Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Njóttu góðs af því að elska orð Guðs

Njóttu góðs af því að elska orð Guðs

Njóttu góðs af því að elska orð Guðs

„Elska [viskuna], þá mun hún vernda þig. . . . hún mun koma þér til vegs, ef þú umfaðmar hana.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 4:6, 8.

1. Hvað felur það í sér að elska orð Guðs í raun og veru?

ÞAÐ er nauðsynlegt fyrir kristinn mann að lesa Biblíuna. En það eitt að lesa orð Guðs þýðir ekki í sjálfu sér að við elskum það. Hvað ef einhver les Biblíuna en iðkar síðan það sem hún fordæmir? Það er greinilegt að hann elskar ekki orð Guðs á sama hátt og ritari 119. sálmsins. Kærleikur til orðs Guðs fékk hann til að lifa í samræmi við kröfur þess. — Sálmur 119:97, 101, 105.

2. Hvaða gagn er af viskunni sem byggist á orði Guðs?

2 Að lifa í samræmi við orð Guðs krefst þess að maður lagfæri stöðugt hugsun sína og lífsbreytni. Það ber vott um guðlega visku að nota viturlega þá þekkingu og þann skilning sem fæst með biblíunámi. „Elska [visku], þá mun hún vernda þig. Haf hana í hávegum, þá mun hún hefja þig, hún mun koma þér til vegs, ef þú umfaðmar hana. Hún mun setja yndislegan sveig á höfuð þér, sæma þig prýðilegri kórónu.“ (Orðskviðirnir 4:6, 8, 9) Þetta er góð hvatning til að efla kærleika sinn til orðs Guðs og láta það leiðbeina sér! Hver vill ekki njóta verndar, vera upphafinn og vegsamlegur?

Vernd gegn varanlegum skaða

3. Af hverju þurfa kristnir menn meira á vernd að halda nú en nokkru sinni og fyrir hverjum?

3 Hvernig veitir viskan, sem fæst með því að nema og fylgja orði Guðs, okkur vernd? Maður nýtur meðal annars verndar gegn Satan djöflinum. Jesús kenndi fylgjendum sínum að biðja um frelsun frá hinum vonda, Satan. (Matteus 6:13, neðanmáls) Nú á dögum er svo sannarlega mikilvægt að biðja um það. Satan og djöflum hans var kastað af himnum árið 1914 og þar af leiðandi er Satan „í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.“ (Opinberunarbókin 12:9, 10, 12) Núna þegar tíminn er á þrotum hlýtur hann að vera hamslaus af reiði þar sem hann heyr tapað stríð við þá „er varðveita boð Guðs og hafa vitnisburð Jesú.“ — Opinberunarbókin 12:17.

4. Hvernig njóta kristnir menn verndar gegn þrýstingi og snörum Satans?

4 Í reiði sinni heldur Satan áfram að gera þessum kristnu þjónum erfitt fyrir og ýtir undir ofbeldisfullar ofsóknir á hendur þeim eða tálmar starfi þeirra með öðrum hætti. Hann vill líka tæla boðbera Guðsríkis til að einbeita sér frekar að afþreyingu, skemmtanalífi, frama í heiminum og efnislegum eigum heldur en að prédikun Guðsríkis. Hvað verndar trúfasta þjóna Guðs gegn því að láta undan þrýstingi Satans eða að festast í gildrum hans? Að sjálfsögðu eru bæn, náið einkasamband við Jehóva, og trú á að fyrirheit hans séu áreiðanleg mjög mikilvægt. En það allt tengist því að hafa þekkingu á orði Guðs og vera staðráðinn í að gefa gaum að áminningum þess. Við komum auga á þessar áminningar með því að lesa Biblíuna og biblíunámsgögn, sækja samkomur, gefa gaum að biblíulegum ráðleggingum trúbræðra okkar eða einfaldlega með því að hugleiða í bænarhug meginreglur Biblíunnar sem andi Guðs kallar fram í hugann. — Jesaja 30:21; Jóhannes 14:26; 1. Jóhannesarbréf 2:15-17.

5. Á hvaða hátt verndar viskan frá orði Guðs okkur?

5 Þeir sem elska orð Guðs eru einnig verndaðir á aðra vegu. Til dæmis komast þeir hjá þeirri kvöl og þeim sjúkdómum sem stafa af fíkniefna- og tóbaksnotkun og siðleysi. (1. Korintubréf 5:11; 2. Korintubréf 7:1) Þeir stuðla ekki að spennu milli manna með slúðri eða óvingjarnlegu máli. (Efesusbréfið 4:31) Þeir sökkva sér ekki niður í villandi heimspeki og visku þessa heims og verða svo efasemdum að bráð. (1. Korintubréf 3:19) Þeir elska orð Guðs og eru þess vegna verndaðir gegn því sem gæti annars rænt þá sambandinu við Guð og voninni um eilíft líf. Þeir eru önnum kafnir við að hjálpa náunganum að festa trú á hin dásamlegu loforð Biblíunnar og vita að þannig ‚gera þeir bæði sjálfa sig hólpna og áheyrendur sína.‘ — 1. Tímóteusarbréf 4:16.

6. Hvernig getur viskan í orði Guðs verndað okkur jafnvel undir erfiðum aðstæðum?

6 Rétt er það að „tími og tilviljun“ mætir öllum — jafnvel þeim sem elska orð Guðs. (Prédikarinn 9:11) Það er óhjákvæmilegt að einhverjir okkar verði fyrir náttúruhamförum, alvarlegum veikindum, slysi eða ótímabærum dauða. Engu að síður njótum við verndar. Engin ógæfa getur varanlega skaðað þann sem elskar orð Guðs í raun og veru. Við ættum því ekki að hafa of miklar áhyggjur af því sem gæti gerst í framtíðinni. Þegar við höfum gert skynsamlegar ráðstafanir er best að leggja málið í hendur Jehóva og leyfa ekki óvissu nútímans að ræna okkur rónni. (Matteus 6:33, 34; Filippíbréfið 4:6, 7) Hafðu í huga að upprisuvonin er áreiðanleg og að betra líf tekur við þegar Guð ‚gerir alla hluti nýja.‘ — Opinberunarbókin 21:5; Jóhannes 11:25.

Vertu ‚góð jörð‘

7. Hvaða dæmisögu sagði Jesús mannfjöldanum sem kom til að hlusta á hann?

7 Í einni dæmisögu sinni lagði Jesús áherslu á hve mikilvægt það er að hafa rétt viðhorf til orðs Guðs. Þegar Jesús boðaði fagnaðarerindið í Palestínu safnaðist saman mikill mannfjöldi til að hlusta á hann. (Lúkas 8:1, 4) En ekki elskuðu allir orð Guðs í raun og veru. Eflaust komu margir til að hlusta á hann af því að þeir vildu sjá kraftaverk eða af því að þeir dáðust að stórkostlegum kennsluaðferðum hans. Jesús sagði mannfjöldanum því dæmisögu: „Sáðmaður gekk út að sá sæði sínu. Og þá er hann sáði, féll sumt hjá götunni og varð fótum troðið, og fuglar himins átu það upp. Sumt féll á klöpp. Það spratt, en skrælnaði, af því að það hafði ekki raka. Og sumt féll meðal þyrna, og þyrnarnir spruttu einnig og kæfðu það. En sumt féll í góða jörð, óx upp og bar hundraðfaldan ávöxt.“ — Lúkas 8:5-8.

8. Hvað merkir sæðið í dæmisögu Jesú?

8 Dæmisaga Jesú sýndi að viðbrögð fólks við boðun fagnaðarerindisins yrðu breytileg eftir hjartalagi þess. Sæðið, sem var sáð, er „Guðs orð.“ (Lúkas 8:11) Eða eins og önnur útgáfa dæmisögunnar segir, er sæðið „orðið um ríkið.“ (Matteus 13:19) Jesús gat notað báðar útgáfurnar þar sem stef orðs Guðs er himnaríki undir konungsstjórn Jesú Krists sem Jehóva notar til að réttlæta drottinvald sitt og helga nafn sitt. (Matteus 6:9, 10) Sæðið er þá í rauninni boðskapur fagnaðarerindisins í orði Guðs, Biblíunni. Vottar Jehóva leggja áherslu á ríkisboðskapinn þegar þeir sá sæði að fyrirmynd fyrsta sáðmannsins, Jesú Krists. Hvaða viðbrögð fá þeir?

9. Hvað er átt við með sæðinu sem fellur (a) hjá götunni? (b) á klöpp? (c) meðal þyrna?

9 Jesús sagði að sumt af sæðinu félli hjá götunni og yrði troðið niður. Þar er átt við menn sem eru svo áhyggjufullir að sæði Guðsríkis nær ekki að festa rætur í hjarta þeirra. Áður en þeir geta farið að elska orð Guðs „kemur djöfullinn og tekur [orðið] burt úr hjarta þeirra, til þess að þeir trúi ekki og verði hólpnir.“ (Lúkas 8:12) Sumt fellur á klöpp. Þar er átt við menn sem laðast að boðskap Biblíunnar en láta hann ekki hafa áhrif á hjarta sitt. Þegar þeir mæta andstöðu eða finnst erfitt að fylgja ráðum Biblíunnar ‚falla þeir frá‘ af því að þeir hafa enga rótfestu. (Lúkas 8:13) Þá eru það þeir sem heyra orðið en kafna undan „áhyggjum, auðæfum og nautnum lífsins.“ Eins og plöntur sem eru flæktar í þyrnum „kafna“ þeir að lokum. — Lúkas 8:14.

10, 11. (a) Hverja táknar góða jörðin? (b) Hvað þurfum við að gera til að „geyma“ orð Guðs í hjarta okkar?

10 Að síðustu er sæðið sem fellur í góða jörð. Þar er átt við fólk sem tekur við boðskapnum með „göfugu, góðu hjarta.“ Eðlilega viljum við öll halda að við tilheyrum þessum flokki. En þegar öllu er á botninn hvolft er það álit Guðs sem ræður úrslitum. (Orðskviðirnir 17:3; 1. Korintubréf 4:4, 5) Orð hans segir að það sýni sig með verkum okkar héðan í frá og allt til dauða eða þar til Guð bindur enda á þetta vonda heimskerfi hvort við höfum ‚göfugt, gott hjarta.‘ Það er gott ef fyrstu viðbrögð okkar við guðsríkisboðskapnum eru jákvæð. Hins vegar munu þeir sem hafa göfugt og gott hjarta taka við orði Guðs og „geyma það . . . og bera ávöxt með stöðuglyndi.“ — Lúkas 8:15.

11 Eina örugga leiðin til að geyma orð Guðs í hjarta okkar er að lesa og nema það bæði ein og sér og með trúbræðrum. Það felur í sér að notfæra sér að fullu andlegu fæðuna sem við fáum eftir þeirri boðleið sem opnuð var til að gæta andlegra hagsmuna fylgjenda Jesú. (Matteus 24:45-47) Þannig örvar kærleikur þá sem geyma orð Guðs í hjarta sér til að „bera ávöxt með stöðuglyndi.“

12. Hvaða ávöxt þurfum við að bera með stöðuglyndi?

12 Hvaða ávöxtur gefur góði jarðvegurinn af sér? Í náttúrunni vaxa af sæði eða fræi plöntur er bera ávöxt með sama sæði sem síðan er hægt að sá til að fá meiri ávöxt. Eins vex sæði orðsins í þeim sem hafa göfugt og gott hjarta þannig að þeir sækja fram andlega þar til þeir geta síðan sáð sæðinu í hjörtu annarra. (Matteus 28:19, 20) Og sáningarstarf þeirra einkennist af þolgæði. Jesús benti á mikilvægi þolgæðis í sáningu þegar hann sagði: „En sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða. Og þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ — Matteus 24:13, 14.

‚Berðu ávöxt í öllu góðu verki‘

13. Hvaða bæn bar Páll postuli fram sem tengdi ávexti við þekkingu á orði Guðs?

13 Páll postuli talaði einnig um þörfina á því að bera ávöxt og hann tengdi það við orð Guðs. Hann bað að trúbræður sínir ‚mættu fyllast þekkingu á vilja Guðs með allri speki og skilningi andans, svo að þeir hegðuðu sér eins og Jehóva er samboðið, honum til þóknunar á allan hátt, og fengju borið ávöxt í öllu góðu verki.‘ — Kólossubréfið 1:9, 10; Filippíbréfið 1:9-11.

14-16. Hvaða ávexti bera þeir sem elska orð Guðs, í samræmi við bæn Páls?

14 Páll sýnir þannig fram á að það er ekki takmarkið í sjálfu sér að öðlast þekkingu á Biblíunni heldur ætti kærleikur til orðs Guðs að knýja okkur til að ‚hegða okkur eins og Jehóva er samboðið‘ með því að halda áfram að ‚bera ávöxt í öllu góðu verki.‘ Hvaða góðu verki? Prédikun fagnaðarerindisins er einstakt verkefni kristinna manna núna á síðustu dögum. (Markús 13:10) Auk þess gera þeir sem elska orð Guðs sitt besta til að styðja þetta starf að staðaldri með fjárframlögum. Þeir hafa yndi af þessum sérréttindum og vita að „Guð elskar glaðan gjafara.“ (2. Korintubréf 9:7) Framlög þeirra standa undir rekstri meira en eitt hundrað betelheimila þaðan sem prédikunarstarfi Guðsríkis er stýrt og þar sem sums staðar eru framleiddar biblíur og biblíurit. Framlög þeirra eru einnig notuð til að standa straum af stórmótum og af útgjöldum farandhirða, trúboða og annarra þjóna í fullu starfi.

15 Það eru einnig góð verk að byggja og hugsa um tilbeiðslumiðstöðvar. Kærleikur til orðs Guðs knýr tilbiðjendur hans til að sjá um að mótshöllum og ríkissölum sé vel við haldið. (Samanber Nehemíabók 10:39, NW.) Þar sem nafn Guðs stendur utan á þessum húsum er mikilvægt að þeim sé haldið hreinum og aðlaðandi að innan og utan og að hegðun þeirra sem tilbiðja þar sé hafin yfir ámæli. (2. Korintubréf 6:3) Sumir kristnir menn geta gert meira. Kærleikur til orðs Guðs knýr þá til að ferðast langar vegalengdir til að taka þátt í að reisa ný tilbeiðsluhús þar sem þörf er á vegna fátæktar eða þar sem skortir kunnáttu. — 2. Korintubréf 8:14.

16 ‚Að bera ávöxt í öllu góðu verki‘ felur einnig í sér að rækja skyldur sínar innan fjölskyldunnar og sýna trúsystkinum sínum umhyggju. Kærleikur til orðs Guðs knýr okkur til að vera vakandi fyrir þörfum ‚trúbræðra okkar‘ og „sýna rækt eigin heimili.“ (Galatabréfið 6:10; 1. Tímóteusarbréf 5:4, 8) Í því sambandi er það gott verk að heimsækja sjúka og hughreysta syrgjendur. Og safnaðaröldungar og spítalasamskiptanefndir vinna gott starf við að hjálpa þeim sem eiga í prófraunum í sambandi við læknismeðferð. (Postulasagan 15:29) Þá færast hörmungar stöðugt í aukana — sumar þeirra koma af náttúrunnar hendi og aðrar vegna heimsku manna. Með hjálp anda Guðs hafa vottar Jehóva áunnið sér gott orð víða um heim fyrir að vera fljótir að veita trúbræðrum sínum og öðrum fórnarlömbum hamfara og slysa neyðaraðstoð. Allt eru þetta góðir ávextir þeirra sem elska orð Guðs.

Dýrleg framtíð

17, 18. (a) Hverju er áorkað með því að sá sæði Guðsríkis? (b) Hvaða þýðingarmiklum atburðum verða þeir sem elska orð Guðs bráðum vitni að?

17 Sáningarstarfið heldur áfram að koma mannkyninu að góðu gagni. Á undanförnum árum hafa meira en 300.000 manns ár hvert leyft boðskap Biblíunnar að festa rætur í hjarta sér svo að þeir hafa vígt Jehóva líf sitt og látið skírast í vatni til tákns um það. Þeirra bíður dýrleg framtíð!

18 Þeir sem elska orð Guðs vita að bráðum rís Jehóva Guð upp til að mikla nafn sitt. ‚Babýlon hinni miklu,‘ heimsveldi falskra trúarbragða, verður eytt. (Opinberunarbókin 18:2, 8) Þá mun konungurinn Jesús Kristur taka þá af lífi sem neita að lifa í samræmi við orð Guðs. (Sálmur 2:9-11; Daníel 2:44) Eftir það leysir Guðsríki menn varanlega undan glæpum, styrjöldum og öðrum hörmungum. Það þarf ekki lengur að hugga fólk vegna kvala, sjúkdóma og dauða. — Opinberunarbókin 21:3, 4.

19, 20. Hvaða dýrleg framtíð bíður þeirra sem elska orð Guðs í raun og veru?

19 Þeir sem elska orð Guðs vinna þá dásamleg, góð verk! Þeir sem lifa af Harmagedón byrja á því ánægjulega starfi að breyta jörðinni í paradís. Þeir munu fá þau hrífandi sérréttindi að sinna þörfum látinna sem hvíla nú í gröfinni en eru í minni Guðs og eiga í vændum að fá hlutdeild í upprisu dauðra. ( Jóhannes 5:28, 29) Þá munu fullkomnar leiðbeiningar streyma til jarðarbúa frá alvöldum Drottni Jehóva fyrir milligöngu upphafins sonar hans, Jesú Krists. ‚Bókum verður lokið upp‘ sem opinbera leiðbeiningar Jehóva um hvernig eigi að lifa í nýja heiminum. — Opinberunarbókin 20:12.

20 Þegar tími Jehóva er kominn verða öllum smurðum kristnum mönnum veitt himnesk laun sín sem „samarfar Krists.“ (Rómverjabréfið 8:17) Undir þúsund ára stjórn Krists verður öllum sem elska orð Guðs lyft upp til fullkomleika á huga og líkama. Eftir að þeir reynast trúfastir í lokaprófinu verður þeim umbunað með eilífu lífi og njóta „dýrðarfrelsis Guðs barna.“ (Rómverjabréfið 8:21; Opinberunarbókin 20:1-3, 7-10) Það verður dásamlegur tími! Hvort sem Jehóva hefur veitt okkur himneska eða jarðneska von mun varanlegur kærleikur til orðs hans og staðfesta í að lifa samkvæmt visku hans vissulega vernda okkur. Og í framtíðinni mun hún ‚koma okkur til vegs ef við umföðmum hana.‘ — Orðskviðirnir 4:6, 8.

Geturðu útskýrt?

◻ Hvernig mun kærleikur til orðs Guðs vernda okkur?

◻ Hvert er sæðið í dæmisögu Jesú og hvernig er því sáð?

◻ Hvernig getum við reynst vera ‚góð jörð‘?

◻ Hvaða blessunar geta þeir vænst sem elska orð Guðs?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 28]

Sæðið í dæmisögu Jesú merkir boðskap fagnaðarerindisins í orði Guðs.

[Credit line]

Garo Nalbandian

[Mynd á blaðsíðu 29]

Vottar Jehóva líkja eftir hinum mikla sáðmanni.

[Mynd á blaðsíðu 31]

Þeir sem lifa af Harmagedón munu njóta ávaxta jarðarinnar.