann hefði viljað. En hann reyndist þeim góður vinur með því að einblína á góða eiginleika þeirra í stað þess að ætla þeim rangar hvatir. (Markús 9:33-35; Lúkas 22:24-27) Hann þröngvaði skoðunum sínum ekki upp á þá heldur hvatti þá til að tjá sig opinskátt. — Matteus 16:13-15.

Umfram allt elskaði Jesús vini sína. (Jóhannes 13:1) Að hve miklu leyti? Hann sagði: „Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína.“ (Jóhannes 15:13) Er hægt að gefa vinum sínum eitthvað dýrmætara en sitt eigið líf?

Ertu góður vinur þó að aðrir pirri þig eða móðgi?

Hann var hugrakkur og karlmannlegur. Margir listamenn hafa dregið upp mynd af Jesú sem veikburða og fáskiptnum manni en hann var alls ekki þannig. Guðspjöllin lýsa honum sem sterkum og þróttmiklum manni. Í tvígang rak Jesús alla kaupmenn út úr musterinu með varning sinn. (Markús 11:15-17; Jóhannes 2:14-17) Þegar múgur manna kom til að handtaka „Jesú frá Nasaret“ gaf hann sig hugrakkur fram til að hlífa lærisveinunum og sagði ákveðið: „Ég er hann . . . Ef þið leitið mín þá lofið þessum að fara.“ (Jóhannes 18:4-9) Pontíus Pílatus sá hve hugrakkur Jesús var þegar hann var í haldi og sætti misþyrmingum. Það er því engin furða að hann hafi sagt: „Sjáið manninn!“ — Jóhannes 19:4, 5.

Gengurðu ákveðinn og hugrakkur til verks þegar þú sérð hvað þú verður að gera?

Þessir og aðrir framúrskarandi eiginleikar Jesú gera hann að fullkominni fyrirmynd fyrir okkur. Ef við leyfum okkur að láta hegðun hans hafa áhrif á okkur verðum við betri og ánægðari einstaklingar. Það var þess vegna sem Pétur postuli hvatti kristna menn til að feta í fótspor Jesú. Reynir þú að feta í fótspor hans eins vel og þú getur?

Meira en góð fyrirmynd

Jesús var samt meira en bara góð fyrirmynd. Hann sagði: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig.“ (Jóhannes 14:6) Jesús kenndi fólki sannleikann um Guð og opnaði þannig leiðina til að við gætum nálgast hann. En þar að auki gerði Jesús trúföstum mönnum mögulegt að fá eilíft líf. — Jóhannes 3:16.

Jesús sagði: „Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla.“ (Matteus 20:28) Með því að færa líf sitt að fórn lagði Jesús grunninn að því að menn gætu öðlast eilíft líf. Hvað verðum við hvert og eitt að gera til að njóta góðs af þessari ráðstöfun? Jesús sagði: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ — Jóhannes 17:3.

Til að öðlast eilíft líf verðum við að fræðast um Jesú, líkja eftir honum og sýna trú á fórnardauða hans. Við hvetjum þig til að taka þér tíma til að kynna þér Biblíuna, uppsprettu þessarar þekkingar, og leitast við að fara eftir því sem hún segir, líkt og Jesús gerði. *

Við getum lært af fullkomnu lífi Jesú hvernig persónur við eigum að vera. Og fórnardauði hans getur leyst okkur undan synd og dauða. (Rómverjabréfið 6:23) Við værum sannarlega illa sett án hans. Við skulum aldrei leyfa annríki eða áhyggjum lífsins að ræna okkur tækifærinu til að hugleiða og fylgja fordæmi mesta mikilmennis sem lifað hefur — Jesú Krists.

[Neðanmáls]

^ gr. 12 Salóme, móðir Jóhannesar, var hugsanlega systir Maríu, móður Jesú. Berðu Matteus 27:55, 56 saman við Markús 15:40 og Jóhannes 19:25.

^ gr. 26 Í bókinni Mesta mikilmenni sem lifað hefur er að finna nákvæma frásögu af lífi Jesú Krists. Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.

[Rammi/myndir á blaðsíðu 7]

◼ Jesús var óhlutdrægur og sýndi öllum virðingu.

◼ Hann var sannur vinur allt til enda.

◼ Hann var hugrakkur.

Reynir þú að feta í fótspor Jesú eins vel og þú getur?

[Myndir á blaðsíðu 5]

Jesús var öfgalaus . . .

þægilegur í viðmóti . . .

samúðarfullur.