Þið verðið „konungsríki presta“
„Þið skuluð verða mér konungsríki presta og heilög þjóð.“ – 2. MÓS. 19:6.
1, 2. Hvernig og hvers vegna þurfti að vernda niðja konunnar?
FYRSTI spádómur Biblíunnar er afar mikilvægur til að skilja hvernig vilji Jehóva nær fram að ganga. Þegar Jehóva gaf loforðið í Eden sagði hann: „Ég set fjandskap milli þín [Satans] og konunnar og milli þinna niðja og hennar niðja.“ Hve mikill yrði þessi fjandskapur? „Þeir [niðjar konunnar] skulu merja höfuð þitt [Satans] og þú skalt höggva þá í hælinn,“ sagði Jehóva. (1. Mós. 3:15) Fjandskapur höggormsins og konunnar yrði svo megn að Satan myndi einskis svífast til að reyna að útrýma niðjum hennar.
2 Það er engin furða að sálmaskáldið skyldi biðja þannig fyrir útvalinni þjóð Guðs: „Sjá, óvinir þínir gera hark og hatursmenn þínir reigja sig. Þeir sitja á svikráðum við lýð þinn, leggja á ráðin gegn þeim sem þú verndar. Þeir segja: ,Komið. Vér skulum afmá þá sem þjóð.‘“ (Sálm. 83:3-5) Það þurfti að vernda ættlegg niðja konunnar svo að honum yrði hvorki útrýmt né spillt. Jehóva gerði því bindandi lagalegar ráðstafanir til að tryggja að fyrirætlun sín næði fram að ganga.
SÁTTMÁLI SEM VERNDAR NIÐJANN
3, 4. (a) Hvenær tók lagasáttmálinn gildi og hvað samþykkti Ísraelsþjóðin? (b) Hvað átti lagasáttmálinn að koma í veg fyrir?
3 Afkomendum Abrahams, Ísaks og Jakobs fjölgaði svo að þeir skiptu milljónum og Jehóva gerði þá að þjóð – Ísraelsþjóðinni. Fyrir milligöngu Móse gerði Jehóva sérstakan sáttmála við þjóðina. Hann gaf henni lögmálið og hún samþykkti að halda ákvæði sáttmálans. Í Biblíunni segir: „[Móse] tók ... sáttmálsbókina og las hana fyrir fólkið sem sagði: ,Við skulum gera allt sem Drottinn hefur boðið og hlýða honum.‘ Þá tók Móse blóðið [blóð nautanna sem hafði verið fórnað], stökkti því á fólkið og sagði: ,Þetta er blóð sáttmálans sem Drottinn gerir hér með við ykkur og byggður er á öllum þessum fyrirmælum.‘“ – 2. Mós. 24:3-8.
4 Lagasáttmálinn tók gildi við Sínaífjall árið 1513 f.Kr. Með honum urðu Ísraelsmenn útvalin þjóð Guðs. Jehóva varð nú ,dómari þeirra, löggjafi og konungur‘. (Jes. 33:22) Saga Ísraels er til vitnis um hvað gerist þegar réttlátum lögum Guðs er fylgt eða ekki fylgt. Lögmálið bannaði Ísraelsmönnum að giftast heiðingjum og taka þátt í falsguðadýrkun þannig að því var ætlað að koma í veg fyrir að ættleggur Abrahams spilltist. – 2. Mós. 20:4-6; 34:12-16.
5. (a) Hvaða tækifæri veitti lagasáttmálinn Ísraelsmönnum? (b) Hvers vegna hafnaði Guð Ísrael?
5 Í lagasáttmálanum voru einnig ákvæði um prestastétt sem var tákn um annan og meiri prestdóm síðar. (Hebr. 7:11; 10:1) Sáttmálinn veitti Ísraelsmönnum það einstæða tækifæri að geta orðið „konungsríki presta“, að því tilskildu að þeir hlýddu lögum Jehóva. (Lestu 2. Mósebók 19:5, 6.) En Ísraelsmenn héldu ekki þennan skilmála. Þeir höfnuðu Messíasi, mikilvægasta niðja Abrahams, í stað þess að viðurkenna hann. Þar af leiðandi hafnaði Guð þjóðinni.
6. Hverju áorkaði lögmálið?
6 Lögmálið hafði hins vegar ekki brugðist þó að Ísraelsþjóðin reyndist Guði ótrú og gæti þar af leiðandi ekki látið í té nógu marga til að mynda þetta „konungsríki presta“. Lögmálið átti að vernda niðjann og leiða mennina til Messíasar. Þessu marki var náð eftir að Kristur kom og menn vissu hver hann var. „Kristur leiðir lögmálið til lykta,“ segir í Biblíunni. (Rómv. 10:4) Hverjir fengu þá tækifæri til að verða konungsríki presta? Jehóva Guð gerði annan sáttmála til að mynda nýja þjóð.
NÝ ÞJÓÐ VERÐUR TIL
7. Hvað boðaði Jehóva fyrir munn Jeremía?
7 Löngu áður en lagasáttmálinn féll úr gildi boðaði Jehóva fyrir munn Jeremía spámanns að hann ætlaði að gera „nýjan sáttmála“ við Ísraelsþjóðina. (Lestu Jeremía 31:31-33.) Þessi sáttmáli yrði frábrugðinn lagasáttmálanum að því leyti að það þyrfti ekki að færa dýrafórnir til að hljóta fyrirgefningu synda. Hvernig var það hægt?
8, 9. (a) Hverju áorkar úthellt blóð Jesú? (b) Hvaða tækifæri bauðst þeim sem fengu aðild að nýja sáttmánum? (Sjá mynd í upphafi greinar.)
8 Öldum síðar stofnaði Jesús til kvöldmáltíðar Drottins hinn 14. nísan árið 33. Jesús segir við 11 trúa postula sína og talar þar um vínbikarinn: „Þessi kaleikur er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði sem fyrir yður er úthellt.“ (Lúk. 22:20) Í frásögn Matteusar er haft eftir Jesú: „Þetta er blóð mitt, blóð sáttmálans, úthellt fyrir marga til fyrirgefningar synda.“ – Matt. 26:27, 28.
9 Úthellt blóð Jesú fullgildir nýja sáttmálann. Blóð hans gefur mönnum einnig tækifæri til að fá syndir sínar fyrirgefnar fyrir fullt og allt. Jesús á ekki aðild að nýja sáttmálanum. Jesús er syndlaus og þarf ekki á fyrirgefningu að halda. Guð gat hins vegar látið afkomendur Adams njóta góðs af úthelltu blóði Jesú. Hann gat einnig smurt suma, sem voru honum trúir, með heilögum anda og ættleitt þá sem syni sína. (Lestu Rómverjabréfið 8:14-17.) Jehóva gat litið svo á að þeir væru syndlausir og í vissum skilningi yrðu þeir eins og Jesús, syndlaus sonur hans. Hinir andasmurðu yrðu „samarfar Krists“ og fengju tækifæri til að verða „konungsríki presta“. Ísraelsmenn áttu kost á því meðan lögmálið var í gildi. Pétur postuli segir við ,samarfa Krists‘: „,Þið eruð „útvalin kynslóð, konunglegur prestdómur, heilög þjóð, eignarlýður, til þess að þið skuluð víðfrægja dáðir hans,‘ sem kallaði ykkur frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss.“ (1. Pét. 2:9) Nýi sáttmálinn er sannarlega mikilvægur. Hann gefur lærisveinum Jesú tækifæri til að verða niðjar Abrahams.
NÝI SÁTTMÁLINN GENGUR Í GILDI
10. Hvenær gekk nýi sáttmálinn í gildi og hvers vegna ekki fyrr en þá?
10 Nýi sáttmálinn gekk ekki í gildi þegar Jesús talaði um hann síðasta kvöldið sitt á jörð. Til að hann tæki gildi þurfti að úthella blóði Jesú og bera andvirði þess fram fyrir Jehóva á himnum. Enn fremur þurfti að úthella heilögum anda yfir þá sem áttu að verða „samarfar Krists“. Nýi sáttmálinn gekk því í gildi á hvítasunnu árið 33 þegar dyggir lærisveinar Jesú voru smurðir með heilögum anda.
11. Hvernig gerði nýi sáttmálinn bæði Gyðingum og fólki af öðrum þjóðum kleift að tilheyra andlegum Ísrael og hve margir áttu að fá aðild að nýja sáttmálanum?
11 Lagasáttmálinn ,úreltist‘ í vissum skilningi þegar Jehóva tilkynnti fyrir munn Jeremía að hann ætlaði að gera nýjan sáttmála við Ísrael. Hann féll þó ekki úr gildi fyrr en nýi sáttmálinn tók gildi. (Hebr. 8:13) Þegar það gerðist höfðu Gyðingar og óumskorið fólk af þjóðunum sama tækifæri til að erfa ríki Guðs því að þeir voru ,umskornir í hjarta sínu, í hlýðni við andann, ekki bókstafinn‘. (Rómv. 2:29) Með því að gera nýja sáttmálann við þá ,lagði Guð lög sín í hugskot þeirra og ritaði þau á hjörtu þeirra‘. (Hebr. 8:10) Alls myndu 144.000 manns eiga aðild að nýja sáttmálanum. Þeir mynda nýja þjóð sem kallast „Ísrael Guðs“ eða andlegur Ísrael. – Gal. 6:16; Opinb. 14:1, 4.
12. Hvað er líkt með lagasáttmálanum og nýja sáttmálanum?
12 Hvað er líkt með lagasáttmálanum og nýja sáttmálanum? Lagasáttmálinn var milli Jehóva og Ísraelsmanna og nýi sáttmálinn er milli hans og andlegs Ísraels. Móse var meðalgangari fyrri sáttmálans en Jesús hins nýja. Lagasáttmálinn var fullgiltur með blóði úr dýrum en nýi sáttmálinn með úthelltu blóði Jesú. Móse var leiðtogi Ísraelsmanna undir lagasáttmálanum en Jesús, höfuð safnaðarins, er leiðtogi þeirra sem eru undir nýja sáttmálanum. – Ef. 1:22.
13, 14. (a) Hvernig tengist nýi sáttmálinn ríki Guðs? (b) Hvað er nauðsynlegt til að andlegir Ísraelsmenn geti ríkt með Kristi á himnum?
13 Nýi sáttmálinn tengist ríki Guðs á þann hátt að hann leiðir fram heilaga þjóð sem fær tækifæri til að verða konungar og prestar í ríkinu á himnum. Þessi þjóð er niðjar Abrahams. (Gal. 3:29) Nýi sáttmálinn staðfestir því Abrahamssáttmálann.
14 Við þurfum að varpa ljósi á einn þátt til viðbótar. Nýi sáttmálinn leiðir fram andlegan Ísrael og er grundvöllur þess að þeir sem tilheyra honum verði „samarfar Krists“. Það þarf hins vegar lagalega bindandi sáttmála til að þeir geti orðið konungar og prestar á himnum ásamt Jesú.
SÁTTMÁLI UM MEÐSTJÓRNENDUR KRISTS
15. Hvaða sáttmála gerði Jesús milliliðalaust við trúa postula sína?
15 Eftir að Jesús hafði stofnað til kvöldmáltíðar Drottins gerði hann sáttmála við trúa lærisveina sína, en hann er oft kallaður sáttmálinn um ríkið. (Lestu Lúkas 22:28-30.) Jehóva er ekki aðili að þessum sáttmála, ólíkt hinum sáttmálunum sem við höfum rætt. Þetta er milliliðalaus sáttmáli milli Jesú og andasmurðra fylgjenda hans. Þegar Jesús segist fá þeim ríki í hendur „eins og faðir minn hefur fengið mér“ er hann hugsanlega að vísa í sáttmálann sem Jehóva gerði við hann um að vera „prestur að eilífu að hætti Melkísedeks“. – Hebr. 5:5, 6.
16. Hvað gerir sáttmálinn um ríkið andasmurðum kristnum mönnum kleift?
16 Ellefu trúir postular Jesú höfðu ,staðið með honum í freistingum hans‘. Sáttmálinn um ríkið tryggði að þeir myndu vera með honum á himnum, sitja í hásætum og ríkja sem konungar og prestar. Þessir 11 postular voru þó ekki þeir einu sem áttu að hljóta þennan heiður. Jesús birtist Jóhannesi postula í sýn og sagði: „Þann er sigrar mun ég láta sitja hjá mér í hásæti mínu eins og ég sjálfur sigraði og settist hjá föður mínum í hásæti hans.“ (Opinb. 3:21) Sáttmálinn um ríkið er því gerður við 144.000 kristna menn sem eru andasmurðir. (Opinb. 5:9, 10; 7:4) Þetta er sáttmálinn sem er lagaleg forsenda þess að þeir geti ríkt með Jesú á himnum. Það má líkja honum við að brúður af göfugum ættum giftist konungi og hann deili síðan völdum með henni. Í Biblíunni eru hinir andasmurðu reyndar kallaðir „brúður“ Krists og ,hrein mey‘ sem er heitbundin Kristi. – Opinb. 19:7, 8; 21:9; 2. Kor. 11:2.
HAFÐU BJARGFASTA TRÚ Á RÍKI GUÐS
17, 18. (a) Lýstu í stuttu máli sex sáttmálum sem við höfum rætt og tengjast ríki Guðs. (b) Hvers vegna getum við haft bjargfasta trú á ríki Guðs?
17 Allir sáttmálarnir, sem við höfum rætt um í þessum tveim greinum, tengjast einum eða fleiri mikilvægum þáttum Guðsríkis. (Sjá yfirlitið „Hvernig lætur Jehóva vilja sinn ná fram að ganga?“) Það er ljóst að ríki Guðs á sér traustan grunn í lögformlegum sáttmálum. Við getum því treyst fullkomlega að Guð noti ríki Messíasar til að tryggja að fyrirætlun sín með jörðina og mannkynið nái fram að ganga. – Opinb. 11:15.
18 Leikur nokkur vafi á að það sem ríki Guðs áorkar verði mannkyni til varanlegrar blessunar? Við getum verið fullkomlega sannfærð um að ríki Guðs sé eina varanlega lausnin á öllum vandamálum mannkyns. Við skulum boða þennan sannleika af kappi! – Matt. 24:14.