Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Dýrð Jehóva skín á fólk hans

Dýrð Jehóva skín á fólk hans

Dýrð Jehóva skín á fólk hans

„Drottinn mun vera þér eilíft ljós.“ — JESAJA 60:20.

1. Hvernig blessar Jehóva trúfast fólk sitt?

„DROTTINN hefir þóknun á lýð sínum, hann skrýðir hrjáða með sigri.“ (Sálmur 149:4) Þetta sagði sálmaritarinn forðum daga og sagan hefur staðfest sannleiksgildi orða hans. Jehóva annast þjóna sína þegar þeir eru trúfastir, veitir þeim vöxt og verndar þá. Til forna veitti hann þeim sigur yfir óvinum þeirra. Núna styrkir hann þá andlega og fullvissar þá um hjálpræði á grundvelli fórnar Jesú. (Rómverjabréfið 5:9) Þetta gerir hann vegna þess að þeir eru fögur sjón í augum hans.

2. Hverju treystir fólk Guðs þótt það mæti andstöðu?

2 Vissulega munu þeir sem „lifa vilja guðrækilega“ mæta andstöðu í þessum heimi sem er hjúpaður myrkri. (2. Tímóteusarbréf 3:12) En Jehóva veitir andstæðingunum athygli og gefur þeim þessa viðvörun: „Hver sú þjóð og hvert það konungsríki, sem eigi vill lúta þér, skal undir lok líða, og þær þjóðir munu gjöreyddar verða.“ (Jesaja 60:12) Nú á dögum birtist þessi andstaða í mörgum myndum. Í sumum löndum reyna andstæðingar að takmarka eða banna þá tilbeiðslu sem einlægir kristnir menn veita Jehóva. Í öðrum ráðast ofstækismenn á tilbiðjendur Jehóva og brenna eignir þeirra. En mundu að Jehóva hefur nú þegar sagt hvernig fara muni fyrir þeim sem standa gegn því að hann komi vilja sínum til leiðar. Andstæðingum mun mistakast. Þeir sem berjast gegn Síon, eða börnum hennar á jörð, geta ekki náð árangri. Er þetta ekki uppörvandi loforð frá hinum mikla Guði, Jehóva?

Meiri blessun en vonast var til

3. Hvernig er fegurð og velsæld tilbiðjenda Jehóva lýst?

3 Sannleikurinn er sá að á síðustu dögum þessa heimskerfis hefur Jehóva blessað fólk sitt meira en það vonaðist til. Smám saman hefur hann prýtt tilbeiðslustað sinn og þá menn sem eru þar og bera nafn hans. Samkvæmt spádómi Jesaja segir hann við Síon: „Prýði Líbanons mun til þín koma: kýpresviður, álmviður og sortulyngsviður, hver með öðrum til þess að prýða helgan stað minn og gjöra vegsamlegan stað fóta minna.“ (Jesaja 60:13) Fjöll þakin gróskumiklum skógi eru stórkostleg sjón. Tíguleg tré eru því viðeigandi tákn fegurðar og velsældar tilbiðjenda Jehóva. — Jesaja 41:19; 55:13.

4. Hvað tákna ‚hinn helgi staður‘ og ‚staður fóta Guðs‘ og hvernig hafa þessir staðir verið prýddir?

4 Hvað tákna ‚hinn helgi staður‘ og ‚staður fóta Guðs‘ sem talað er um í Jesaja 60:13? Þessi hugtök vísa til forgarðanna í hinu mikla andlega musteri Jehóva, en það er það fyrirkomulag sem hann hefur gert til að við getum tilbeðið hann fyrir milligöngu Jesú Krists. (Hebreabréfið 8:1-5; 9:2-10, 23) Jehóva hefur sagt að ásetningur sinn sé að gera þetta andlega musteri dýrlegt með því að láta fólk af öllum þjóðum safnast saman og koma þangað til að tilbiðja. (Haggaí 2:7) Jesaja sjálfur hafði áður séð fólk af öllum þjóðum streyma til hins háa tilbeiðslufjalls Jehóva. (Jesaja 2:1-4) Hundruðum ára seinna sá Jóhannes postuli í sýn ‚mikinn múg, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum.‘ Þetta fólk stóð ‚frammi fyrir hásæti Guðs og þjónaði honum dag og nótt í musteri hans.‘ (Opinberunarbókin 7:9, 15) Þar sem þessir spádómar hafa uppfyllst á okkar dögum hefur hús Jehóva verið prýtt að okkur ásjáandi.

5. Hvaða mikla breytingu til batnaðar upplifðu börn Síonar?

5 Aðstæður hafa svo sannarlega breyst til batnaðar hjá Síon! Jehóva segir: „Í stað þess, að þú áður varst yfirgefin, hötuð og enginn fór um hjá þér, gjöri ég þig að eilífri vegsemd, að fögnuði margra kynslóða.“ (Jesaja 60:15) „Ísrael Guðs“ þoldi auðnartíma undir lok fyrri heimsstyrjaldar. (Galatabréfið 6:16) Síon fannst hún „yfirgefin“ því að börn hennar á jörðinni skildu ekki alveg hver vilji Guðs var með þau. En árið 1919 endurlífgaði Jehóva smurða þjóna sína og hefur þaðan í frá blessað þá með eindæma andlegri velmegun. Og loforðið í þessu versi er sannarlega gleðilegt. Síon mun vera Jehóva til ‚vegsemdar.‘ Já, börn Síonar og Jehóva sjálfur verða stolt af henni. Hún verður ‚fögnuður ‘ og mun gefa fólki tilefni til að gleðjast mikillega. Og það verður ekki aðeins um skamman tíma. Þessar góðu aðstæður Síonar, eins og þær birtast hjá jarðneskum börnum hennar, vara í ‚margar kynslóðir.‘ Þær munu aldrei taka enda.

6. Hvernig notfæra sannkristnir menn sér úrræði þjóðanna?

6 Hlustaðu nú á annað loforð Guðs. Hann talar til Síonar og segir: „Og þú munt drekka mjólk þjóðanna og sjúga brjóst konunganna, og þá skalt þú reyna það, að ég, Drottinn, er frelsari þinn, og Jakobs voldugi Guð, lausnari þinn.“ (Jesaja 60:16) Hvernig mun Síon „drekka mjólk þjóðanna“ og „sjúga brjóst konunganna“? Smurðir kristnir menn og félagar þeirra, hinir ‚aðrir sauðir,‘ notfæra sér úrræði þjóðanna til að efla sanna tilbeiðslu. (Jóhannes 10:16) Frjáls framlög stuðla að því að þetta mikla og alþjóðlega prédikunar- og kennslustarf er mögulegt. Skynsamleg notkun á nútímatækni hefur gert þeim kleift að gefa út Biblíuna og biblíutengd rit á hundruðum tungumála. Sannleikur Biblíunnar er nú aðgengilegur fyrir fleiri en nokkru sinni fyrr í sögunni. Fólk hvaðanæva úr heiminum er að læra að Jehóva hefur endurkeypt smurða þjóna sína úr andlegri ánauð og að hann er í raun frelsarinn.

Skipulagslegar framfarir

7. Hvaða framfarir hafa börn Síonar upplifað?

7 Jehóva hefur líka fegrað fólk sitt með öðrum hætti. Hann hefur blessað það með skipulagslegum framförum. Við lesum í Jesaja 60:17: „Ég mun færa þér gull í stað eirs og silfur í stað járns, eir í stað trjáviðar og járn í stað grjóts. Ég gjöri friðinn að valdstjórn þinni og réttlætið að valdsmanni þínum.“ Að nota gull í stað eirs er breyting til batnaðar og hið sama er að segja um hin efnin sem nefnd eru. Í samræmi við þetta hefur Ísrael Guðs bætt sig skipulagslega á hinum síðustu dögum. Lítum á fáein dæmi.

8-10. Lýstu nokkrum skiplagslegum framförum sem hafa átt sér stað frá 1919.

8 Fyrir árið 1919 var söfnuði fólks Guðs stjórnað af öldungum og djáknum sem allir voru lýðræðislega kjörnir af safnaðarmönnum. Það ár tók ‚hinn trúi og hyggni þjónn‘ að skipa þjónustustjóra í hverjum söfnuði til að hafa umsjón með boðunarstarfinu. (Matteus 24:45-47) En í mörgum söfnuðum gekk þetta fyrirkomulag ekki svo vel því að sumir hinna kjörnu öldunga studdu boðunarstarfið ekki af heilum hug. Árið 1932 var söfnuðunum því sagt að hætta að kjósa öldunga og djákna og kjósa menn í þjónustunefnd sem átti að starfa með þjónustustjóranum. Þetta var mikil framför — eins og „eir í stað trjáviðar.“

9 Árið 1938 ályktuðu söfnuðir um allan heim að fylgja endurbættu fyrirkomulagi sem var líkara biblíulega fordæminu. Forysta safnaðarins var sett undir félagsþjón og aðra þjóna og hinn trúi og hyggni þjónn hafði umsjón með skipun þeirra allra. Nú voru ekki fleiri kosningar og allar útnefningar gerðar með guðræðislegum hætti. Það var eins og „járn“ í stað „grjóts“ eða „gull“ í stað „eirs.“

10 Síðan þá hafa framfarirnar haldið áfram. Árið 1972 varð til dæmis ljóst að það væri enn nær því fyrirkomulagi, sem notað var í kristnu söfnuðunum á fyrstu öld, að ráð guðræðislega útnefndra öldunga stjórnaði söfnuðunum, þar sem enginn einn öldungur færi með yfirráð yfir hinum. Og fyrir um tveim árum var tekið enn eitt skref í rétta átt. Breyting var gerð á forystu ýmissa lögskráðra félaga, þannig að hið stjórnandi ráð gæti einbeitt sér betur að andlegum hagsmunum fólks Guðs í stað þess að vera upptekið af lagalegum hversdagsatriðum.

11. Hver hefur staðið að baki skipulagslegum framförum hjá fólki Jehóva og hverju hafa þessar breytingar komið til leiðar?

11 Hver stendur að baki þessum áframhaldandi framförum? Enginn annar en Jehóva Guð. Það var hann sem sagði: „Ég mun færa þér gull.“ Og hann heldur áfram og segir: „Ég gjöri friðinn að valdstjórn þinni og réttlætið að valdsmanni þínum.“ Já, Jehóva hefur umsjón með fólki sínu. Þessar skipulagslegu framfarir, sem búið var að spá fyrir um, eru önnur leið sem hann notar til að prýða fólk sitt. Og Vottar Jehóva hafa fengið margs konar blessun fyrir vikið. Við lesum í Jesaja 60:18: „Eigi skal framar heyrast getið um ofríki í landi þínu, né um tjón og tortíming innan landamerkja þinna. Þú skalt kalla Hjálpræði múra þína og Sigurfrægð hlið þín.“ Þetta eru falleg orð. En hvernig hafa þau ræst?

12. Hvers vegna ríkir friður meðal sannkristinna manna?

12 Sannkristnir menn leita til Jehóva til að fá leiðsögn og fræðslu og Jesaja spáði fyrir um það hver árangurinn yrði: „Allir synir þínir eru lærisveinar Drottins og njóta mikils friðar.“ (Jesaja 54:13) Andi Jehóva starfar líka í fólki hans og ávöxtur andans er meðal annars friður. (Galatabréfið 5:22, 23) Þessi friður þjóna Jehóva gerir að verkum að þeir eru eins og vin í ofbeldisfullum heimi. Þessi friður er byggður á kærleikanum sem sannkristnir menn bera hver til annars og er forsmekkur að lífinu í nýjum heimi. (Jóhannes 15:17; Kólossubréfið 3:14) Er ekki gleðilegt að mega njóta og stuðla að þeim friði sem er Jehóva til heiðurs og lofs og er meginþáttur í andlegri paradís okkar? — Jesaja 11:9.

Ljós Jehóva heldur áfram að skína

13. Hvers vegna getum við verið viss um að ljós Jehóva muni aldrei hætta að skína á fólk hans?

13 Mun ljós Jehóva halda áfram að skína á fólk hans? Já, við lesum í Jesaja 60:19, 20: „Þú skalt ekki framar hafa sólina til að lýsa þér um daga, og tunglið skal ekki skína til að gefa þér birtu, heldur skal Drottinn vera þér eilíft ljós og Guð þinn vera þér geislandi röðull. Þá mun sól þín ekki framar ganga undir og tungl þitt ekki minnka, því að Drottinn mun vera þér eilíft ljós og hörmungardagar þínir skulu þá vera á enda.“ Þegar ‚hörmungardögum‘ hinna andlegu útlaga linnti árið 1919 fór ljós Jehóva að skína á þá. Núna, meira en 80 árum síðar, njóta þeir enn þá hylli Jehóva og ljós hans heldur áfram að skína. Og það mun ekki hætta. Jehóva ‚gengur aldrei undir,‘ eins og sólin, né ‚minnkar‘ eins og tunglið heldur mun hann lýsa þeim, sem tilbiðja hann, um alla eilífð. Það er ómetanlegt fyrir okkur að vita þetta á hinum síðustu dögum þessa myrka heims.

14, 15. (a) Í hvaða skilningi er allt fólk Guðs „réttlátt“? (b) Til hvaða mikilvægrar uppfyllingar hlakka hinir aðrir sauðir í sambandi við Jesaja 60:21?

14 Hlustið nú á eitt loforð sem Jehóva gefur í sambandi við jarðneska fulltrúa Síonar, Ísrael Guðs. Jesaja 60:21 segir: „Og lýður þinn — þeir eru allir réttlátir, þeir munu eiga landið eilíflega: þeir eru kvisturinn, sem ég hefi gróðursett, verk handa minna, er ég gjöri mig vegsamlegan með.“ Þegar smurðir kristnir menn hófu starf sitt á ný árið 1919 voru þeir óvenjulegur hópur fólks. Þeir lifðu í mjög syndugum heimi en höfðu verið ‚réttlættir‘ á grundvelli óhagganlegrar trúar á lausnarfórn Jesú Krists. (Rómverjabréfið 3:24; 5:1) Þeir voru eins og Ísraelsmennirnir, sem leystir voru úr ánauð í Babýlon. Þeir tóku til eignar „land,“ andlegt land eða starfsvettvang þar sem þeir gátu notið andlegrar paradísar. (Jesaja 66:8) Paradísarfegurð þessa lands mun aldrei fölna vegna þess að Ísrael Guðs í heild reynist aldrei ótrúr líkt og Ísrael að fornu. Trú þeirra, þolgæði og kostgæfni mun ávallt vera nafni Guðs til heiðurs.

15 Allir þeir sem tilheyra þessari andlegu þjóð eru aðilar að nýja sáttmálanum. Lögmál Jehóva er ritað á hjörtu þeirra og Jehóva hefur fyrirgefið þeim syndir þeirra á grundvelli lausnarfórnar Jesú. (Jeremía 31:31-34) Hann lýsir þá réttláta sem syni og kemur fram við þá eins og þeir væru fullkomnir. (Rómverjabréfið 8:15, 16, 29, 30) Félagar þeirra, aðrir sauðir, hafa líka fengið fyrirgefningu á grundvelli lausnarfórnar Jesú og vegna trúar sinnar hafa þeir, líkt og Abraham, verið lýstir réttlátir sem vinir Guðs. Þeir „hafa þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins.“ Og þessir aðrir sauðir hlakka til annarrar blessunar. Eftir að þeir hafa lifað af ‚þrenginguna miklu‘ eða verið reistir upp fá þeir að sjá bókstaflega uppfyllingu á orðunum í Jesaja 60:21 þegar öll jörðin verður paradís. (Opinberunarbókin 7:14; Rómverjabréfið 4:1-3) Þá ‚fá hinir hógværu landið til eignar og gleðjast yfir ríkulegri gæfu.‘ — Sálmur 37:11, 29.

Aukningin heldur áfram

16. Hvaða stórkostlega loforð gaf Jehóva og hvernig hefur það ræst?

16 Við lesum síðasta loforð Jehóva í 60. kafla Jesajabókar í síðasta versinu. Hann segir Síon: „Hinn minnsti skal verða að þúsund og hinn lítilmótlegasti að voldugri þjóð. Ég, Drottinn, mun hraða því, þegar að því kemur.“ (Jesaja 60:22) Jehóva hefur staðið við orð sín núna á okkar dögum. Hinir smurðu voru fáir þegar þeir voru endurvaktir til starfa árið 1919. Þeir voru „hinn minnsti.“ Þeim fjölgaði þegar fleiri andlegum Ísraelsmönnum var bætt við og síðan fóru æ fleiri aðrir sauðir að flykkjast til þeirra. Friður fólks Guðs, hin andlega paradís sem ríkir í „landi“ þeirra, hefur laðað að svo marga hjartahreina menn að „hinn minnsti“ hefur virkilega orðið að „voldugri þjóð.“ Sem stendur er þessi „þjóð“ Ísrael Guðs og rúmlega sex milljóna vígðra ‚útlendinga‘ fjölmennari en margar sjálfstæðar þjóðir okkar tíma. (Jesaja 60:10) Allir eiga þeir þátt í að endurkasta ljósi Jehóva og það prýðir þá alla í augum hans.

17. Hvaða áhrif hefur þessi umræða um 60. kaflann í Jesaja haft á þig?

17 Já, trú okkar styrkist þegar við förum yfir meginatriðin í 60. kafla Jesaja. Það er hughreystandi að vita til þess að Jehóva vissi löngu fyrir fram að fólk hans myndi fara í andlega útlegð og verða síðan endurvakið. Okkur finnst stórkostlegt að hann skuli hafa séð fyrir hina miklu aukningu sannra tilbiðjenda á okkar dögum. Og það er líka mjög hughreystandi að minnast þess að Jehóva yfirgefur okkur aldrei. Við höfum þá kærleiksríku fullvissu að ‚borgarhliðin‘ verði ávallt opin, að tekið verði vel á móti þeim sem ‚hneigjast til eilífs lífs.‘ (Postulasagan 13:48, NW ) Jehóva mun halda áfram að skína á fólk sitt. Síon mun halda áfram að vera til vegsemdar og börn hennar munu láta ljós sitt skína sífellt skærar. (Matteus 5:16) Við erum vissulega ákveðnari en nokkru sinni fyrr í að nálægja okkur Ísrael Guðs og varðveita þau sérréttindi okkar að endurspegla ljós Jehóva.

Geturðu svarað?

• Hverju getum við treyst þótt við mætum andstöðu?

• Hvernig hafa börn Síonar ‚drukkið mjólk þjóðanna‘?

• Hvernig hefur Jehóva fært okkur ‚eir í stað trjáviðar‘?

• Á hvaða tvo eiginleika er bent í Jesaja 60:17, 21?

• Hvernig hefur „hinn minnsti“ orðið að „voldugri þjóð“?

[Spurningar]

[Rammi/mynd á blaðsíðu 18]

SPÁDÓMUR JESAJA — ljós handa öllu mannkyni

Efnið í þessum greinum var flutt í ræðuformi á landsmótinu „Kennarar orðsins“ sem haldið var árið 2001. Í lok ræðunnar var á flestum stöðum tilkynnt að út væri komið annað bindi bókar sem heitir Spádómur Jesaja — ljós handa öllu mannkyn. Fyrra bindi bókarinnar kom út árið á undan. Með útkomu þessarar nýju bókar liggur fyrir umfjöllun um nánast öll versin í bók Jesaja. Þessi tvö bindi hjálpa fólki að dýpka skilning sinn á hinni trústyrkjandi spádómsbók Jesaja og meta hana meira.

[Myndir á blaðsíðu 15]

Jehóva skrýðir fólk sitt með sigri þrátt fyrir grimmilega andstöðu.

[Myndir á blaðsíðu 16]

Fólk Guðs notfærir sér gagnleg úrræði þjóðanna til að efla sanna tilbeiðslu.

[Mynd á blaðsíðu 17]

Jehóva hefur blessað fólk sitt með skipulagslegum framförum og friði.