Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sköpunarverkið segir frá visku Jehóva

Sköpunarverkið segir frá visku Jehóva

Sköpunarverkið segir frá visku Jehóva

„Ósýnilega veru hans . . . má skynja og sjá af verkum hans.“ — RÓMV. 1:20.

1. Hvaða áhrif hefur viska heimsins haft á marga nú á dögum?

NÚ Á dögum eru margir kallaðir vitrir án þess að þeir séu það. Sumir telja að manneskja sé vitur vegna þess eins að hún hefur viðað að sér mikilli þekkingu. Svokallaðir spekingar þessa heims veita þó ekki neina haldbæra leiðsögn til að finna tilgang lífsins. Þeir sem leyfa slíkum mönnum að stjórna sér láta þvert á móti „hrekjast og berast fram og aftur af hverjum kenningarvindi“. — Ef. 4:14.

2, 3. (a) Af hverju er Jehóva ‚einn alvitur‘? (b) Hvað er ólíkt með visku Guðs og visku þessa heims?

2 Þessu er allt öðruvísi farið hjá þeim sem afla sér sannrar visku hjá Jehóva Guði. Í Biblíunni segir að hann einn sé alvitur. (Rómv. 16:27) Hann veit allt sem hægt er að vita um alheiminn, hvernig hann varð til og sögu hans. Jehóva setti öll náttúrulögmálin og á þeim byggja mennirnir rannsóknir sínar. Honum þykir því ekki mikið til uppgötvana þeirra koma og hann hefur ekki áhuga á svokallaðri æðri hugsun sem á rætur í heimspeki manna. „Speki þessa heims er heimska í augum Guðs.“ — 1. Kor. 3:19.

3 Í Biblíunni er okkur sagt að Jehóva veiti þjónum sínum speki. (Orðskv. 2:6) Viskan frá Guði er ekki óskýr eins og heimspeki manna heldur byggist á nákvæmri þekkingu og skilningi og leggur áherslu á góða dómgreind. (Lestu Jakobsbréfið 3:17.) Páll postuli dáðist að visku Jehóva. Hann skrifaði: „Hvílíkt djúp ríkdóms, speki og þekkingar Guðs! Hversu órannsakandi dómar hans og órekjandi vegir hans!“ (Rómv. 11:33) Við erum fullviss um að lög Jehóva veiti okkur bestu leiðsögnina í lífinu vegna þess að hann er alvitur. Hann veit betur en nokkur annar hvers við þörfnumst til að vera hamingjusöm. — Orðskv. 3:5, 6.

Jesús — með í ráðum við sköpunina

4. Hvernig getum við kynnst visku Jehóva?

4 Við getum séð visku Jehóva og aðra óviðjafnanlega eiginleika hans af því sem hann hefur skapað. (Lestu Rómverjabréfið 1:20.) Allt frá því smæsta til hins stærsta í sköpunarverkinu kennir okkur margt um persónuleika Guðs. Hvert sem við lítum — hvort sem það er upp til himins eða niður í moldina — komum við auga á ótal merki um alvitran og kærleiksríkan skapara. Við getum lært margt um hann með því að skoða sköpunarverkið. — Sálm. 19:2; Jes. 40:26.

5, 6. (a) Hver vann með Jehóva að sköpunarverkinu? (b) Hvað ætlum við að skoða og hvers vegna?

5 Jehóva var ekki einn að verki þegar hann „skapaði . . . himin og jörð“. (1. Mós. 1:1) Í Biblíunni er gefið til kynna að löngu áður en Jehóva byrjaði að skapa efnisheiminn hafi hann skapað andaveru og með aðstoð þessarar andaveru „var allt skapað“. Þessi andavera var einkasonur Guðs — „frumburður allrar sköpunar“ — og kom seinna til jarðar sem maðurinn Jesús. (Kól. 1:15-17) Líkt og Jehóva býr Jesús yfir visku og speki. Í 8. kafla Orðskviðanna kemur hann meira að segja fram sem persónugervingur spekinnar. Í þeim kafla segir einnig að Jesús hafi verið „með í ráðum við hlið [Guðs]“. — Orðskv. 8:12, 22-31.

6 Sköpunarverkið segir því bæði frá visku Jehóva og Jesú, verkstjóra hans. Það er margt sem við getum lært af því. Skoðum nánar fjögur dýr sem eru kölluð „vitrastir vitringa“ í Orðskviðunum 30:24-28. *

Lærum af vinnusemi maursins

7, 8. Hvað finnst þér heillandi við maura?

7 Jafnvel það smæsta á jörðinni er þannig úr garði gert að við getum lært margt af því með því að virða fyrir okkur hönnun þess og starfsemi. Skoðum til dæmis viskuna að baki eðlishvöt maursins. — Lestu Orðskviðina 30:24, 25.

8 Sumir vísindamenn telja að fyrir hverja manneskju séu til að minnsta kosti 200.000 maurar sem vinna þrotlaust bæði ofan- og neðanjarðar. Maurar búa í maurabúum og í flestum slíkum búum er að finna þrjár tegundir maura: drottningar, karldýr og þernur. Hver hópur leggur sitt af mörkum til að sinna þörfum búsins. Skæramaurar í Suður-Ameríku eru sannkallaðir garðyrkjusnillingar. Þeir stunda svepparækt og frjóvga, umplanta og snyrta sveppagarða til að uppskeran verði sem mest. Vísindamenn hafa komist að því að þessir „garðyrkjusnillingar“ haga vinnu sinni eftir því hversu mikinn mat maurabúið hefur þörf fyrir. *

9, 10. Hvernig getum við líkt eftir vinnusemi maursins?

9 Við getum lært margt af maurum. Þeir kenna okkur að við þurfum að leggja okkur fram ef við viljum skila góðum afrakstri. Í Biblíunni segir: „Farðu til maursins, letingi. Skoðaðu háttu hans og lærðu hyggindi. Þótt hann hafi engan höfðingja, engan yfirboðara eða valdsherra, þá aflar hann sér samt vista á sumrin og dregur saman fæðuna um uppskerutímann.“ (Orðskv. 6:6-8) Bæði Jehóva og Jesús, verkstjóri hans, eru vinnusamir. „Faðir minn starfar til þessarar stundar og ég starfa einnig,“ sagði Jesús. — Jóh. 5:17.

10 Við viljum líkja eftir Guði og Kristi og ættum þess vegna að vera vinnusöm. Við ættum öll að vera „síauðug í verki Drottins“ óháð því hvaða verkefni við höfum í söfnuðinum. (1. Kor. 15:58) Við skulum því fylgja hvatningu Páls til kristinna manna í Róm: „Verið ekki hálfvolg í áhuganum, verið brennandi í andanum. Þjónið Drottni.“ (Rómv. 12:11) Það sem við leggjum á okkur fyrir Jehóva er ekki til einskis því að í Biblíunni segir: „Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki ykkar og kærleikanum sem þið auðsýnduð honum.“ — Hebr. 6:10.

Verndum samband okkar við Guð

11. Hvað einkennir klettagreifingjann?

11 Klettagreifinginn er annað lítið dýr sem við getum dregið lærdóm af. (Lestu Orðskviðina 30:26.) * Hann minnir á stóra kanínu en er með stutt hringlaga eyru og stutta fætur. Þetta smávaxna dýr hefst við á grýttum svæðum. Klettagreifinginn nýtir sér vel góða sjón til að varast hættur, og gjótur og sprungur í klettóttum heimkynnum hans veita honum skjól fyrir rándýrum. Hann er skapaður þannig að honum vegnar vel í mjög samheldum hópum og það veitir honum vernd og auðveldar honum að halda á sér hita á veturna. *

12, 13. Hvað getum við lært af klettagreifingjanum?

12 Hvað getum við lært af klettagreifingjanum? Fyrst má nefna að þetta dýr gerir sig ekki berskjalda fyrir árásum. Það notar góða sjón sína til að koma auga á rándýr í fjarska og heldur sig nærri gjótum og sprungum sem geta veitt því öruggt skjól. Við þurfum sömuleiðis að hafa skýra andlega sjón svo að við getum verið á varðbergi gagnvart hættunum sem leynast í heimi Satans. Pétur postuli hvatti trúsystkini sín: „Verið algáð, vakið. Óvinur ykkar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim sem hann getur tortímt.“ (1. Pét. 5:8) Þegar Jesús var hér á jörð var hann stöðugt á verði gagnvart tilraunum Satans til að brjóta ráðvendni hans. (Matt. 4:1-11) Jesús var fylgjendum sínum góð fyrirmynd.

13 Við getum verið á verði með því að nýta okkur þá vernd sem Jehóva býður okkur. Við megum ekki vanrækja að sækja safnaðarsamkomur eða lesa í orði Guðs. (Lúk. 4:4; Hebr. 10:24, 25) Og líkt og klettagreifingjanum vegnar vel í samheldnum hópi verðum við að halda okkur nærri trúsystkinum okkar því að þannig getum við „uppörvast saman“. (Rómv. 1:12) Með því að nýta okkur vernd Jehóva sýnum við að við erum sammála Davíð sem orti: „Drottinn, bjarg mitt og vígi, frelsari minn, Guð minn, hellubjarg mitt, þar sem ég leita hælis.“ — Sálm. 18:3.

Verum þolgóð þrátt fyrir andstöðu

14. Hvað er athyglisvert við engisprettuþyrpingu, þótt ein engispretta sé kannski ekki tilkomumikil?

14 Við getum líka lært margt af engisprettunni. Hún er ekki nema um fimm sentímetrar að lengd og er ef til vill ekki tilkomumikil ein og sér en öðru máli gegnir um stóra engisprettuþyrpingu. (Lestu Orðskviðina 30:27.) Engisprettur eru þekktar fyrir að hafa óseðjandi matarlyst og þegar þær safnast saman í stórum hópi geta þær á örskömmum tíma étið upp heilan akur sem er tilbúinn til uppskeru. Í Biblíunni er hljóðinu í skordýrasæg, þar með talið engisprettum, líkt við drunur í stríðsvögnum og snark í logandi hálmi. (Jóel 2:3, 5) Menn hafa kveikt bál til að bægja engisprettuþyrpingum frá ökrum sínum en það hefur sjaldnast skilað tilætluðum árangri. Af hverju? Engispretturnar, sem verða eldinum að bráð, slökkva bálið og þá geta þær sem eftir eru haldið áfram óhindrað. Þó að engispretturnar eigi sér engan leiðtoga eða fyrirliða starfa þær eins og skilvirkur her og geta nánast sigrast á hvaða hindrun sem er. * — Jóel 2:25.

15, 16. Hvernig eru nútímaþjónar Guðs eins og engisprettuþyrping?

15 Jóel spámaður líkti þjónum Jehóva við engisprettuher. Hann skrifaði: „Þeir þjóta fram sem stríðsgarpar, klífa borgarmúra sem hermenn. Hver heldur eigin stefnu, enginn villist í annars braut. Enginn hamlar öðrum, hver stefnir eigin leið. Þótt kastvopnum sé beitt gegn þeim bíða þeir ekkert tjón.“ — Jóel 2:7, 8.

16 Þessi spádómur lýsir vel nútímaþjónum Guðsríkis. Þeir láta ekki „borgarmúra“ stoppa sig og boða fagnaðarerindið þótt þeir verði fyrir andstöðu. Þeir líkja eftir Jesú sem hélt áfram að gera vilja Guðs þó að margir hafi fyrirlitið hann. (Jes. 53:3) Að vísu hafa einhverjir þjónar Guðs verið teknir af lífi vegna trúar sinnar og fallið fyrir „kastvopnum“. En boðunarstarfið heldur samt áfram og boðberum Guðsríkis fjölgar stöðugt. Ofsóknir hafa reyndar oft orðið til þess að fagnaðarerindið hefur borist til fólks sem annars hefði ekki fengið að heyra boðskapinn. (Post. 8:1, 4) Hefurðu sýnt sama þolgæði og engisprettan — líka þegar þú verður fyrir sinnuleysi eða andstöðu í boðunarstarfinu? — Hebr. 10:39.

„Haldið fast við hið góða“

17. Af hverju loða fætur gekkósins við slétta fleti?

17 Gekkóinn er smávaxin eðla sem virðist storka þyngdarlögmálinu. (Lestu Orðskviðina 30:28. *) Vísindamenn dást að því hvernig gekkóinn getur þotið upp og niður veggi og jafnvel hlaupið eftir sléttu lofti án þess að detta. Hvernig fer eðlan að þessu? Leyndarmálið felst ekki í sogskálum eða einhvers konar lími. Á hverri tá gekkósins eru gárur sem á eru þúsundir af hárlaga totum. Á hverri totu eru hundruð þráða með spaðalaga oddum. Sameindakraftarnir, sem þessir þræðir mynda, nægja til að vega upp á móti þyngd eðlunnar, jafnvel svo að hún getur skotist upp og niður glerrúðu. Vísindamenn hafa mikinn áhuga á þessari hæfni gekkósins. Takist þeim að búa til efni, sem líkir eftir fótum eðlunnar, væri hægt að nota það í öflugt lím. *

18. Hvernig getum við „haldið fast við hið góða“?

18 Hvað getum við lært af gekkónum? Í Biblíunni erum við hvött til að ‚halda fast við hið góða‘. (Rómv. 12:9) Óheilnæm áhrif frá heimi Satans gætu fengið okkur til að sleppa takinu á meginreglum Jehóva. Ef við til dæmis sækjum í félagsskap við fólk sem fylgir ekki lögum Guðs — hvort sem það er í skólanum eða vinnunni eða með því að sækja í óviðeigandi afþreyingu af einhverju tagi — gæti það dregið úr vilja okkur til að gera það sem er rétt. Láttu það ekki henda þig. Í orði Guðs fáum við þessa aðvörun: „Þú skalt ekki þykjast vitur.“ (Orðskv. 3:7) Fylgdu heldur viturlegum ráðum Móse til Ísraelsmanna: „Drottin Guð þinn skalt þú óttast, hann skalt þú dýrka, við hann skalt þú halda þér fast.“ (5. Mós. 10:20, Biblían 1981) Við líkjum eftir Jesú ef við höldum okkur fast við Jehóva, en sagt var um Jesú: „Þú hefur elskað réttlæti og hatað ranglæti.“ — Hebr. 1:9.

Drögum lærdóm af sköpunarverkinu

19. (a) Hvaða eiginleika Jehóva sérð þú í sköpunarverkinu? (b) Hvernig njótum við góðs af visku Guðs?

19 Eins og við höfum komist að getum við séð eiginleika Jehóva í sköpunarverkinu og auk þess lært margt af því sem hann hefur skapað. Því meir sem við kynnum okkur verk Jehóva þeim mun meir dáumst við að visku hans. Ef við höldum áfram að hlýða á þessa visku Guðs finnum við fyrir meiri hamingju núna og fáum vernd í framtíðinni. (Préd. 7:12) Við fáum að kynnast af eigin raun því sem stendur í Orðskviðunum 3:13, 18 þar sem segir: „Sæll er sá maður sem öðlast speki, sá sem hlýtur hyggindi. Hún er tré lífsins þeim sem höndla hana og sæll er hver sá er heldur fast í hana.“

[Neðanmáls]

^ gr. 6 Unga fólkið hefur ef til vill ánægju af því að fletta upp ítarefninu, sem vísað er í neðanmáls í þessari námsgrein og nota það síðan þegar það svarar í Varðturnsnáminu í söfnuðinum.

^ gr. 8 Nánari upplýsingar um skæramaurinn er að finna í Vaknið! (enskri útgáfu) 22. mars 1997, bls. 31 og 22. maí 2002, bls. 31.

^ gr. 11 Í íslensku biblíunni er hann kallaður stökkhéri.

^ gr. 11 Nánari upplýsingar um klettagreifingjann er að finna í Vaknið! (enskri útgáfu) 8. september 1990, bls. 15-16.

^ gr. 14 Nánari upplýsingar um engisprettuna er að finna í Vaknið! (enskri útgáfu) 22. október 1976, bls. 11.

^ gr. 17 Orðskv. 30:28 (NW): „Gekkóinn grípur með höndum sínum og hann er í fínustu konungshöllum.“

^ gr. 17 Nánari upplýsingar um gekkóinn er að finna í Vaknið! júlí-september 2008, bls. 30.

Manstu?

Hvaða lærdóm getum við dregið af . . .

• maurnum?

• klettagreifingjanum?

• engisprettunni?

• gekkónum?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 16]

Ertu vinnusamur eins og skæramaurinn?

[Myndir á blaðsíðu 17]

Klettagreifinginn leitar sér verndar innan samheldins hóps. Gerir þú það líka?

[Myndir á blaðsíðu 18]

Þjónar Guðs sýna þolgæði líkt og engisprettur.

[Mynd á blaðsíðu 18]

Líkt og gekkóinn, sem loðir fast við slétta fleti, halda kristnir menn fast við hið góða.

[Credit line]

Stockbyte/Getty Images