Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þú getur barist gegn Satan og sigrað

Þú getur barist gegn Satan og sigrað

„Standið gegn [Satan] stöðug í trúnni.“ – 1. PÉT. 5:9.

1. (a) Hvers vegna er sérstaklega mikilvægt að berjast gegn Satan núna? (b) Hvernig vitum við að við getum sigrað í baráttunni gegn Satan?

 SATAN hefur sagt þeim sem eru eftir af hinum andasmurðu og ,öðrum sauðum‘ stríð á hendur. (Jóh. 10:16) Það er markmið hans að tortíma eins mörgum þjónum Jehóva og hann getur á þeim stutta tíma sem hann á eftir. (Lestu Opinberunarbókina 12:9, 12.) Getum við sigrað í stríðinu við Satan? Vissulega. Í Biblíunni segir: „Standið gegn djöflinum og þá mun hann flýja ykkur.“ – Jak. 4:7.

2, 3. (a) Hvernig þjónar sú hugmynd að Satan sé ekki til markmiðum hans? (b) Hvernig vitum við að Satan er raunverulegur?

2 Margir hæðast að þeirri hugmynd að Satan sé til. Þeir líta svo á að Satan og illir andar séu bara skáldaðar persónur í hryllingsmyndum, tölvuleikjum og skáldsögum. Þeir halda að enginn heilvita maður trúi á tilvist illra anda. En heldurðu að Satan hafi eitthvað á móti því að það sé búið að færa hann og ósýnilegar sveitir hans inn í heim þjóðsagna og ævintýra? Eflaust ekki. Það er leikur einn fyrir Satan að blinda huga þeirra sem efast um að hann sé til. (2. Kor. 4:4) Sú hugmynd að ekki séu til andaverur er ein af mörgum aðferðum Satans til að leiða fólk á villigötur.

3 Við sem þjónum Jehóva látum ekki villa um fyrir okkur. Við vitum að djöfullinn er til því að það var hann sem notaði höggorm til að tala við Evu. (1. Mós. 3:1-5) Satan ögraði Jehóva á dögum Jobs. (Job. 1:9-12) Það var Satan sem reyndi að freista Jesú. (Matt. 4:1-10) Og eftir að ríki Guðs var sett á stofn árið 1914 var það Satan sem tók að „heyja stríð“ gegn þeim sem voru eftir af hinum andasmurðu. (Opinb. 12:17) Þetta stríð geisar enn og Satan reynir að spilla trú þeirra sem eru eftir af hinum 144.000 og trú annarra sauða. Til að sigra í stríðinu þurfum við að standa einbeitt gegn Satan og vera staðföst í trúnni. Í þessari grein er rætt um þrjár leiðir til þess.

FORÐASTU STOLT

4. Hvernig hefur Satan sýnt ótrúlegan hroka og ósvífni?

4 Satan er allt annað en auðmjúkur. Það er varla hægt að hugsa sér meiri hroka og ósvífni en að andavera skuli dirfast að véfengja drottinvald Jehóva og gerast keppinautur hans. Ein leið til að standa gegn Satan er því sú að forðast stolt og temja sér auðmýkt. (Lestu 1. Pétursbréf 5:5.) En hvað er stolt? Er það alltaf af hinu illa?

5, 6. (a) Er stolt alltaf af hinu illa? Skýrðu svarið. (b) Hvers konar stolt er hættulegt og hvaða dæmi í Biblíunni sýna fram á það?

5 Það er ekkert að því að hafa eðlilega sjálfsvirðingu og reisn. Við getum verið stolt af ýmsu góðu sem við sjálf eða einhverjir nákomnir okkur hafa gert eða búa yfir. Það er ekkert athugavert við það. Páll postuli skrifaði söfnuðinum í Þessaloníku: „Því get ég miklast af ykkur í söfnuðum Guðs fyrir þolgæði ykkar og trú í öllum ofsóknum ykkar og þrengingum þeim er þið þolið.“ (2. Þess. 1:4) Það getur því verið heilbrigt að vera ánægður með verk annarra og líka að vera stoltur af sjálfum sér að vissu marki. Við þurfum ekki að skammast okkar fyrir ætterni okkar, menningu eða staðinn þar sem við ólumst upp. – Post. 21:39.

6 En það er til annars konar stolt sem getur grafið undan góðum samskiptum fólks og spillt vináttu þess við Jehóva. Stolt af þessu tagi getur orðið til þess að við bregðumst ókvæða við og þiggjum ekki leiðsögn sem við þurfum á að halda. (Sálm. 141:5, NW) Stolt sem þetta er eins konar óhóflegt sjálfsálit eða hroki sem stafar af því að fólk ímyndar sér að það standi öðrum framar. Jehóva hefur andstyggð á hroka. (Jes. 2:11; Amos 6:8) En það hlýtur að gleðja Satan að sjá menn sýna hroka því að þá líkja þeir einmitt eftir honum. Það hefur eflaust hlakkað í honum að horfa upp á stærilæti manna eins og Nimrods, faraós og Absalons en þeir urðu allir hrokanum að bráð. (1. Mós. 10:8, 9; 2. Mós. 5:1, 2; 2. Sam. 15:4-6) Það var líka hroki sem varð Kain að falli. Guð leiðbeindi honum en hann var of stoltur til að taka leiðréttingunni. Með þrjósku hunsaði hann áminningu Jehóva og anaði rakleiðis út í ógæfuna. – 1. Mós. 4:6-8.

7, 8. (a) Hvað er kynþáttahyggja og hvernig getur hún sprottið af stolti? (b) Hvernig getur stolt stofnað friði safnaðar í hættu?

7 Stolt veldur alls konar böli á okkar tímum. Stundum helst það í hendur við kynþáttahyggju, einnig nefnd rasismi. Samkvæmt orðabók er kynþáttahyggja „það álit að einn kynstofn sé öðrum æðri eða betri“ og „sú skoðun að kynþættir hafi ólíka eiginleika og persónueinkenni manna (s.s. greind, hæfni og skapferli) ráðist fyrst og fremst af kynþætti“. Kynþáttahyggjan hefur valdið uppþotum, styrjöldum og jafnvel fjöldamorðum.

8 Þess háttar ætti auðvitað ekki að eiga sér stað í kristna söfnuðinum. Deilur milli trúsystkina geta hins vegar stigmagnast upp úr öllu valdi, og stundum eru þær sprottnar af stolti. Sú mun hafa verið raunin hjá sumum í kristna söfnuðinum á fyrstu öld. Jakob spurði þá þessarar beinskeyttu spurningar: „Af hverju koma stríð og af hverju sennur meðal ykkar?“ (Jak. 4:1) Djúpstæð óvild og yfirlæti getur haft áhrif á orð okkar og framkomu og valdið öðrum miklum sárindum. (Orðskv. 12:18) Stolt getur greinilega stofnað friði safnaðar í hættu.

9. Hvaða hjálp fáum við í Biblíunni til að berjast gegn kynþáttahyggju og öðru óviðeigandi stolti? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

9 Ef okkur finnst stundum að við séum öðrum fremri skulum við hafa hugfast að „sérhver hrokagikkur er Drottni andstyggð“. (Orðskv. 16:5) Við hefðum líka gott af því að líta í eigin barm og skoða hvernig við lítum á fólk af öðrum kynþætti, þjóðerni eða menningu. Ef við hugsum sem svo að við stöndum öðrum framar vegna kynþáttar eða þjóðernis lokum við augunum fyrir því að Jehóva „skóp ... af einum allar þjóðir manna“. (Post. 17:26) Í þeim skilningi er mannkynið aðeins einn kynþáttur því að allir menn eru komnir af sameiginlegum forföður, Adam. Það er því fáránlegt að ímynda sér að sumir kynþættir séu betri en aðrir. Slíkur hugsunarháttur myndi hins vegar þjóna því ráðabruggi Satans að ala á sundrung og kærleiksleysi í söfnuðinum. (Jóh. 13:35) Til að berjast gegn Satan og sigra verðum við að forðast óviðeigandi stolt í hvaða mynd sem er. – Orðskv. 16:18.

FORÐASTU EFNISHYGGJU OG ELSKAÐU EKKI HEIMINN

10, 11. (a) Hvers vegna er auðvelt að fá ást á heiminum? (b) Hvernig sýndi Demas að hann elskaði heiminn?

10 Satan er ,höfðingi þessa heims‘ og heimurinn er á valdi hans. (Jóh. 12:31; 1. Jóh. 5:19) Margt af því sem heimurinn heldur á lofti stangast því á við þær lífsreglur sem er að finna í Biblíunni. Auðvitað er ekki allt illt sem heimurinn hefur upp á að bjóða. En það er viðbúið að Satan noti heiminn til að spila á langanir okkar og reyni að tæla okkur til að syndga eða fara að elska heiminn og vanrækja tilbeiðsluna á Jehóva. – Lestu 1. Jóhannesarbréf 2:15, 16.

11 Ljóst er að heimurinn hafði sín áhrif á suma kristna menn á fyrstu öld. Páll skrifaði til dæmis: „Demas hefur yfirgefið mig vegna þess að hann elskaði þennan heim.“ (2. Tím. 4:10) Biblían nefnir ekki beinlínis hvað það var í heiminum sem Demas elskaði með þeim afleiðingum að hann yfirgaf Pál. Vera má að hann hafi farið að elska efnislega hluti meira en þjónustuna við Jehóva. Ef það er rétt fór Demas á mis við mikið. Og hvað fékk hann í staðinn? Gat heimurinn boðið honum eitthvað verðmætara en blessunina sem Jehóva gat veitt honum með því að starfa með Páli? – Orðskv. 10:22.

12. Hvernig gætum við orðið ,táli auðæfanna‘ að bráð?

12 Eitthvað svipað gæti gerst hjá okkur sem erum þjónar Guðs. Okkur langar eðlilega til að sjá vel fyrir okkur og fjölskyldunni. (1. Tím. 5:8) Jehóva vill að við lifum þægilegu lífi og séum áhyggjulaus. Það er ljóst þegar við hugsum til þess fagra umhverfis sem hann skapaði handa Adam og Evu. (1. Mós. 2:9) En Satan getur notað „tál auðæfanna“ til að spila á langanir okkar. (Matt. 13:22) Margir halda að peningar séu lykillinn að hamingjunni eða að efnislegar eigur séu merki um farsæld og velgengni. Þetta er hrein blekking og getur orðið til þess að við glötum því verðmætasta sem við eigum – vináttu okkar við Jehóva. Jesús varaði fylgjendur sína við þessu og sagði: „Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.“ (Matt. 6:24) Ef við þrælum okkur út fyrir mammón erum við hætt að þjóna Jehóva og það er einmitt það sem Satan vill. Við skulum aldrei láta peninga eða efnislega hluti skyggja á vináttu okkar við Jehóva. Við verðum að sjá efnislega hluti í réttu ljósi til að berjast gegn Satan. – Lestu 1. Tímóteusarbréf 6:6-10.

FORÐUMST KYNFERÐISLEGT SIÐLEYSI

13. Hvernig hefur heimurinn stuðlað að brenglaðri sýn á hjónaband og kynlíf?

13 Kynferðislegt siðleysi er önnur gildra í heimi Satans. Mörgum finnst það gamaldags hugsun og frelsisskerðing að fólk eigi að sýna tryggð í hjónabandi, og telja jafnvel hjónabandið sjálft vera úrelt. Fræg leikkona sagði til dæmis: „Það er ógerlegt, bæði fyrir karla og konur, að vera bundinn einni manneskju. Ég þekki engan sem er trúr maka sínum eða vill vera það.“ Leikari sagði: „Ég er ekki viss um að það sé í eðli okkar að vera með sömu manneskju alla ævi.“ Það hlýtur að gleðja Satan að heyra áhrifafólk tala illa um þessa gjöf Guðs, hjónabandið. Hann hefur alls engan áhuga á að mæla með hjónabandinu eða sjá það heppnast. Til að berjast gegn Satan og sigra verðum við þess vegna að virða hjónabandið sem Guð er höfundur að.

14, 15. Hvernig getum við forðast kynferðislegt siðleysi?

14 Við verðum að leggja okkur fram af alefli við að forðast kynferðislegt siðleysi, hvort sem við erum gift eða einhleyp. Er það auðvelt? Alls ekki. Unga fólkið má búast við að heyra skólafélagana stæra sig af skyndikynnum eða tala um kynferðisleg smáskilaboð, en þau eru sums staðar talin jaðra við að dreifa barnaklámi. Í Biblíunni segir: „Saurlífismaðurinn syndgar á móti eigin líkama.“ (1. Kor. 6:18) Kynsjúkdómar hafa valdið bæði þjáningum og dauða. Og samkvæmt könnun segjast flest einhleyp ungmenni, sem höfðu sofið hjá, sjá eftir því að hafa glatað hreinleika sínum. Siðlaust kynlíf er allt annað í veruleikanum en skemmtanaiðnaðurinn vill vera láta, en þar á bæ er reynt að telja fólki trú um að það hafi engar afleiðingar að brjóta lög Guðs. Þeir sem hugsa þannig hafa látið glepjast af „táli syndarinnar“. – Hebr. 3:13.

15 Hvað geturðu gert ef siðlaust kynlíf freistar þín? Viðurkenndu þá veikleika þinn. (Rómv. 7:22, 23) Biddu Guð að gefa þér styrk. (Fil. 4:6, 7, 13) Forðastu aðstæður sem gætu leitt til siðleysis. (Orðskv. 22:3) Og þegar freisting verður á vegi þínum skaltu flýja hana tafarlaust. – 1. Mós. 39:12.

16. Hvernig brást Jesús við þegar Satan freistaði hans og hvað getum við lært af honum?

16 Jesús er okkur góð fyrirmynd um það hvernig hægt sé að standast freistingar. Hann lét ekki blekkjast af gylliboðum Satans og eyddi ekki tíma í að vega og meta kostina og gallana. Hann svaraði umsvifalaust: „Ritað er.“ (Lestu Matteus 4:4-10.) Jesús þekkti orð Guðs og þess vegna gat hann brugðist skjótt við og vitnað í viðeigandi vers þegar hans var freistað. Ef við viljum berjast gegn Satan og sigra megum við ekki láta freistast og leiðast út í kynferðislegt siðleysi. – 1. Kor. 6:9, 10.

VERTU ÞOLGÓÐUR OG SIGRAÐU Í BARÁTTUNNI

17, 18. (a) Hvaða önnur vopn á Satan í vopnabúri sínu og af hverju kemur það ekki á óvart? (b) Hvað bíður Satans og hvers vegna er það þér hvatning til að vera þolgóður?

17 Stolt, efnishyggja og kynferðislegt siðleysi eru aðeins þrjú af vopnum Satans. Hann á mörg fleiri. Sumir þjónar Guðs verða fyrir andstöðu í fjölskyldunni eða skólafélagar hæðast að þeim og sums staðar leggja yfirvöld jafnvel hömlur á boðunina. Þessir erfiðleikar koma okkur ekki á óvart. Jesús varaði fylgjendur sína við þeim og sagði: „Allir munu hata yður af því að þér trúið á mig. En sá sem staðfastur er allt til enda mun frelsast.“ – Matt. 10:22.

Satan verður útrýmt fyrir fullt og allt. (Sjá 18. grein.)

18 Hvernig getum við barist gegn Satan og sigrað? Jesús sagði lærisveinum sínum: „Verið þrautseigir, með því munuð þér ávinna lífið.“ (Lúk. 21:19) Enginn maður getur valdið okkur varanlegum skaða. Enginn getur tekið frá okkur hina dýrmætu vináttu sem við eigum við Guð nema við leyfum það. (Rómv. 8:38, 39) Satan sigrar ekki einu sinni þó að við deyjum, vegna þess að Jehóva sér til þess að við rísum upp frá dauðum. (Jóh. 5:28, 29) Satan á hins vegar ekki bjarta framtíð fyrir sér. Eftir að óguðlegu heimskerfi hans er útrýmt verður hann fjötraður í undirdjúpi í þúsund ár. (Opinb. 20:1-3) Þegar Jesús hefur ríkt í þúsund ár verður Satan „leystur úr fangelsi sínu“ um stuttan tíma og fær að gera síðustu tilraun til að leiða fullkomið mannkyn afvega. Síðan verður honum útrýmt. (Opinb. 20:7-10) Satans bíður ekkert annað en glötun en það gegnir öðru máli um þig. Taktu einarða afstöðu gegn Satan, staðfastur í trúnni. Þú getur barist gegn Satan og sigrað.