Jehóva er athvarf okkar
„Drottinn, þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns.“ – SÁLM. 90:1.
1, 2. Hvernig hafa þjónar Guðs alla tíð litið á núverandi heim og í hvaða skilningi eiga þeir sér öruggt heimili?
FINNST þér þú vera öruggur og óhultur í núverandi heimi? Ef ekki ertu í góðum félagsskap. Engum sem elskar Jehóva finnst hann eiga heima í þessu heimskerfi. Þannig hefur það verið frá alda öðli. Sem dæmi má nefna að trúir þjónar Guðs „játuðu að þeir væru gestir og útlendingar á jörðinni“ þegar þeir fluttust stað úr stað í Kanaanlandi. – Hebr. 11:13.
2 Hið sama er að segja um andasmurða fylgjendur Krists. Þeir eiga sér „föðurland . . . á himni“ og líta á sjálfa sig sem „gesti og útlendinga“ í núverandi heimi. (Fil. 3:20; 1. Pét. 2:11) ,Aðrir sauðir‘ Jesú eru í sömu aðstöðu, en hann sagði um þá: „Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.“ (Jóh. 10:16; 17:16) Þjónar Guðs eiga sér samt „heimili“. Við njótum reyndar verndar á öruggasta heimili sem hugsast getur og við sjáum það með augum trúar. Móse skrifaði: „Drottinn, þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns.“ * (Sálm. 90:1) Hvernig var Jehóva athvarf dyggra þjóna sinna til forna? Hvernig er hann athvarf handa þeim sem bera nafn hans nú á tímum? Og hvernig verður hann eina örugga athvarfið í framtíðinni?
JEHÓVA VAR ATHVARF ÞJÓNA SINNA TIL FORNA
3. Hvaða myndlíkingu er brugðið upp í Sálmi 90:1?
3 Í Sálmi 90:1 er brugðið upp myndlíkingu eins og algengt er í Biblíunni. Þar er bæði kenniliður, myndliður og samlíking. Jehóva er kenniliðurinn. Myndliðurinn er athvarf eða bústaður. Það er margt líkt með Jehóva og slíkum bústað, til dæmis það að hann veitir þjónum sínum vernd. Það kemur heim og saman við að hann skuli vera persónugervingur kærleikans. (1. Jóh. 4:8) Hann er líka Guð friðar og sér til þess að trúir þjónar sínir séu óhultir. (Sálm. 4:9) Sem dæmi um það skulum við líta á samskipti hans við ættfeðurna Abraham, Ísak og Jakob.
4, 5. Hvernig var Guð athvarf fyrir Abraham?
4 Geturðu ímyndað þér hvernig Abraham (þá nefndur Abram) var innanbrjósts þegar Jehóva sagði við hann: „Far þú burt úr landi þínu, frá ættfólki þínu . . . til landsins sem ég mun vísa þér á.“ Hafi Abraham verið kvíðinn hlýtur það að hafa verið hughreystandi fyrir hann þegar Jehóva hélt áfram: „Ég mun gera þig að mikilli þjóð og blessa þig og gera nafn þitt mikið . . . Ég mun leiða blessun yfir þá sem blessa þig og bölvun yfir þann sem formælir þér.“ – 1. Mós. 12:1-3.
5 Með þessum orðum ábyrgðist Jehóva að vera Abraham og afkomendum hans öruggt athvarf. (1. Mós. 26:1-6) Hann stóð við orð sín. Til dæmis kom hann í veg fyrir að faraó Egyptalands og Abímelek konungur í Gerar tækju Söru með valdi og dræpu Abraham. Hann verndaði Ísak og Rebekku með svipuðum hætti. (1. Mós. 12:14-20; 20:1-14; 26:6-11) Við lesum: „[Jehóva] leið engum að kúga þá en hegndi konungum þeirra vegna. ,Snertið eigi mína smurðu og gerið eigi spámönnum mínum mein.‘“ – Sálm. 105:14, 15.
6. Hvað sagði Ísak Jakobi að gera og hvernig kann Jakobi að hafa verið innanbrjósts?
6 Jakob, sonarsonur Abrahams, var einn þessara spámanna. Þegar tímabært var að hann fyndi sér konu sagði Ísak, faðir hans, við hann: „Þú skalt ekki taka þér konu af dætrum Kanverja. Taktu þig upp og farðu til Mesópótamíu, í hús Betúels, móðurföður þíns. Taktu þér konu þaðan, af dætrum Labans.“ (1. Mós. 28:1, 2) Jakob gerði eins og faðir hans sagði honum. Hann yfirgaf öryggið í faðmi fjölskyldunnar í Kanaanlandi og ferðaðist, sennilega aleinn, hundruð kílómetra leið til Harran. (1. Mós. 28:10) Hann velti kannski fyrir sér hve lengi hann yrði að heiman. Skyldi frændi hans taka honum fagnandi og gefa honum guðhrædda konu? Ef Jakob hafði áhyggjur hurfu þær eins og dögg fyrir sólu þegar hann kom til Lús sem var um 100 kílómetra frá Beersebu. Hvað gerðist í Lús?
7. Hvernig hughreysti Jehóva Jakob í draumi?
7 Jehóva birtist Jakobi í draumi í Lús og sagði við hann: „Sjá, ég er með þér og gæti þín hvar sem þú ferð og mun leiða þig aftur til þessa lands því að ég yfirgef þig ekki fyrr en ég hef komið því til leiðar sem ég hef heitið þér.“ (1. Mós. 28:15) Það hlýtur að hafa verið mjög traustvekjandi fyrir Jakob að heyra þessi hlýlegu orð. Geturðu séð hann fyrir þér á göngunni, spenntan að sjá hvernig Jehóva ætli að uppfylla loforð sitt? Ef þú hefur flust að heiman, kannski til að þjóna Jehóva í öðru landi, skilurðu sennilega vel hvernig Jakobi var innanbrjósts. En þú hefur vafalaust líka fundið hvernig Jehóva hefur annast þig á marga vegu.
8, 9. Á hvaða vegu var Jehóva athvarf fyrir Jakob og hvaða lærdóm má draga af því?
8 Jakob kom til Harran og Laban, frændi hans, tók honum tveim höndum. Síðar gaf hann honum þær Leu og Rakel fyrir eiginkonur. En seinna meir reyndi Laban að pretta Jakob og breytti kaupi hans tíu sinnum. (1. Mós. 31:41, 42) Jakob lét þetta yfir sig ganga í trausti þess að Jehóva annaðist hann. Og Jehóva gerði það. Þegar Jehóva sagði honum að snúa aftur til Kanaanlands átti hann „miklar hjarðir, ambáttir og þræla, úlfalda og asna“. (1. Mós. 30:43) Jakob var innilega þakklátur og sagði í bæn til Guðs: „Ég er ekki verður allra þeirra velgjörða og allrar þeirrar trúfesti sem þú hefur auðsýnt þjóni þínum. Ég hafði aðeins staf minn meðferðis þegar ég fór yfir Jórdan en nú ræð ég yfir tveimur flokkum.“ – 1. Mós. 32:10.
9 Það voru orð að sönnu sem Móse sagði í bæn sinni: „Drottinn, þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns.“ (Sálm. 90:1) Þessi orð eru enn í fullu gildi því að hjá Jehóva er „engin umbreyting né flöktandi skuggar. Hann er ávallt hinn sami.“ (Jak. 1:17) Hann er enn þá öruggt skjól og athvarf fyrir trúa þjóna sína. Hvernig birtist það?
JEHÓVA ER ATHVARF OKKAR NÚNA
10. Af hverju getum við verið viss um að Jehóva haldi áfram að vera öruggt athvarf fyrir þjóna sína?
10 Hugsaðu þér að þú sért staddur í réttarsal þar sem þú berð vitni í máli gegn alþjóðlegum glæpasamtökum. Leiðtogi þeirra er fluggáfaður og voldugur en jafnframt samviskulaus lygari og morðingi. Hvernig heldurðu að þér liði þegar þú yfirgæfir réttarsalinn í lok dags? Fyndist þér þú vera óhultur? Örugglega ekki. Þú hefðir ærna ástæðu til að fara fram á vitnavernd. Þetta dæmi lýsir vel þeirri stöðu sem þjónar Jehóva eru í. Þeir bera djarflega vitni gegn Satan, erkióvini Jehóva, og afhjúpa hann. (Lestu Opinberunarbókina 12:17.) En hefur Satan tekist að þagga niður í þjónum Guðs? Nei, þeir halda ótrauðir áfram að vitna og það getur aðeins átt sér eina skýringu: Jehóva er enn þá hæli og athvarf þjóna sinna og hann blessar þá meira en nokkru sinni fyrr. (Lestu Jesaja 54:14, 17.) En Jehóva getur ekki verið okkur öruggt athvarf ef við leyfum Satan að tæla okkur burt frá honum.
11. Hvaða lærdóm getum við dregið af ættfeðrunum?
11 Við skulum aftur draga lærdóm af ættfeðrunum. Þótt þeir byggju í Kanaanlandi héldu þeir sér aðgreindum frá íbúum landsins og höfðu andstyggð á siðleysi þeirra og illskuverkum. (1. Mós. 27:46) Þetta voru réttsýnir menn sem þurftu ekki hafa langan lista af boðum og bönnum til leiðsagnar. Þeir þekktu Jehóva og það nægði þeim. Hann var athvarf þeirra þannig að þá langaði ekki til að nálgast heiminn á nokkurn hátt. Þeir héldu sig eins fjarri honum og þeir gátu. Þar eru þeir okkur góð fyrirmynd. Reynirðu að líkja eftir þessum trúu ættfeðrum þegar þú velur þér vini eða afþreyingarefni? Því miður sýna sumir í söfnuðinum þess merki að þeim líki að einhverju leyti vel við heim Satans. Ef þú finnur örla fyrir slíkri hugsun hjá þér skaltu ræða málið við Jehóva í bæn. Mundu að þetta er heimur Satans og hann endurspeglar eigingirni og harðneskju höfðingja síns. – 2. Kor. 4:4; Ef. 2:1, 2.
12. (a) Hvernig hjálpar Jehóva þjónum sínum? (b) Hvað finnst þér um hjálpina sem Jehóva lætur í té?
12 Til að standast vélabrögð Satans þurfum við að nýta okkur til hins ýtrasta þá hjálp sem Jehóva veitir þeim sem leita athvarfs hjá honum. Hjálpin er meðal annars fólgin í safnaðarsamkomum, tilbeiðslukvöldi fjölskyldunnar og öldungunum sem styðja okkur og styrkja í glímunni við erfiðleika lífsins. (Ef. 4:8-12) Bróðir George Gangas sat árum saman í hinu stjórnandi ráði. Hann sagði: „Þegar ég er með [trúsystkinum] finnst mér ég vera með fjölskyldunni í andlegri paradís.“ Líður þér þannig?
13. Hvaða mikilvæga lærdóm getum við dregið af Hebreabréfinu 11:13?
13 Annað sem við getum lært af ættfeðrunum er að vera ófeimin við að skera okkur úr fjöldanum. Eins og bent var á í 1. tölugrein játuðu þeir að þeir væru „gestir og útlendingar á jörðinni“ og þeir lýstu opinskátt yfir þessari afstöðu sinni. (Hebr. 11:13) Ertu ákveðinn í að skera þig úr fjöldanum? Það getur vissulega verið erfitt en þér tekst það með hjálp Guðs og stuðningi trúsystkina. Mundu að þú ert ekki einn. Allir sem vilja þjóna Jehóva þurfa að berjast. (Ef. 6:12) Við getum hins vegar unnið sigur í baráttunni ef við treystum á Jehóva og gerum hann að athvarfi okkar.
14. Hvaða „borgar“ vænti Abraham?
14 Það er einnig mikilvægt að hafa launin í sjónmáli rétt eins og Abraham gerði. (2. Kor. 4:18) Páll postuli skrifaði að Abraham hafi ,vænt þeirrar borgar sem hefur traustan grunn, þeirrar sem Guð hannaði og reisti‘. (Hebr. 11:10) Þessi borg er ríki Guðs. Abraham þurfti auðvitað að bíða eftir að ,borgin‘ yrði reist. Í vissum skilningi er biðin á enda því að ríki Guðs hefur verið stofnsett á himnum. Og spádómar Biblíunnar bera greinilega með sér að ríkið tekur bráðlega öll völd á jörðinni. Er ríki Guðs raunverulegt í huga þér? Hefur það áhrif á lífsviðhorf þín, afstöðu þína til þess heims sem nú er og á áherslur þínar í lífinu? – Lestu 2. Pétursbréf 3:11, 12.
ATHVARF OKKAR ALLT TIL ENDA
15. Hvaða framtíð bíður þeirra sem treysta á þennan heim?
15 ,Fæðingarhríðirnar‘ munu færast í aukana þegar nær dregur endalokum þessa heims. (Matt. 24:7, 8) Og ekki batnar það í þrengingunni miklu. Innviðir samfélagsins munu bresta og fólk óttast um líf sitt. (Hab. 3:16, 17) Í örvæntingu leitar fólk skjóls „í hellum og í hömrum fjalla“ eins og það er orðað í Biblíunni. (Opinb. 6:15-17) En hvorki bókstaflegir hellar né táknræn fjöll – viðskipta- eða stjórnmálaöflin – veita nokkra vernd.
16. Hvernig eigum við að líta á söfnuðinn og af hverju?
16 En þjónar Jehóva halda áfram að eiga sér öruggt athvarf hjá honum. Þeir munu „gleðjast í Drottni“ líkt og spámaðurinn Habakkuk og „fagna yfir Guði hjálpræðis [síns]“. (Hab. 3:18) Á hvaða hátt verður Jehóva athvarf þjóna sinna á þessum umbrotatímum? Það á eftir að koma í ljós. Eitt er þó víst. ,Múgurinn mikli‘ verður ein skipuleg heild og vakandi fyrir leiðsögn Jehóva, rétt eins og Ísraelsmenn voru þegar þeir yfirgáfu Egyptaland. (Opinb. 7:9; lestu 2. Mósebók 13:18.) Leiðsögnin mun sennilega berast fyrir milligöngu safnaðanna. Í Jesaja 26:20 er talað um „herbergi“ þar sem þjónar Guðs njóta verndar. (Lestu.) Hugsanlegt er að þar sé átt við söfnuðina um allan heim. Kanntu að meta samkomurnar? Ferðu tafarlaust eftir þeim leiðbeiningum sem Jehóva veitir fyrir milligöngu safnaðarins? – Hebr. 13:17.
17. Í hvaða skilningi er Jehóva athvarf dyggra þjóna sinna sem eru dánir?
17 Þeir sem deyja trúir Guði áður en þrengingin mikla hefst eru einnig óhultir hjá honum. Hvernig getur það verið? Löngu eftir að hinir trúu ættfeður dóu sagði Jehóva við Móse: „Ég er Guð . . . Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.“ (2. Mós. 3:6) Jesús vitnaði í þessi orð og bætti síðan við: „Ekki er hann Guð dauðra, heldur lifenda því að honum lifa allir.“ (Lúk. 20:38) Það er svo öruggt að trúir þjónar Jehóva rísi upp frá dauðum að þeir eru eins og lifandi í augum hans. – Préd. 7:1
18. Hvernig verður Jehóva athvarf þjóna sinna í sérstökum skilningi í nýja heiminum?
18 Í nýja heiminum, sem er rétt fram undan, verður Jehóva athvarf þjóna sinna í nýjum skilningi. Í Opinberunarbókinni 21:3 segir: „Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim.“ Í fyrstu býr Jehóva hjá þegnum sínum á jörð á þann hátt að Jesús Kristur stjórnar í umboði hans. Þegar þúsund árunum lýkur afhendir Jesús föður sínum ríkið, enda er hann þá búinn að koma vilja hans til leiðar að öllu leyti. (1. Kor. 15:28) Þegar mannkynið er orðið fullkomið þarf það ekki lengur á Jesú að halda sem millilið heldur verður Jehóva með mönnunum. Þetta eru unaðslegar framtíðarhorfur. Þangað til þetta verður skulum við líkja eftir trúum þjónum Guðs til forna og gera hann að athvarfi okkar.
^ Sálmur 90:1 er orðaður svo í Contemporary English Version: „Drottinn okkar, þú hefur verið heimili okkar um allar kynslóðir.“