ÚR SÖGUSAFNINU
„Ég var eins og skjaldbaka í skel“
GERT var níu daga boðunarátak í Bandaríkjunum um mánaðamótin ágúst-september 1929. Meira en 10.000 boðberar fóru eins og stormsveipur um gervöll Bandaríkin. Þeir dreifðu um 250.000 bókum og bæklingum meðal almennings. Í hópi þessara boðbera voru um þúsund farandbóksalar. Þeim hafði sannarlega fjölgað. Í fréttabréfinu Bulletin * sagði að það væri „með ólíkindum“ að tala brautryðjenda skyldi hafa þrefaldast frá 1927 til 1929.
Fjármálakreppa brast á síðla árs 1929. Á svarta þriðjudeginum hinn 29. október það ár varð mikið verðfall á verðbréfamarkaðinum í New York sem lamaði nánast efnahagskerfi heimsins. Heimskreppan mikla var hafin. Þúsundir banka urðu gjaldþrota. Bændur hættu búskap. Risaverksmiðjum var lokað. Milljónir manna misstu vinnuna. Árið 1933 voru 1.000 heimili í Bandaríkjunum tekin upp í skuld á hverjum degi þegar mest var.
Hvernig gátu boðberar í fullu starfi bjargað sér á þessum krepputímum? Meðal annars með því að búa sér til heimili á hjólum, það er að segja húsbíl eða hjólhýsi. Þeir þurftu þá ekki að greiða húsaleigu né fasteignaskatt og margir gátu verið brautryðjendur með því að lifa sparlega. * Og þegar þeir sóttu mót var þetta færanlega heimili eins og ókeypis hótelherbergi. Árið 1934 voru birtar ítarlegar teikningar í Bulletin af nettu en þægilegu heimili á hjólum með vatnslögn, eldavél, fellirúmi og einangrun gegn kuldanum.
Atorkusamir boðberar um heim allan tóku að smíða sér heimili á hjólum. „Nói hafði enga reynslu af skipasmíðum,“ sagði Victor Blackwell, „og ég hafði hvorki reynslu né kunnáttu til að smíða hjólhýsi.“ En hann lét það ekki aftra sér.
Avery og Lovenia Bristow áttu húsbíl. „Ég var eins og skjaldbaka í skel og hafði heimilið meðferðis hvert sem ég fór,“ segir hann. Þau hjónin störfuðu með Harvey og Anne Conrow en þau áttu hjólhýsi með veggjum úr tjörupappa. Í hvert sinn sem þau fluttu hjólhýsið datt eitthvað af tjörupappanum af. „Svona hjólhýsi hafði aldrei sést áður og enginn hefur séð annað eins síðan,“ segir Avery en bætir við að Conrow-hjónin og synir þeirra tveir hafi verið „hamingjusamasta fjölskylda í heimi“. Harvey Conrow skrifaði: „Okkur skorti aldrei neitt og fannst við algerlega óhult í þjónustu Jehóva og undir verndarhendi hans.“ Öll fjölskyldan sótti síðar Gíleaðskólann og var síðan send til Perú sem trúboðar.
Giusto og Vincenza Battaino voru líka brautryðjendur. Þegar þau uppgötvuðu að þau áttu von á barni breyttu þau Ford módel A árgerð 1929 í húsbíl sem var „eins og fínasta hótel“ í samanburði við tjöldin sem þau höfðu búið í. Þau höfðu yndi af að boða trúna meðal Ítala
sem voru búsettir í Bandaríkjunum og héldu því áfram eftir að dóttir þeirra kom í heiminn.Margir hlustuðu á fagnaðarerindið, en fátækt og atvinnulaust fólk átti sjaldan peninga til að greiða fyrir biblíufræðslurit. Í staðinn bauð það alls konar vörur í skiptum fyrir ritin. Tveir brautryðjendur voru með lista yfir 64 vörur sem áhugasamir höfðu látið þá fá. Listinn var „eins og vöruskrá í sveitaverslun“.
Fred Anderson hitti bónda sem vildi eignast nokkrar bækur og bauð í skiptum gleraugu sem móðir hans hafði átt. Maður á næsta bæ sýndi áhuga á ritunum en sagðist ekki eiga gleraugu til lestrar. Með gleraugum nágrannans var hins vegar hægðarleikur fyrir hann að lesa bækurnar og hann greiddi fúslega fyrir þær og gleraugun.
Herbert Abbott var með lítið hænsnabúr í bílnum. Eftir að hafa fengið þrjá eða fjóra kjúklinga í skiptum fyrir rit fór hann með þá á markaðinn, seldi þá og keypti bensín á bílinn. „Stundum vorum við búin með hvern einasta eyri,“ skrifaði hann. „En við létum það ekki stöðva okkur. Við héldum áfram meðan við vorum með bensín á tanknum og settum trú okkar og traust á Jehóva.“
Þjónar Jehóva komust gegnum þessi erfiðu ár með því að reiða sig á hann og halda einbeittir áfram. Maxwell og Emmy Lewis sluppu einu sinni naumlega úr hjólhýsinu sínu áður en tré féll á það í slagviðri og klippti það í tvennt. „Við létum þetta ekki á okkur fá,“ skrifaði Maxwell, „og það hvarflaði aldrei að okkur að gefast upp. Það var svo margt ógert og við ætluðum okkur að ljúka því.“ Maxwell og Emmy héldu ótrauð áfram og endurbyggðu hjólhýsið með góðra vina hjálp.
Vottar Jehóva teljast nú í milljónum en sýna sömu fórnfýsi á þessum erfiðu tímum og brautryðjendurnir forðum daga. Líkt og þeir erum við staðráðin í að halda áfram að boða fagnaðarerindið uns Jehóva segir að verkinu sé lokið.