Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horfðu ekki á það sem að baki er

Horfðu ekki á það sem að baki er

Horfðu ekki á það sem að baki er

„Enginn sem leggur hönd á plóginn og horfir aftur er hæfur í Guðs ríki.“ – LÚK. 9:62.

HVERT ER SVARIÐ?

Af hverju ættum við að ,minnast konu Lots‘?

Nefndu þrennt sem við ættum að forðast að láta hugann dvelja við.

Hvernig gætum við þess að vera samstíga söfnuði Jehóva?

1. Hvaða viðvörun gaf Jesús og hvaða spurning vaknar í kjölfarið?

„MINNIST konu Lots.“ (Lúk. 17:32) Jesús gaf þessa viðvörun fyrir næstum 2.000 árum og hún er nú mikilvægari en nokkru sinni fyrr. En hvað átti hann við með þessari alvarlegu viðvörun? Gyðingarnir, sem hlustuðu á hann, þurftu enga frekari skýringu. Þeir vissu hvað hefði komið fyrir konu Lots. Þegar hún flúði Sódómu ásamt fjölskyldu sinni óhlýðnaðist hún Jehóva, leit um öxl og varð að saltstólpa. – Lestu 1. Mósebók 19:17, 26.

2. Af hverju gæti kona Lots hafa litið um öxl og hvernig galt hún fyrir óhlýðni sína?

2 En af hverju leit kona Lots um öxl? Var hún forvitin og vildi sjá það sem var að gerast? Leit hún við vegna þess að hana skorti trú? Eða horfði hún með söknuði á allt sem hún hafði skilið eftir í Sódómu? (Lúk. 17:31) Hver sem ástæðan var galt hún fyrir óhlýðni sína með lífinu. Hugsaðu þér! Hún dó sama dag og öfuguggarnir sem bjuggu í Sódómu og Gómorru. Það er ekki að furða að Jesús skuli hafa sagt: „Minnist konu Lots.“

3. Hvernig lagði Jesús áherslu á að við ættum ekki að líta um öxl í táknrænum skilningi?

3 Núna á okkar dögum er einnig mikilvægt að líta ekki um öxl í táknrænum skilningi. Jesús lagði áherslu á það þegar hann svaraði manni sem spurði hvort hann mætti snúa aftur til fjölskyldu sinnar til að kveðja hana áður en hann gerðist lærisveinn. Jesús sagði: „Enginn sem leggur hönd á plóginn og horfir aftur er hæfur í Guðs ríki.“ (Lúk. 9:62) Var harðneskjulegt eða ósanngjarnt af Jesú að svara með þessum hætti? Nei, því hann vissi að maðurinn var aðeins að finna afsökun fyrir því að koma sér undan ábyrgð. Jesús líkti því að fresta skyldum sínum gagnvart Guði við það að ,horfa aftur‘. Skiptir máli hvort sá sem er að plægja horfir aftur fyrir sig um stundarsakir eða leggur plóginn frá sér og snýr sér við? Í báðum tilfellum beinir hann huganum frá því sem hann ætti að vera að gera og það getur haft slæm áhrif á verkið.

4. Að hverju ættum við að beina sjónum okkar?

4 Við verðum að beina sjónum okkar að því sem fram undan er í stað þess að einblína á fortíðina. Taktu eftir því hvað þetta kemur skýrt fram í Orðskviðunum 4:25: „Beindu augum þínum fram á við og sjónum þínum að því sem fram undan er.“

5. Hvaða ástæðu höfum við fyrir því að horfa ekki á það sem að baki er?

5 Það er góð ástæða fyrir því að við ættum ekki að horfa á það sem að baki er. Hver er hún? Við lifum „á síðustu dögum“. (2. Tím. 3:1) Bráðum mun Guð ekki aðeins eyða tveimur illum borgum heldur heilu heimskerfi. Hvernig getum við varast að falla í sömu gryfju og kona Lots? Til að byrja með verðum við að bera kennsl á það sem að baki er og gæti verið freistandi að horfa á. (2. Kor. 2:11) Við skulum nú skoða hvað það getur verið og athuga hvernig við getum forðast að beina sjónum okkar að því.

GÖMLU GÓÐU DAGARNIR

6. Hvers vegna getum við ekki alltaf treyst minningum okkar?

6 Ein ákveðin hætta er brengluð mynd af hinum gömlu góðu dögum. Minni okkar er ekki alltaf áreiðanlegt. Við gætum óafvitandi gert lítið úr vandamálum fortíðarinnar og fundist allt svo frábært sem gerðist áður fyrr þótt veruleikinn hafi verið annar. Þessi brenglaða minning gæti fengið okkur til að þrá gömlu góðu dagana. En í Biblíunni er varað við þessu: „Segðu ekki: Hvernig stendur á því að hinir fyrri dagar voru betri en þessir? Ekki er það skynsamlegt að þú spyrjir svo.“ (Préd. 7:10) Af hverju er þessi hugsunarháttur svona varasamur?

7-9. (a) Hvað kom fyrir Ísraelsmenn í Egyptalandi? (b) Hvaða ástæður fengu Ísraelsmenn til að gleðjast? (c) Undan hverju fóru Ísraelsmenn að kvarta og kveina?

7 Lítum á það sem kom fyrir Ísraelsmenn á dögum Móse. Þótt þeir hafi upphaflega verið álitnir gestir í Egyptalandi „settu Egyptar verkstjóra yfir þá“, eftir daga Jósefs, „til að þjaka þá með kvaðavinnu“. (2. Mós. 1:11) Síðar fyrirskipaði Faraó þjóð sinni að drepa öll sveinbörn Ísraelsmanna til að takmarka fjölda þeirra. (2. Mós. 1:15, 16, 22) Það er því ekki að furða að Jehóva skyldi segja við Móse: „Ég hef séð eymd þjóðar minnar í Egyptalandi og heyrt kvein hennar undan þeim sem þrælka hana. Já, ég þekki þjáningu hennar.“ – 2. Mós. 3:7.

8 Geturðu ímyndað þér gleði Ísraelsmanna þegar þeir gengu út úr þrælahúsinu Egyptalandi sem frjálsir menn? Þeir höfðu orðið vitni að því þegar Jehóva notaði mátt sinn með stórfenglegum hætti til að leiða plágurnar tíu yfir hinn drambláta faraó og þjóð hans. (Lestu 2. Mósebók 6:1, 6, 7.) Að lokum leyfðu Egyptar þeim að fara og ekki bara það, heldur hvöttu þá beinlínis til þess og gáfu þeim svo mikið af gulli og silfri að segja mætti að þjóð Guðs hafi ,rænt Egypta‘. (2. Mós. 12:33-36) Ísraelsmenn fögnuðu enn frekar þegar þeir sáu Jehóva eyða faraó og her hans í Rauðahafinu. (2. Mós. 14:30, 31) Það hefði átt að vera mjög trústyrkjandi að sjá þessa spennandi atburði eiga sér stað.

9 Þótt ótrúlegt sé byrjaði þetta sama fólk að kvarta og kveina stuttu eftir að Guð hafði frelsað það með kraftaverki. Undan hverju var kvartað? Matnum! Fólkið varð óánægt með matinn sem Jehóva sá því fyrir og möglaði: „Nú munum við eftir fiskinum sem við fengum fyrir ekkert í Egyptalandi, gúrkunum, melónunum, blaðlaukunum, laukunum og hvítlaukunum. En nú erum við að örmagnast, ekkert er til. Manna er það eina sem við komum auga á.“ (4. Mós. 11:5, 6) Já, viðhorf Ísraelsmanna var orðið svo brenglað að þeir vildu jafnvel snúa aftur til landsins þar sem þeir höfðu verið þrælar. (4. Mós. 14:2-4) Þeir horfðu á það sem að baki var og misstu velþóknun Jehóva. – 4. Mós. 11:10.

10. Hvaða lærdóm getum við dregið af Ísraelsmönnum?

10 Hvaða lærdóm getum við dregið af þessu? Þegar við glímum við erfiðleika og vandamál skulum við ekki einblína á það sem okkur gæti fundist jákvætt úr fortíðinni – jafnvel áður en við kynntumst sannleikanum. Þó að það sé ekki rangt að hugleiða það sem við höfum lært af fyrri reynslu eða eiga góðar minningar þurfum við að hafa skynsamlegt og raunhæft viðhorf til fortíðarinnar. Annars gætum við orðið enn óánægðari með núverandi aðstæður og fundist freistandi að snúa aftur til fyrri lífsstefnu okkar. – Lestu 2. Pétursbréf 2:20-22.

FÓRNIR SEM VIÐ FÆRÐUM

11. Hvernig líta sumir á fórnir sem þeir hafa fært?

11 Því miður líta sumir til baka á fórnir sem þeir færðu og finnst þeir hafa misst af gullnum tækifærum. Kannski hafðirðu möguleika á að afla þér æðri menntunar, komast í góða stöðu eða tryggja þér fjárhagslegt öryggi en þú ákvaðst að gera það ekki. Mörg trúsystkina okkar hafa sagt skilið við vel launuð störf á sviði viðskipta, skemmtunar, menntunar eða íþrótta. Svo hefur tíminn liðið og endirinn er enn ekki kominn. Læturðu þig dreyma um hvernig lífið hefði orðið ef þú hefðir ekki fært þessar fórnir?

12. Hvernig leit Páll á það sem hann hafði sagt skilið við?

12 Páll postuli fórnaði miklu til að verða fylgjandi Krists. (Fil. 3:4-6) Hvað fannst honum um það sem hann hafði sagt skilið við? Hann segir: „Það sem var mér ávinningur met ég nú vera tjón sakir Krists.“ Hvers vegna? Hann segir í framhaldinu: „Meira að segja met ég allt vera tjón hjá þeim yfirburðum að þekkja Krist Jesú, Drottin minn. Sakir hans hef ég misst allt og met það sem sorp til þess að ég geti áunnið Krist.“ * (Fil. 3:7, 8) Sá sem hendir rusli eða sorpi saknar þess ekki síðar og á sama hátt sá Páll ekki eftir þeim veraldlegu tækifærum sem hann hafði hafnað. Honum fannst þau ekki lengur vera neins virði.

13, 14. Hvernig getum við fylgt fordæmi Páls?

13 Hvað getur hjálpað okkur ef við erum farin að velta okkur upp úr tækifærum sem okkur finnst við hafa misst af? Fylgjum fordæmi Páls. Hvernig gerum við það? Hugsaðu um þau verðmæti sem þú átt núna. Þú átt dýrmætt samband við Jehóva og hann veit hve mikla trúfesti þú hefur sýnt. (Hebr. 6:10) Hvaða efnislega ávinning hefur heimurinn upp á bjóða sem kemst í hálfkvisti við þá blessun sem við njótum núna og munum njóta í framtíðinni? – Lestu Markús 10:28-30.

14 Næst nefnir Páll nokkuð sem getur hjálpað okkur að halda trúfastlega áfram. Hann segir að hann „gleymi því sem að baki er en seilist eftir því sem fram undan er“. (Fil. 3:13) Taktu eftir að Páll nefnir tvö skref sem bæði eru nauðsynleg. Í fyrsta lagi verðum við að gleyma því sem að baki er og eyða ekki dýrmætum tíma og orku í óþarfar áhyggjur af því. Í öðru lagi verðum við að seilast eftir því sem fram undan er og einbeita okkur að því eins og hlaupari gerir á lokasprettinum.

15. Hvaða gagn höfum við af því að hugleiða fordæmi trúfastra þjóna Guðs?

15 Þegar við hugleiðum fordæmi trúfastra þjóna Guðs – bæði úr fortíð og nútíð – er það okkur hvatning til að sækja fram á við í stað þess að horfa á það sem að baki er. Ef Abraham og Sara hefðu til dæmis látið hugann dvelja við borgina Úr hefðu þau „haft tíma til að snúa þangað aftur“. (Hebr. 11:13-15) En þau sneru ekki aftur. Þegar Móse yfirgaf Egyptaland í fyrra skiptið skildi hann eftir mun meira en nokkur annar Ísraelsmaður gerði síðar. En það er ekkert sem bendir til þess að hann hafi saknað þessara hluta. Í Biblíunni segir að „hann taldi háðung vegna Krists meiri auð en fjársjóðu Egyptalands því að hann horfði fram til launanna“. – Hebr. 11:26.

SLÆMAR MINNINGAR

16. Hvaða áhrif gætu slæmar minningar haft á okkur?

16 Minningar úr fortíðinni eru hins vegar ekki alltaf jákvæðar. Kannski höfum við sífelldar áhyggjur af syndum sem við drýgðum áður fyrr eða mistökum sem við gerðum. (Sálm. 51:5) Við gætum enn verið sár vegna harðrar áminningar sem við fengum. (Hebr. 12:11) Óréttlæti, sem við höfum orðið fyrir eða finnst við hafa orðið fyrir, gæti heltekið huga okkar. (Sálm. 55:3) Hvernig getum við tryggt að slíkar minningar verði ekki til þess að við einblínum á það sem að baki er? Lítum á þrjú dæmi.

17. (a) Af hverju sagði Páll að hann væri ,minnstur allra heilagra‘? (b) Hvað hjálpaði Páli að láta neikvæðar hugsanir ekki yfirbuga sig?

17 Mistök sem við gerðum. Páll postuli sagði að hann væri ,minnstur allra heilagra‘. (Ef. 3:8) Af hverju leið honum þannig? „Því að ég ofsótti söfnuð Guðs,“ segir hann. (1. Kor. 15:9) Geturðu ímyndað þér hvernig Páli hlýtur að hafa liðið þegar hann hitti þá sem hann hafði áður ofsótt? Í stað þess að láta þessar neikvæðu hugsanir yfirbuga sig einbeitti hann sér að þeirri miskunn sem honum hafði verið sýnd. (1. Tím. 1:12-16) Þakklætið, sem þetta vakti með honum, hvatti hann áfram í þjónustunni. Þegar Páll sagðist vilja gleyma því sem að baki var átti hann meðal annars við fyrri syndir sínar. Ef við sömuleiðis einblínum á þá miskunn sem Jehóva hefur sýnt okkur kemur það í veg fyrir að öll orka okkar fari í áhyggjur af löngu liðnum atburðum sem við getum engu um breytt. Þá getum við notað krafta okkar í þjónustu Jehóva.

18. (a) Hvað getur gerst ef við hugsum með gremju til áminningar sem við höfum fengið? (b) Hvernig getum við tekið til okkar orð Salómons og þegið aga?

18 Særandi áminning. Hvað ef okkur hættir til að hugsa með gremju til áminningar sem við höfum fengið? Þetta getur bæði verið særandi og líka dregið úr okkur svo að við látum „hugfallast“. (Hebr. 12:5) Hvort sem við ,lítilsvirðum‘ agann af því að við höfnum honum eða ,látum hugfallast‘ af því að við tökum við aganum og gefumst síðan upp er niðurstaðan sú sama, við leyfum ekki aganum að koma okkur að gagni og slípa okkur. Mun betra væri að hlýða orðum Salómons sem sagði: „Varðveittu leiðsögnina og slepptu henni ekki, varðveittu hana því að hún er líf þitt.“ (Orðskv. 4:13) Eins og ökumaður, sem virðir götuskilti, skulum við þiggja leiðsögnina, fylgja henni og halda áfram. – Orðskv. 4:26, 27; lestu Hebreabréfið 12:12, 13.

19. Hvernig getum við líkt eftir trúfesti Habakkuks og Jeremía?

19 Óréttlæti sem við höfum orðið fyrir eða finnst við hafa orðið fyrir. Stundum gæti okkur liðið eins og Habakkuk spámanni sem grátbað Jehóva um að láta réttlætið ná fram að ganga. Hann skildi ekki af hverju Jehóva leyfði vissu óréttlæti að eiga sér stað. (Hab. 1:2, 3) Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að líkja eftir trúfesti Habakkuks sem sagði: „Skal ég samt gleðjast í Drottni og fagna yfir Guði hjálpræðis míns.“ (Hab. 3:18) Ef við sýnum biðlund líkt og Jeremía forðum daga og treystum fyllilega á Jehóva, Guð réttlætisins, getum við verið viss um að allt verði leiðrétt á sínum tíma. – Harmlj. 3:19-24.

20. Hvernig getum við sýnt að við ,minnumst konu Lots‘?

20 Við lifum á spennandi tímum. Stórkostlegir atburðir eiga sér stað núna og enn fleiri eru rétt fram undan. Við skulum hvert og eitt vera samstíga söfnuði Jehóva. Fylgjum leiðbeiningum Biblíunnar um að horfa fram á við en ekki á það sem að baki er. Þannig sýnum við og sönnum að við ,minnumst konu Lots‘.

[Neðanmáls]

^ gr. 12 Frummálsorðið, sem hér er þýtt „sorp“, þýddi líka „það sem kastað er til hundanna“, „mykja“ eða „saur“. Biblíufræðingur nokkur segir að þegar Páll notar þetta orð tákni það „að snúa sér ákveðið frá einhverju gagnslausu og andstyggilegu sem maður vill aldrei sjá aftur“.

[Spurningar]