Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Líturðu raunverulega á Krist sem leiðtoga?

Líturðu raunverulega á Krist sem leiðtoga?

Líturðu raunverulega á Krist sem leiðtoga?

„Þér skuluð ekki heldur láta kalla yður leiðtoga, því einn er leiðtogi yðar, Kristur.“ — MATTEUS 23:10.

1. Hver einn er leiðtogi sannkristinna manna?

ÞAÐ var þriðjudagurinn 11. nísan, þrem dögum áður en Jesús Kristur var líflátinn. Þetta var í síðasta sinn sem hann kom í musterið. Við þetta tækifæri kenndi hann lærsveinum og mannfjöldanum, sem þar var samankominn, mikilvægt atriði. Hann sagði: „Þér skuluð ekki láta kalla yður meistara, því einn er yðar meistari og þér allir bræður. Þér skuluð ekki kalla neinn föður yðar á jörðu, því einn er faðir yðar, sá sem er á himnum. Þér skuluð ekki heldur láta kalla yður leiðtoga, því einn er leiðtogi yðar, Kristur.“ (Matteus 23:8-10) Ljóst er að Jesús Kristur er leiðtogi sannkristinna manna.

2, 3. Hvaða áhrif hefur það á líf okkar að hlýða á Jehóva og fylgja leiðtoganum sem hann hefur skipað?

2 Forysta Jesú hefur ákaflega góð áhrif á líf okkar, ef við viðurkennum hana. Jehóva Guð boðaði komu þessa leiðtoga fyrir munn Jesaja spámanns og sagði: „Heyrið, allir þér sem þyrstir eruð, komið hingað til vatnsins, og þér sem ekkert silfur eigið, komið, kaupið korn og etið! Komið, kaupið korn án silfurs og endurgjaldslaust bæði vín og mjólk! . . . Hlýðið á mig, þá skuluð þér fá gott að eta og sálir yðar gæða sér á feiti!. . . Sjá, ég hefi gjört hann að vitni fyrir þjóðirnar, að höfðingja og stjórnara þjóðanna.“ — Jesaja 55:1-4.

3 Jesaja notaði þrjá algenga drykki — vatn, mjólk og vín — sem myndlíkingu til að sýna fram á hvaða áhrif það hefði á líf okkar að hlýða á Jehóva og fylgja höfðingjanum, stjórnandanum og leiðtoganum sem hann hefur gefið okkur. Það er hressandi. Það er eins og að drekka glas af köldu vatni á heitum degi. Það svalar réttlætis- og sannleiksþorsta okkar. Hin ‚andlega mjólk‘ stuðlar að því að sambandið við Guð styrkist og þroskist, líkt og móðurmjólkin styrkir börnin og veitir þeim vöxt. (1. Pétursbréf 2:1-3) Og hver getur mótmælt því að vín sé gleðigjafi við hátíðleg tækifæri? Við ‚gleðjumst líka mikillega‘ þegar við tilbiðjum hinn sanna Guð og fetum í fótspor leiðtogans sem hann hefur skipað. (5. Mósebók 16:15) Það er því mikilvægt fyrir okkur öll, ung sem aldin, karla sem konur, að sýna að við lítum raunverulega á Krist sem leiðtoga. En hvernig getum við sýnt í daglegu lífi að Messías sé leiðtogi okkar?

Börn og unglingar — ‚þroskist að visku‘

4. (a) Hvað átti sér stað þegar Jesús fór til Jerúsalem 12 ára gamall til að halda páska? (b) Hversu fróður var Jesús aðeins 12 ára að aldri?

4 Lítum á það fordæmi sem leiðtogi okkar setti börnum og unglingum. Þó að fátt sé vitað um æsku Jesú er sagt frá einu mjög athyglisverðu atviki. Þegar Jesús var 12 ára tóku foreldrar hans hann með sér til Jerúsalem til að halda páska eins og þau voru vön. Að þessu sinni sökkti hann sér svo niður í biblíulegar umræður að hann varð óviljandi eftir þegar fjölskyldan hélt af stað heimleiðis. Þrem dögum síðar fundu kvíðnir foreldrar hans, þau María og Jósef, hann í musterinu en „þar sat hann mitt á meðal lærifeðranna, hlýddi á þá og spurði þá.“ Því má bæta við að „alla, sem heyrðu til hans, furðaði stórum á skilningi hans og andsvörum.“ Hugsaðu þér. Jesús var ekki nema 12 ára en gat bæði spurt andlegra spurninga sem vöktu fólk til umhugsunar, og komið með skynsamleg svör! Eflaust hafa foreldrarnir átt sinn þátt í því með uppeldi sínu. — Lúkas 2:41-50.

5. Hvernig geta börn og unglingar skoðað afstöðu sína til biblíunáms fjölskyldunnar?

5 Þú ert kannski ungur að árum. Ef foreldrar þínir eru vígðir þjónar Guðs fer sennilega fram reglulegt biblíunám á heimilinu. Hvernig hugsar þú um fjölskyldunámið? Hvernig væri að hugleiða spurningar svo sem: ‚Styð ég biblíunám fjölskyldunnar af heilum hug? Er ég samvinnuþýður og gæti þess að virða þann tíma sem ætlaður er til námsins?‘ (Filippíbréfið 3:16) ‚Tek ég virkan þátt í náminu? Spyr ég spurninga um námsefnið, þegar það á við, og tjái ég mig um gildi þess? Tek ég andlegum framförum og er ég að þroska með mér smekk fyrir ‚föstu fæðunni sem er fyrir fullorðna‘?‘— Hebreabréfið 5:13, 14.

6, 7. Hvaða gagn geta unglingar haft af því að lesa daglega í Biblíunni?

6 Það er líka verðmætt að lesa daglega í Biblíunni. Sálmaritarinn söng: „Sæll er sá maður, er eigi fer að ráðum óguðlegra . . . heldur hefir yndi af lögmáli [Jehóva] og hugleiðir [eða les] lögmál hans dag og nótt.“ (Sálmur 1:1, 2) Jósúa, arftaki Móse, ‚hugleiddi [eða las] lögmálsbókina um daga og nætur.‘ Þess vegna gat hann breytt viturlega og skilað vel af hendi því verkefni sem Guð fól honum. (Jósúabók 1:8) Leiðtogi okkar, Jesús Kristur, sagði: „Ritað er: ‚Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði, heldur á hverju því orði, sem fram gengur af Guðs munni.‘“ (Matteus 4:4) Við þörfnumst andlegrar fæðu á reglulegum grundvelli ekki síður en hinnar bókstaflegu.

7 Nicole gerði sér grein fyrir andlegum þörfum sínum og fór að lesa daglega í Biblíunni þegar hún var 13 ára. * Hún er orðin 16 ára núna og hefur lesið alla Biblíuna einu sinni og er um það bil hálfnuð með aðra umferð. Hún notar einfalda aðferð. „Ég hef ákveðið að lesa að minnsta kosti einn kafla á dag,“ segir hún. Hvernig hefur daglegur biblíulestur hjálpað henni? Hún svarar: „Það er fullt af slæmum áhrifum í kringum mann. Ég verð fyrir þrýstingi á hverjum degi í skólanum og annars staðar sem reynir á trú mína. Með því að lesa daglega í Biblíunni á ég auðvelt með að muna eftir boðorðum hennar og meginreglum sem hvetja mig til að sporna gegn þessum þrýstingi. Þar af leiðandi finnst mér ég eiga nánara samband við Jehóva og Jesú.“

8. Hvað var Jesús vanur að gera og hvernig geta börn og unglingar líkt eftir honum?

8 Jesús lagði í vana sinn að hlusta á ritningarlestur í samkunduhúsinu og taka þátt í honum. (Lúkas 4:16; Postulasagan 15:21) Það er hollt fyrir börn og unglinga að fylgja fordæmi hans og sækja safnaðarsamkomur reglulega þar sem lesið er upp úr Biblíunni og hún rannsökuð. Richard er 14 ára og kann vel að meta samkomurnar. „Samkomurnar eru verðmætar fyrir mig,“ segir hann. „Þær minna mig í sífellu á hvað sé gott og hvað sé illt, hvað sé siðferðilega rétt og hvað siðlaust, hvað sé kristilegt og hvað ekki. Ég þarf ekki að læra það í hörðum skóla reynslunnar.“ Já, „vitnisburður [Jehóva] er áreiðanlegur, gjörir hinn fávísa vitran.“ (Sálmur 19:8) Nicole leggur sig einnig fram um að sækja allar fimm samkomur safnaðarins í hverri viku og notar auk þess tvær eða þrjár stundir til að undirbúa sig fyrir þær. — Efesusbréfið 5:15, 16.

9. Hvernig geta börn og unglingar ‚þroskast að visku‘?

9 Æskan og unglingsárin eru kjörinn tími til að læra ‚að þekkja hinn eina sanna Guð og þann sem hann sendi, Jesú Krist.‘ (Jóhannes 17:3) Kannski þekkirðu börn eða unglinga sem eyða miklum tíma í að lesa myndasögur, horfa á sjónvarp, spila tölvuleiki eða vafra á Netinu. Hví skyldir þú herma eftir þeim þar sem þú getur fylgt hinu fullkomna fordæmi leiðtoga okkar? Sem drengur naut hann þess að fræðast um Jehóva. Með hvaða árangri? „Jesús þroskaðist að visku“ vegna þess að hann hafði yndi af andlegu málunum. (Lúkas 2:52) Þú getur gert það líka.

„Verið hver öðrum undirgefnir“

10. Hvað stuðlar að friðsömu og hamingjuríku fjölskyldulífi?

10 Heimilið getur verið friðsælt athvarf en það getur líka verið vettvangur átaka og deilna. (Orðskviðirnir 21:19; 26:21) Að viðurkenna Krist sem leiðtoga stuðlar að friði og hamingju í fjölskyldunni. Fordæmi Jesú er reyndar fyrirmynd að samskiptum innan fjölskyldunnar. Biblían segir: „Verið hver öðrum undirgefnir í ótta Krists: Konurnar eiginmönnum sínum eins og það væri Drottinn. Því að maðurinn er höfuð konunnar, eins og Kristur er höfuð kirkjunnar [safnaðarins], hann er frelsari líkama síns. . . . Þér menn, elskið konur yðar eins og Kristur elskaði kirkjuna [söfnuðinn] og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hana.“ (Efesusbréfið 5:21-25) Páll postuli skrifaði söfnuðinum í Kólossu: „Þér börn, verið hlýðin foreldrum yðar í öllu, því að það fer þeim vel, sem Drottni heyra til.“ — Kólossubréfið 3:18-20.

11. Hvernig getur eiginmaður sýnt að hann líti raunverulega á Krist sem leiðtoga?

11 Ef þessum ráðum er fylgt tekur eiginmaðurinn forystuna í fjölskyldunni, eiginkonan styður hann dyggilega og börnin hlýða foreldrunum. En forysta eiginmannsins er því aðeins til gæfu að rétt sé með hana farið. Vitur eiginmaður þarf að læra að fara með forystuhlutverkið með því að líkja eftir leiðtoga sínum og höfði sem er Jesús Kristur. (1. Korintubréf 11:3) Þó að Jesús yrði síðar „höfuðið yfir öllu“ í söfnuðinum kom hann ekki til jarðar „til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna.“ (Efesusbréfið 1:22; Matteus 20:28) Kristinn eiginmaður beitir ekki forystuhlutverkinu í eigin þágu heldur í þágu eiginkonu sinnar og barna — í þágu allrar fjölskyldunnar. (1. Korintubréf 13:4, 5) Hann leitast við að líkja eftir guðrækni Jesú Krists sem er höfuð hans. Hann er hógvær og af hjarta lítillátur eins og Jesús. (Matteus 11:28-30) Hann á ekki erfitt með að segja „fyrirgefðu“ eða „þú hefur rétt fyrir þér“ ef hann hefur á röngu að standa. Með góðu fordæmi sínu auðveldar hann konunni að vera „meðhjálp“ sín og „förunautur“ og hún lærir af honum og vinnur með honum. — 1. Mósebók 2:20; Malakí 2:14.

12. Hvað hjálpar eiginkonu að hlíta forystufrumreglunni?

12 Eiginkonan á að vera manni sínum undirgefin. En ef andi heimsins hefur áhrif á hana getur það dregið úr virðingu hennar fyrir forystureglunni með þeim afleiðingum að henni hugnast ekki lengur að vera manni undirgefin. Biblían ýjar hvergi að því að eiginmaðurinn eigi að vera ráðríkur en hún ætlast til þess að eiginkona sé undirgefin manni sínum. (Efesusbréfið 5:24) Biblían bendir líka á að eiginmaður eða faðir fari með ábyrgð í fjölskyldunni, og það stuðlar að friði og reglu að fylgja ráðleggingum hennar. — Filippíbréfið 2:5.

13. Hvernig er Jesús börnum góð fyrirmynd um undirgefni?

13 Börnin eiga að vera foreldrunum hlýðin. Þar er Jesús afbragðsfyrirmynd. Eftir atvikið í musterinu, þegar hann var skilinn eftir í þrjá daga 12 ára gamall, fór hann „heim með [foreldrum sínum] og kom til Nasaret og var þeim hlýðinn.“ (Lúkas 2:51) Börnin stuðla að friði og samlyndi í fjölskyldunni með því að vera undirgefin foreldrum sínum. Það stuðlar að hamingjusömu fjölskyldulífi þegar allir eru undirgefnir Kristi.

14, 15. Hvað hjálpar okkur að greiða úr erfiðleikum á heimilinu? Nefndu dæmi.

14 Jafnvel þegar erfiðleikar verða á heimilinu er farsælast að líkja eftir Jesú og þiggja leiðsögn hans. Jerry var 35 ára þegar hann kvæntist Lönu en hún átti dóttur á táningsaldri. Hvorugt þeirra bauð hins vegar í grun hvaða erfiðleikar voru framundan. Jerry segir svo frá: „Ég vissi að til að veita góða forstöðu þurfti ég að beita sömu biblíulegu meginreglum og aðrar fjölskyldur nota með góðum árangri. En ég uppgötvaði fljótlega að ég þurfti að beita þeim af meiri visku og hyggindum.“ Stjúpdóttur hans fannst hann hafa komið upp á milli sín og móður sinnar og hafði megna andúð á honum. Jerry þurfti að vera hygginn og átta sig á því að þessi afstaða hafði áhrif á orð og framkomu stúlkunnar. Hvernig brást hann við? Hann svarar: „Við Lana urðum ásátt um að hún myndi sjá um ögunarþátt uppeldisins, að minnsta kosti um tíma, en að ég skyldi einbeita mér að því að byggja upp gott samband við stjúpdóttur mína. Þessi aðferð skilaði smám saman góðum árangri.“

15 Þegar erfiðleikar verða heima fyrir er nauðsynlegt að vera hygginn og glöggva sig á því hvers vegna aðrir í fjölskyldunni tala og hegða sér eins og raun ber vitni. Það þarf líka visku til að beita meginreglum Guðs rétt. Jesús gerði sér til dæmis grein fyrir því hvers vegna konan, sem þjáðist af blæðingum, snerti hann og hann tók viturlega á málinu og sýndi henni meðaumkun. (3. Mósebók 15:25-27; Markús 5:30-34) Leiðtogi okkar er bæði vitur og hygginn. (Orðskviðirnir 8:12) Það er okkur til blessunar að líkja eftir honum.

‚Leitið fyrst ríkis Guðs‘

16. Hvert ætti að vera meginatriðið í lífi okkar og hvernig sýndi Jesús það með fordæmi sínu?

16 Jesús tók af allan vafa um hvert ætti að vera meginatriðið í lífi þeirra sem viðurkenndu forystu hans. Hann sagði: „Leitið fyrst ríkis hans [Guðs] og réttlætis.“ (Matteus 6:33) Og hann sýndi með fordæmi sínu hvernig við ættum að gera það. Eftir að Jesús hafði fastað, hugleitt og beðist fyrir í 40 daga eftir skírn sína varð hann fyrir freistingu. Satan djöfullinn bauð honum yfirráð yfir ‚öllum ríkjum heims.‘ Hugsaðu þér hvernig Jesús hefði getað lifað ef hann hefði þegið boð djöfulsins. En Jesús einbeitti sér að því að gera vilja föður síns. Hann gerði sér líka ljóst að slík ævi í heimi Satans yrði skammvinn. Hann hafnaði því tilboði djöfulsins þegar í stað og sagði: „Ritað er: ‚[Jehóva], Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum.‘“ Skömmu síðar „tekur Jesús að prédika og segja: ‚Gjörið iðrun, himnaríki er í nánd.‘“ (Matteus 4:2, 8-10, 17) Það sem eftir var ævinnar hér á jörð boðaði hann ríki Guðs í fullu starfi.

17. Hvernig getum við sýnt að hagsmunir Guðsríkis skipa fyrsta sætið í lífi okkar?

17 Við ættum að líkja eftir leiðtoga okkar með því að láta ekki heim Satans tæla okkur til að gera vel launaða vinnu og starfsframa að aðalmarkmiði lífsins. (Markús 1:17-21) Það væri heimskulegt að flækja sig svo í veraldlegum markmiðum að hagsmunir Guðsríkis sætu á hakanum. Jesús hefur trúað okkur fyrir því verkefni að boða Guðsríki og gera menn að lærisveinum. (Matteus 24:14; 28:19, 20) Við eigum kannski fjölskyldu og höfum ýmsar aðrar skyldur, en finnst okkur ekki ánægjulegt að nota kvöld og helgar til að inna boðunar- og kennsluskylduna af hendi? Og það var sérlega ánægjulegt að sjá að um 780.000 boðberar gátu þjónað í fullu starfi sem brautryðjendur á þjónustuárinu 2001.

18. Hvað hjálpar okkur að hafa ánægju af boðunarstarfinu?

18 Guðspjöllin lýsa Jesú sem athafnamanni en jafnframt tilfinninganæmum. Hann sá að fólk var andlega þurfandi, kenndi í brjósti um það og bauð því fúslega hjálp sína. (Markús 6:31-34) Við höfum ánægju af þjónustunni ef okkur þykir vænt um aðra og langar í einlægni til að hjálpa þeim. En hvernig vekjum við þessa löngun með okkur? Jayson heitir ungur maður. Hann segir: „Ég get ekki sagt að ég hafi haft sérstaklega gaman af starfinu þegar ég var táningur.“ Hvernig lærði hann að njóta boðunarstarfsins? „Laugardagsmorgnar voru alltaf helgaðir boðunarstarfinu hjá okkur fjölskyldunni,“ segir hann. „Það gerði mér gott vegna þess að því meira sem ég var úti í starfinu, þeim mun betur sá ég hverju það kemur til leiðar og þá naut ég þess betur.“ Við ættum líka að taka reglulega og dyggilega þátt í boðunarstarfinu.

19. Í hverju ættum við að vera staðráðin?

19 Það er bæði hressandi og gefandi að viðurkenna Krist sem leiðtoga. Unglingar, sem gera það, vaxa í þekkingu og visku. Það stuðlar að friði og hamingju í fjölskyldunni og boðunarstarfið verður ánægjulegt og gefandi. Við skulum því fyrir alla muni vera staðráðin í að sýna í daglegu lífi okkar og með ákvörðunum okkar að forysta Krists er okkur raunveruleg. (Kólossubréfið 3:23, 24) En Jesús Kristur hefur verið leiðtogi okkar á öðrum vettvangi — í kristna söfnuðinum. Í næstu grein er fjallað um það hvernig við getum notið góðs af því.

[Neðanmáls]

^ gr. 7 Sumum nöfnunum er breytt.

Manstu?

• Hvernig er það gagnlegt fyrir okkur að fylgja leiðtoganum sem Guð hefur skipað?

• Hvernig geta unglingar sýnt að þeir vilja fylgja forystu Jesú?

• Hvaða áhrif hefur forysta Krists á fjölskyldulíf þeirra sem lúta henni?

• Hvernig getum við sýnt í boðunarstarfinu að við lítum raunverulega á Krist sem leiðtoga?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 9]

Unglingsárin eru góður tími til að afla sér þekkingar á Guði og útnefndum leiðtoga okkar.

[Mynd á blaðsíðu 10]

Það stuðlar að hamingjusömu fjölskyldulífi að lúta forystu Krists.

[Mynd á blaðsíðu 12]

Jesús leitaði fyrst Guðsríkis. Hvað um þig?