Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lærum af dæmisögunni um talenturnar

Lærum af dæmisögunni um talenturnar

„Einum fékk hann fimm talentur, öðrum tvær og þeim þriðja eina.“ – MATT. 25:15.

1, 2. Hvers vegna sagði Jesús dæmisöguna um talenturnar?

 Í DÆMISÖGUNNI um talenturnar lýsir Jesús greinilega ákveðinni skyldu sem hvílir á andasmurðum fylgjendum hans. Við þurfum að skilja hvað dæmisagan merkir því að hún á erindi til allra sannkristinna manna, hvort sem þeir eiga von um himnesk laun eða jarðnesk.

2 Þegar Jesús sagði dæmisöguna um talenturnar var hann að svara spurningu lærisveina sinna um það ,hvernig þeir sæju að hann væri að koma og veröldin að líða undir lok‘. (Matt. 24:3) Dæmisagan uppfyllist því á okkar dögum og er eitt af merkjum þess að Jesús sé kominn og ríki sem konungur.

3. Hvað má læra af dæmisögunum sem er að finna í 24. og 25. kafla hjá Matteusi?

3 Dæmisagan um talenturnar er ein af fjórum nátengdum dæmisögum sem er að finna í Matteusi 24:45 til 25:46. Hinar þrjár fjalla um trúa og hyggna þjóninn, meyjarnar tíu og sauðina og hafrana. Þær eru einnig hluti af svari Jesú við spurningu lærisveinanna um tákn komu hans. Í öllum fjórum dæmisögunum leggur Jesús áherslu á viss einkenni dyggra fylgjenda sinna á síðustu dögum. Dæmisögurnar um þjóninn, meyjarnar og talenturnar eiga við andasmurða fylgjendur hans. Dæmisagan um trúa þjóninn fjallar um þann fámenna hóp sem er trúað fyrir að næra hjúin á síðustu dögum og leggur áherslu á að hann þurfi að vera trúr og hygginn. Í dæmisögunni um meyjarnar bendir Jesús á að allir andasmurðir fylgjendur sínir þurfi að vera tilbúnir og vel vakandi því að þeir vita að Jesús er að koma en vita ekki daginn né stundina. Í dæmisögunni um talenturnar kemur fram að hinir andasmurðu þurfi að rækja skyldur sínar af kostgæfni. Síðasta dæmisaga Jesú fjallar um sauðina og hafrana og á erindi til þeirra sem hafa jarðneska von. Jesús leggur áherslu á að þeir þurfi að vera tryggir og styðja andasmurða bræður hans á jörð. * Við skulum nú beina athygli okkar að dæmisögunni um talenturnar.

HÚSBÓNDINN FÆR ÞJÓNUM SÍNUM STÓRFÉ

4, 5. Hvern táknar húsbóndinn og hve mikils virði var ein talenta?

4 Lestu Matteus 25:14-30. Í ritum okkar hefur lengi komið fram að maðurinn eða húsbóndinn í dæmisögunni sé Jesús og að hann hafi farið úr landi þegar hann steig upp til himna árið 33. Í annarri dæmisögu upplýsir Jesús að hann hafi farið úr landi til að „taka við konungdómi“. (Lúk. 19:12) Jesús fékk ekki konungdóm um leið og hann fór aftur til himna heldur ,settist um aldur við hægri hönd Guðs og beið þess síðan að óvinir hans yrðu gerðir að fótskör hans‘. * – Hebr. 10:12, 13.

5 Maðurinn í dæmisögunni átti átta talentur sem var stórfé á þeim tíma. * Áður en hann fór úr landi skipti hann talentunum milli þjóna sinna og ætlaðist til að þeir ávöxtuðu þær meðan hann væri fjarverandi. Líkt og þessi maður átti Jesús mikil verðmæti áður en hann steig upp til himna. Hver voru þau? Svarið tengist starfi hans hér á jörð.

6, 7. Hvað tákna talenturnar?

6 Jesús lagði mikla áherslu á að boða fagnaðarerindið og kenna. (Lestu Lúkas 4:43.) Þannig ræktaði hann upp akur sem gat gefið ríkulega af sér. Áður hafði hann sagt lærisveinunum: „Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru fullþroskaðir til uppskeru.“ (Jóh. 4:35-38) Með þessu átti hann við að hjartahreinu fólki yrði safnað saman í stórum stíl og það yrði lærisveinar hans. Góður bóndi yfirgefur ekki fullþroskaðan akur án þess að tryggja að honum sé sinnt áfram. Jesús sá líka til þess að hinum táknræna akri yrði sinnt. Hann gaf lærisveinum sínum mikilvægt verkefni skömmu eftir að hann var reistur upp frá dauðum en áður en hann steig upp til himna. Hann sagði: „Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum.“ (Matt. 28:18-20) Þannig trúði Jesús þeim fyrir hinum mikla fjársjóði sem boðunin er. – 2. Kor. 4:7.

7 Hver er þá niðurstaðan? Þegar Jesús fól fylgjendum sínum það verkefni að gera fólk að lærisveinum var hann í rauninni að fela þeim „eigur sínar“ – talenturnar. (Matt. 25:14) Í stuttu máli sagt tákna talenturnar það ábyrgðarstarf að boða fagnaðarerindið og gera fólk að lærisveinum.

8. Til hvers ætlaðist húsbóndinn, þó að þjónarnir fengju mismargar talentur?

8 Í dæmisögunni um talenturnar kemur fram að húsbóndinn hafi fengið einum þjóninum fimm talentur, öðrum tvær og þeim þriðja aðeins eina. (Matt. 25:15) Þótt þjónarnir hafi fengið mismargar talentur ætlaðist húsbóndinn til að þeir legðu sig allir fram við að ávaxta þær, það er að segja að gera boðuninni eins góð skil og þeir gætu. (Matt. 22:37; Kól. 3:23) Fylgjendur Krists ávöxtuðu talenturnar á fyrstu öld, frá og með hvítasunnu árið 33. Í Postulasögunni er sagt ítarlega frá því hve kappsamlega þeir boðuðu fagnaðarerindið og gerðu fólk að lærisveinum. * – Post. 6:7; 12:24; 19:20.

AÐ ÁVAXTA TALENTURNAR Á ENDALOKATÍMANUM

9. (a) Hvað gerðu trúu þjónarnir tveir við talenturnar og hvað má álykta af því? (b) Hvaða hlutverki gegna ,aðrir sauðir‘?

9 Trúir andasmurðir þjónar Krists hafa ávaxtað talentur húsbóndans á endalokatímanum, sérstaklega frá árinu 1919. Andasmurðir bræður og systur hafa gert sitt besta, líkt og trúu þjónarnir tveir í dæmisögunni. Það er ástæðulaust að reyna að geta sér til um hverjir hafi fengið fimm talentur og hverjir tvær. Báðir þjónarnir í dæmisögunni tvöfölduðu það sem húsbóndinn fékk þeim þannig að báðir voru jafn duglegir. Þeir sem hafa jarðneska von gegna líka mikilvægu hlutverki. Af dæmisögunni um sauðina og hafrana má sjá að þeir sem hafa jarðneska von fá þann heiður að styðja dyggilega við boðun og kennslu andasmurðra bræðra Jesú. Núna á síðustu dögum vinna báðir hóparnir saman sem „ein hjörð“ að því að gera fólk að lærisveinum. – Jóh. 10:16.

10. Hvaða áberandi merki sjáum við um að Jesús sé nærverandi sem konungur?

10 Húsbóndinn vill sjá árangur og það með réttu. Trúir lærisveinar hans á fyrstu öld ávöxtuðu eigur hans eins og fram hefur komið. Hvað um endalokatímann þegar dæmisagan um talenturnar er að uppfyllast? Trúir og iðjusamir þjónar Jesú hafa boðað fagnaðarerindið og gert fólk að lærisveinum í meiri mæli en nokkru sinni fyrr í sögu mannkyns. Með sameiginlegu átaki þeirra bætast við hundruð þúsunda nýrra lærisveina á hverju ári. Boðunin og kennslan er því eitt af áberandi merkjum þess að Jesús sé nærverandi sem konungur Guðsríkis. Húsbóndinn hlýtur að vera ánægður.

Kristur hefur falið þjónum sínum mikil verðmæti – að boða fagnaðarerindið. (Sjá 10. grein.)

HVENÆR KEMUR HÚSBÓNDINN TIL AÐ GERA UPP REIKNINGANA?

11. Hvers vegna drögum við þá ályktun að það sé í þrengingunni miklu sem Jesús gerir upp reikningana?

11 Jesús kemur til að gera upp reikningana við þjóna sína undir lok þrengingarinnar miklu sem er rétt fram undan. Hvers vegna drögum við þá ályktun? Jesús minnist margsinnis á komu sína í spádóminum í Matteusi 24. og 25. kafla. „Menn munu sjá Mannssoninn koma á skýjum himins,“ sagði hann og átti þar við dóminn sem er felldur í þrengingunni miklu. Hann hvatti fylgjendur sína á síðustu dögum til að halda vöku sinni. „Þér vitið eigi hvaða dag Drottinn yðar kemur,“ sagði hann og bætti við: „Mannssonurinn kemur á þeirri stundu sem þér ætlið eigi.“ (Matt. 24:30, 42, 44) Þegar Jesús segir: „Löngu síðar kom húsbóndi þessara þjóna og lét þá gera skil,“ er hann því greinilega að tala um tímann þegar hann kemur til að fullnægja dómi við lok þessa heims. * – Matt. 25:19.

12, 13. (a) Hvað segir húsbóndinn við þjónana tvo og hvers vegna? (b) Hvenær hljóta hinir andasmurðu lokainnsigli? (Sjá greinina „ Þeir gera skil þegar þeir deyja“.) (c) Hvaða laun hljóta sauðirnir?

12 Þegar húsbóndinn í dæmisögunni kemur uppgötvar hann að þjónarnir, sem fengu fimm talentur og tvær, reyndust báðir trúir og tvöfölduðu það sem þeim var falið. Hann segir það sama við þá báða: „Gott, þú góði og trúi þjónn. Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig.“ (Matt. 25:21, 23) Við hverju má þá búast þegar húsbóndinn Jesús kemur til að fullnægja dómi í náinni framtíð?

13 Þeir sem trúu þjónarnir tveir tákna, það er að segja ötulir andasmurðir lærisveinar Jesú, verða búnir að fá lokainnsigli áður en þrengingin mikla skellur á. (Opinb. 7:1-3) Þeir hljóta laun sín á himnum eins og þeim var lofað, áður en Harmagedón brýst út. Þeir sem hafa jarðneska von og studdu bræður Krists í boðuninni hafa þá fengið þann dóm að þeir séu sauðir og fá að lifa á jarðnesku yfirráðasvæði ríkisins. – Matt. 25:34.

ILLUR OG LATUR ÞJÓNN

14, 15. Var Jesús að gefa í skyn að margir af andasmurðum bræðrum hans yrðu illir og latir? Skýrðu svarið.

14 Þriðji þjónninn í dæmisögunni gróf talentuna, sem hann fékk, í jörð í stað þess að ávaxta hana eða leggja í banka. Hann sýndi slæmt hugarfar því að hann vann af ásettu ráði gegn hagsmunum húsbónda síns. Húsbóndinn kallaði hann ,illan og latan‘ og það með réttu. Hann tók talentuna af honum og gaf þjóninum sem var með tíu. Illi þjónninn var síðan rekinn „út í ystu myrkur“ þar sem hann myndi ,gráta og gnísta tönnum‘. – Matt. 25:24-30; Lúk. 19:22, 23.

15 Nú segir í dæmisögunni að einn af þrem þjónum húsbóndans hafi grafið talentu sína í jörð. Er Jesús þá að gefa í skyn að þriðjungur andasmurðra fylgjenda sinna yrði illur og latur? Nei. Lítum á samhengið. Í dæmisögunni um trúa og hyggna þjóninn talar Jesús um illan þjón sem tekur að berja samþjóna sína. Jesús er ekki að segja að það komi upp hópur illra þjóna heldur er hann að vara trúa þjóninn við að sýna einkenni ills þjóns. Jesús gefur ekki heldur í skyn í dæmisögunni um meyjarnar tíu að helmingur andasmurðra fylgjenda sinna verði eins og fávísu meyjarnar fimm. Hann er öllu heldur að vara andlega bræður sína við því sem gerist ef þeir halda ekki vöku sinni og eru ekki viðbúnir. * Í þessu samhengi virðist ekki rökrétt að álykta að Jesús sé að gefa í skyn að fjöldi andasmurðra bræðra hans á síðustu dögum verði illur og latur. Jesús hafði ærna ástæðu til að minna fylgjendur sína á að þeir mættu ekki vera eins og illur þjónn í hugsun eða verki heldur þyrftu þeir að vera duglegir og atorkusamir og ávaxta talentuna. – Matt. 25:16.

16. (a) Hvað lærum við af dæmisögunni um talenturnar? (b) Hvernig hefur þessi grein skerpt skilning okkar á dæmisögunni um talenturnar? (Sjá greinina „ Hvað merkir dæmisagan um talenturnar?“)

16 Hvaða tvo lærdóma drögum við af dæmisögunni um talenturnar? Annar er sá að húsbóndinn Kristur hefur trúað andasmurðum þjónum sínum fyrir miklum verðmætum – því verkefni að boða fagnaðarerindið og gera fólk að lærisveinum. Hinn er sá að Kristur ætlast til þess að við séum öll ötul að boða fagnaðarerindið. Ef við erum það getum við treyst að húsbóndinn umbunar okkur trúna, árveknina og hollustuna. – Matt. 25:21, 23, 34.

^ Í Varðturninum 15. júlí 2013, bls. 21-22, gr. 8-10, kemur fram hver trúi og hyggni þjónninn er. Í þessu blaði, í greininni á undan, er rætt hverjar meyjarnar tákna. Fjallað er um sauðina og hafrana í Varðturninum 1. febrúar 1996, bls. 13-18, og sömuleiðis í næstu grein í þessu blaði.

^ Á dögum Jesú var talenta um 6.000 denara virði. Venjulegur verkamaður vann sér að jafnaði inn einn denar á dag og þurfti því að strita í ein 20 ár til að þéna eina talentu.

^ Satan kynti undir fráhvarfi frá trúnni eftir að postularnir voru dánir og það stóð öldum saman. Á því tímabili var hvorki unnið samfellt né markvisst að því að gera fólk að sönnum lærisveinum Krists. En það átti að breytast þegar kæmi fram að „kornskurði“, það er að segja á síðustu dögum. (Matt. 13:24-30, 36-43) Sjá Varðturninn 15. júlí 2013, bls. 9-12.

^ Sjá greinina, „Ætlar þú að halda vöku þinni?“ fyrr í þessu blaði, 13. tölugrein.