Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

ÆVISAGA

„Mig langaði að vinna fyrir Jehóva“

„Mig langaði að vinna fyrir Jehóva“

VIÐ höfðum heimsótt lítinn hóp í nágrenni þorpsins Granbori djúpt inni í regnskógi Súrínam og vinkuðum nú í kveðjuskyni. Síðan lögðum við af stað eftir Tapanahoni-fljótinu á eintrjáningi. Við komum að frussandi flúðum en þar slóst skrúfan á vélinni í stein, stefnið steyptist ofan í vatnið og báturinn fór á kaf. Hjartað barðist í brjósti mér. Þó að ég hefði ferðast um á fljótum í farandstarfi í mörg ár hafði ég aldrei lært að synda!

Áður en ég segi frá því sem gerðist næst langar mig að segja ykkur hvernig ég byrjaði að þjóna Jehóva í fullu starfi.

Ég fæddist árið 1942 á fallegu eyjunni Curaçao í Karíbahafi. Pabbi var frá Súrínam en hann flutti til eyjarinnar til að vinna. Fáeinum árum áður en ég fæddist var hann einn af fyrstu vottum Jehóva sem skírðist á Curaçao. a Hann hélt biblíunám með okkur börnunum í hverri viku þó að við gerðum honum stundum erfitt fyrir. Þegar ég var 14 ára fluttum við fjölskyldan til Súrínam til að hugsa um aldraða móður pabba.

GÓÐUR FÉLAGSSKAPUR HEFUR ÁHRIF

Í Súrínam fór ég að umgangast ungmenni í söfnuðinum sem þjónuðu Jehóva af ákafa. Þau voru nokkrum árum eldri en ég og voru orðin brautryðjendur. Þegar þau töluðu um það sem hafði gerst í boðuninni geislaði af þeim gleðin. Eftir samkomurnar töluðum við oft saman um biblíuleg mál, stundum utandyra undir stjörnubjörtum himni. Þessir vinir mínir hjálpuðu mér að átta mig á hvaða leið ég vildi fara í lífinu. Mig langaði að vinna fyrir Jehóva. Ég skírðist 16 ára gamall og þegar ég var 18 byrjaði ég í brautryðjandastarfinu.

ÉG LÆRI MARGT VERÐMÆTT

Í brautryðjandastarfi í Paramaríbó.

Í brautryðjandastarfinu lærði ég margt sem hefur gagnast mér allar götur síðan í þjónustunni við Jehóva. Eitt það fyrsta sem ég lærði var hversu mikilvægt það er að þjálfa aðra. Trúboði að nafni Willem van Seijl tók mig að sér þegar ég byrjaði í brautryðjandastarfinu. b Hann kenndi mér margt um að sinna verkefnum innan safnaðarins. Á þeim tíma gerði ég mér engan veginn grein fyrir hvað ég hafði mikla þörf fyrir þessa kennslu. Árið eftir var ég útnefndur sérbrautryðjandi og var síðan beðinn um að fara með forystu í einangruðum hópum langt inni í regnskógi Súrínam. Ég kunni virkilega að meta þjálfunina sem bræðurnir höfðu veitt mér! Þaðan í frá hef ég reynt að fylgja fordæmi þeirra og þjálfað aðra.

Ég lærði líka kostina við að lifa einföldu en skipulögðu lífi. Í upphafi hvers mánaðar skoðuðum við brautryðjandafélagi minn hvað við þyrftum næstu vikurnar. Annar okkar fór síðan í langa verslunarferð alla leið til höfuðborgarinnar. Við þurftum að fara vel með mánaðarstyrkinn sem við fengum svo að maturinn dygði út mánuðinn. Ef okkur vantaði eitthvað voru fáir, ef nokkrir, í regnskóginum sem gátu hjálpað okkur. Ég lærði snemma að lifa einföldu en skipulögðu lífi og ég held að það hafi hjálpað mér að einbeita mér að þjónustunni við Jehóva alla ævi.

Enn eitt sem ég lærði var að það skiptir miklu máli að kenna fólki á móðurmáli þess. Þegar ég ólst upp lærði ég hollensku, ensku, papíamentó og sranantongó (einnig kallað sranan), sem er almennt tungumál Súrínam. En í regnskóginum sá ég að fólk tók frekar við fagnaðarboðskapnum þegar við boðuðum trúna á móðurmáli þess. Mér fannst sum þessara tungumála erfið, eins og saramaccan sem byggist meðal annars á mismunandi tónhæð. Þetta var samt erfiðisins virði. Ég hef getað kennt svo mörgum sannleikann um árin vegna þess að ég talaði móðurmál þeirra.

Auðvitað lenti ég stundum í vandræðalegum aðstæðum. Einu sinni var ég að tala við saramaccan-mælandi biblíunemanda. Ég vissi að hún hafði verið með kviðverki og ætlaði að spyrja hvernig hún hefði það en í staðinn spurði ég hvort hún væri ólétt. Það þarf nú varla að nefna það að hún kunni ekki að meta spurninguna. Þrátt fyrir svona mistök lagði ég mig alltaf fram um að tala móðurmál fólks á svæðinu þar sem ég starfaði.

AUKIN ÁBYRGÐ

Árið 1970 var ég útnefndur farandhirðir. Það ár var ég með skyggnusýninguna „Heimsókn til aðalstöðva Votta Jehóva“ og sýndi hana mörgum einangruðum hópum í regnskóginum. Við vorum nokkrir bræður sem ferðuðumst um fljótin í regnskóginum á löngum trébát til að komast til þeirra. Í bátnum vorum við með rafal, bensíntank, olíulampa og búnaðinn fyrir skyggnusýninguna. Eftir bátsferðina þurftum við síðan að flytja allan búnaðinn gegnum skóginn þangað sem sýningin var haldin. Það sem er mér minnisstæðast úr þessum ferðum er hve vel fólk á þessum afskekktu stöðum kunni að meta sýninguna. Það var mikil ánægja að fá að hjálpa öðrum að kynnast Jehóva og jarðneskum hluta safnaðar hans. Erfiðið sem þetta kostaði mig bliknar í samanburði við blessunina sem fylgir því að vinna verk Jehóva.

ÞREFALDUR ÞRÁÐUR TVINNAÐUR

Við Ethel giftum okkur í september 1971.

Ég sá alveg kostina við að vera einhleypur í þessu starfi en þráði samt að eignast lífsförunaut. Í bænum mínum bað ég því um að geta fundið eiginkonu sem yrði ánægð þrátt fyrir erfiðleikana sem það hafði í för með sér að þjóna Jehóva í fullu starfi í regnskóginum. Um ári síðar fór ég að kynnast Ethel, fórnfúsri systur sem var sérbrautryðjandi. Ethel hafði frá unga aldri dáðst að Páli postula og vildi nota líf sitt í þjónustunni við Jehóva eins og hann. Við giftum okkur í september 1971 og saman þjónuðum við í farandstarfinu.

Ethel hafði ekki alist upp við mikinn munað og átti því auðvelt með að aðlagast farandstarfinu í regnskóginum. Við vorum með lítinn farangur þegar við heimsóttum söfnuðina langt inni í skóginum. Við þvoðum fötin og böðuðum okkur í fljótunum. Við vöndumst því líka að borða það sem gestgjafarnir buðu okkur – eðlur, píranafisk og annað sem þeim tókst að veiða í skóginum eða fljótunum. Ef við höfðum ekki diska notuðum við bananalauf. Ef engin áhöld voru til staðar borðuðum við með fingrunum. Við Ethel höfum fært ýmsar fórnir saman í þjónustunni við Jehóva en okkur finnst það hafa tvinnað okkur saman í þéttan og sterkan þrefaldan þráð. (Préd. 4:12) Okkur finnst ekkert jafnast á við þessa reynslu!

Við vorum á leið heim frá einu af þessum afskekktu svæðum í skóginum þegar við lentum í því sem ég sagði frá í upphafi. Við fórum á kaf í flúðunum en báturinn komst fljótt upp á yfirborðið aftur. Við vorum sem betur fer í björgunarvestum og köstuðumst ekki úr bátnum. En báturinn var fullur af vatni. Við helltum matnum úr pottunum okkar í fljótið og notuðum þá til að ausa bátinn.

Fyrst við höfðum engan mat eftir reyndum við að veiða meðan við héldum ferðinni áfram en fengum ekki neitt. Við báðum þá Jehóva um að gefa okkur mat fyrir daginn. Stuttu eftir bænina kastaði einn bróðirinn út línu og fékk fisk sem var nógu stór til að við gátum öll fimm borðað um kvöldið og orðið södd.

EIGINMAÐUR, PABBI OG FARANDHIRÐIR

Eftir fimm ár í farandstarfinu fengum við Ethel óvænta blessun – við áttum von á barni. Ég var glaður þegar ég heyrði það en ég vissi ekki hvaða áhrif það myndi hafa á líf okkar. Við Ethel þráðum að halda áfram í fullu starfi ef það væri nokkur möguleiki. Ethniël fæddist árið 1976 og annar sonur okkar, Giovanni, kom tveim og hálfu ári síðar.

Viðstaddur skírn í Tapanahoni-fljóti nálægt Godo Holo í austurhluta Súrínam árið 1983.

Á þessum tíma var mikil þörf í Súrínam á bræðrum sem sinntu ábyrgðarstörfum og deildarskrifstofan gerði því ráðstafanir til að ég gæti haldið áfram sem farandhirðir þó að ég væri kominn með börn. Meðan synir okkar voru ungir heimsótti ég færri söfnuði en venja var. Yfirleitt sinnti ég farandstarfinu tvær vikur í mánuði en hinar vikurnar var ég brautryðjandi í heimasöfnuðinum. Ethel og strákarnir komu með mér þegar ég heimsótti nærliggjandi söfnuði. En þegar ég fór til safnaða eða á mót í regnskóginum var ég einn.

Í farandstarfinu ferðaðist ég oft á bát til að heimsækja einangraða söfnuði.

Ég þurfti að skipuleggja tímann vandlega til að geta sinnt allri ábyrgðinni. Ég sá til þess að fjölskyldunámið væri haldið í hverri viku. Þegar ég heimsótti söfnuði í skóginum sá Ethel um námið með strákunum. Við reyndum samt eins og hægt var að gera hluti saman sem fjölskylda. Við Ethel pössuðum líka upp á að gera skemmtilega hluti með strákunum – stundum bara að spila spil eða gera eitthvað úti. Ég vakti oft langt fram eftir til að undirbúa mig fyrir verkefni í söfnuðinum. Og Ethel var sannarlega eins og dugmikla konan sem lýst er í Orðskviðunum 31:15. Hún fór á fætur fyrir dögun til að við gætum lesið dagstextann saman sem fjölskylda og borðað morgunmat áður en strákarnir fóru í skólann. Ég er svo þakklátur fyrir að eiga svona fórnfúsa konu sem hjálpar mér alltaf þannig að ég geti sinnt verkefnum mínum í söfnuðinum.

Við lögðum okkur mikið fram um að hjálpa strákunum okkar að byggja upp kærleika til Jehóva og til boðunarinnar. Við vonuðum að þeir myndu velja að þjóna Jehóva í fullu starfi, ekki bara af því að við vildum það heldur af því að þeir kysu að gera það. Við bentum þeim alltaf á hvað það væri ánægjulegt að þjóna Jehóva í fullu starfi. Við horfðum ekki fram hjá erfiðleikunum en við lögðum áherslu á hvernig Jehóva hjálpaði okkur og blessaði sem fjölskyldu. Við sáum líka til þess að þeir fengju góðan félagsskap, votta sem settu Jehóva í fyrsta sæti.

Jehóva sá um allt sem við þurftum meðan við ólum upp syni okkar. Ég hef auðvitað alltaf reynt að gera mitt. Reynslan sem ég fékk þegar ég var einhleypur sérbrautryðjandi í regnskóginum kenndi mér að fara vel með peninga. En þó að við legðum okkur fram um það var það ekki alltaf nóg. Í slíkum tilfellum fannst mér Jehóva grípa inn í aðstæður til að hjálpa okkur. Undir lok níunda áratugarins og í byrjun þess tíunda var gerð uppreisn gegn yfirvöldum í Súrínam. Á þeim tíma var erfitt að fá jafnvel brýnustu nauðsynjar. Jehóva sá samt um okkur. – Matt. 6:32.

ÉG LÍT UM ÖXL

Frá vinstri til hægri: Við Ethel eiginkona mín.

Ethniël, eldri sonur okkar, með Natalie konunni sinni.

Sonur okkar, Giovanni, með Christal konunni sinni.

Alla okkar ævi hefur Jehóva hugsað um okkur og veitt okkur mikla ánægju og gleði. Strákarnir eru okkur mikil blessun og við erum þakklát að hafa fengið að sjá þá vaxa úr grasi og þjóna Jehóva. Það gleður okkur að þeir skuli líka hafa valið að gera það í fullu starfi. Ethniël og Giovanni hafa báðir setið skóla á vegum safnaðarins og starfa nú á deildarskrifstofunni í Súrínam ásamt eiginkonum sínum.

Við Ethel erum komin á efri ár en störfum þó enn þá sem sérbrautryðjendur. Við höfum reyndar svo mikið að gera að ég hef ekki enn haft tíma til að læra að synda. En ég sé ekki eftir neinu. Þegar ég lít um öxl get ég sagt í einlægni að ákvörðun mín að gera þjónustuna við Jehóva að ævistarfi er ein besta ákvörðun sem ég hef nokkurn tíma tekið.

b Ævisögu Willems van Seijls, „Reality Has Exceeded My Expectations“, er að finna í Vaknið! á ensku 8. október 1999.