Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 42

SÖNGUR 103 Hirðarnir eru gjafir frá Guði

Sýnum þakklæti fyrir menn sem eru gjafir

Sýnum þakklæti fyrir menn sem eru gjafir

‚Þegar hann steig upp til hæða gaf hann menn að gjöf.‘EF. 4:8.

Í HNOTSKURN

Við skoðum hvernig safnaðarþjónar, öldungar og farandhirðar veita okkur hjálp og hvernig við getum sýnt þakklæti fyrir það sem þessir trúföstu menn gera.

1. Hvaða gjafir hefur Jesús gefið okkur?

 ÞEGAR Jesús var hér á jörðinni notaði hann ofurmannlega krafta sína til að hjálpa fólki. Enginn maður hefur verið jafn örlátur og hann. (Lúk. 9:12–17) Hann lagði líf sitt í sölurnar fyrir okkur en það er stærsta gjöf sem hugsast getur. (Jóh. 15:13) Hann hélt áfram að vera örlátur við okkur eftir að hann reis upp. Eins og hann lofaði bað hann Jehóva að úthella heilögum anda sínum til að kenna okkur og hugga. (Jóh. 14:16, 17, neðanmáls; 16:13) Og á safnaðarsamkomum þjálfar Jesús okkur til að gera fólk að lærisveinum um alla jörð. – Matt. 28:18–20.

2. Hverjar eru gjafirnar sem nefndar eru í Efesusbréfinu 4:7, 8?

2 Páll postuli talaði um aðra gjöf sem Jesús gaf þegar hann var kominn til himna: Hann gaf „menn að gjöf“. (Lestu Efesusbréfið 4:7, 8.) Páll útskýrir að Jesús hafi gefið þessa „menn að gjöf“ til að veita söfnuðinum stuðning á ýmsum sviðum. (Ef. 1:22, 23; 4:11–13) Þessar gjafir eru safnaðarþjónar, öldungar og farandhirðar. a Þeir eru ófullkomnir og gera að sjálfsögðu mistök. (Jak. 3:2) En Jesús Kristur Drottinn okkar hjálpar okkur fyrir atbeina þessara manna. Þeir eru gjafir hans til okkar.

3. Lýstu með dæmi hvernig við getum stutt þessa bræður í þeirra mikilvæga starfi.

3 Jesús útnefndi þessa menn til að sinna því mikilvæga verkefni að byggja upp söfnuðinn. (Ef. 4:12) En við getum öll gert okkar til að létta undir með þeim. Tökum dæmi: Þegar ríkissalur er reistur taka sumir þátt í byggingarvinnunni sjálfri, aðrir útvega mat eða sjá um þjónustu af öðru tagi. Á sama hátt getum við öll aðstoðað safnaðarþjóna, öldunga og farandhirða með því sem við segjum og gerum. Skoðum hvernig við njótum góðs af þeirra ötula starfi og hvernig við getum sýnt þeim og Jesú, sem gaf okkur þessar gjafir, að við kunnum virkilega að meta þá.

SAFNAÐARÞJÓNAR VEITA HJÁLP

4. Hvaða hjálp veittu safnaðarþjónar á fyrstu öld?

4 Á fyrstu öld voru sumir bræður útnefndir safnaðarþjónar. (1. Tím. 3:8) Svo virðist sem það hafi verið þeir sem Páll talaði um að hafi „veitt hjálp“ í söfnuðinum. (1. Kor. 12:28) Safnaðarþjónarnir sinntu augljóslega ýmsum mikilvægum málum þannig að öldungarnir gætu einbeitt sér að kennslu og hirðastarfi. Þeir hafa hugsanlega aðstoðað við að gera afrit af Ritningunum og útvegað það sem til þurfti til verksins.

5. Hvaða verkefnum sinna safnaðarþjónar nú á dögum?

5 Safnaðarþjónar sinna ýmsum mikilvægum verkefnum í söfnuðinum þínum. (1. Pét. 4:10) Þeir eru kannski beðnir að halda utan um bókhald safnaðarins eða starfssvæðin, panta rit fyrir boðbera, vera í hljóð- og mynddeildinni, sjá um umsjón í sal eða aðstoða við viðhald á ríkissalnum. Öll þessi verkefni eru nauðsynleg til að starf safnaðarins gangi vel og skipulega fyrir sig. (1. Kor. 14:40) Auk þess flytja sumir safnaðarþjónar opinbera fyrirlestra og eru með ræður á samkomunni Líf okkar og boðun. Safnaðarþjónn gæti líka fengið það verkefni að aðstoða umsjónarmann starfshóps. Og stundum biður öldungur safnaðarþjón að koma með sér í hirðisheimsókn.

6. Hvers vegna getum við verið þakklát fyrir duglegu safnaðarþjónana okkar?

6 Hvernig byggja safnaðarþjónarnir söfnuðinn upp? „Safnaðarþjónarnir leggja mikið á sig til að við getum haft ánægju af samkomunum og það geri ég svo sannarlega,“ segir Beberly, b systir í Bólivíu. „Vegna þess sem þeir leggja af mörkum get ég sungið, svarað, hlustað á ræður og lært af myndböndum og myndum. Þeir sjá um öryggismál og hjálpa þeim sem komast ekki á samkomu að tengjast með fjarfundabúnaði. Eftir samkomu hjálpa þeir til við þrif, sjá um bókhaldið og sjá til þess að við höfum nauðsynleg rit. Ég met þá mjög mikils.“ Leslie, sem býr í Kólumbíu og á mann sem er öldungur, segir: „Maðurinn minn stólar á að safnaðarþjónarnir annist ýmis verkefni. Hann hefði jafnvel enn meira að gera ef þeirra nyti ekki við. Ég er innilega þakklát fyrir fúsleika þeirra og hjálpsemi.“ Þú ert örugglega á sama máli. – 1. Tím. 3:13.

7. Hvernig getum við sýnt að við kunnum að meta safnaðarþjónana? (Sjá einnig mynd.)

7 Biblían hvetur okkur til að vera þakklát. (Kól. 3:15) Krzysztof, öldungur í Finnlandi, sýnir þakklæti í verki. „Ég sendi póstkort eða SMS með biblíuversi og segi safnaðarþjóninum hversu þakklátur ég er fyrir það sem hann gerir og hvernig hann hefur hvatt mig.“ Pascal og Jael, sem búa í Nýju-Kaledóníu, biðja oft fyrir safnaðarþjónunum. Pascal segir: „Upp á síðkastið höfum við beðið mikið fyrir safnaðarþjónunum okkar, þakkað Jehóva fyrir þá og beðið hann að vera með þeim og styrkja þá.“ Jehóva heyrir slíkar bænir og allur söfnuðurinn nýtur góðs af því. – 2. Kor. 1:11.

SAFNAÐARÖLDUNGAR „LEGGJA HART AÐ SÉR MEÐAL YKKAR“

8. Hvers vegna sagði Páll að öldungarnir á fyrstu öldinni legðu hart að sér? (1. Þessaloníkubréf 5:12, 13)

8 Öldungarnir á fyrstu öld lögðu hart að sér fyrir söfnuðinn. (Lestu 1. Þessaloníkubréf 5:12, 13; 1. Tím. 5:17) Þeir veittu forystu í söfnuðinum, stjórnuðu samkomum og tóku ákvarðanir sem öldungaráð. Þeir leiðbeindu bræðrum sínum og systrum með því að veita þeim kærleiksríkar leiðbeiningar söfnuðinum til verndar. (1. Þess. 2:11, 12; 2. Tím. 4:2) Þessir menn lögðu líka hart að sér til að sjá fyrir fjölskyldum sínum og vera sjálfir sterkir í trúnni. – 1. Tím. 3:2, 4; Tít. 1:6–9.

9. Hvað er í verkahring öldunga nú á dögum?

9 Öldungarnir eru önnum kafnir. Þeir boða fagnaðarboðskapinn. (2. Tím. 4:5) Þeir fara með forystuna í boðuninni, skipuleggja hana á starfssvæði safnaðarins og veita okkur þjálfun í boðun og kennslu. Þeir þurfa einnig að vera miskunnsamir og óhlutdrægir dómarar. Þegar kristinn maður drýgir alvarlega synd reyna öldungarnir að hjálpa honum að endurheimta gott samband við Jehóva. En þeir þurfa líka að hugsa um að halda söfnuðinum hreinum. (1. Kor. 5:12, 13; Gal. 6:1) Öldungarnir eru fyrst og fremst hirðar. (1. Pét. 5:1–3) Þeir flytja vel undirbúnar ræður, byggðar á Biblíunni, leggja sig fram við að kynnast öllum í söfnuðinum og fara í hirðisheimsóknir. Sumir öldungar aðstoða líka við að reisa ríkissali og halda þeim við. Aðrir skipuleggja mót, eru í spítalasamskiptanefndum eða hópum sem sinna sjúklingum og þeir gera margt fleira. Öldungarnir leggja hart að sér í okkar þágu.

10. Af hverju erum við þakklát fyrir það sem öldungarnir leggja á sig fyrir okkur?

10 Jehóva sagði fyrir að hirðar myndu annast okkur vel og við yrðum ‚ekki framar hrædd eða óttaslegin‘. (Jer. 23:4) Þetta er reynsla Johönnu, systur okkar frá Finnlandi, eftir að móðir hennar veiktist alvarlega. Hún segir: „Mér finnst erfitt að vera opin um tilfinningar mínar við aðra. En öldungur sem ég þekkti ekki mjög vel sýndi mér þolinmæði, bað með mér og fullvissaði mig um að Jehóva elskaði mig. Ég man ekki nákvæmlega það sem hann sagði en ég man að ég var ekki lengur áhyggjufull. Ég trúi því að Jehóva hafi sent hann á réttu augnabliki.“ Hvernig hafa öldungarnir í söfnuðinum þínum hjálpað þér?

11. Hvernig getum við sýnt að við séum þakklát fyrir það sem öldungarnir gera? (Sjá einnig mynd.)

11 Jehóva vill að við sýnum öldungunum innilegt þakklæti „fyrir starf þeirra“. (1. Þess. 5:12, 13) Henrietta, sem býr einnig í Finnlandi, segir: „Öldungarnir eru fúsir til að hjálpa öðrum. En það þýðir ekki að þeir hafi meiri tíma eða orku en aðrir og séu lausir við vandamál. Stundum segi ég við þá: „Ég vil bara að þú vitir að þú ert mjög góður öldungur.“ Systir í Tyrklandi sem heitir Sera segir: „Öldungar þurfa hvatningu til að halda áfram. Við getum skrifað þeim kort, boðið þeim í mat eða farið með þeim í boðunina.“ Tekur þú eftir öldungi sem leggur mjög hart að sér í söfnuðinum? Láttu hann vita að þú kunnir að meta hann. – 1. Kor. 16:18.

Þú getur hjálpað öldungunum að halda áfram með því að vera hvetjandi við þá. (Sjá 7., 11. og 15. grein.)


FARANDHIRÐAR BYGGJA SÖFNUÐINN UPP

12. Hvaða aðrir bræður byggðu upp söfnuðina á fyrstu öld? (1. Þessaloníkubréf 2:7, 8)

12 Jesús Kristur útnefndi einnig aðra menn til að þjóna í söfnuðinum. Undir forystu hans sendu öldungarnir í Jerúsalem Pál, Barnabas og aðra bræður til að þjóna sem farandhirðar. (Post. 11:22) Þeir gerðu það af sömu ástæðu og safnaðarþjónar og öldungar voru skipaðir – til að byggja upp söfnuðina. (Post. 15:40, 41) Þessir menn fórnuðu þægindum og hættu jafnvel lífinu til að kenna öðrum og hvetja þá. – Lestu 1. Þessaloníkubréf 2:7, 8.

13. Hver eru meðal annars verkefni farandhirða?

13 Farandhirðar þurfa að ferðast mikið. Sumir ferðast hundruð kílómetra til að heimsækja söfnuði. Þeir flytja nokkrar ræður í hverri viku, fara í hirðisheimsóknir og stýra brautryðjendafundum, öldungafundum og samansöfnunum fyrir boðunina. Þeir semja ræður og skipuleggja svæðismót og umdæmismót. Þeir kenna í brautryðjendaskólum og skipuleggja sérstakan fund með brautryðjendum fyrir svæðismótin og sinna ýmsum mikilvægum verkefnum og stundum áríðandi sem deildarskrifstofan úthlutar þeim.

14. Hvaða ástæður höfum við til að vera innilega þakklát fyrir farandhirða okkar?

14 Hvernig njóta söfnuðir góðs af dýrmætu starfi farandhirða? Bróðir í Tyrklandi talar um hvernig farandhirðisheimsóknir hafa gagnast honum. „Þær hvetja mig alltaf til að leggja enn meira á mig til að hjálpa trúsystkinum mínum. Ég hef kynnst mörgum farandhirðum en aldrei fengið á tilfinninguna að þeir hefðu ekki áhuga á að tala við mig eða væru of uppteknir.“ Johanna, sem áður var minnst á, var í boðuninni með farandhirði en enginn var heima. Hún segir: „Þetta var samt mjög eftirminnilegur dagur. Báðar systur mínar höfðu flust burt og ég saknaði þeirra mjög mikið. Farandhirðirinn hvatti mig hlýlega og opnaði augu mín fyrir því að fjarlægðir eru aðeins tímabundnar fyrir þjóna Jehóva því að í nýja heiminum fáum við ótakmarkaðan tíma með fjölskyldum okkar. Margir farandhirðar eru bræðrum okkar og systrum mjög kærir vegna þeirrar uppörvunar sem þeir hafa veitt. – Post. 20:37–21:1.

15. (a) Hvernig getum við sýnt að við kunnum að meta farandhirðana samkvæmt því sem segir í 3. Jóhannesarbréfi 5–8? (Sjá einnig mynd.) (b) Hvers vegna ættum við að sýna eiginkonum bræðra sem leggja hart að sér í söfnuðinum tillitssemi og hvernig getum við gert það? (Sjá einnig rammagreinina „ Gleymum ekki eiginkonum þeirra“.)

15 Jóhannes postuli hvatti Gajus til að sýna bræðrunum sem heimsóttu söfnuðinn gestrisni og „aðstoða þá eins og viðeigandi er í augum Guðs“. (Lestu 3. Jóhannesarbréf 5–8.) Ein leið er að bjóða farandhirðinum í mat. Önnur leið er að mæta í samansafnanir fyrir boðunina meðan á heimsókn hans stendur. Leslie, sem vitnað var í áður, sýnir þakklæti sitt á fleiri vegu. „Ég bið Jehóva um að sjá til þess að þeir hafi það sem þeir þurfa,“ segir hún. „Við hjónin höfum líka skrifað þeim bréf til að láta þá vita að heimsóknir þeirra hafi reynst okkur mikil hjálp.“ Munum að farandhirðar eru engin ofurmenni. Þeir veikjast líka og eru stundum áhyggjufullir eða niðurdregnir. Vingjarnleg orð eða lítil gjöf getur verið svar Jehóva við bæn farandhirðisins um hjálp. – Orðskv. 12:25.

ÞAÐ ER ÞÖRF FYRIR „MENN AÐ GJÖF“

16. Hvað gætu bræður hugleitt samkvæmt Orðskviðunum 3:27?

16 Um allan heim er mikil þörf fyrir bræður til að þjóna í söfnuðinum. Getur þú boðið þig fram til að leggja hönd á plóginn ef þú ert skírður bróðir? (Lestu Orðskviðina 3:27.) Ertu tilbúinn til að vinna að því markmiði að verða safnaðarþjónn? Ef þú ert þegar safnaðarþjónn gætirðu þá stefnt að því að verða öldungur? c Geturðu gert breytingar í lífinu til að opna möguleikann á að sækja um Skólann fyrir boðbera Guðsríkis? Þessi skóli veitir þér þjálfun til að nýtast enn betur í söfnuðinum sem Jesús fer fyrir. Biddu til Jehóva ef þér finnst þú ekki hæfur. Biddu hann um hjálp heilags anda til að sjá um hvaða verkefni sem þér er falið. – Lúk. 11:13; Post. 20:28.

17. Hvað eru mennirnir sem Jesús gefur að gjöf merki um?

17 Bræðurnir sem Jesús hefur gefið að gjöf eru merki um að hann fer fyrir söfnuðinum nú á síðustu dögum. (Matt. 28:20) Við getum verið þakklát að konungur okkar skuli vera kærleiksríkur, örlátur og umhyggjusamur og sjá okkur fyrir hæfum bræðrum sem annast þarfir okkar. Leitum tækifæra til að sýna að við kunnum að meta þessa harðduglegu menn. Og gleymum aldrei að þakka Jehóva því að hann er sá sem gefur okkur ‚sérhverja góða og fullkomna gjöf‘. – Jak. 1:17.

SÖNGUR 99 Milljónir bræðra

a Öldungar í hinu stjórnandi ráði, aðstoðarmenn stjórnandi ráðs, bræður í deildarnefndum og þeir sem hafa önnur verkefni eru líka gjafir.

b Sumum nöfnum hefur verið breytt.

c Hægt er að finna góð ráð til að ná þessum markmiðum í námsgreinunum „Bræður – sækist þið eftir að verða safnaðarþjónar?“ og „Bræður – sækist þið eftir að verða öldungar?“ í Varðturninum í nóvember 2024.