Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva kunngerir „endalokin frá öndverðu“

Jehóva kunngerir „endalokin frá öndverðu“

Jehóva kunngerir „endalokin frá öndverðu“

„Ég kunngjörði endalokin frá öndverðu og sagði fyrir fram það, sem eigi var enn fram komið.“ — JESAJA 46:10.

1, 2. Hvað er athyglisvert í sambandi við fall Babýlonar og hvað segir það um Jehóva?

Í SKJÓLI náttmyrkurs laumast hermenn eftir farvegi Efrat í átt til hinnar voldugu Babýlonar. Þegar þeir nálgast gríðarstór borgarhliðin blasir við þeim óvenjuleg sjón. Hliðin standa galopin! Þeir klifra upp úr árfarveginum, hraða sér inn í borgina og taka hana á augabragði. Kýrus, sem fer fyrir hernum, tekur þegar í stað við völdum í hinu sigraða landi og gefur síðar út tilskipun þess efnis að Ísraelsmenn, sem eru þar í útlegð, séu frjálsir. Þúsundir útlaga halda heimleiðis til að endurreisa tilbeiðsluna á Jehóva í Jerúsalem. — 2. Kroníkubók 36:22, 23; Esrabók 1:1-4.

2 Sagnfræðingar hafa staðfest þessa atburðarás sem átti sér stað á árunum 539 til 537 f.Kr. Hið athyglisverða er að þetta var vitað um 200 árum áður. Jehóva innblés Jesaja, spámanni sínum, að lýsa falli Babýlonar þetta löngu fyrir fram. (Jesaja 44:24–45:7) Guð opinberaði ekki aðeins með hvaða hætti Babýlon myndi falla heldur einnig nafn hins sigursæla leiðtoga. * Jehóva sagði Ísraelsmönnum sem voru vottar hans á þeim tíma: „Minnist þess hins fyrra frá upphafi, að ég er Guð og enginn annar, hinn sanni Guð og enginn minn líki. Ég kunngjörði endalokin frá öndverðu og sagði fyrir fram það, sem eigi var enn fram komið.“ (Jesaja 46:9, 10a) Jehóva Guð er sannarlega fær um að vita fyrir fram hvað gerast mun.

3. Við hvaða spurningum ætlum við að leita svara?

3 Í hvaða mæli þekkir Jehóva framtíðina? Veit hann hvað við eigum eftir að gera, hvert og eitt? Er framtíð okkar fyrir fram ákveðin? Við skulum kanna svör Biblíunnar við þessum spurningum og fleirum í þessari grein og þeirri næstu.

Jehóva er spádómsguð

4. Hvaðan eru spádómar Biblíunnar komnir?

4 Jehóva getur séð framtíðina fyrir og innblés spámönnum sínum á biblíutímanum að skrásetja fjölda spádóma þannig að við getum vitað fyrir hvað hann ætlar að gera. „Hinir fyrri hlutir eru fram komnir, en nú boða ég nýja hluti og læt yður heyra þá áður en fyrir þeim vottar,“ lýsir hann yfir. (Jesaja 42:9) Það má með sanni segja að Jehóva heiðrar þjóna sína.

5. Hvaða ábyrgð fylgir því að vita hvað Jehóva ætlar að gera?

5 Amos spámaður segir: „Drottinn Guð gjörir ekkert án þess að hann hafi opinberað þjónum sínum, spámönnunum, ráðsályktun sína.“ Það fylgdi því ábyrgð að vita ókomna atburði. Taktu eftir hinni kröftugu líkingu sem Amos bregður síðan upp: „Hafi ljónið öskrað, hver skyldi þá ekki óttast?“ Bæði menn og dýr bregðast tafarlaust við þegar ljón öskrar í grenndinni. Amos flutti yfirlýsingar Jehóva sömuleiðis þegar í stað. „Hafi Drottinn Guð talað, hver skyldi þá ekki spá?“ — Amos 3:7, 8.

Jehóva ‚kemur því til vegar‘ sem hann vill

6. Hvernig stóðst „ráðsályktun“ Jehóva í sambandi við fall Babýlonar?

6 Jehóva sagði fyrir munn Jesaja spámanns: „Mín ráðsályktun stendur stöðug, og allt, sem mér vel líkar, framkvæmi ég.“ (Jesaja 46:10b) „Ráðsályktun“ Jehóva, það er að segja vilji hans eða fyrirætlun með Babýlon, fólst í því að kalla Kýrus frá Persíu til að vinna Babýlon svo að hún félli. Jehóva lýsti yfir þessari fyrirætlun löngu fyrir fram. Eins og fram hefur komið varð hún að veruleika árið 539 f.Kr.

7. Af hverju getum við treyst að „orð“ Jehóva nái alltaf fram að ganga?

7 Næstum fjórum öldum áður en Kýrus vann Babýlon stóð Jósafat Júdakonungi ógn af sameinuðum herjum Ammoníta og Móabíta. Hann bað til Guðs með trúartrausti: „Drottinn, Guð feðra vorra! Þú ert Guð á himnum, þú drottnar yfir öllum ríkjum heiðingjanna. Í þinni hendi er máttur og megin, og fyrir þér fær enginn staðist.“ (2. Kroníkubók 20:6) Jesaja lét í ljós sams konar traust þegar hann sagði: „Drottinn allsherjar hefir ályktað þetta; hver má ónýta það? Það er hans hönd, sem út er rétt. Hver má kippa henni aftur?“ (Jesaja 14:27) Eftir að Nebúkadnesar, konungur Babýlonar, hafði misst vitið en náð sér aftur viðurkenndi hann auðmjúklega: „Enginn er sá, er fái [Guði] tálmun gjört og við hann sagt: ‚Hvað gjörir þú?‘“ (Daníel 4:35) Já, Jehóva lofar þjónum sínum: „Mitt orð . . . hverfur ekki aftur til mín við svo búið, eigi fyrr en það hefir framkvæmt það, sem mér vel líkar, og komið því til vegar, er ég fól því að framkvæma.“ (Jesaja 55:11) Við getum treyst fullkomlega að „orð“ Jehóva rætast alltaf. Fyrirætlun hans er óskeikul.

„Guðs eilífa fyrirætlun“

8. Hver er ‚eilíf fyrirætlun‘ Guðs?

8 Í bréfi sínu til kristinna manna í Efesus talaði Páll postuli um að Guð hefði „eilífa fyrirætlun“. (Efesusbréfið 3:11) Hér er ekki átt við lausleg áform, rétt eins og Guð þurfi að gera áætlun um það hvernig hann lætur vilja sinn ná fram að ganga. Átt er við þá ákvörðun hans að framkvæma það sem hann ætlaði sér í upphafi með mannkynið og jörðina. (1. Mósebók 1:28) Við skulum líta á fyrsta spádóm Biblíunnar til að glöggva okkur betur á því að fyrirætlun hans getur ekki annað en náð fram að ganga.

9. Hvernig tengist 1. Mósebók 3:15 fyrirætlun Guðs?

9 Fyrirheitið í 1. Mósebók 3:15 gefur til kynna að Jehóva hafi ákveðið, strax eftir að Adam og Eva syndguðu, að táknræn kona hans ætti að geta af sér „sæði“ eða son. Jehóva sá einnig fyrir afleiðingar fjandskaparins milli konu sinnar og Satans og milli sæðis eða afkvæma beggja. Jehóva myndi leyfa að sæði konunnar hlyti hælmar en í fyllingu tímans myndi það merja höfuð höggormsins, Satans djöfulsins. Fyrirætlun Jehóva miðaði örugglega fram uns Jesús, hinn fyrirheitni Messías, birtist í þeim ættlegg sem Jehóva hafði útvalið. — Lúkas 3:15, 23-38; Galatabréfið 4:4.

Það sem Jehóva ákveður fyrir fram

10. Ákvað Jehóva fyrir fram að Adam og Eva myndu syndga? Skýrðu svarið.

10 Pétur postuli skrifaði um hlutverk Jesú í fyrirætlun Guðs: „Hann [Jesús] var útvalinn, áður en veröldin var grundvölluð, en var opinberaður í lok tímanna vegna yðar.“ (1. Pétursbréf 1:20) Ákvað Jehóva fyrir fram að Adam og Eva myndu syndga og þörf yrði á lausnarfórninni sem Jesús Kristur færði? Nei, orðið „grundvölluð“ er þýðing á grísku orði sem merkir bókstaflega „að sá sæði“. Var búið að „sá sæði“ eða geta mennsk börn áður en Adam og Eva syndguðu? Nei, Adam og Eva eignuðust ekki börn fyrr en eftir að þau óhlýðnuðust. (1. Mósebók 4:1) Það var því eftir uppreisnina en áður en Adam og Eva eignuðust börn sem Jehóva ákvað í kærleika sínum að ‚sæðið‘ myndi koma fram. Með dauða og upprisu Jesú var séð fyrir lausnargjaldinu sem þurfti til þess að útrýma erfðasyndinni og öllu sem Satan hafði orðið valdur að. — Matteus 20:28; Hebreabréfið 2:14; 1. Jóhannesarbréf 3:8.

11. Hvað ákvað Guð fyrir fram sem tengdist því að fyrirætlun hans nái fram að ganga?

11 Guð ákvað annað fyrir fram sem tengdist því að fyrirætlun hans næði fram að ganga. Þetta má sjá af bréfi Páls til Efesusmanna þar sem hann segir að Guð ætlaði „að safna öllu því, sem er á himnum, og því, sem er á jörðu, undir eitt höfuð í Kristi“. Páll sagði síðan um það sem er „á himnum“, það er að segja þá sem eru útvaldir samerfingjar Krists: „Oss var fyrirhugað [að öðlast arfleifðina] samkvæmt fyrirætlun hans, er framkvæmir allt eftir ályktun vilja síns.“ (Efesusbréfið 1:10, 11) Já, Jehóva ákvað fyrir fram að takmarkaður fjöldi manna ætti að verða viðbótarsæði konunnar og vinna að því með Kristi að aðrir hefðu gagn af lausnarfórninni. (Rómverjabréfið 8:28-30) Pétur postuli kallar þá ‚heilaga þjóð‘. (1. Pétursbréf 2:9) Jóhannesi postula var opinberað í sýn hve samerfingjar Krists yrðu margir, það er að segja 144.000. (Opinberunarbókin 7:4-8; 14:1, 3) Í félagi við konunginn Krist eru þeir „dýrð [Guðs] til vegsemdar‘. — Efesusbréfið 1:12-14.

12. Hvernig vitum við að Jehóva útvaldi ekki fyrir fram ákveðna einstaklinga til að tilheyra hinum 144.000?

12 Þótt Jehóva hafi ákveðið að útvelja 144.000 manns merkir það ekki að ákveðnum einstaklingum hafi verið ætlað fyrir fram að þjóna honum með þessum hætti. Leiðbeiningar kristnu Grísku ritninganna voru fyrst og fremst skrifaðar til að styrkja hina andasmurðu svo að þeir gætu verið ráðvandir og reynst verðugir hinnar himnesku köllunar. (Filippíbréfið 2:12; 2. Þessaloníkubréf 1:5, 11; 2. Pétursbréf 1:10, 11) Jehóva veit fyrir að 144.000 einstaklingar verða hæfir til að þjóna tilgangi hans. Hverjir það verða fer hins vegar eftir því hvernig þeir sem kallaðir eru kjósa að lifa. Það þarf hver og einn að ákveða sjálfur. — Matteus 24:13.

Það sem Jehóva veit fyrir

13, 14. Hvernig beitir Jehóva þeim hæfileika að sjá fram í tímann og hvers vegna?

13 Nú er Jehóva spádómsguð og hefur ákveðna fyrirætlun. Hvernig beitir hann þá þeim hæfileika að sjá fram í tímann? Í fyrsta lagi getum við treyst að allir vegir Guðs eru sannir, réttlátir og kærleiksríkir. Páll staðfesti í bréfi til kristinna Hebrea á fyrstu öld okkar tímatals að fyrirheit Guðs og eiður væru ‚tvær óraskanlegar athafnir þar sem óhugsandi væri að hann færi með lygi‘. (Hebreabréfið 6:17, 18) Páll lét hið sama í ljós í bréfi til lærisveinsins Títusar þegar hann sagði að Guð gæti ekki logið. — Títusarbréfið 1:2.

14 Í öðru lagi er Jehóva aldrei ranglátur þó að máttur hans sé takmarkalaus. Móse sagði að Jehóva væri „trúfastur Guð og tállaus, réttlátur og réttvís“. (5. Mósebók 32:4) Allt sem Jehóva gerir samræmist framúrskarandi persónuleika hans. Höfuðeiginleikar hans, kærleikur, viska, réttlæti og máttur, eru í fullu innbyrðis samræmi eins og sjá má af öllu sem hann gerir.

15, 16. Hvaða valkosti lagði Jehóva fyrir Adam í Eden?

15 Lítum á hvernig allt þetta tengist atburðunum sem áttu sér stað í Eden. Eins og ástríkum föður sæmir gaf Jehóva mönnunum allt sem þeir þurftu. Hann gaf Adam hæfileika til að rökhugsa og álykta svo að hann gat valið og hafnað, ólíkt dýrunum sem láta að miklu leyti stjórnast af eðlisávísun. Eftir að Jehóva hafði lokið sköpunarverkinu gat hann horft frá himnesku hásæti sínu á „allt, sem hann hafði gjört, og sjá, það var harla gott“. — 1. Mósebók 1:26-31; 2. Pétursbréf 2:12.

16 Þegar Jehóva sagði Adam að hann mætti ekki borða af „skilningstrénu góðs og ills“ leiðbeindi hann Adam nægileg vel til að hann gæti ákveðið hvað hann gerði. Jehóva leyfði honum að borða „af öllum trjám í aldingarðinum“ nema einu og varaði við að það myndi kosta hann lífið ef hann borðaði ávöxt hins forboðna trés. (1. Mósebók 2:16, 17) Hann skýrði fyrir Adam að hann yrði að taka afleiðingum gerða sinna. Hvað myndi Adam gera?

17. Af hverju getum við sagt að Jehóva velji hvað hann vill vita fyrir?

17 Jehóva kaus greinilega að sjá ekki fyrir hvað Adam — og Eva — myndu gera, þó svo að hann geti séð alla hluti fyrir. Málið snýst ekki um það hvort Jehóva geti séð framtíðina fyrir heldur hvort hann kjósi að gera það. Og þar sem Jehóva er kærleiksríkur Guð stenst það varla að hann hafi sýnt þá grimmd að ákveða fyrir fram að mennirnir gerðu uppreisn, með öllum þeim hörmungum sem fylgdu því. (Matteus 7:11; 1. Jóhannesarbréf 4:8) Jehóva velur því hvað hann vill vita fyrir.

18. Af hverju er Jehóva í engu ábótavant þó að hann velji að vita ekki alla hluti fyrir?

18 Er Jehóva í einhverju ábótavant, er hann ófullkominn úr því að hann velur að vita ekki alla hluti fyrir? Nei, Móse kallaði Jehóva „bjargið“ og bætti við: „Fullkomin eru verk hans.“ Hinar hrikalegu afleiðingar af synd mannsins, sem við finnum öll fyrir, voru ekki honum að kenna heldur stafa þær af óhlýðni og ranglæti Adams. Páll postuli benti réttilega á að ‚syndin hafi komið inn í heiminn fyrir einn mann og dauðinn fyrir syndina, og þannig sé dauðinn runninn til allra manna af því að allir hafi syndgað‘. — 5. Mósebók 32:4, 5; Rómverjabréfið 5:12; Jeremía 10:23.

19. Um hvaða spurningar verður fjallað í næstu grein?

19 Af undangengu er ljóst að Jehóva er fullkomlega réttlátur. (Sálmur 33:5) Hann beitir hæfileikum sínum, siðferðilegum eiginleikum og lögum í samræmi við fyrirætlun sína. (Rómverjabréfið 8:28) Jehóva er spádómsguð sem „kunngjörði endalokin frá öndverðu og sagði fyrir fram það, sem eigi var enn fram komið“. (Jesaja 46:9, 10) Við höfum einnig séð að Jehóva velur sjálfur hvað hann vill vita fyrir. Hvernig snertir þetta okkur? Hvernig getum við tryggt að ákvarðanir okkar samræmist kærleiksríkri fyrirætlun Guðs? Og hvaða blessun hefur það í för með sér? Um það er fjallað í næstu grein.

[Neðanmáls]

^ gr. 2 Sjá bæklinginn Bók fyrir alla menn, bls. 28, gefinn út af Vottum Jehóva.

Geturðu svarað?

• Hvaða dæmi úr fortíðinni sýna að „orð“ Jehóva ná alltaf fram að ganga?

• Hvað hefur Jehóva ákveðið í sambandi við „eilífa fyrirætlun“ sína?

• Hvernig beitir Jehóva þeim hæfileika að sjá fram í tímann?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 14]

Jósafat treysti Jehóva.

[Mynd á blaðsíðu 15]

Guð sagði fyrir dauða og upprisu Jesú.

[Mynd á blaðsíðu 16]

Ákvað Jehóva fyrir fram hvað Adam og Eva myndu gera?