NÁMSGREIN 12
SÖNGUR 119 Við verðum að hafa trú
„Lifum í trú“
„Við lifum í trú en ekki eftir því sem við sjáum.“ – 2. KOR. 5:7.
Í HNOTSKURN
Við sjáum hvernig við getum treyst á leiðsögn Guðs þegar við tökum mikilvægar ákvarðanir.
1. Hvers vegna var Páll postuli ánægður með það hvernig hann hafði lifað lífi sínu?
PÁLL postuli vissi að hann yrði fljótlega tekinn af lífi en hann gat verið sáttur með líf sitt. Þegar hann leit um öxl sagði hann: „Ég hef lokið hlaupinu, ég hef varðveitt trúna.“ (2. Tím. 4:6–8) Páll hafði tekið skynsamlegar ákvarðanir í þjónustu Jehóva og var sannfærður um að Jehóva væri ánægður með hann. Við viljum líka taka góðar ákvarðanir og hafa velþóknun Jehóva. Hvernig getum við gert það?
2. Hvað merkir það að lifa í trú?
2 Páll sagði um sjálfan sig og aðra trúfasta menn: „Við lifum í trú en ekki eftir því sem við sjáum.“ (2. Kor. 5:7) Hvað átti hann við? Fólk sem treystir ekki á Jehóva byggir ákvarðanir sínar eingöngu á tilfinningum og því sem það sér og heyrir. En sá sem treystir á Jehóva tekur með í reikninginn hver vilji hans er þegar hann tekur ákvarðanir. Hann veit að hann nýtur betra lífs núna og fær enn meiri umbun í framtíðinni þegar hann fylgir leiðbeiningum Jehóva. – Sálm. 119:66; Hebr. 11:6.
3. Hvaða hag höfum við af því að lifa í trú? (2. Korintubréf 4:18)
3 Öll þurfum við að sjálfsögðu stundum að treysta því sem við sjáum, heyrum og hugsum þegar við tökum ákvarðanir. En það kemur okkur trúlega í vanda ef við treystum eingöngu á það þegar við tökum mikilvægar ákvarðanir. Það sem við sjáum og heyrum er ekki alltaf áreiðanlegt. En þó að svo væri gætum við á endanum hunsað vilja Guðs eða leiðbeiningar ef við horfðum bara á hið sýnilega. (Préd. 11:9; Matt. 24:37–39) Þegar við tökum ákvarðanir byggðar á trú er líklegra að þær séu ‚Drottni þóknanlegar‘. (Ef. 5:10) Við öðlumst innri frið og sanna hamingju þegar við fylgjum leiðbeiningum Guðs. (Sálm. 16:8, 9; Jes. 48:17, 18) Og ef við höldum áfram að lifa í trú hljótum við eilíft líf. – Lestu 2. Korintubréf 4:18.
4. Hvernig er hægt að vita hvort við lifum í trú eða eftir því sem við sjáum?
4 Hvernig vitum við hvort við lifum í trú eða eftir því sem við sjáum? Við getum spurt okkur: Hvað er það sem stýrir ákvörðunum mínum? Læt ég einungis stjórnast af því sem ég get séð? Eða treysti ég Jehóva og leiðbeiningum hans? Skoðum nú hvernig við getum lifað í trú á þrem mikilvægum sviðum lífsins: þegar við leitum okkur að vinnu, okkur langar til að finna maka og þegar við fáum leiðbeiningar frá söfnuðinum. Í hverju tilviki fyrir sig skoðum við hvað við þurfum að taka með í reikninginn til að taka góðar ákvarðanir.
ÞEGAR VIÐ LEITUM AÐ VINNU
5. Hvað ættum við að hugsa um þegar við leitum að vinnu?
5 Við viljum öll geta séð fyrir okkur og fjölskyldu okkar. (Préd. 7:12; 1. Tím. 5:8) Sum störf eru betur launuð en önnur. Sum gefa nóg til að annast fjölskylduna og jafnvel leggja eitthvað til hliðar. Önnur störf gera fólki aðeins kleift að sjá fjölskyldunni fyrir því nauðsynlegasta. Þegar við ákveðum hvort við eigum að þiggja vinnu veltum við að sjálfsögðu laununum fyrir okkur. En ef launin eru það eina sem við tökum mið af gætu ákvarðanir okkar verið byggðar aðeins á því sem við sjáum.
6. Hvernig getum við treyst á leiðsögn Guðs þegar við leitum að vinnu? (Hebreabréfið 13:5)
6 Ef við lifum í trú veltum við líka fyrir okkur hvaða áhrif vinnan gæti haft á vináttu okkar við Jehóva. Við gætum spurt: Felur vinnan í sér að ég þurfi að gera eitthvað sem Jehóva hatar? (Orðskv. 6:16–19) Missi ég af samkomum eða hef minni tíma fyrir boðunina eða sjálfsnám? Þarf ég að vera lengi aðskilinn frá fjölskyldunni? (Fil. 1:10) Ef svarið er já við þessum spurningum væri skynsamlegt að ráða sig ekki í þessa vinnu, jafnvel þótt það sé erfitt að fá vinnu. Þegar við treystum á leiðsögn Guðs tökum við ákvarðanir sem sýna að við trúum því að hann sjái fyrir þörfum okkar. – Matt. 6:33; lestu Hebreabréfið 13:5.
7, 8. Hvernig sýndi bróðir í Suður-Ameríku að hann lifði í trú? (Sjá einnig mynd.)
7 Javier a er bróðir í Suður-Ameríku. Hann vissi hversu mikilvægt er að lifa í trú. Hann segir: „Ég hafði sótt um starf þar sem launin voru tvöfalt hærri en ég hafði haft áður. Þetta var líka starf sem ég vissi að ég hefði mjög gaman af.“ En Javier langaði mjög mikið að gerast brautryðjandi. „Ég var bókaður í viðtal við framkvæmdastjórann. En ég bað Jehóva um hjálp áður en ég fór í viðtalið og treysti því að hann vissi hvað væri best fyrir mig,“ segir hann. „Ég vildi fá hærri stöðu í en ég vildi ekki fá þetta starf ef það hindraði mig í að ná andlegum markmiðum mínum.“
8 Javier segir: „Framkvæmdastjórinn sagði mér að ég þyrfti reglulega að vinna yfirvinnu. Ég útskýrði kurteislega að ég gæti það ekki vegna trúar minnar.“ Javier hafnaði atvinnutilboðinu. Tveim vikum síðar gerðist hann brautryðjandi. Og nokkrum mánuðum seinna fann hann hlutastarf. Hann segir: „Jehóva hlustaði á bænir mínar og sá mér fyrir vinnu sem hentar með brautryðjandastarfinu. Það veitir mér mikla ánægju að vera í vinnu sem gefur mér meiri tíma til að þjóna Jehóva og trúsystkinum mínum.“
Hvað myndirðu gera ef þér væri boðin stöðuhækkun? Tækirðu ákvörðun sem sýndi að þú treystir Jehóva? (Sjá 7. og 8. grein.)
9. Hvað getum við lært af Trésor?
9 En hvað ef núverandi vinna gerir okkur erfitt fyrir að rækta sambandið við Jehóva? Skoðum reynslu Trésors frá Kongó. Hann segir: „Nýja vinnan mín var draumavinnan. Ég hafði þreföld laun á við áður og naut virðingar.“ En Trésor missti reglulega af samkomum út af yfirvinnu. Það var líka þrýst á hann að ljúga að fólki til að fela óheiðarleg vinnubrögð í fyrirtækinu. Hann vildi hætta í vinnunni en óttaðist að verða atvinnulaus. Hvað hjálpaði honum? Hann segir: „Þegar ég las Habakkuk 3:17–19 gerði ég mér ljóst að Jehóva myndi annast mig þótt ég missti vinnuna. Þess vegna sagði ég upp. Margir vinnuveitendur halda að fólk fórni hverju sem er fyrir vel launaða vinnu, þar á meðal fjölskyldulífi og tíma til að þjóna Guði. Ég er ánægður að ég passaði upp á sambandið við Jehóva. Ári síðar hjálpaði Jehóva mér að finna fasta vinnu sem gerir mér fært að lifa einföldu lífi og hafa meiri tíma til að sinna þjónustunni við Jehóva. Þegar við setjum Jehóva í fyrsta sætið í lífinu getum við þurft að komast af með lítið, en hann sér um okkur.“ Ef við treystum leiðbeiningum Jehóva og loforðum lifum við í trú og hann blessar okkur.
ÞEGAR VIÐ VELJUM OKKUR MAKA
10. Hvað er mikilvægt að hugsa um þegar við veljum okkur maka en hvers þarf að gæta?
10 Hjónabandið er gjöf frá Jehóva og það er eðlilegt að vilja giftast. Þegar systir veltir fyrir sér mögulegum eiginmanni tekur hún kannski eftir persónuleika bróðurins, útliti, orðspori, fjárhagsstöðu, fjölskylduábyrgð og hvernig henni líður nálægt honum. b Þetta eru allt mikilvæg atriði að hugsa um. En ef það er bara þetta sem hún hugsar um gæti hún verið að lifa eftir því sem hún sér.
11. Hvernig getum við treyst á leiðsögn Guðs þegar kemur að því að velja maka? (1. Korintubréf 7:39)
11 Jehóva er mjög stoltur af bræðrum okkar og systrum sem fylgja leiðbeiningum hans þegar þau velja sér maka. Þau taka til sín ráðin um að bíða með að gifta sig þangað til „æskublóminn er liðinn hjá“. (1. Kor. 7:36) Þau ganga sérstaklega úr skugga um að mögulegur maki búi yfir eiginleikum sem Jehóva segir að góður eiginmaður og góð eiginkona ættu að hafa. (Orðskv. 31:10–13, 26–28; Ef. 5:33; 1. Tím. 5:8) Ef einhver sem er ekki skírður þjónn Jehóva sýnir þeim rómantískan áhuga treysta þau leiðbeiningunum í 1. Korintubréfi 7:39 um að giftast ‚aðeins þeim sem þjónar Drottni‘. (Lestu.) Þau treysta því að Jehóva annist tilfinningalegar þarfir þeirra betur en nokkur annar getur gert og halda áfram að lifa í trú. – Sálm. 55:22.
12. Hvað getum við lært af Rose?
12 Rose er brautryðjandi í Kólumbíu. Hún vann við það að kenna fólki á netinu og einn nemenda hennar, sem var ekki vottur, fór að sýna henni áhuga. Rose hreifst af honum. Hún segir: „Hann virtist vera mjög góður maður. Hann tók þátt í sjálfboðavinnu í samfélaginu og lifði heilbrigðu lífi. Hann kom vel fram við mig. Hann hafði að mínu mati allt til að bera sem prýðir góðan eiginmann en hann var ekki vottur.“ Hún segir: „Það var erfitt að segja honum að ég hefði ekki áhuga á sambandi. Á þessum tíma var ég einmana og langaði að gifta mig en hafði ekki fundið neinn í söfnuðinum.“ En Rose hugsaði ekki bara um það sem hún gat séð. Hún hugleiddi hvaða áhrif þetta myndi hafa á vináttu hennar við Jehóva. Hún batt því enda á öll samskipti við manninn og hélt sér upptekinni í þjónustu Jehóva. Stuttu síðar var henni boðið að sækja Skólann fyrir boðbera Guðsríkis og er nú sérbrautryðjandi. Rose segir: „Hjarta mitt er fullt af þakklæti til Jehóva.“ Þótt það sé ekki alltaf auðvelt að lifa í trú í þeim málum sem standa hjartanu nær er það alltaf þess virði.
ÞEGAR VIÐ FÁUM LEIÐBEININGAR FRÁ SÖFNUÐINUM
13. Hvernig gætum við brugðist við leiðbeiningum frá söfnuðinum?
13 Við fáum oft leiðbeiningar frá öldungum safnaðarins, farandhirðinum, deildarskrifstofunni eða hinu stjórnandi ráði sem hjálpa okkur að þjóna Jehóva. En hvað ef við skiljum ekki ástæðuna fyrir ákveðnum leiðbeiningum? Við sjáum kannski bara neikvæðu áhrifin sem þær gætu haft í för með sér fyrir okkur. Við förum jafnvel að einblína á ófullkomleika bræðranna sem gáfu leiðbeiningarnar.
14. Hvað auðveldar okkur að hlýða leiðbeiningum safnaðarins? (Hebreabréfið 13:17)
14 Þegar við lifum í trú treystum við því að Jehóva leiði söfnuð sinn og þekki aðstæður okkar. Við erum fljót að hlýða og gerum það með jákvæðu hugarfari. (Lestu Hebreabréfið 13:17.) Við skiljum að hlýðni okkar stuðlar að einingu í söfnuðinum. (Ef. 4:2, 3) Við treystum því að Jehóva blessi hlýðni okkar óháð ófullkomleika þeirra sem fara með forystuna. (1. Sam. 15:22) Og á sínum tíma leiðréttir hann allt sem þarf að leiðrétta. – Míka 7:7.
15, 16. Hvað hjálpaði bróður að lifa í trú þótt hann hefði efasemdir um leiðbeiningarnar sem hann fékk? (Sjá einnig mynd.)
15 Skoðum dæmi sem undirstrikar hversu gagnlegt er að treysta leiðsögn Guðs. Þótt spænska sé töluð víða í Perú tala margir tungumál frumbyggja. Eitt þessara tungumála er quechuar. Árum saman leituðu bræður okkar og systur sem tala málið að quechuar-mælandi fólki á svæðinu. Þegar reglur stjórnvalda breyttust var nýrri aðferð beitt til að finna þetta fólk. (Rómv. 13:1) Sumir voru með efasemdir um þessa aðferð. En trúsystkini okkar hlýddu leiðbeiningunum og Jehóva blessaði viðleitni þeirra til að finna quechuar-mælandi fólk.
16 Kevin er öldungur í quechuar-mælandi söfnuði. Hann var einn þeirra sem hafði áhyggjur af nýju aðferðinni. Hann segir: „Ég hugsaði með mér hvernig við ættum nú að geta fundið fólk sem talar quechuar?“ Hvað gerði Kevin? Hann segir: „Ég rifjaði upp það sem segir í Orðskviðunum 3:5. Og ég hugsaði til Móse. Hann átti að leiða Ísraelsmenn út úr Egyptalandi til staðar þar sem þeir virtust innikróaðir með Egypta á hælunum. En hann hlýddi og Jehóva blessaði hann með ógleymanlegum hætti.“ (2. Mós. 14:1, 2, 9–11, 21, 22) Kevin fylgdi leiðbeiningunum og notaði þessa nýju boðunaraðferð. Hver var árangurinn? Hann segir: „Ég var undrandi á því hvernig Jehóva blessaði okkur. Áður gengum við langar vegalengdir og fundum kannski einn eða tvo sem töluðu quechuar. Núna förum við á svæði þar sem margir tala málið. Við tölum við fleiri, heimsækjum fleiri aftur og höldum fleiri biblíunámskeið. Og fleiri koma á samkomur.“ Já, Jehóva umbunar okkur alltaf þegar við lifum í trú.
Bræður og systur komust að raun um að margir sem þau hittu á förnum vegi gátu bent þeim á svæði í nágrenninu þar sem quechuar-mælandi fólk var að finna. (Sjá 15. og 16. grein.)
17. Hvað höfum við lært í þessari námsgrein?
17 Við höfum skoðað hvernig við lifum í trú á þrem mikilvægum sviðum lífsins. En við þurfum að gera það á öllum sviðum, eins og þegar við veljum afþreyingu og þegar við tökum ákvarðanir varðandi menntun eða barnauppeldi. Við ættum að taka mið af sambandi okkar við Jehóva, ráðum hans og loforði um að annast okkur þegar við tökum ákvarðanir en ekki bara lifa eftir því sem við sjáum. Ef við gerum það fáum við að „ganga í nafni Jehóva Guðs okkar um alla eilífð“. – Míka 4:5.
SÖNGUR 156 Ég trúi og sé