Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Gæti kristinn maður orðið svo djúpt sokkinn í að horfa á klám að það þurfi að víkja honum úr söfnuðinum?

▪ Já, það gæti gerst. Það undirstrikar hve mikilvægt það er að forðast allt klámfengið efni, bæði ritað mál og myndir í bókum, tímaritum, kvikmyndum, mynddiskum og á Netinu.

Klám er að finna út um allan heim. Með tilkomu Netsins er auðveldara en nokkru sinni fyrr að nálgast slíkt efni og æ fleiri verða fyrir áhrifum af þessari skelfilegu plágu. Sumir, bæði ungir og aldnir, hafa óvart rekist á klámfengnar vefsíður. Aðrir hafa beinlínis leitað uppi slíkt efni og halda síður aftur af sér vegna þess að þeir geta horft á klám í laumi heima hjá sér eða á skrifstofunni. Af hverju er hættulegt fyrir kristna menn að horfa á klám?

Jesús tiltók eina mikilvæga ástæðu í fjallræðunni. Hann sagði: „Hver sem horfir á konu í girndarhug hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu.“ (Matt. 5:28) Það er auðvitað eðlilegt og viðeigandi fyrir hjón að hafa kynmök og er þeim til ánægju. (Orðskv. 5:15-19; 1. Kor. 7:2-5) En klám beinir athyglinni að öðru. Það leggur áherslu á óleyfilegt kynlíf sem kveikir siðlausar hugsanir af því tagi sem Jesús varaði við. Að lesa klámfengið efni eða horfa á slíkar myndir gengur þvert á eftirfarandi leiðbeiningar Guðs: „Deyðið því hið jarðbundna í fari ykkar: hórdóm, saurlifnað, losta, vonda fýsn og ágirnd sem ekki er annað en skurðgoðadýrkun.“ – Kól. 3:5.

En segjum að kristinn maður hafi horft á klám einu sinni eða tvisvar. Það mætti líkja því við þá hættulegu aðstöðu sem sálmaskáldið Asaf lenti einu sinni í. Hann sagði: „Við lá að mér skrikaði fótur, litlu munaði að ég hrasaði.“ Hvernig gæti kristinn maður haft hreina samvisku og frið við Guð ef hann horfði á klámfengnar myndir af nöktum körlum eða konum eða pari við siðlaus kynmök? Asaf var ekki heldur í rónni. „Ég þjáist allan daginn og á hverjum morgni bíður mín hirting,“ sagði hann. – Sálm. 73:2, 14.

Kristinn maður, sem leiðist út í að horfa á klám, þarf að koma til sjálfs sín og viðurkenna að hann þurfi hjálp til að styrkja sambandið við Jehóva. Þessi hjálp stendur til boða í söfnuðinum: „Ef einhver er staðinn að misgjörð þá leiðréttið þið, sem andleg eruð, þann mann með hógværð. Og hafið gát á sjálfum ykkur.“ (Gal. 6:1) Einn eða tveir safnaðaröldungar gætu veitt honum þá aðstoð sem hann þarf, meðal annars beðið fyrir honum í trausti þess að Jehóva muni „gera hinn sjúka heilan“ og honum verði fyrirgefnar „þær syndir, sem hann kann að hafa drýgt“. (Jak. 5:13-15) Það var Asaf til góðs að styrkja sambandið við Guð. Þeir sem hafa leitað aðstoðar til að hætta að horfa á klám njóta líka góðs af því að eignast sterkara samband við Jehóva. – Sálm. 73:28.

Páll postuli bendir þó á að sumir, sem syndga, iðrist ekki eða snúi sér frá saurlífi, frillulífi og ólifnaði“. * (2. Kor. 12:21) Prófessor Marvin R. Vincent segir að gríska orðið, sem hér er þýtt „saurlífi“, gefi til kynna „óhreinleika sem jaðrar við sora“. Því miður er til klám sem gengur miklu lengra en nektarmyndir eða myndir af karli og konu við siðlaus kynmök. Þetta eru soralegar og viðbjóðslegar klámmyndir af kynmökum fólks af sama kyni, hópkynlífi, mökum við skepnur, barnaklámi, hópnauðgunum, misþyrmingum á konum, fjötrum og kvalalosta. Páll lýsir samtíðarmönnum sem voru svo langt leiddir að „skilningur þeirra [var] blindaður“. Hann sagði: „Þeir eru tilfinningalausir og hafa ofurselt sig lostalífi svo að þeir fremja alls konar siðleysi af græðgi.“ – Ef. 4:18, 19.

Páll minnist einnig á ,óhreinleika‘ í Galatabréfinu 5:19. Breskur fræðimaður nefnir að hér geti það átt við „allar girndir af óeðlilegu tagi“. Allir kristnir menn hljóta að fallast á að klámið, sem lýst er hér á undan, sé soralegt, viðurstyggilegt, kynferðislega niðurlægjandi og sé „girndir af óeðlilegu tagi“. Páll segir að lokum í Galatabréfinu 5:19-21 að þeir sem stundi slíkan óhreinleika muni „ekki erfa Guðs ríki“. Ef það yrði rótgróin venja hjá einhverjum að horfa á viðurstyggilegt og kynferðislega niðurlægjandi klám, og það stæði kannski um þó nokkurn tíma, og ef hann myndi ekki iðrast og snúa við ætti hann ekki lengur heima í kristna söfnuðinum. Það yrði að víkja honum úr söfnuðinum til að vernda söfnuðinn og halda honum hreinum. – 1. Kor. 5:5, 11, Biblían 1981.

Það er gott til þess að vita að sumir sem hafa leiðst út í að horfa á klám af viðurstyggilegu tagi hafa leitað til öldunganna og fengið hjálp til að gera róttækar breytingar á háttalagi sínu. Jesús skrifaði kristnum mönnum í Sardis: „Styrk það sem eftir er og að dauða komið . . . Minnst þú þess sem þú hefur numið og heyrt og varðveit það og bæt ráð þitt. Ef þú vakir ekki mun ég koma . . . og þú munt alls ekki vita á hverri stun du ég kem yfir þig.“ (Opinb. 3:2, 3) Það er hægt að bæta ráð sitt og vera hrifinn úr eldinum ef svo má að orði komast. – Júd. 22, 23.

Það er þó miklu betra að vera staðráðinn í að forðast þessa hættu eins og pestina. Við ættum öll að vera fullkomlega einbeitt í því að sneiða hjá klámi í hvaða mynd sem er.

[Neðanmáls]

^ gr. 8 Fjallað er um muninn á „saurlífi, frillulífi og ólifnaði“ í Varðturninum (enskri útgáfu) 15. júlí 2006, bls. 29-31.

[Innskot á bls. 30]

Kristinn maður, sem verður það á að horfa á klám, þarf að koma til sjálfs sín og viðurkenna að hann þurfi hjálp til að styrkja sambandið við Jehóva.