Höfuðþættir 4. Mósebókar
Orð Jehóva er lifandi
Höfuðþættir 4. Mósebókar
ÞJÓÐSKIPULAGI er komið á hjá Ísraelsmönnum eftir burtförina úr Egyptalandi. Þeir hefðu getað gengið inn í fyrirheitna landið skömmu síðar. En það fór á annan veg því að þeir þurftu að flakka um „eyðimörkina miklu og hræðilegu“ í um það bil 40 ár. (5. Mósebók 8:15) Fjórða Mósebók segir söguna af því hvernig þetta bar til, og hún ætti að færa okkur heim sanninn um að við verðum að hlýða Jehóva Guði og virða fulltrúa hans.
Fjórða Mósebók er skrifuð í eyðimörkinni og á Móabsheiðum og spannar 38 ár og 9 mánuði, frá 1512 f.o.t. til 1473 f.o.t. (4. Mósebók 1:1; 5. Mósebók 1:3) Bókin er skrifuð af Móse, en latneskt heiti hennar, Numeri, er dregið af tveim manntölum sem gerð voru í Ísrael með um það bil 38 ára millibili. (Kafli 1-4, 26) Bókin skiptist í þrjá hluta. Sá fyrsti segir frá atburðum sem áttu sér stað við Sínaífjall. Annar hlutinn lýsir ferð Ísraelsmanna um eyðimörkina og sá síðasti fjallar um atburði sem gerðust á Móabsheiðum. Þegar þú lest bókina gætirðu spurt þig hvað þú lærir af henni og hvaða gagnlegar meginreglur sé að finna þar.
VIÐ SÍNAÍFJALL
Ísraelsmenn eru enn við rætur Sínaífjalls þegar fyrra manntalið er tekið. Karlmenn, tvítugir og eldri, eru 603.550. Levítar eru þó ekki meðtaldir. Manntalið virðist gert í hernaðarlegum tilgangi. Líklegt má telja að í herbúðunum öllum séu meira en þrjár milljónir manna þegar levítar, konur og börn eru talin með.
Eftir manntalið fá Ísraelsmenn fyrirmæli um það í hvaða röð þeir skuli ganga á ferð sinni, leiðbeiningar um skyldur levíta og þjónustu í tjaldbúðinni, ákvæði um sóttkví, lög um afbrýði og ákvæði um Nasíreaheit. Í 7. kaflanum eru upplýsingar um fórnir ætthöfðingja við vígslu altarisins og 9. kaflinn fjallar um páskahald. Söfnuðurinn fær einnig fyrirmæli um hvernig hann skuli setja niður og taka upp búðir sínar.
Biblíuspurningar og svör:
2:1, 2 — Við hvers konar „einkenni“ áttu Ísraelsmenn að tjalda í eyðimörkinni? Biblían lýsir ekki hvers eðlis þessi „einkenni“ voru. Ekki var um að ræða helgi- eða trúartákn. ‚Einkennin‘ eða merkin þjónuðu þeim tilgangi að hjálpa hverjum manni að finna staðinn þar sem hann bjó í tjaldbúðunum.
5:27 — Hvað merkti það að „lendar“ konu, sem var manni sínum ótrú, skyldu „hjaðna“? Orðið „lendar“ er notað hér í merkingunni getnaðarfæri. (1. Mósebók 46:26) ‚Hjöðnun‘ gefur til kynna að getnaðarfærin hafi rýrnað þannig að konan gat ekki eignast börn.
Lærdómur:
6:1-7. Nasírear áttu að forðast ávöxt vínviðarins og alla áfenga drykki. Það kostaði sjálfsafneitun. Þeir áttu að láta sér vaxa sítt hár til tákns um undirgefni við Jehóva, rétt eins og konur áttu að vera undirgefnar eiginmönnum og feðrum. Nasírear áttu að halda sér hreinum með því að snerta ekki lík, ekki einu sinni lík náins ættingja. Þeir sem þjóna Jehóva í fullu starfi nú á dögum sýna fórnfýsi sem birtist í sjálfsafneitun og undirgefni við Jehóva og fyrirkomulag hans. Sumir flytja jafnvel til fjarlægs lands þannig að erfitt eða ógerlegt er að fara heim til að vera viðstaddur útför náins ættingja.
8:25, 26. Skyldubundin þjónusta levíta féll niður þegar þeir náðu vissum aldri. Bæði var þetta gert af tillitssemi við þá og einnig til að tryggja að hæfir menn væru við þjónustu hverju sinni. Hins vegar máttu þeir halda áfram að aðstoða aðra levíta í sjálfboðaþjónustu. Þó að boðberar Guðsríkis setjist aldrei í helgan stein má draga dýrmætan lærdóm af þessu lagaákvæði. Ef kristinn maður ræður ekki við að gegna ákveðnum skyldum sökum aldurs má fela honum aðra þjónustu sem hann ræður við.
STAÐ ÚR STAÐ Í EYÐIMÖRKINNI
Þegar skýið yfir tjaldbúðinni lyftist að lokum hefja Ísraelsmenn eyðimerkurgönguna sem tekur enda á Móabsheiðum 38 árum og einum eða tveim mánuðum síðar. Það er fróðlegt að rekja slóð þeirra á kortinu á bls. 9 í bæklingnum „See the Good Land“ sem Vottar Jehóva gefa út.
Ísraelsmenn mögla að minnsta kosti þrisvar sinnum á leiðinni til Kades í Paran-eyðimörkinni. Í fyrsta skiptið kviknar eldur frá Jehóva og eyðir hluta fólksins. Næst heimta Ísraelsmenn kjöt og Jehóva gefur þeim lynghænsn. Að síðustu mögla Mirjam og Aron gegn Móse með þeim afleiðingum að Mirjam er slegin holdsveiki um tíma.
Meðan Ísraelsmenn eru með búðir sínar í Kades sendir Móse 12 njósnamenn til fyrirheitna landsins. Þeir snúa aftur 40 dögum síðar. Tíu mannanna segja slæma sögu, og fólkið vill þá grýta Móse, Aron og njósnarana Jósúa og Kaleb sem voru Guði trúir. Guð kveðst ætla að slá þjóðina drepsótt en Móse biður fyrir henni. Jehóva lýsir þá yfir að hún skuli reika um eyðimörkina í 40 ár — þangað til þeir sem taldir voru í manntalinu væru dánir.
Jehóva setur nú ýmis lög til viðbótar. Kóra og fleiri gera uppreisn gegn Móse og Aroni en uppreisnarmennirnir tortímast ýmist í eldi eða jörðin opnast og gleypir þá. Daginn eftir möglar allur söfnuðurinn gegn Móse og Aroni með þeim afleiðingum að 14.700 deyja í plágu sem Jehóva sendir. Jehóva lætur staf Arons laufgast til að sýna fram á hvern hann hafi valið sem æðsta prest. Jehóva setur síðan ýmis fleiri lög um skyldur levíta og hreinsun fólksins. Askan af rauðri kvígu er látin fyrirmynda hreinsun sem fórn Jesú kemur til leiðar. — Hebreabréfið 9:13, 14.
Ísraelsmenn snúa aftur til Kades og þar deyr Mirjam. Söfnuðurinn möglar enn og aftur gegn Móse og Aroni. Nú er ástæðan skortur á vatni. Þeim Móse og Aroni er meinað að ganga inn í fyrirheitna landið af því að þeir helga ekki nafn Jehóva þegar hann lætur þeim í té vatn með undraverðum hætti. Ísraelsmenn fara frá Kades og Aron deyr á Hórfjalli. Ísraelsmenn þreytast á leiðinni fram hjá Edóm og mögla gegn Guði og Móse. Jehóva refsar þeim með því að senda eitraða höggorma. Enn á ný biður Móse fyrir þjóðinni og Guð segir honum þá að búa til höggorm úr eiri og setja á stöng svo að þeir sem bitnir eru geti læknast við það að horfa á hann. Eirormurinn táknar staurfestingu Jesú Krists sem er okkur til eilífrar blessunar. (Jóhannes 3:14, 15) Ísraelsmenn sigra Síhon og Óg, konunga Amoríta, og leggja land þeirra undir sig.
Biblíuspurningar og svör:
12:1 — Hvers vegna mögluðu Mirjam og Aron gegn Móse? Undirrótin virðist hafa verið sú að Mirjam vildi fá meiri völd. Hugsanlegt er að hún hafi óttast að hún yrði ekki lengur fremst kvenna í herbúðunum eftir að Sippóra, eiginkona Móse, kom til hans í eyðimörkinni. — 2. Mósebók 18:1-5.
12:9-11 — Hvers vegna var aðeins Mirjam slegin holdsveiki? Að öllum líkindum var hún forsprakkinn að því að mögla gegn Móse og taldi síðan Aron á að leggja sér lið. Aron sýndi rétt hugarfar með því að játa brot sitt.
21:14, 15 — Hvaða bók er það sem hér er nefnd? Biblían nafngreinir ýmis heimildarrit sem ritararnir sóttu efnivið í. (Jósúabók 10:12, 13; 1. Konungabók 11:41; 14:19, 29) ‚Bókin um bardaga Drottins‘ er ein þeirra. Í henni voru sögulegar heimildir um stríð og bardaga sem fólk Jehóva hafði háð.
Lærdómur:
11:27-29. Móse er prýðisdæmi um það hvernig við ættum að bregðast við þegar aðrir fá sérstök verkefni í þjónustu Jehóva. Hann var hvorki öfundsjúkur né reyndi að upphefja sjálfan sig heldur tók því fagnandi þegar Eldad og Medad fóru að spá.
12:2, 9, 10; 16:1-3, 12-14, 31-35, 41, 46-50. Jehóva ætlast til þess að dýrkendur sínir virði þá sem hann velur til ábyrgðarstarfa.
14:24. Heimurinn þrýstir á okkur til að gera það sem er rangt. Við verðum að hafa ‚annan anda‘ eða hugarfar en hann til að standast þrýstinginn.
15:37-41. Ísraelsmenn áttu að vera með skúfa eða kögur á faldi klæða sinna til að minna sig á að þeir væru helgaðir tilbeiðslunni á Guði og ættu að hlýða boðorðum hans. Eigum við ekki líka að lifa í samræmi við mælikvarða Guðs, skera okkur úr og vera ólík heiminum?
Á MÓABSHEIÐUM
Móabítar eru lafhræddir þegar Ísraelsmenn setja niður búðir sínar á Móabsheiðum. Balak, konungur Móabs, ræður því Bíleam til að bölva þeim. Jehóva neyðir Bíleam hins vegar til að blessa þá. Móabískar og midíanískar konur eru þá notaðar til að tæla Ísraelsmenn út í siðleysi og skurðgoðadýrkun. Jehóva deyðir 24.000 syndara í plágu sem stöðvast ekki fyrr en Pínehas sýnir að hann lætur dýrkun annarra guða en Jehóva ekki viðgangast.
Síðara manntalið leiðir í ljós að enginn er á lífi af mönnunum sem taldir voru í því fyrra, nema þeir Jósúa og Kaleb. Jósúa er skipaður eftirmaður Móse. Ísraelsmenn fá fyrirmæli um ýmsar fórnir og heit. Þeir koma fram hefndum á Midíanítum. Ættkvíslir Rúbens og Gaðs og hálf ættkvísl Manasse setjast að austan Jórdanar. Ísraelsmenn fá leiðbeiningar um förina yfir Jórdan og töku landsins. Landamæri eru skilgreind ítarlega. Skipta skal landinu með hlutkesti. Levítum eru fengnar 48 borgir og 6 þeirra eru auk þess griðaborgir.
Biblíuspurningar og svör:
22:20-22 — Hvers vegna upptendrast reiði Jehóva gegn Bíleam? Jehóva hafði sagt Bíleam spámanni að hann mætti ekki bölva Ísraelsmönnum. (4. Mósebók 22:12) Spámaðurinn fer hins vegar með mönnum Balaks og ætlar sér að bölva Ísraelsmönnum. Hann vildi þóknast Móabskonungi og hljóta umbun frá honum. (2. Pétursbréf 2:15, 16; Júdasarbréfið 11) Þegar Bíleam var neyddur til að blessa Ísrael í stað þess að bölva honum reyndi hann engu að síður að koma sér í mjúkinn hjá konungi með því að stinga upp á að konur, sem dýrkuðu Baal, væru fengnar til að tæla ísraelska karlmenn. (4. Mósebók 31:15, 16) Það var samviskulaus græðgi Bíleams sem Guð reiddist.
30:6-8 — Getur kristinn karlmaður ógilt heit eiginkonu sinnar? Nú á tímum þarf hver einstakur dýrkandi Jehóva að bera ábyrgð á heitum sínum við hann. Það er til dæmis persónulegt heit að vígjast Guði. (Galatabréfið 6:5) Eiginmaður hefur ekki vald til að ógilda slíkt heit. Eiginkona ætti þó að gæta þess að vinna ekki heit sem stangast á við orð Guðs eða skyldur hennar gagnvart manni sínum.
Lærdómur:
25:11. Pínehas er prýðisdæmi um brennandi áhuga á tilbeiðslunni á Jehóva. Við viljum halda söfnuðinum hreinum og ættum að láta öldungana vita ef við fréttum af grófu siðleysi.
35:9-29. Sá sem gerðist sekur um manndráp af slysni varð að yfirgefa heimili sitt og flýja í næstu griðaborg. Það kennir okkur að lífið sé heilagt og að við verðum að bera virðingu fyrir því.
35:33. Sé land vanhelgað með því að úthella saklausu blóði er aðeins hægt að friðþægja fyrir það með blóði þeirra sem úthelltu því. Í samræmi við það ætlar Jehóva að eyða óguðlegum áður en jörðinni verður breytt í paradís. — Orðskviðirnir 2:21, 22; Daníel 2:44.
Orð Guðs er kröftugt
Við verðum að sýna Jehóva virðingu og þeim sem hann skipar til ábyrgðarstarfa meðal fólks síns. Þetta kemur skýrt fram í 4. Mósebók og er mikilvæg ábending um að varðveita frið og einingu í söfnuðinum nú á tímum.
Þeir atburðir, sem 4. Mósebók segir frá, sýna fram á að það er hægðarleikur að gera sig sekan um möglun, siðleysi og skurðgoðadýrkun ef maður vanrækir sinn andlega mann. Ræða mætti sum af dæmum og lærdómum þessarar biblíubókar á þjónustusamkomu í söfnuðum Votta Jehóva þegar fjallað er um staðbundnar þarfir. Orð Guðs er sannarlega „lifandi og kröftugt“ afl í lífi okkar. — Hebreabréfið 4:12.
[Mynd á blaðsíðu 31]
Jehóva notaði skýstólpann yfir tjaldbúðinni til að stýra því hvar og hvenær Gyðingar settu niður búðir sínar og tóku þær upp.
[Myndir á blaðsíðu 32]
Jehóva verðskuldar hlýðni okkar og ætlast til þess að við virðum fulltrúa sína.