Jehóva er frelsari okkar
Jehóva er frelsari okkar
„Drottinn liðsinnir þeim og bjargar.“ — SÁLM. 37:40.
1, 2. Hvaða grundvallarsannindi um Jehóva eru ákaflega styrkjandi og traustvekjandi?
SKUGGARNIR, sem sólin myndar, standa ekki kyrrir heldur breytast í sífellu eftir því sem jörðin snýst um möndul sinn. Skapari jarðar og sólar breytist hins vegar ekki. (Mal. 3:6) „Hjá honum er engin umbreyting né flöktandi skuggar,“ segir í Biblíunni. (Jak. 1:17) Þessi grundvallarsannindi um Jehóva eru ákaflega styrkjandi og traustvekjandi, sérstaklega þegar við verðum fyrir erfiðum prófraunum. Af hverju?
2 Eins og við sáum í námsgreininni á undan reyndist Jehóva frelsari á biblíutímanum. (Sálm. 70:6) Hann breytist ekki og stendur alltaf við orð sín. Þess vegna geta þjónar hans nú á dögum treyst því fullkomlega að hann ‚liðsinni þeim, bjargi og frelsi‘. (Sálm. 37:40) Hvernig hefur Jehóva frelsað þjóna sína nú á tímum? Hvernig getur hann frelsað okkur hvert og eitt?
Frelsar okkur undan andstæðingum
3. Af hverju getum við verið fullviss um að andstæðingum muni ekki takast að stöðva prédikun fagnaðarerindisins?
3 Hversu hart sem Satan berst gegn vottum Jehóva kemur það aldrei í veg fyrir að þeir veiti Jehóva þá tilbeiðslu sem honum einum ber. Í orði Guðs er að finna eftirfarandi loforð: „Ekkert vopn, sem smíðað verður gegn þér, skal reynast sigursælt og sérhverja tungu, sem mælir gegn þér, Jes. 54:17) Andstæðingar hafa reynt án árangurs að koma í veg fyrir að þjónar Guðs sinni boðunarstarfinu sem þeim hefur verið falið. Skoðum tvö dæmi.
skaltu dæma seka.“ (4, 5. Hvaða andstöðu mættu þjónar Jehóva árið 1918 og hvernig fór?
4 Árið 1918 varð fólk Jehóva fyrir miklum ofsóknum að undirlagi presta sem vildu stöðva boðunarstarfið. Hinn 7. maí gáfu bandarísk yfirvöld út handtökuskipun á hendur J. F. Rutherford, sem hafði á þeim tíma umsjón með boðunarstarfinu um allan heim, og á hendur nokkrum til viðbótar sem störfuðu á aðalstöðvunum. Innan tveggja mánaða voru bróðir Rutherford og félagar hans ranglega fundnir sekir um samsæri og dæmdir til langrar fangavistar. Hafði andstæðingum þá tekist að nota dómstóla til að stöðva boðunarstarfið til frambúðar? Að sjálfsögðu ekki.
5 Munum eftir loforði Jehóva: „Ekkert vopn, sem smíðað verður gegn þér, skal reynast sigursælt.“ Hinn 26. mars 1919 — níu mánuðum eftir að bróðir Rutherford og félagar hans hlutu dóm — var þeim skyndilega sleppt úr haldi gegn tryggingu. Árið eftir, 5. maí 1920, voru ákærurnar á hendur þeim felldar niður. Bræðurnir notuðu frelsi sitt vel og tóku að boða fagnaðarerindið af miklu kappi. Hver var árangurinn? Ótrúleg aukning hefur átt sér stað síðan þá. Allt er þetta Jehóva að þakka. — 1. Kor. 3:7.
6, 7. (a) Hvernig voru vottar Jehóva ofsóttir í Þýskalandi á dögum nasista og hvernig fór? (b) Um hvað vitnar nútímasaga Votta Jehóva?
6 Lítum nú á annað dæmi. Hitler strengdi þess heit árið 1934 að útrýma öllum vottum Jehóva í Þýskalandi. Þetta voru ekki orðin tóm. Margir voru handteknir og hnepptir í fangelsi í kjölfarið. Þúsundir votta voru ofsóttar og hundruð létu lífið í fangabúðum. Tókst Hitler að útrýma vottunum? Tókst honum að stöðva með öllu boðun fagnaðarerindisins í Þýskalandi? Nei, fjarri fer því. Á meðan ofsóknirnar stóðu yfir sinntu vottarnir boðunarstarfinu með leynd. Og eftir að ógnarstjórn nasista féll notuðu þeir frelsi sitt til að halda áfram að prédika. Núna eru meira en 165.000 boðberar fagnaðarerindisins í Þýskalandi. Enn og aftur stóð Jehóva við loforð sitt: „Ekkert vopn, sem smíðað verður gegn þér, skal reynast sigursælt.“
7 Nútímasaga Votta Jehóva sannar að Jehóva leyfir aldrei að þjónum sínum í heild sé útrýmt. (Sálm. 116:15) En hvað um okkur hvert og eitt? Hvernig frelsar Jehóva okkur sem einstaklinga?
Lofar Jehóva að vernda líf okkar og limi?
8, 9. (a) Hvernig vitum við að Jehóva hefur ekki lofað að vernda okkur alltaf sem einstaklinga? (b) Hverju verðum við að gera okkur grein fyrir?
8 Við vitum að Jehóva hefur ekki lofað að vernda okkur alltaf sem einstaklinga. Við tökum sömu afstöðu og trúföstu Hebrearnir þrír sem neituðu að falla fram fyrir gulllíkneski Nebúkadnesars konungs. Þessir guðhræddu ungu menn ætluðust ekki til þess að Jehóva verndaði þá með kraftaverki. (Lestu Daníel 3:17, 18.) Það fór hins vegar þannig að Jehóva frelsaði þá úr eldsofninum glóandi. (Dan. 3:21-27) En jafnvel á biblíutímanum var það undantekning frekar en regla að þjónar Jehóva væru frelsaðir fyrir kraftaverk. Margir trúfastir einstaklingar féllu fyrir hendi andstæðinga. — Hebr. 11:35-37.
9 Hver er staðan á okkar dögum? Jehóva er vissulega fær um að frelsa einstaklinga úr hættu. Getum við fullyrt að hann hafi eða hafi ekki skorist í leikinn í vissum tilfellum? Nei, en engu að síður getur sumum sem bjargast úr lífsháska fundist að Jehóva hafi gripið inn í. Það væri ekki rétt af okkur að mótmæla þeim. En við verðum líka að vera raunsæ og gera okkur grein fyrir því að margir trúfastir þjónar Guðs hafa dáið vegna ofsókna eins og gerðist á nasistatímanum. Aðrir hafa týnt lífi vegna hörmulegra atvika af einhverju tagi. (Préd. 9:11) Við gætum spurt: Reyndist Jehóva ekki frelsari dyggra þjóna sinna sem dóu um aldur fram? Það getur varla verið.
10, 11. Af hverju er maðurinn máttvana andspænis dauðanum en hvað getur Jehóva gert?
10 Lítum nánar á málið: Maðurinn er máttvana andspænis dauðanum því að enginn „heimtir líf sitt úr greipum Heljar“, það er að segja úr sameiginlegri gröf mannkyns. (Sálm. 89:49) En hvað um Jehóva? Systir nokkur, sem lifði ógnarstjórn nasista, missti ástvini í fangabúðunum. Hún minnist þess hvernig móðir hennar, sem var vottur, hughreysti hana með orðunum: „Væri dauðinn ekki orðinn Guði yfirsterkari ef hann héldi fólki varanlega í greipum sér?“ Ekki er dauðinn voldugri en almáttug uppspretta lífsins! (Sálm. 36:10) Jehóva geymir í minni sér alla sem hvíla í helju og hann mun frelsa þá hvern og einn einasta. — Lúk. 20:37, 38; Opinb. 20:11-14.
11 Hins vegar hefur Jehóva bein áhrif á líf trúfastra þjóna sinna nú á dögum. Við skulum núna skoða hvernig hann frelsar okkur með þrennum hætti.
Andleg vernd
12, 13. Af hverju er andleg vernd mikilvægasta vernd sem hægt er að fá og hvernig veitir Jehóva okkur hana?
12 Jehóva veitir okkur andlega vernd og það er mikilvægasta vernd sem hægt er að fá. Sannkristnir menn skilja að hið núverandi líf er ekki það verðmætasta sem til er. Einkasamband okkar við Jehóva er það dýrmætasta sem við eigum. (Sálm. 25:14; 63:4) Án þess hefði núverandi líf okkar lítinn tilgang og við ættum enga framtíðarvon.
13 Sem betur fer veitir Jehóva okkur allt sem við þurfum til að eiga náið samband við sig. Við höfum orð hans, heilagan anda og söfnuð hans um allan heim. Hvernig getum við nýtt okkur þessar ráðstafanir sem best? Við styrkjum trú okkar og von með því að vera iðin við biblíunám. (Rómv. 15:4) Við fáum hjálp til að standast freistinguna að gera eitthvað rangt með því að biðja einlæglega um anda Guðs. (Lúk. 11:13) Og við fáum andlegan „mat á réttum tíma“ með því að fylgja þeirri leiðsögn sem þjónshópurinn veitir í biblíutengdum ritum og á samkomum og mótum. (Matt. 24:45) Allt þetta er okkur til verndar og hjálpar okkur að eiga náið samband við Guð. — Jak. 4:8.
14. Endursegðu frásögu sem lýsir andlegu verndinni sem Jehóva veitir.
14 Lítum á dæmi um andlegu verndina sem Jehóva veitir. Í námsgreininni á undan var minnst á foreldra sem fengu þau tíðindi að Theresa, dóttir þeirra, væri horfin. Nokkrum dögum síðar bárust þær sorgarfréttir að hún hafði verið myrt. * Faðir hennar segir: „Ég hafði beðið Jehóva að vernda hana. Þegar í ljós kom að hún hafði verið myrt verð ég að viðurkenna að í fyrstu velti ég fyrir mér hvers vegna ég hefði ekki verið bænheyrður. Að sjálfsögðu veit ég að Jehóva hefur ekki lofað að vernda okkur hvert og eitt fyrir kraftaverk. Ég hélt áfram að biðja Jehóva að veita mér skilning. Ég hef fundið huggun í þeirri vitneskju að Jehóva verndar þjóna sína andlega — hann veitir okkur það sem við þurfum til að eiga náið samband við sig. Þetta er mikilvægasta vernd sem til er því að hún getur haft áhrif á eilífa framtíð okkar. Í þessum skilningi verndaði Jehóva Theresu því að hún þjónaði honum trúfastlega til dauðadags. Það hefur veitt mér hugarró að hugsa til þess að framtíð hennar er í kærleiksríkum höndum hans.“
Styrkir okkur í veikindum
15. Hvernig getur Jehóva hjálpað okkur þegar við erum alvarlega veik?
15 Jehóva getur stutt okkur „á sóttarsæng“ eins og hann studdi Davíð. (Sálm. 41:4) Þótt Jehóva frelsi okkur ekki með kraftaverkalækningum hjálpar hann okkur samt sem áður. Hvernig? Meginreglurnar í orði hans geta auðveldað okkur að taka viturlegar ákvarðanir um læknismeðferð og önnur mál. (Orðskv. 2:6) Við getum fundið upplýsingar og gagnlegar ráðleggingar í greinum í Varðturninum og Vaknið! sem fjalla um þann sjúkdóm sem við eigum við að stríða. Jehóva getur notað anda sinn til að veita okkur kraft til að halda út og varðveita ráðvendni okkar hvað sem á dynur. (2. Kor. 4:7) Þetta getur komið í veg fyrir að við verðum svo upptekin af veikindunum að sambandið við Jehóva sitji á hakanum.
16. Hvernig hefur bróðir nokkur tekist á við alvarlegan sjúkdóm?
16 Snúum okkur aftur að unga bróðurnum sem nefndur var í námsgreininni á undan. Árið 1998 greindist hann með blandaða hreyfitaugalömun (ALS) sem olli því að lokum að hann varð algerlega lamaður. * Hvernig hefur hann tekist á við sjúkdóminn? Hann segir: „Stundum hef ég verið svo kvalinn og niðurdreginn að mér hefur fundist dauðinn vera eina undankomuleiðin. Þegar mér líður svona illa bið ég Jehóva um þrennt — hugarró, þolinmæði og þolgæði. Mér finnst Jehóva hafa bænheyrt mig. Þegar ég hef hugarró næ ég að hugsa um uppörvandi hluti eins og lífið í nýja heiminum og hvernig það verður að geta gengið á ný, notið góðs matar og talað við fjölskylduna. Þolinmæði gerir mér kleift að umbera óþægindin og erfiðleikana sem fylgja lömuninni. Þolgæði hjálpar mér að vera trúfastur og gæta þess að ekkert verði mikilvægara en sambandið við Jehóva. Ég get sannarlega tekið undir orð sálmaritarans Davíðs því að mér finnst Jehóva hafa stutt mig á sóttarsænginni.“ — Jes. 35:5, 6.
Sér okkur fyrir nauðsynjum
17. Hverju hefur Jehóva lofað okkur og hvað þýðir það?
17 Jehóva lofar að annast efnislegar þarfir okkar. (Lestu Matteus 6:33, 34 og Hebreabréfið 13:5, 6.) Það þýðir ekki að við megum vera kærulaus eða neita að vinna fyrir okkur. (2. Þess. 3:10) Þetta loforð þýðir hins vegar að ef við látum Guðsríki hafa forgang í lífi okkar og erum fús til að vinna fyrir okkur getum við treyst því að Jehóva hjálpi okkur að afla nauðsynja. (1. Þess. 4:11, 12; 1. Tím. 5:8) Hann getur veitt okkur það sem við þurfum með öðrum hætti en við búumst við, ef til vill þannig að trúsystkini hjálpar okkur eða býður okkur vinnu.
18. Endursegðu frásögu sem sýnir að Jehóva getur séð okkur fyrir nauðsynjum á neyðarstund.
18 Manstu eftir einstæðu móðurinni sem nefnd var í námsgreininni á undan? Þegar hún og ung dóttir hennar fluttu á nýtt svæði átti hún erfitt með að fá vinnu. Hún segir: „Ég fór í starfið á morgnana og notaði öll síðdegi til að leita að vinnu. Ég man einu sinni eftir að hafa farið í búðina til að kaupa mjólk. Ég stóð og horfði á grænmetið en átti ekki næga peninga til að kaupa neitt. Ég hef aldrei verið jafn niðurdregin á ævinni. Þegar ég kom heim úr búðinni þann dag var fullt af pokum með alls konar grænmeti á pallinum bak við húsið. Þetta var nægur matur til að halda okkur uppi mánuðum saman. Ég grét og þakkaði Jehóva.“ Systirin komst fljótt að því að bróðir í söfnuðinum hafði komið með grænmetið en hann ræktaði það í garðinum sínum. Síðar skrifaði hún honum: „Þótt ég hafi þakkað þér innilega þennan dag þakkaði ég Jehóva líka fyrir að nota góðvild þína til að minna mig á kærleika sinn.“ — Orðskv. 19:17.
19. Hverju geta þjónar Jehóva treyst í þrengingunni miklu og hvað ættum við að vera staðráðin í að gera núna?
19 Það sem Jehóva hefur gert á biblíutímanum og á okkar dögum veitir okkur ástæðu til að treysta á hjálp hans. Þegar þrengingin mikla skellur á heim Satans innan tíðar þurfum við meira en nokkru sinni fyrr á hjálp Jehóva að halda. En þjónar hans geta treyst honum í hvívetna. Þeir geta borið höfuðið hátt og fagnað því að þeir vita að lausn þeirra er í nánd. (Lúk. 21:28) En þangað til skulum við vera staðráðin í að treysta á Jehóva sama hvaða erfiðleikum við mætum. Við vitum fyrir víst að hann breytist ekki og hann er sannarlega frelsari okkar.
[Neðanmáls]
^ gr. 14 Sjá greinina „Coping With an Unspeakable Tragedy“ í Vaknið! (á ensku) 22. júlí 2001, bls. 19-23.
^ gr. 16 Sjá greinina „Sustained by My Faith — Living With ALS“ í Vaknið! (á ensku) í janúar 2006, bls. 25-29.
Manstu?
• Hvernig reynist Jehóva frelsari þeirra sem deyja um aldur fram?
• Af hverju er andleg vernd mikilvægasta vernd sem hægt er að fá?
• Hvað merkir loforð Jehóva um að annast efnislegar þarfir okkar?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 8]
Bróðir Rutherford og félagar hans voru handteknir árið 1918 en síðar leystir úr haldi og ákærurnar á hendur þeim felldar niður.
[Mynd á blaðsíðu 10]
Jehóva getur stutt okkur „á sóttarsæng“.