NÁMSGREIN 21
SÖNGUR 21 Leitum fyrst og fremst Guðsríkis
Bíðum spennt eftir borginni sem er varanleg
‚Við þráum þá borg sem á eftir að koma.‘ – HEBR. 13:14.
Í HNOTSKURN
Við ræðum hvernig leiðbeiningarnar í Hebreabréfinu kafla 13 geta hjálpað okkur núna og í framtíðinni.
1. Hvað sagði Jesús um afdrif Jerúsalem á fyrstu öld?
NOKKRUM dögum fyrir dauða sinn bar Jesús Kristur fram nákvæman spádóm sem átti sér fyrri uppfyllingu á síðustu dögum þjóðskipulags Gyðinga. Hann varaði við því að dag einn myndu „hersveitir umkringja Jerúsalem“. (Lúk. 21:20) Jesús sagði fylgjendum sínum að þeir ættu að yfirgefa svæðið umsvifalaust þegar þeir sæju þessar hersveitir sem reyndust síðar vera hersveitir Rómverja. – Lúk. 21:21, 22.
2. Á hvað minnti Páll postuli kristna Hebrea sem bjuggu í Júdeu og Jerúsalem?
2 Aðeins fáeinum árum áður en rómversku hersveitirnar umkringdu Jerúsalem skrifaði Páll postuli kraftmikið bréf sem við þekkjum sem Hebreabréfið. Í bréfinu gaf hann kristnum mönnum í Júdeu og Jerúsalem áríðandi leiðbeiningar sem myndu hjálpa þeim að búa sig undir það sem var fram undan. Og hvað var í vændum? Jerúsalem yrði eytt. Ef þessir kristnu menn vildu bjarga lífi sínu þyrftu þeir að vera tilbúnir að yfirgefa heimili sín og fyrirtæki. Þess vegna sagði Páll um Jerúsalem: „Við vitum að hér höfum við ekki borg sem er varanleg heldur þráum við þá borg sem á eftir að koma.“ – Hebr. 13:14.
3. Hver er ‚borgin sem hefur traustan grunn‘ og hvers vegna bíðum við spennt eftir henni?
3 Kristnir menn sem ákváðu að yfirgefa Jerúsalem og Júdeu þurftu líklega að þola háð og lítilsvirðingu annarra. En ákvörðunin bjargaði lífi þeirra. Fólk nú á tímum hæðist kannski að okkur af því að við setjum ekki traust okkar á menn og leitumst ekki eftir öruggu og þægilegu lífi í þessum heimi. Hvers vegna tökum við þessa stefnu? Við vitum að þessi heimsskipan er ekki varanleg. Við þráum ‚þá borg sem hefur traustan grunn‘, „þá borg sem á eftir að koma“, það er að segja ríki Guðs. a (Hebr. 11:10; Matt. 6:33) Undir hverri millifyrirsögn í þessari námsgrein skoðum við: (1) hvernig innblásnar leiðbeiningar Páls hjálpuðu kristnum mönnum að bíða spenntir eftir ‚borginni sem átti eftir að koma‘, (2) hvernig Páll bjó þá undir það sem átti eftir að gerast og (3) hvernig leiðbeiningar hans gagnast okkur nú á dögum.
TREYSTU Á ÞANN SEM YFIRGEFUR ÞIG ALDREI
4. Hvers vegna var Jerúsalem mikilvæg kristnum mönnum?
4 Jerúsalem var mikilvæg kristnum mönnum. Kristni söfnuðurinn á fyrstu öld var stofnsettur þar árið 33 og stjórnandi ráð þess tíma átti þar aðsetur. Auk þess áttu margir kristnir menn heimili þar og ýmsar efnislegar eigur. En Jesús sagði fylgjendum sínum að þeir myndu þurfa að yfirgefa Jerúsalem og jafnvel Júdeu. – Matt. 24:16.
5. Hvernig bjó Páll kristna menn undir atburðina fram undan?
5 Páll hjálpaði kristnum mönnum að sjá Jerúsalem sömu augum og Jehóva. Það hjálpaði þeim að vera undirbúnir. Páll minnti þá á að Jehóva hefði ekki lengur velþóknun á musterinu, prestastéttinni eða fórnunum sem voru færðar í Jerúsalem. (Hebr. 8:13) Meirihluti borgarbúa hafði hafnað Messíasi. Musterið í Jerúsalem var ekki lengur miðstöð hreinnar tilbeiðslu og því yrði eytt. – Lúk. 13:34, 35.
6. Hvers vegna voru leiðbeiningar Páls í Hebreabréfinu 13:5, 6 tímabærar fyrir kristna menn?
6 Þegar Páll skrifaði Hebreunum stóð Jerúsalem í miklum blóma. Rómverskur rithöfundur á þeim tíma kallaði Jerúsalem „langmerkustu borg austursins“. Gyðingar frá mörgum löndum ferðuðust þangað árlega til að taka þátt í hátíðum, en það stuðlaði að blómlegu efnahagslífi. Sumir kristnir menn hafa eflaust líka notið góðs af þessu góðæri. Kannski er það þess vegna sem Páll sagði þeim: „Látið ekki ást á peningum stjórna lífi ykkar heldur látið ykkur nægja það sem þið hafið.“ Síðan vitnaði hann í ritningarstað þar sem Jehóva fullvissar þjóna sína: „Ég mun aldrei snúa baki við þér og aldrei yfirgefa þig.“ (Lestu Hebreabréfið 13:5, 6; 5. Mós. 31:6; Sálm. 118:6) Kristnir menn sem bjuggu í Jerúsalem og Júdeu þurftu að minna sig á þetta loforð. Hvers vegna? Stuttu eftir að þeir fengu bréfið neyddust þeir til að yfirgefa heimili sín, fyrirtæki og flestar eigur. Þeir þurftu að vera tilbúnir að taka því sem að höndum bar.
7. Hvers vegna ættum við að læra núna að treysta algerlega á Jehóva?
7 Það sem við lærum: Hvað er fram undan? Það styttist óðum í endi núverandi heimsskipanar í þrengingunni miklu. (Matt. 24:21) Við verðum, líkt og frumkristnir menn, að halda vöku okkar og vera viðbúin. (Lúk. 21:34–36) Í þrengingunni miklu gætum við þurft að yfirgefa sumar, ef ekki allar, eigur okkar og treysta því algerlega að Jehóva yfirgefi aldrei fólk sitt. Jafnvel núna, áður en þrengingin mikla skellur á, höfum við tækifæri til að sýna hverjum við treystum. Spyrðu þig: Sýna verk mín og markmið að ég legg ekki traust á auðinn heldur á Guð sem hefur lofað að annast mig? (1. Tím. 6:17) En þótt við getum lært margt af því sem gerðist á fyrstu öldinni verður þrengingin mikla sem er fram undan fordæmalaus. Hvernig vitum við þá nákvæmlega hvað við eigum að gera þegar þrengingin mikla hefst?
HLÝDDU ÞEIM SEM FARA MEÐ FORYSTUNA
8. Hvaða leiðbeiningar gaf Jesús lærisveinum sínum?
8 Fáeinum árum eftir að kristnir menn fengu bréfið sem Páll skrifaði Hebreum umkringdu rómverskar hersveitir Jerúsalem. Það var merki um að þeir ættu að flýja. Brátt yrði Jerúsalem eytt. (Matt. 24:3; Lúk. 21:20, 24) En hvert áttu þeir að flýja? Jesús hafði einfaldlega sagt: „Þá flýi þeir sem eru í Júdeu til fjalla.“ (Lúk. 21:21) Það voru mörg fjöll á þessum slóðum. Í hvaða átt áttu þeir þá að flýja?
9. Hvers vegna gætu kristnir menn hafa spurt sig til hvaða fjalla þeir ættu að flýja? (Sjá einnig kort.)
9 Kristnir menn hefðu getað flúið til ýmissa fjalla, eins og til dæmis Samaríufjalla, fjalla Galíleu, Hermonfjalls, Líbanonsfjalla og fjallanna hinum megin Jórdanárinnar. (Sjá kort.) Sumar borganna á þessum fjallasvæðum gætu hafa virst öruggt skjól. Borgin Gamla til dæmis var staðsett uppi á háum fjallshrygg og það var mjög erfitt að komast þangað. Sumir Gyðingar álitu þessa borg hentuga til að leita skjóls. En Gamla varð vettvangur grimmilegrar orrustu milli Gyðinga og Rómverja og margir íbúanna féllu. b
Kristnir menn gátu flúið til margra fjalla en þau reyndust ekki öll öruggt skjól. (Sjá 9. grein.)
10, 11. (a) Hvernig leiðbeindi Jehóva líklega kristnum mönnum? (Hebreabréfið 13:7, 17) (b) Hvernig var það kristnum mönnum til góðs að hlýða þeim sem fóru með forystuna? (Sjá einnig mynd.)
10 Allt bendir til þess að Jehóva hafi leiðbeint kristnum mönnum fyrir milligöngu þeirra sem fóru með forystuna í söfnuðinum. Evsebíus sagnaritari skrifaði síðar: „Fyrir handleiðslu Guðs fékk söfnuðurinn í Jerúsalem opinberun fyrir milligöngu skipaðra manna. Honum var sagt … að yfirgefa borgina áður en stríð brytist út og setjast að í borg í Pereu sem hét Pella.“ Pella virðist hafa verið góður kostur. Hún var ekki langt frá Jerúsalem svo að það var tiltölulega auðvelt að komast þangað. Fæstir íbúar Pellu voru Gyðingar svo að það var ólíklegt að reynt yrði að gera uppreisn gegn yfirráðum Rómverja. – Sjá kort.
11 Kristnir menn sem flúðu til fjalla fylgdu leiðbeiningum Páls um að ‚hlýða þeim sem fara með forystuna‘ í söfnuðinum. (Lestu Hebreabréfið 13:7, 17.) Hlýðni þeirra bjargaði lífi þeirra. Guð yfirgaf ekki þá sem ‚væntu þeirrar borgar sem hefur traustan grunn‘ – ríkis Guðs. – Hebr. 11:10.
Pella var ekki langt frá Jerúsalem og þar var öruggt skjól. (Sjá 10. og 11. grein.)
12, 13. Hvernig hefur Jehóva leiðbeint fólki sínu á erfiðleikatímum?
12 Það sem við lærum: Jehóva notar þá sem fara með forystuna til að veita fólki sínu nákvæma leiðsögn. Í Biblíunni eru mörg dæmi um það hvernig Jehóva hefur valið hirða til að leiða fólk sitt á erfiðleikatímum. (5. Mós. 31:23; Sálm. 77:20) Og við sjáum greinilega nú á dögum að Jehóva heldur áfram að nota þá sem fara með forystuna.
13 Þegar COVID-19 faraldurinn skall á veittu þeir sem ‚fóru með forystuna‘ þarfa leiðsögn. Öldungarnir fengu leiðbeiningar um hvernig þeir ættu að sinna andlegum þörfum bræðra og systra. Stuttu eftir að faraldurinn braust út var haldið sögulegt mót á meira en 500 tungumálum á netinu, í sjónvarpinu og í útvarpinu. Andlega fæðan hélt óhindrað áfram að streyma til okkar. Fyrir vikið fengum fengu bræður og systur um allan heim sömu leiðbeiningar. Við getum verið viss um að Jehóva muni halda áfram að hjálpa þeim sem fara með forystuna að taka viturlegar ákvarðanir sama hvaða erfiðleikar mæta okkur í framtíðinni. Hvað fleira getur hjálpað okkur, auk þess að treysta á Jehóva og hlýða fyrirmælum hans, að búa okkur undir þrenginguna miklu og bregðast rétt við þegar þessi atburður skekur allt mannkynið?
SÝNDU BRÓÐURKÆRLEIKA OG GESTRISNI
14. Hvaða eiginleika þurftu kristnir menn að sýna á síðustu dögum þjóðskipulags Gyðinga samkvæmt Hebreabréfinu 13:1–3?
14 Þegar þrengingin mikla brestur á verðum við að sýna hvert öðru kærleika sem aldrei fyrr. Þá þurfum við að fylgja fordæmi hinna kristnu sem bjuggu í Jerúsalem og Júdeu. Þeir höfðu fram að því alltaf sýnt hver öðrum kærleika. (Hebr. 10:32–34) En á árunum fyrir endalok þjóðskipulags Gyðinga þurftu kristnir menn að sýna bróðurkærleika og gestrisni í enn ríkari mæli. c (Lestu Hebreabréfið 13:1–3.) Við þurfum að gera slíkt hið sama eftir því sem nær dregur að endalokum núverandi heimsskipanar.
15. Af hverju þurftu kristnir Hebrear að sýna bróðurkærleika og gestrisni eftir að þeir flúðu?
15 Rómverskar hersveitir umkringdu Jerúsalem og drógu sig svo skyndilega til baka. Það gaf kristnum mönnum tækifæri til að flýja en þeir gátu ekki tekið nema fáeinar eigur með sér. (Matt. 24:17, 18) Þeir þurftu að reiða sig hver á annan á ferðalagi sínu um fjöllin og þegar þeir settust að á nýjum slóðum. Það voru vafalaust margir í sárri neyð og kristnum mönnum gafst tækifæri til að sýna ósvikinn bróðurkærleika og gestrisni með því að styðja hver annan og deila því sem þeir áttu. – Tít. 3:14.
16. Hvernig getum við sýnt að við elskum trúsystkini okkar sem eru hjálparþurfi. (Sjá einnig mynd.)
16 Það sem við lærum: Kærleikur knýr okkur til að styðja trúsystkini þegar þau þurfa á hjálp okkar að halda. Margir þjónar Guðs hafa fúslega annast andlegar og efnislegar þarfir bræðra sinna og systra sem hafa þurft að flýja stríð eða náttúruhamfarir. Systir frá Úkraínu sem þurfti að yfirgefa heimili sitt vegna stríðsástands sagði: „Við höfum fundið fyrir hönd Jehóva. Hann hefur notað bræður okkar til að leiða okkur og annast. Þeir hafa tekið vel á móti okkur og hjálpað okkur ótrúlega mikið í Úkraínu, Ungverjalandi og hér í Þýskalandi.“ Við erum verkfæri í höndum Jehóva þegar við sýnum bræðrum okkar og systrum gestrisni og önnumst þarfir þeirra. – Orðskv. 19:17; 2. Kor. 1:3, 4.
Bræður okkar og systur sem hafa þurft að flýja þarfnast aðstoðar okkar. (Sjá 16. grein.)
17. Hvers vegna er mikilvægt að læra að sýna bróðurkærleika og gestrisni núna?
17 Í þrengingunni miklu verður brýnna en nokkru sinni fyrr að við hjálpumst að. (Hab. 3:16–18) Jehóva kennir okkur núna hvernig við getum þroskað með okkur bróðurkærleika og gestrisni en það eru eiginleikar sem verða algerlega ómissandi þegar þar að kemur.
HVAÐ ER FRAM UNDAN?
18. Hvernig getum við líkt eftir kristnum Hebreum á fyrstu öldinni?
18 Kristnir menn sem flúðu til fjalla sluppu við hörmungarnar sem komu yfir Jerúsalem. Þeir yfirgáfu borgina en Jehóva yfirgaf þá aldrei. Hvað um okkur? Við vitum ekki nákvæmlega hvað á eftir að gerast. En Jesús sagði okkur að vera viðbúin. (Lúk. 12:40) Við höfum líka leiðbeiningarnar sem Páll skrifaði í bréfi sínu til Hebrea og þær eiga jafn vel við á okkar dögum og á fyrstu öldinni. Og Jehóva sjálfur hefur lofað hverju og einu okkar að snúa aldrei baki við okkur né yfirgefa okkur. (Hebr. 13:5, 6) Bíðum spennt eftir borginni sem er varanleg – ríki Guðs – og þá njótum við eilífrar blessunar. – Matt. 25:34.
SÖNGUR 157 Loksins friður á jörð!
a Á biblíutímanum ríktu konungar gjarnan yfir borgum og því var oft litið á þær sem konungsríki. – 1. Mós. 14:2.
b Þetta gerðist árið 67, stuttu eftir að kristnir menn flúðu frá Júdeu og Jerúsalem.
c Orðið sem þýtt er „bróðurkærleikur“ getur vísað til kærleika milli náinna ættingja en Páll notar þetta orð til að lýsa sterkum kærleika milli bræðra og systra í söfnuðinum.