Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig mun þér reiða af frammi fyrir dómstólnum?

Hvernig mun þér reiða af frammi fyrir dómstólnum?

Hvernig mun þér reiða af frammi fyrir dómstólnum?

„Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu.“ — MATTEUS 25:31.

1-3. Hvaða ástæðu höfum við til að vera bjartsýn í sambandi við réttlæti?

 ‚SÝKN EÐA SEKUR?‘ Margir velta þeirri spurningu fyrir sér þegar fréttist af einhverju dómsmáli. Dómarar og kviðdómendur reyna að komast að réttri niðurstöðu, en er réttlætinu alltaf fullnægt? Hefurðu ekki heyrt um ranglæti og óréttlæti í dómi? Slíkt óréttlæti er engin nýlunda eins og sjá má af dæmisögu Jesú í Lúkasi 18:1-8.

2 En hver sem reynsla þín er af réttvísi manna skaltu taka eftir niðurlagsorðum Jesú: „Mun Guð þá ekki rétta hlut sinna útvöldu, sem hrópa til hans dag og nótt? . . . Ég segi yður: Hann mun skjótt rétta hlut þeirra. En mun Mannssonurinn finna trúna á jörðu, þegar hann kemur?“

3 Já, Jehóva mun sjá til þess að þjónar hans njóti réttlætis að lokum. Jesús á líka hlut að máli, einkum núna vegna þess að við lifum á „síðustu dögum“ þessa illa heimskerfis. Jehóva mun bráðlega láta hinn volduga son sinn afmá illskuna af jörðinni. (2. Tímóteusarbréf 3:1; 2. Þessaloníkubréf 1:7, 8; Opinberunarbókin 19: 11-16) Ein af síðustu dæmisögum Jesú, oft kölluð dæmisagan um sauðina og hafrana, varpar ljósi á hlutverk Jesú í því sambandi.

4. Hvenær höfum við skilið að dæmisagan um sauðina og hafrana eigi að rætast, en hvers vegna beinum við athygli okkar að henni núna? (Orðskviðirnir 4:18)

4 Við höfum lengi álitið að dæmisagan lýsi Jesú setjast í hásæti sem konungur árið 1914 til að dæma menn — þá sem líkjast sauðum til eilífs lífs en þá sem líkjast höfrum til eilífs dauða. En endurskoðun dæmisögunnar gefur okkur tilefni til að leiðrétta skilning okkar á því hvenær hún uppfyllist og hverju hún lýsir. Þessi gleggri skilningur undirstrikar mikilvægi prédikunarstarfsins og þýðingu þeirra viðbragða sem fólk sýnir. Til að glöggva okkur á forsendum þessa dýpri skilnings á dæmisögunni skulum við íhuga það sem Biblían segir um Jehóva og Jesú, bæði sem konunga og dómara.

Jehóva sem æðsti dómari

5, 6. Af hverju er við hæfi að líta á Jehóva bæði sem konung og dómara?

5 Jehóva stjórnar öllum alheiminum. Hann á sér ekkert upphaf og engan endi og er ‚konungur eilífðarinnar.‘ (1. Tímóteusarbréf 1:17; Sálmur 90:2, 4; Opinberunarbókin 15:3) Hann hefur vald til að setja lög og lagaboð og framfylgja þeim. En hann er líka dómari. Jesaja 33:22 segir: „[Jehóva] er vor dómari, [Jehóva] er vor löggjafi, [Jehóva] er vor konungur, hann mun frelsa oss.“

6 Þjónar Jehóva hafa lengi viðurkennt hann sem dómara. Til dæmis, eftir að „dómari alls jarðríkis“ hafði vegið og metið sönnunargögnin fyrir illsku Sódómu og Gómorru, bæði felldi hann þann réttláta dóm að borgarbúar verðskulduðu tortímingu og framfylgdi honum. (1. Mósebók 18:20-33; Jobsbók 34:10-12) Það er traustvekjandi að vita að Jehóva er réttlátur dómari sem getur alltaf framfylgt dómum sínum!

7. Hvernig kom Jehóva fram sem dómari í samskiptum við Ísrael?

7 Jehóva dæmdi stundum milliliðalaust í Forn-Ísrael. Hefði þér ekki þótt það hughreystandi á þeim tíma að vita að fullkominn dómari skar úr málum? (3. Mósebók 24:10-16; 4. Mósebók 15:32-36; 27:1-11) Guð setti líka „lög“ og „ákvæði“ sem voru öll góður mælikvarði til að dæma eftir. (3. Mósebók 25:18, 19; Nehemíabók 9:13; Sálmur 19:10, 11; 119:7, 75, 164; 147:19, 20) Hann er „dómari alls jarðríkis“ þannig að þetta snertir okkur öll. — Hebreabréfið 12:23.

8. Hvaða sýn sá Daníel sem kemur þessu máli við?

8 Við höfum vitnisburð „sjónarvotts“ í þessu máli. Spámaðurinn Daníel sá í sýn grimmdarleg villidýr sem táknuðu stjórnir eða heimsveldi. (Daníel 7:1-8, 17) Svo sagði hann: „Stólar voru settir fram og hinn aldraði settist niður. Klæði hans voru hvít sem snjór.“ (Daníel 7:9) Tökum eftir að Daníel sá stóla eða hásæti „og hinn aldraði [Jehóva] settist niður.“ Spyrðu þig: Varð Daníel vitni að því hér að Guð tæki við konungdómi?

9. Hver er ein merking þess að ‚setjast‘ í hásæti. Nefndu dæmi.

9 Þegar við lesum að einhver hafi ‚sest‘ í hásæti væri eðlilegt að halda að hann hafi verið að taka við konungdómi því að Biblían tekur stundum þannig til orða. Til dæmis: „En er [Simrí] var konungur orðinn og sestur í hásæti . . . “ (1. Konungabók 16:11; 2. Konungabók 10:30; 15:12; Jeremía 33:17) Messíasarspádómur sagði: „Hann mun sitja og drottna í hásæti sínu.“ Að ‚setjast í hásæti‘ getur því merkt að taka við konungdómi. (Sakaría 6:12, 13) Jehóva er lýst sem konungi er situr í hásæti. (1. Konungabók 22:19; Jesaja 6:1; Opinberunarbókin 4:1-3) Hann er „konungur aldanna.“ En er drottinvald hans tók á sig nýja mynd var hægt að segja að hann hafi orðið konungur, eins og væri hann að setjast í hásæti að nýju. — 1. Kroníkubók 16:1, 31; Jesaja 52:7; Opinberunarbókin 11:15-17; 15:3; 19:1, 2, 6.

10. Hvert var eitt af aðalstörfum ísraelskra konunga? Lýstu með dæmi.

10 En hér þarf að hafa í huga ákveðið grundvallaratriði: Eitt aðalstarf konunga til forna var að hlýða á mál manna og fella dóma. (Orðskviðirnir 29:14) Mundu eftir viturlegum dómi Salómons þegar tvær konur gerðu tilkall til sama barns. (1. Konungabók 3:16-28; 2. Kroníkubók 9:8) Ein stjórnarbygginga hans var ‚hásætissalur, þar sem hann kvað upp dóma,‘ einnig kallaður ‚dómhöllin.‘ (1. Konungabók 7:7) Jerúsalem var kölluð staðurinn þar sem „standa dómarastólar.“ (Sálmarnir 122:5) Ljóst er að það getur einnig merkt að fara með dómsvald þegar talað er um að ‚setjast í hásæti.‘ — 2. Mósebók 18:13; Orðskviðirnir 20:8.

11, 12. (a) Hvaða þýðingu hafði það að Jehóva settist niður eins og nefnt er í 7. kafla hjá Daníel? (b) Hvernig staðfesta aðrar ritningargreinar að Jehóva sest niður til að dæma?

11 Snúum okkur aftur að sýninni þar sem Daníel sá ‚hinn aldraða setjast niður.‘ Daníel 7:10 bætir við: „Dómendurnir settust niður og bókunum var flett upp.“ Já, hinn aldraði sat til að fella dóm um heimsyfirráðin og dæma Mannssoninn verðugan til að stjórna. (Daníel 7:13, 14) Síðan lesum við að ‚hinn aldraði hafi komið og hinir heilögu Hins hæsta hafi náð rétti sínum,‘ það er að segja þeir sem dæmdir eru hæfir til að stjórna með Mannssyninum. (Daníel 7:22) Að síðustu var ‚dómurinn settur‘ og dæmdi síðasta heimsveldinu í óhag. — Daníel 7:26. *

12 Þegar Daníel sá Guð ‚setjast í hásæti‘ merkti það þar af leiðandi að hann hafi komið til að fella dóm. Áður hafði Davíð sungið: „Þú [Jehóva] hefir látið mig ná rétti mínum og flutt mál mitt, setst í hásætið sem réttlátur dómari.“ (Sálmur 9:5, 8) Og Jóel skrifaði: „Hreyfing skal koma á þjóðirnar og þær skulu halda upp í Jósafatsdal, því að þar mun ég [Jehóva] sitja til þess að dæma allar þjóðirnar.“ (Jóel 3:17; samanber Jesaja 16:5.) Bæði Jesús og Páll komu fyrir rétt þar sem maður sat til að hlýða á mál og fella dóm. * — Jóhannes 19:12-16; Postulasagan 23:3; 25:6.

Staða Jesú

13, 14. (a) Hvaða fullvissu hafði fólk Guðs fyrir því að Jesús yrði konungur? (b) Hvenær settist Jesús í hásæti og í hvaða skilningi ríkti hann frá árinu 33?

13 Jehóva er bæði konungur og dómari. Hvað um Jesú? Engillinn, sem tilkynnti fæðingu hans, sagði: „[Jehóva] Guð mun gefa honum hásæti Davíðs föður hans, . . . og á ríki hans mun enginn endir verða.“ (Lúkas 1:32, 33) Jesús yrði varanlegur erfingi konungdóms Davíðs. (2. Samúelsbók 7:12-16) Hann myndi ríkja af himnum því að Davíð sagði: „Svo segir [Jehóva] við herra minn [Jesú]: ‚Sest þú mér til hægri handar, þá mun ég leggja óvini þína sem fótskör að fótum þér.‘ [Jehóva] réttir út þinn volduga sprota frá Síon, drottna þú mitt á meðal óvina þinna!‘“ — Sálmur 110:1-4.

14 Hvenær myndi það verða? Jesús ríkti ekki sem konungur meðan hann var maður. (Jóhannes 18:33-37) Hann dó árið 33, var reistur upp og steig upp til himna. Hebreabréfið 10:12 segir: „Jesús bar fram eina fórn fyrir syndirnar og settist um aldur við hægri hönd Guðs.“ Hvaða vald hafði Jesús? „[Guð] lét hann setjast sér til hægri handar í himinhæðum, ofar hverri tign og valdi og mætti, ofar öllum herradómi . . . og [gaf] hann kirkjunni sem höfuðið yfir öllu.“ (Efesusbréfið 1:20-22) Þar eð Jesús fór þá með konungsvald yfir kristnum mönnum gat Páll skrifað að Jehóva hefði ‚frelsað þá frá valdi myrkursins og flutt þá inn í ríki síns elskaða sonar.‘ — Kólossubréfið 1:13; 3:1.

15, 16. (a) Af hverju segjum við að Jesús hafi ekki orðið konungur Guðsríkis árið 33? (b) Hvenær tók Jesús að ríkja sem konungur Guðsríkis?

15 En Jesús ríkti ekki sem konungur og dómari yfir þjóðunum á þeim tíma. Hann sat næstur Guði og beið þess er hann skyldi ganga fram sem konungur Guðsríkis. Páll skrifaði um hann: „Við hvern af englunum hefur hann [Guð] nokkru sinni sagt: Set þig mér til hægri handar, uns ég gjöri óvini þína að fótskör þinni?“ — Hebreabréfið 1:13.

16 Vottar Jehóva hafa birt á prenti ríkuleg sönnunargögn fyrir því að biðtími Jesú hafi runnið út árið 1914 þegar hann varð ósýnilegur stjórnandi Guðsríkis á himnum. Opinberunarbókin 11:15, 18 segir: „Heimsríkið er orðið ríki Drottins vors og hans Smurða, og hann mun ríkja um aldir alda.“ (Biblían 1912) En „þjóðirnar reiddust og reiði þín kom.“ Já, reiði þjóðanna hver gegn annarri braust út í fyrri heimsstyrjöldinni. (Lúkas 21:24) Stríðin, jarðskjálftarnir, drepsóttirnar, hallærin og þvíumlíkt, sem við höfum orðið vitni að frá 1914, staðfestir að Jesús er nú við völd í Guðsríki og að endalok heimsins eru nálæg. — Matteus 24:3-14.

17. Hvaða grundvallaratriði höfum við gengið úr skugga um núna?

17 Rifjum stuttlega upp það sem á undan er komið: Segja má að Guð sitji í hásæti sem konungur en í öðrum skilningi getur hann sest í hásæti sitt til að dæma. Árið 33 settist Jesús við hægri hönd Guðs og er nú konungur Guðsríkis. En er Jesús, sem er konungur núna, einnig dómari? Og hvers vegna ætti það að skipta okkur máli, einkum nú á tímum?

18. Hvaða rök eru fyrir því að Jesús ætti líka að vera dómari?

18 Jehóva, sem hefur rétt til að skipa dómara, kaus Jesú sem dómara er uppfyllti kröfur hans. Jesús benti á það er hann talaði um fólk sem yrði lífgað andlega: „Enda dæmir faðirinn engan, heldur hefur hann falið syninum allan dóm.“ (Jóhannes 5:22) En dómarahlutverk Jesú nær ekki bara til hins andlega því að hann er dómari lifenda og dauðra. (Postulasagan 10:42; 2. Tímóteusarbréf 4:1) Páll sagði einu sinni: „[Guð] hefur sett dag, er hann mun láta mann, sem hann hefur fyrirhugað, dæma heimsbyggðina með réttvísi. Þetta hefur hann sannað öllum mönnum með því að reisa hann frá dauðum.“ — Postulasagan 17:31; Sálmur 72:2-7.

19. Af hverju er rétt að tala um að Jesús setjist í hásæti sem dómari?

19 Er það þá rétt ályktað að Jesús setjist í dýrðarhásæti sitt í sérstöku dómarahlutverki? Já. Jesús sagði postulunum: „Þegar allt er orðið endurfætt og Mannssonurinn situr í dýrðarhásæti sínu, munuð þér, sem fylgið mér, einnig sitja í tólf hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels.“ (Matteus 19:28) Þótt Jesús sé núna konungur Guðsríkis á hann einnig að setjast sem dómari í hásæti til að dæma í þúsundáraríkinu, eins og nefnt er í Matteusi 19:28. Þá mun hann dæma allt mannkynið, bæði réttláta og rangláta. (Postulasagan 24:15) Það er gott að hafa þetta í huga þegar við beinum athyglinni að einni af dæmisögum Jesú sem tengist sjálfum okkur og þeim tímum sem við lifum.

Hvað segir dæmisagan?

20, 21. Hvað spurðu postular Jesú um sem tengist okkar tímum og hvaða spurningu vekur það?

20 Postularnir spurðu Jesú skömmu fyrir dauða hans: „Hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn komu þinnar og endaloka veraldar?“ (Matteus 24:3) Jesús sagði fyrir þýðingarmikla þróun mála á jörðinni áður en ‚endirinn kæmi.‘ Skömmu fyrir þennan endi myndu þjóðirnar „sjá Mannssoninn koma á skýjum himins með mætti og mikilli dýrð.“ — Matteus 24:14, 29, 30.

21 En hvernig mun mönnum af þessum þjóðum farnast þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni? Við skulum kanna það út frá dæmisögunni um sauðina og hafrana sem hefst með orðunum: „Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu. Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum.“ — Matteus 25:31, 32.

22, 23. Hvað bendir til að dæmisagan um sauðina og hafrana hafi ekki byrjað að uppfyllast árið 1914?

22 Tók þessi dæmisaga að rætast þegar Jesús settist í hásæti sem konungur árið 1914, eins og við höfum lengi álitið? Nú, Matteus 25:34 talar um hann sem konung, þannig að rökrétt er að dæmisagan eigi við frá því að Jesús varð konungur árið 1914. En hvað dæmdi hann eftir það? Ekki „allar þjóðir“ heldur beindi hann athyglinni að þeim sem sögðust mynda ‚hús Guðs.‘ (1. Pétursbréf 4:17) Í samræmi við Malakí 3:1-3 kom Jesús sem sendiboði Jehóva til að rannsaka og dæma smurða kristna menn sem eftir voru á jörðinni. Hann felldi þá líka dóm yfir kristna heiminum sem sagðist ranglega vera ‚hús Guðs.‘ * (Opinberunarbókin 17:1, 2; 18:4-8) En ekkert bendir til að Jesús hafi á þeim tíma, og reyndar ekki heldur síðar, sest niður til að dæma allar þjóðir annaðhvort sauði eða hafra.

23 Ef við brjótum til mergjar störf Jesú í dæmisögunni sjáum við hann að lokum fella dóm yfir öllum þjóðum. Ekki verður ráðið af dæmisögunni að slíkur dómur standi yfir um margra ára skeið, rétt eins og hver einasti maður, sem hefur dáið á undanförnum áratugum, hafi verið dæmdur verðugur eilífs dauða eða eilífs lífs. Svo er að sjá sem flestir, er dóu á síðustu áratugum, hafi farið í sameiginlega gröf mannkynsins. (Opinberunarbókin 6:8; 20:13) En dæmisagan dregur upp mynd af þeim tíma er Jesús dæmir menn af ‚öllum þjóðum,‘ sem eru á lífi þá og eiga yfir höfði sér að dómi hans verði fullnægt.

24. Hvenær uppfyllist dæmisagan um sauðina og hafrana?

24 Með öðrum orðum vísar dæmisagan til framtíðarinnar er Mannssonurinn kemur í dýrð sinni. Hann sest niður til að dæma þálifandi menn. Dómur hans byggist á því hvers konar menn þeir hafa sýnt sig vera. Þá verður ‚mismunurinn, sem er á milli réttláts manns og óguðlegs,‘ orðinn auðsær. (Malakí 3:18) Dómurinn sjálfur verður kveðinn upp og honum fullnægt á tiltölulega skömmum tíma. Jesús fellir réttlátan dóm byggðan á því sem liggur fyrir um hvern mann. — Sjá einnig 2. Korintubréf 5:10.

25. Hverju er Matteus 25:31 að lýsa þegar sagt er að Mannssonurinn setjist í dýrðarhásæti sitt?

25 Þegar Matteus 25:31 segir að Jesús hafi ‚sest í dýrðarhásæti sitt‘ til að dæma, er þá átt við einhvern ákveðinn, ókominn tíma er þessi voldugi konungur sest niður til að fella dóm yfir þjóðunum og fullnægja honum? Já, dómsvettvangurinn, sem lýst er í Matteusi 25:31-33, 46, er sambærilegur við lýsinguna í Daníel 7. kafla þar sem konungurinn, hinn aldraði, settist niður til að gegna hlutverki sínu sem dómari.

26. Hvaða nýja skýringu sjáum við á dæmisögunni?

26 Þessi skilningur á dæmisögunni um sauðina og hafrana er þá sá að dómurinn yfir þeim verði felldur síðar. Það á sér stað eftir að ‚þrengingin,‘ sem nefnd er í Matteusi 24:29, 30, skellur á og Mannssonurinn ‚kemur í dýrð sinni.‘ (Samanber Markús 13:24-26.) Þegar endalokin blasa við hinu illa heimskerfi í heild, þá réttar Jesús, fellir dóm og fullnægir honum. — Jóhannes 5:30; 2. Þessaloníkubréf 1:7-10.

27. Hvað ættum við að hafa áhuga á að vita um síðustu dæmisögu Jesú?

27 Þetta skýrir skilning okkar á því hvenær dæmisaga Jesú rætist og hvenær sauðirnir og hafrarnir verða dæmdir. En hvaða áhrif hefur það á okkur sem prédikum fagnaðarerindið um Guðsríki kostgæfilega? (Matteus 24:14) Dregur það úr gildi starfs okkar eða leggur það á okkur aukna ábyrgð? Við skulum sjá í næstu grein hvaða áhrif það hefur á okkur.

[Neðanmáls]

^ Orðið, sem þýtt er „dómendurnir“ og „dómurinn“ í Daníel 7:10, 26, kemur einnig fyrir í Esrabók 7:26 og Daníel 4:37; 7:22.

^ Um það að kristnir menn drægju hver annan fyrir dómstóla spurði Páll: ‚Þið kveðjið að dómurum [bókstaflega „þið látið setjast“] menn, sem að engu eru hafðir í söfnuðinum.‘ — 1. Korintubréf 6:4.

^ Sjá bókin Opinberunarbókin — hið mikla hámark hennar er í nánd!, bls. 56, 73, 235-45 og 260, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

Manstu?

◻ Hvernig kemur Jehóva fram bæði sem konungur og dómari?

◻ Hvaða tvær merkingar getur það haft að ‚setjast í hásæti‘?

◻ Hvað sögðum við áður um uppfyllingartíma Matteusar 25:31 en hvaða forsendur eru fyrir því að leiðrétta það?

◻ Hvenær sest Mannssonurinn í hásæti sitt eins og gefið er til kynna í Matteusi 25:31?

[Spurningar]