„Beygðu til hægri þegar þú kemur að Cocoánni“
Bréf frá Níkaragva
„Beygðu til hægri þegar þú kemur að Cocoánni“
„ÞÚ ÞARFT öflugt fjórhjóladrifið farartæki, dráttarspil og aukadunka af bensíni. Vertu viðbúinn að undirvagninn sökkvi á kaf í leðju. Beygðu til hægri þegar þú kemur að Cocoánni.“
Ég verð að viðurkenna að þessi orð trúboðsfélaga míns ýttu ekki undir sjálfstraustið. Þrátt fyrir það lagði ég af stað einn þriðjudagsmorgun til að sækja mót Votta Jehóva sem haldið var í Wamblán, litlum bæ í Norður-Níkaragva.
Ég hóf ferðina snemma morguns á gömlum en sterkbyggðum pallbíl. Leiðin var greið fyrsta spölinn eftir Pan-American þjóðveginum. Í Jinotega fór ég út á malarveg sem heimafólkið kallar feo eða ljótur. Á leið minni út úr borginni tók ég eftir tveimur verslunum, önnur bar heitið Kraftaverk Guðs og hin Upprisan.
Vegurinn var hlykkjóttur og hæðóttur. Ég ók löturhægt um lækjar- og gilskorninga. Leiðin lá fram hjá löngu stöðuvatni í dalverpi hátt upp á fjalli sem var skýjum hulið. Gegnum þokumóðuna sá ég tré sveipuð trefjagrasi og raðir af orkídeum með fram þeim.
Í krappri beygju tókst mér með naumindum að koma í veg fyrir árekstur við rútu sem ók á miðjum veginum. Hún spúði svörtum reyk og undan dekkjunum kastaðist grjót um leið og hún fór fram hjá. Á þessu svæði í Níkaragva eru viðurnefni ökufanta greinilega merkt á framrúðum rútubíla svo sem Sigurvegari, Sporðdreki, Kyrkislanga eða Veiðihundur.
Um hádegisbilið ók ég yfir Pantasmasléttuna. Ég fór fram hjá timburhúsi sem stóð í snyrtilegum garði. Þetta var eins og mynd klippt út úr bók frá fyrri tíð. Gamall maður sat á bekk, hundur svaf undir tré og tveir uxar stóðu spenntir fyrir vagn á tréhjólum. Í litlum bæ sá ég barnahóp sem var að koma út úr skóla. Börnin fylltu aðalgötuna, klædd dökkbláum skólabúningum, og líktust einna helst stórri öldu sem skellur upp á strönd.
Sólin skein skært þegar ég nálgaðist Wiwilí og nú sá ég Cocoána í fyrsta sinn. Straumlygn áin var tilkomumeiri en sjálfur bærinn sem hún rann fram hjá. Ég mundi eftir fyrirmælunum, beygði til hægri og ók út á hina óhugnanlegu 37 kílómetra slóð til Wamblán.
Leiðin lá yfir kletta, skorninga og fjallshryggi og bíllinn skvampaðist yfir átta eða níu ár og læki. Ég forðaðist djúp hjólförin í uppþornaðri leðjunni en mér tókst að róta upp ógurlegum rykmekki. Ég „bruddi rykið“ eins
og heimamenn orða það. Loksins endaði slóðin og í dimmum skugga af skógivöxnum dal var áfangastaður minn, Wamblán.Næsta morgun virtust allir vera komnir á ról klukkan hálf fimm. Ég var vaknaður á undan við endalaust hanagal. Ég fór á fætur og gekk niður eftir aðalgötunni. Í fjallaloftinu lá angan af maískökum sem verið var að baka í steinofnum.
Á veggjum hér og þar mátti sjá litríkar myndir af paradís sem listamaður á staðnum hafði málað. Hjá pulperías, kaupmanninum á horninu, voru skilti sem auglýstu ýmsar tegundir af kóladrykkjum. Veggspjöld minntu fólk á loforð síðustu þriggja ríkisstjórna. Útikamrar úr gljáandi blikki stóðu á steyptum hellum.
Ég heilsaði fólki með Adiós eins og siður er í Níkaragva. Fólk brosti og talaði vingjarnlega við mig. Við þurftum að hækka röddina til að yfirgnæfa umferðarhávaðann sem stafaði af hófaskellum hesta og múldýra.
Þegar leið að kvöldi föstudags komu fjölskyldur sem ætluðu að vera á tveggja daga mótinu. Þær komu fótgangandi, á hestum eða akandi. Sum börnin höfðu gengið sex tíma í plastsandölum. Þau áttu á hættu að stíga á jarðsprengjur við vöð yfir árnar en fóru samt. Þau óðu hugrökk yfir lygn vötnin þrátt fyrir að þar væru blóðsugur. Sumir komu langt að en höfðu aðeins með sér smánesti — hrísgrjón, bragðbætt með svínafitu. En til hvers komu þau?
Þau komu til að styrkja von sína um betri framtíð. Þau komu til að fá biblíufræðslu. Þau komu til að gleðja Guð.
Laugardagurinn rann upp. Fleiri en 300 áheyrendur sátu undir blikkþaki á trébekkjum og plaststólum. Mæður gáfu börnum brjóst. Svín rýttu og hanar gólu á næsta bæ.
Hitastigið hækkaði og brátt varð næstum óbærilega heitt. Áheyrendur hlustuðu samt með stakri eftirtekt á ráðin og leiðbeiningarnar sem þeir fengu. Þeir fylgdust með þegar ræðumennirnir lásu upp úr Biblíunni, sungu söngvana sem byggðust á efni Biblíunnar og mátu mikils bænirnar sem fluttar voru fyrir þeirra hönd.
Þegar dagskránni var lokið fór ég ásamt fleirum í eltingaleik með krökkunum. Síðan fórum við yfir minnispunktana sem unga fólkið hafði skrifað niður. Ég sýndi þeim myndir af stjörnum og vetrarbrautum á tölvunni minni. Börnin brostu og foreldrarnir voru ánægðir.
Fyrr en varði lauk mótinu og allir urðu að fara heim. Ég fór næsta morgun með hugann fullan af ljúfum minningum og kærleika í hjarta til nýju vinanna. Ég er staðráðinn í að líkja eftir þeim og læra að vera ánægður með það sem ég hef og vona á Guð.
[Myndir á blaðsíðu 17]
Fjölskyldur ferðuðust langa leið til að komast á mótið í Wamblán.