Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 22

SÖNGUR 15 Fögnum frumburði Jehóva

Hvaða gildi hefur nafn Jehóva fyrir Jesú?

Hvaða gildi hefur nafn Jehóva fyrir Jesú?

„Ég hef kunngert þeim nafn þitt og mun kunngera það.“JÓH. 17:26.

Í HNOTSKURN

Það sem Jesús átti við þegar hann sagðist kunngera nafn Jehóva og hvernig hann helgaði það og hreinsaði af öllum ásökunum.

1, 2. (a) Hvað gerði Jesús kvöldið áður en hann var tekinn af lífi? (b) Hvaða spurningar skoðum við í þessari námsgrein?

 ÞETTA var seint um kvöld, fimmtudaginn 14. nísan árið 33, rétt áður en Jesús var svikinn, dæmdur sekur, pyntaður og tekinn af lífi. Hann hafði nýlokið við að borða sérstaka máltíð með trúföstum postulum sínum á efri hæð í húsi. Eftir máltíðina notar Jesús síðustu stundina með lærisveinum sínum til að uppörva þá. Rétt áður en þeir yfirgefa staðinn fer Jesús með mjög merkingarþrungna bæn. Jóhannes postuli skráði bænina sem er að finna í Jóhannesi 17. kafla.

2 Hvað segir bæn Jesú okkur um hvaða áhyggjur hann hafði rétt áður en hann dó? Hvernig sýnir bænin hvað var honum mikilvægt þegar hann sinnti þjónustu sinni á jörð? Skoðum svörin við þessum spurningum.

„ÉG HEF KUNNGERT ÞEIM NAFN ÞITT“

3. Hvað átti Jesús við þegar hann sagði: „Ég hef kunngert þeim nafn þitt“? (Jóhannes 17:6, 26)

3 Í bæninni sagði Jesús: „Ég hef kunngert þeim nafn þitt.“ Hann minntist reyndar tvisvar á að hann hefði kunngert lærisveinum sínum nafn Jehóva. (Lestu Jóhannes 17:6, 26.) Hvað átti hann við? Þurfti hann að upplýsa þá um að Guð héti Jehóva? Lærisveinar Jesú voru Gyðingar og þekktu nafn Guðs. Nafnið kemur næstum 7000 sinnum fyrir í Hebresku ritningunum. Jesús hafði því ekki eiginnafn Guðs í huga heldur hvað nafnið stendur fyrir. Hann hjálpaði lærisveinum sínum að kynnast Jehóva betur, þar á meðal fyrirætlun hans með jörðina og mannkynið, hvað hann hefur gert og ætlar að gera og hvaða eiginleikum hann býr yfir. Enginn þekkir Jehóva betur en Jesús.

4, 5. (a) Hvernig getur nafn einhvers öðlast dýpri merkingu í huga okkar? Lýstu með dæmi. (b) Hvernig öðlaðist nafn Jehóva dýpri merkingu í huga lærisveina Jesú?

4 Segjum að það sé öldungur í söfnuðinum þínum sem heitir Davíð og er skurðlæknir. Þú hefur þekkt hann í mörg ár. Dag einn veikistu alvarlega og ert fluttur á sjúkrahús þar sem bróðir þinn vinnur og hann notar sérfræðikunnáttu sína til að bjarga lífi þínu. Hvaða þýðingu hefur nafn bróðurins fyrir þig eftir þessa reynslu? Fyrir þér er Davíð ekki bara öldungur heldur skurðlæknirinn sem bjargaði lífi þínu.

5 Lærisveinar Jesú þekktu nafn Jehóva en það öðlaðist dýpri merkingu í huga þeirra vegna þjónustu Jesú. Af hverju segjum við það? Af því að Jesús endurspeglaði persónuleika föður síns í öllu sem hann sagði og gerði. Þegar lærisveinarnir hlustuðu á kennslu Jesú og sáu hvernig hann kom fram við aðra kynntust þeir Jehóva betur. – Jóh. 14:9; 17:3.

‚NAFN ÞITT SEM ÞÚ GAFST MÉR‘

6. Í hvaða skilningi gaf Jehóva Jesú nafn sitt? (Jóhannes 17:11, 12)

6 Í bæninni bað Jesús fyrir lærisveinum sínum og sagði: „Gættu þeirra vegna nafns þíns sem þú gafst mér.“ (Lestu Jóhannes 17:11, 12.) Merkir þetta að Jesús héti nú Jehóva? Nei. Þegar Jesús talaði þarna um nafn Jehóva sagði hann: ‚nafn þitt‘. Nafn Jehóva var því ekki eiginnafn Jesú. Hvað átti þá Jesús við þegar hann sagði að Jehóva hefði gefið honum nafn sitt? Jesús var fulltrúi og talsmaður Jehóva. Hann kom í nafni föður síns og vann máttarverk í hans nafni. (Jóh. 5:43; 10:25) Auk þess merkir nafn Jesú ‚Jehóva er hjálpræði‘. Nafn Guðs er því nátengt nafni Jesú.

7. Hvers vegna gat Jesús talað í nafni Jehóva? Skýrðu með dæmi.

7 Sendiherra kemur fram fyrir hönd þjóðhöfðingja og talar í nafni hans. Það sem sendiherrann segir hefur því sama vægi og væri þjóðhöfðinginn sjálfur að tala. Jesús var á líkan hátt fulltrúi Jehóva og talaði við fólk í nafni hans. – Matt. 21:9; Lúk. 13:35.

8. Hvað merkir það að nafn Jehóva var í Jesú áður en hann kom til jarðar? (2. Mósebók 23:20, 21, neðanmáls.)

8 Í Biblíunni er Jesús kallaður Orðið vegna þess að hann er talsmaður Jehóva sem kom á framfæri upplýsingum og leiðbeiningum til annarra andasona Guðs og einnig til manna. (Jóh. 1:1–3) Að öllum líkindum var Jesús engillinn sem Jehóva sendi til að annast Ísraelsmenn þegar þeir voru í óbyggðunum. Þegar Jehóva sagði þeim að hlýða englinum útskýrði hann af hverju: „Því að nafn mitt er í honum.“ a (Lestu 2. Mósebók 23:20, 21, neðanmáls.) Nafn Jehóva var í Jesú á þann hátt að hann er talsmaður Jehóva og lykilpersóna í að upphefja og helga nafn föður síns.

„FAÐIR, GERÐU NAFN ÞITT DÝRLEGT“

9. Hversu mikilvægt var nafn Jehóva í huga Jesú? Skýrðu svarið.

9 Eins og við höfum séð var nafn Jehóva einstaklega mikilvægt Jesú jafnvel áður en hann kom til jarðar. Þegar Jesús var á jörðinni sýndi hann einnig með öllu sem hann gerði hversu mikilvægt nafn Jehóva er honum. Undir lok þjónustu sinnar ákallaði Jesús föður sinn í bæn og sagði: „Faðir, gerðu nafn þitt dýrlegt.“ Samstundis svaraði faðir hans hárri röddu frá himni: „Ég hef gert það dýrlegt og geri það aftur dýrlegt.“ – Jóh. 12:28.

10, 11. (a) Hvernig gerði Jesús nafn Jehóva dýrlegt? (Sjá einnig mynd.) (b) Hvers vegna þarf að helga og hreinsa nafn Jehóva?

10 Jesús gerði líka nafn föður síns dýrlegt. Hann gerði það til dæmis með því að segja frá stórkostlegum verkum og eiginleikum föður síns. En hann gerði meira en það. Það þurfti að helga nafn Jehóva og hreinsa það af öllum ásökunum. b Jesús sýndi fylgjendum sínum fram á mikilvægi þess þegar hann kenndi þeim fyrirmyndarbænina. Hann sagði: „Faðir okkar á himnum, við biðjum að nafn þitt helgist.“ – Matt. 6:9.

11 Hvers vegna er þörf á að helga nafn Jehóva og hreinsa það af ásökunum? Vegna þess að í Edengarðinum rægði Satan Djöfullinn Jehóva Guð og vanvirti hann. Satan hélt því fram að Jehóva væri lygari sem neitaði Adam og Evu um eitthvað gott. (1. Mós. 3:1–5) Satan hélt því líka fram að stjórnarhættir Jehóva væru rangir. Falskar ásakanir Satans voru beinar árásir á orðstír Jehóva, eða nafn hans. Síðar, á dögum Jobs, hélt Satan því fram að þeir sem þjónuðu Jehóva gerðu það aðeins vegna þess að þeir fengju eitthvað í staðinn frá honum. Þessi rógberi hélt því líka fram að enginn maður elskaði Jehóva nógu mikið til að þjóna honum áfram í erfiðleikum. (Job. 1:9–11; 2:4) Tíminn myndi leiða í ljós hvor væri lygari, Jehóva eða Satan.

Jesús kenndi fylgjendum sínum mikilvægi þess að helga nafn Guðs. (Sjá 10. grein.)


„ÉG GEF LÍF MITT“

12. Hvað var Jesús tilbúinn að gera vegna þess að hann elskaði nafn Jehóva?

12 Jesús elskaði Jehóva og vildi þess vegna gera allt sem í hans valdi stóð til að helga nafn hans og hreinsa það af óhróðri. „Ég gef líf mitt,“ sagði Jesús. (Jóh. 10:17, 18) Já, hann var jafnvel fús til að deyja fyrir nafn Jehóva. c Tvær fyrstu fullkomnu manneskjurnar, Adam og Eva, sneru baki við Jehóva og fylgdu Satan. Jesús var á hinn bóginn fús til að koma til jarðarinnar og sýna og sanna að hann elskaði Jehóva. Hann gerði það með því að hlýða Jehóva í einu og öllu. (Hebr. 4:15; 5:7–10) Jesús var trúfastur alla ævi, allt þar til hann dó á kvalastaur. (Hebr. 12:2) Þannig sýndi hann að hann elskaði Jehóva og nafn hans.

13. Hvers vegna var Jesús best til þess fallinn að sanna Satan lygara? (Sjá einnig mynd.)

13 Með lífi sínu sannaði Jesús svo ekki verður um villst að Satan er lygari en ekki Jehóva. (Jóh. 8:44) Jesús þekkti Jehóva betur en nokkur annar sem hefur verið uppi. Hann hefði vitað ef eitthvað væri til í því sem Satan sakaði Jehóva um. En Jesús var ákveðinn í að verja nafn Jehóva, eða orðstír. Jafnvel þegar það leit út fyrir að Jehóva hefði yfirgefið hann var hann fús til að deyja frekar en að snúa baki við kærleiksríkum föður sínum. – Matt. 27:46. d

Líf Jesú sannaði svo ekki verður um villst að Satan er lygari en ekki Jehóva! (Sjá 13. grein.)


‚ÉG HEF LOKIÐ VERKINU SEM ÞÚ FÓLST MÉR AÐ VINNA‘

14. Hvernig umbunaði Jehóva Jesú fyrir trúfestina?

14 Í bæninni sem Jesús bar fram kvöldið áður en hann dó gat hann sagt: ‚Ég hef lokið verkinu sem þú fólst mér að vinna.‘ Hann treysti því að Jehóva myndi umbuna honum trúfestina. (Jóh. 17:4, 5) Jesús vissi að faðir hans var traustsins verður. Það var óhugsandi að Jehóva léti hann vera áfram í gröfinni. (Post. 2:23, 24) Hann reisti hann upp og gaf honum æðri stöðu en áður á himni. (Fil. 2:8, 9) Að lokum tók Jesús að ríkja sem konungur í Guðsríki. Hverju myndi þetta ríki áorka? Jesús svaraði því í bæninni sem hann kenndi lærisveinum sínum: „Við biðjum að ríki þitt komi og vilji þinn [vilji Jehóva] verði á jörð eins og á himni.“ – Matt. 6:10.

15. Hverju fleiru mun Jesús koma til leiðar?

15 Í náinni framtíð fer Jesús í stríð á móti óvinum Guðs og eyðir hinum illu í Harmagedón. (Opinb. 16:14, 16; 19:11–16) Stuttu eftir það kastar hann Satan í „undirdjúpið“, það er ástand sem má líkja við aðgerðarleysi hinna dánu. (Opinb. 20:1–3) Jesús kemur aftur á friði og leiðir mannkynið til fullkomleika í þúsundáraríkinu. Hann reisir hina dánu upp og gerir alla jörðina að paradís. Fyrirætlun Jehóva mun verða að veruleika! – Opinb. 21:1–4.

16. Hvernig verður lífið í lok þúsundáraríkisins?

16 Hverju megum við búast við í lok þúsundáraríkisins? Synd og ófullkomleiki manna heyrir þá sögunni til. Mannkynið þarf ekki lengur að biðja Guð um að fyrirgefa syndir sínar á grundvelli lausnargjaldsins og það þarf ekki lengur á meðalgöngumanni að halda eða hinum 144.000 prestum. Og „[Adams]dauðinn er síðasti óvinurinn sem [mun hafa verið] gerður að engu.“ Grafirnar verða tómar. Hinir dánu hafa verið reistir upp. Allir á jörðinni hafa náð fullkomleika. – 1. Kor. 15:25, 26.

17, 18.. (a) Hvað gerist í lok þúsundáraríkisins? (b) Hvað mun Jesús gera þegar stjórn hans er á enda? (1. Korintubréf 15:24, 28) (Sjá einnig mynd.)

17 Hvað fleira gerist í lok þúsundáraríkisins? Þá mun eitthvað mjög sérstakt eiga sér stað. Deilan um heilagleika nafns Jehóva verður endanlega útkljáð. Hvernig þá? Satan hélt því fram í Edengarðinum að Jehóva væri lygari og að hann ríkti ekki yfir mannkyninu af kærleika. Allar götur síðan hafa þeir sem heiðra og virða hann aftur og aftur helgað nafn hans. Í lok þúsundáraríkisins hefur orðstír Jehóva verið hreinsaður af öllum ásökunum. Hann hefur þá sannað svo ekki verður um villst að hann er kærleiksríkur faðir á himnum.

18 Loksins verður öllum ljóst að ásakanir Satans eru falskar. Hvað mun Jesús gera þegar stjórn hans er á enda? Fer hann að dæmi Satans og gerir uppreisn gegn Jehóva? Alls ekki! (Lestu 1. Korintubréf 15:24, 28.) Jesús mun afhenda föður sínum ríkið aftur og hann mun beygja sig undir yfirráð Jehóva. Ólíkt Satan er Jesús fús til að afsala allt vald í hendur Jehóva vegna þess að hann elskar hann.

Jesús afhendir Jehóva fúslega ríkið aftur í lok þúsundáraríkisins. (Sjá 18. grein.)


19. Hvaða þýðingu hefur nafn Jehóva fyrir Jesú?

19 Það er engin furða að Jehóva skyldi gefa Jesú nafn sitt. Hann hefur reynst fullkominn fulltrúi föður síns. Hvaða þýðingu hefur nafn Jehóva þá fyrir Jesú? Það er honum allt! Hann var fús til að deyja fyrir þetta nafn og hann mun afhenda Jehóva allt vald í lok þúsundáraríkisins. Hvernig getum við líkt eftir Jesú? Við skoðum það í næstu námsgrein.

SÖNGUR 16 Hyllum Jehóva fyrir smurðan son hans

a Stundum hafa englar líka talað í nafni Jehóva þegar þeir flytja boðskap hans. Þess vegna er það stundum orðað þannig í Biblíunni að Jehóva tali þótt það sé engill sem tali. (1. Mós. 18:1–33) Þótt Biblían segi að Móse hafi fengið lögin frá Jehóva sýna önnur vers að Jehóva hafi gefið þau fyrir milligöngu engla. – 3. Mós. 27:34; Post. 7:38, 53; Gal. 3:19; Hebr. 2:2–4.

b ORÐASKÝRINGAR:„helga“ merkir að sýna heiður, álíta heilagt eða bera djúpa virðingu fyrir.

c Dauði Jesú opnaði mannkyninu auk þess leiðina að eilífu lífi.

d Sjá „Spurningar frá lesendum“ í Varðturninum apríl 2021, bls. 30–31.