Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Þegar Jesús innleiddi kvöldmáltíð Drottins, hvar voru lærisveinarnir 70 sem hann hafði sent út til að boða trúna? Höfðu þeir yfirgefið hann?

Það er engin ástæða til að álykta að Jesús hafi hafnað lærisveinunum 70 eða þeir yfirgefið hann þótt þeir væru ekki viðstaddir þegar hann innleiddi kvöldmáltíð Drottins. Jesús vildi einfaldlega vera með postulum sínum við þetta tækifæri.

Hann var bæði sáttur við þá 12 og lærisveinana 70. Jesús valdi fyrst 12 menn úr hópi lærisveina sinna og kallaði þá postula. (Lúk. 6:12–16) Hann var í Galíleu þegar hann ‚kallaði þá tólf‘ og „sendi þá af stað til að boða ríki Guðs og lækna“. (Lúk. 9:1–6) Síðar var hann staddur í Júdeu þegar hann valdi „70 aðra og sendi þá tvo og tvo á undan sér“. (Lúk. 9:51; 10:1) Lærisveinar Jesú voru því víða þar sem þeir boðuðu fagnaðarboðskapinn.

Gyðingar sem urðu lærisveinar Jesú héldu hina árlegu páskahátíð, líklega með fjölskyldum sínum. (2. Mós. 12:6–11, 17–20) Stuttu fyrir dauða sinn hélt Jesús til Jerúsalem ásamt lærisveinum sínum. En hann bað ekki alla lærisveina frá Júdeu, Galíleu og Pereu um að koma til að halda páskahátíðina með þeim. Jesús vildi greinilega vera með postulum sínum við þetta tækifæri. Hann sagði við þá: „Ég hef hlakkað mikið til að borða þessa páskamáltíð með ykkur áður en ég þarf að þjást.“ – Lúk. 22:15.

Hann hafði góða ástæðu til að gera þetta. Jesús er „lamb Guðs sem tekur burt synd heimsins“ og hann átti fljótlega eftir að deyja. (Jóh. 1:29) Það myndi gerast í Jerúsalem þar sem Guði höfðu lengi verið færðar fórnir. Dauði Jesú myndi færa mönnum annars konar frelsi en fékkst með lambinu sem Ísraelsmenn borðuðu með fjölskyldum sínum nóttina sem þeir yfirgáfu Egyptaland. (1. Kor. 5:7, 8) Það sem Jesús gerði opnaði leiðina fyrir postulana 12 til að verða hluti af undirstöðu kristna safnaðarins. (Ef. 2:20–22) Það er athyglisvert að hin helga borg Jerúsalem hvílir á „12 undirstöðusteinum“ og á þeim eru rituð „12 nöfn hinna 12 postula lambsins“. (Opinb. 21:10–14) Þessir trúföstu postular myndu gegna sérstöku hlutverki í fyrirætlun Guðs. Það er því skiljanlegt að Jesús vildi hafa þá með sér á síðustu páskahátíðinni og því sem á eftir fylgdi – kvöldmáltíð Drottins.

Lærisveinarnir 70 og aðrir lærisveinar voru ekki með Jesú við þetta tækifæri. En allir lærisveinar sem reyndust trúfastir myndu njóta gagns af kvöldmáltíð Drottins sem Jesús innleiddi. Allir sem urðu andasmurðir kristnir einstaklingar þegar fram liðu stundir gengust undir sáttmálann um ríkið sem Jesús talaði um þetta kvöld við postulana. – Lúk. 22:29, 30.