Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Keppum . . . eftir því sem til friðar heyrir“

„Keppum . . . eftir því sem til friðar heyrir“

„Keppum . . . eftir því sem til friðar heyrir“

NÝMALBIKAÐUR vegur virðist traustur og varanlegur. Með tímanum geta samt myndast sprungur og holur í malbikinu. Til að halda veginum við og tryggja öryggi vegfarenda er því nauðsynlegt að gera við skemmdirnar.

Samskipti okkar við aðra geta líka stundum orðið stirð og erfið á köflum. Páll postuli viðurkenndi að ágreiningur hefði verið hjá kristnum mönnum í Róm. Hann ráðlagði trúsystkinum sínum: „Keppum þess vegna eftir því sem til friðar heyrir og eflir samfélagið.“ (Rómv. 14:13, 19) Af hverju er mikilvægt að ‚keppa eftir því sem til friðar heyrir‘? Hvernig getum við sýnt það hugrekki að vinna að friði í söfnuðinum?

Af hverju eigum við að keppa eftir friði?

Ef ekki er gert við litlar sprungur í malbikinu geta þær stækkað og orðið að hættulegum holum. Það getur líka verið hættulegt að gera ekkert til að leysa ágreining. Jóhannes postuli skrifaði: „Ef einhver segir: ‚Ég elska Guð,‘ en hatar trúsystkin sín er sá lygari. Því að sá sem elskar ekki bróður sinn eða systur, sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð sem hann hefur ekki séð.“ (1. Jóh. 4:20) Óleyst ágreiningsmál gætu á endanum fengið kristinn mann til að hata bróður sinn.

Jesús Kristur benti á að Jehóva hefði ekki velþóknun á tilbeiðslu okkar nema við sættumst við aðra. Jesús sagði lærisveinunum: „Sértu því að færa fórn þína á altarið og minnist þess þar að bróðir þinn hefur eitthvað á móti þér þá skaltu skilja gjöf þína eftir fyrir framan altarið, fara fyrst og sættast við bróður þinn, koma síðan og færa fórn þína.“ (Matt. 5:23, 24) Já, helsta ástæðan fyrir því að við viljum keppa eftir friði er sú að við viljum þóknast Jehóva Guði. *

Það er önnur ástæða fyrir því að við ættum að keppa eftir friði. Í söfnuðinum í Filippí kom upp ágreiningur milli tveggja systra, þeirra Evódíu og Sýntýke, sem virðist hafa stofnað friði alls safnaðarins í hættu. (Fil. 4:2, 3) Óleystur ágreiningur getur á skömmum tíma kvisast út. Við viljum viðhalda kærleikanum og einingunni innan safnaðarins og keppum því eftir friði við trúsystkini okkar.

„Sælir eru friðflytjendur,“ sagði Jesús. (Matt. 5:9) Það veitir okkur gleði og ánægju að keppa eftir friði. Auk þess stuðlar friður að góðri heilsu því að „hugarró er líkamanum líf“. (Orðskv. 14:30) Á hinn bóginn getur það verið heilsuspillandi að ala með sér gremju og reiði.

Þótt flestir kristnir menn séu sammála því að það sé nauðsynlegt að keppa eftir friði, getur það samt vafist fyrir manni hvernig á að leysa úr ágreiningi. Skoðum nú nokkrar meginreglur Biblíunnar sem geta hjálpað okkur.

Ræddu málin af ró og stillingu

Oft er hægt að laga litlar sprungur í malbiki með því að leggja nýtt lag yfir þær. Gætum við fyrirgefið og breitt yfir minni háttar mistök trúsystkina okkar? Þessi leið virkar líklega á flest ágreiningsmál því að „kærleikur hylur fjölda synda“ eins og Pétur postuli skrifaði. — 1. Pét. 4:8.

En stundum virðist vandamálið það alvarlegt að við getum ekki bara leitt það hjá okkur. Skoðum hvað gerðist hjá Ísraelsmönnum skömmu eftir að þeir settust að í fyrirheitna landinu. Áður en „niðjar Rúbens og Gaðs og hálfur ættbálkur Manasse“ fóru yfir Jórdan „reistu þeir þar altari . . . [og] var það mikið altari á að líta“. Hinir ættbálkarnir héldu að altarið væri notað til falsguðadýrkunar og gátu ekki bara látið eins og ekkert væri. Þeir kölluðu saman her til að ráðast gegn þeim. — Jós. 22:9-12.

Sumum fannst ef til vill að nægar sannanir væru fyrir því að brot hefði verið framið og að skyndiárás myndi valda minnstu mannfalli hjá þeim. En í stað þess að rjúka af stað sendu ættbálkarnir vestan megin við Jórdan fulltrúa sína til að ræða vandamálið við bræður sína austan megin við Jórdan. Þeir sögðu: „Hvílík svik eru þetta? Í dag hafið þið brugðist Guði Ísraels með því að snúa baki við Drottni.“ Þeir sem höfðu reist altarið höfðu hins vegar ekki reynst ótrúir. Hvernig brugðust þeir við þessum ásökunum? Helltu þeir sér yfir ákærendur sína eða neituðu að tala við þá? Nei, þeir sýndu stillingu og útskýrðu að þeir hefðu reist altarið af löngun til að þjóna Jehóva. Með viðbrögðum sínum varðveittu þeir sambandið við Guð og björguðu mannslífum. Með því að ræða saman af ró og stillingu var hægt að útkljá málið og viðhalda friði. — Jós. 22:13-34.

Hinir ættbálkarnir sýndu visku með því að fara fyrst og ræða vandamálið við niðja Rúbens og Gaðs og hálfan ættbálk Manasse áður en þeir gripu til harðra aðgerða. „Vertu ekki auðreittur til reiði,“ segir í orði Guðs, „því að gremja hvílir í brjósti heimskra manna.“ (Préd. 7:9) Samkvæmt Biblíunni eigum við að leysa alvarlegan ágreining með því að ræða málin yfirvegað og af hreinskilni. Við getum ekki búist við blessun Jehóva ef við ölum með okkur gremju og gerum ekkert til að tala við þann sem okkur finnst hafa gert eitthvað á hlut okkar.

En hvað ef trúsystkini er ósátt við okkur og kemur jafnvel með rangar ásakanir á hendur okkur? „Mildilegt svar stöðvar bræði en fúkyrði vekja reiði,“ segir í Biblíunni. (Orðskv. 15:1) Ísraelsku ættbálkarnir, sem höfðu reist altarið, útskýrðu afstöðu sína skýrt en mildilega og drógu þannig úr hitanum sem var eflaust í mönnum. Hvort sem við eigum frumkvæðið að því að tala við trúsystkini okkar um eitthvert ósætti eða það nálgast okkur ættum við að spyrja okkur: Hvaða orð, raddblær og svipbrigði eru líklegust til að stuðla að friði?

Notaðu tunguna viturlega

Jehóva skilur að við höfum þörf fyrir að tjá öðrum áhyggjur okkar. En ef við leysum ekki persónulegan ágreining gætum við freistast til að ræða við einhvern annan um málið en þann sem það snertir. Það er auðvelt að gagnrýna einhvern sem við erum gröm út í. Í Orðskviðunum 11:11 segir um ranga notkun tungunnar: „Orð ranglátra steypa [borginni].“ Við getum sömuleiðis truflað frið heils safnaðar með því að tala óvarlega um trúsystkini.

En þótt við keppum eftir friði þýðir það samt ekki að við megum alls ekki tala um bræður okkar og systur. Páll postuli gaf trúsystkinum sínum þetta ráð: „Látið ekkert fúkyrði líða ykkur af munni heldur það eitt sem er gott til uppbyggingar . . . til þess að það verði til góðs þeim sem heyra . . .Verið góðviljuð hvert við annað, miskunnsöm, fús til að fyrirgefa hvert öðru.“ (Ef. 4:29-32) Segjum að bróðir, sem hefur móðgast vegna orða þinna eða hegðunar, komi að máli við þig. Væri ekki auðveldara að biðjast afsökunar og semja frið við hann ef hann hefði áður talað jákvætt um þig við aðra? Við getum verið viss um að ef við venjum okkur á að vera uppbyggileg þegar við tölum um trúsystkini eigum við auðveldara með að koma á friði þegar upp kemur ágreiningur. — Lúk. 6:31.

Þjónum Guði einhuga

Við ófullkomnir menn höfum ríka tilhneigingu til að halda okkur í vissri fjarlægð frá þeim sem hefur móðgað okkur. En það er óviturlegt. Við erum sameinaður hópur sem ákallar nafn Jehóva og við erum ákveðin í að þjóna honum einhuga. — Sef. 3:9.

Óviðeigandi tal eða hegðun annarra ætti aldrei að draga úr brennandi áhuga okkar á sannri tilbeiðslu. Nokkrum dögum áður en fórn Jesú kom í stað fórna Ísraelsmanna í musterinu og stuttu eftir að hann hafði ávítað fræðimennina harkalega, tók hann eftir að fátæk ekkja gaf „alla björg sína“ í musterissjóðinn. Reyndi Jesús að stöðva hana? Nei, þvert á móti talaði hann vel um hollustu hennar og stuðning við söfnuð Jehóva á þeim tíma. (Lúk. 21:1-4) Röng breytni annarra leysti hana ekki undan þeirri skyldu að styðja tilbeiðsluna á Jehóva.

Hvað gerum við ef okkur finnst að hegðun bróður okkar eða systur hafi verið óviðeigandi eða jafnvel röng? Látum við það hafa áhrif á heilshugar þjónustu okkar við Jehóva? Eða reynum við hugrökk að leysa hvers kyns ágreining til að viðhalda dýrmætum friði safnaðar Guðs?

„Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á ykkar valdi,“ er okkur ráðlagt í Biblíunni. (Rómv. 12:18) Við skulum einsetja okkur að gera það og halda okkur þannig á veginum sem liggur til lífsins.

[Neðanmáls]

^ gr. 6 Í Varðturninum 1. desember 1999, bls. 14-19, er fjallað nánar um leiðbeiningarnar sem Jesús gaf í Matteusi 18:15-17.

[Mynd á blaðsíðu 17]

Evódía og Sýntýke þurftu að keppa eftir friði.

[Mynd á blaðsíðu 18]

Hvaða orð, raddblær og svipbrigði eru líklegust til að stuðla að friði?