NÁMSGREIN 1
SÖNGUR 2 Þú heitir Jehóva
Veitið Jehóva lof
ÁRSTEXTINN 2025 ER: „Veitið Jehóva það lof sem nafn hans á skilið.“ – SÁLM. 96:8.
Í HNOTSKURN
Lærum hvernig við getum veitt Jehóva það lof sem hann á skilið.
1. Hverju einbeita margir sér að nú á dögum?
ÞÚ HEFUR ef til vill tekið eftir að margir nú á dögum eru uppteknir af sjálfum sér. Sumir nota til dæmis samfélagsmiðla til að draga athygli að sjálfum sér eða gera mikið úr afrekum sínum. En tiltölulega fáir lofa Jehóva Guð. Í þessari námsgrein ræðum við um hvað það þýðir að veita Jehóva lof og hvers vegna við ættum að gera það. Við fræðumst líka um það hvernig við getum veitt Guði það lof sem hann á skilið og hvernig hann sjálfur gerir nafn sitt dýrlegt í náinni framtíð.
HVAÐ FELUR ÞAÐ Í SÉR AÐ VEITA JEHÓVA LOF?
2. Hvernig opinberaði Jehóva dýrð sína á Sínaífjalli? (Sjá einnigmynd.)
2 Biblían opinberar hversu tilkomumikill Guð Jehóva er. Hann sýndi dýrð sína á mikilfenglegan hátt stuttu eftir að Ísraelsþjóðin var leyst úr ánauð í Egyptalandi. Sjáðu þetta fyrir þér: Milljónir Ísraelsmanna koma saman við rætur Sínaífjalls til að heyra hvað Guð þeirra hefur að segja. Dimmt ský umlykur fjallið. Skyndilega verður mikill jarðskjálfti, að því er virðist með eldsumbrotum, og jörðin skelfur undir fótum þeirra. Það eru þrumur og eldingar og ærandi hávaði af hornablæstri. (2. Mós. 19:16–18; 24:17; Sálm. 68:8) Ímyndaðu þér hversu mikið Ísraelsmönnunum hefur fundist til þess koma að sjá Jehóva opinbera dýrð sína á svona mikilfenglegan hátt.
3. Hvað felur það í sér að veita Jehóva lof?
3 En hvað með okkur mennina? Getum við veitt Jehóva lof? Já, við getum það. Við lofum hann meðal annars með því að segja öðrum frá stórfenglegum mætti hans og fallegum eiginleikum. Við veitum honum auk þess lof þegar við gefum honum heiðurinn af því sem við gerum með hjálp hans. (Jes. 26:12) Davíð konungur var frábær fyrirmynd í að veita Jehóva lof. Í bæn sem hann bar fram í áheyrn Ísraelsþjóðarinnar sagði hann við Guð: „Jehóva, þú ert mikill og voldugur, stórfenglegur, dýrlegur og vegsamlegur því að allt á himni og jörð er þitt.“ Þegar Davíð hafði lokið bæninni ‚lofaði allur söfnuðurinn Jehóva‘. – 1. Kron. 29:11, 20.
4. Hvernig veitti Jesús Jehóva lof?
4 Þegar Jesús var á jörðinni lofaði hann föður sinn með því að segja fólki að Jehóva gæfi honum kraftinn til að vinna kraftaverk. (Mark. 5:18–20) Jesús lofaði líka Jehóva með því hvernig hann talaði um hann og hvernig hann kom fram við aðra. Eitt sinn var Jesús að kenna í samkunduhúsi og meðal áheyrenda var kona sem hafði verið haldin illum anda í 18 ár. Illi andinn hafði gert hana kengbogna í baki svo að hún var algerlega ófær um að rétta úr sér. Aumingja konan! Jesús vorkenndi henni, gekk til hennar og sagði blíðlega: „Kona, þú ert laus við mein þitt.“ Hann lagði hendur yfir hana og hún rétti samstundis úr sér og „lofaði Guð“. (Lúk. 13:10–13) Hún var Jehóva innilega þakklát fyrir að hafa gefið sér heilsuna aftur. Konan hafði góða ástæðu til að lofa Jehóva, og það höfum við líka.
HVERS VEGNA LOFUM VIÐ JEHÓVA?
5. Hvaða ástæður höfum við til að virða Jehóva?
5 Við lofum Jehóva vegna þess að við berum djúpa virðingu fyrir honum. Við höfum margar ástæður til þess að virða hann. Jehóva er almáttugur, hann hefur ótakmarkaðan mátt. (Sálm. 96:4–7) Djúpstæð viska hans er auðséð af því sem hann hefur skapað. Hann gaf okkur lífið og heldur því við. (Opinb. 4:11) Hann er trúr. (Opinb. 15:4) Allt sem hann gerir heppnast og hann stendur alltaf við loforð sín. (Jós. 23:14) Það kemur því ekki á óvart að Jeremía spámaður skyldi segja um Jehóva: „Meðal allra vitringa þjóðanna og í öllum konungsríkjum þeirra jafnast enginn á við þig.“ (Jer. 10:6, 7) Við höfum sannarlega margar ástæður til að virða föður okkar á himnum. En Jehóva á ekki aðeins skilið virðingu okkar, hann ávinnur sér líka ást okkar.
6. Hvers vegna elskum við Jehóva?
6 Við lofum Jehóva vegna þess að við elskum hann innilega. Skoðum nokkra af eiginleikum hans sem fá okkur til að elska hann. Jehóva er miskunnsamur og umhyggjusamur. (Sálm. 103:13; Jes. 49:15) Hann er hluttekningarsamur, hann finnur til með okkur. (Sak. 2:8) Hann gerir okkur auðvelt að nálgast sig sem vin. (Sálm. 25:14; Post. 17:27) Og hann er auðmjúkur, „hann beygir sig niður til að líta á himin og jörð. Hann reisir lítilmagnann úr duftinu.“ (Sálm. 113:6, 7) Hvernig er hægt annað en að langa til að lofa stórkostlegan Guð okkar? – Sálm. 86:12.
7. Hvaða sérstaka tækifæri höfum við?
7 Við lofum Jehóva vegna þess að við viljum að aðrir kynnist honum. Margir þekkja ekki sannleikann um Jehóva vegna þess að Satan hefur blindað huga þeirra með því að dreifa hræðilegum lygum um hann. (2. Kor. 4:4) Satan hefur sannfært fólk um að Jehóva sé hefnigjarn, að honum standi á sama um okkur og að hann sé valdur að mörgum af þjáningum heimsins. En við þekkjum sannleikann um Guð okkar. Við höfum tækifæri til að lofa hann með því að segja öðrum frá því hvers konar Guð hann er. (Jes. 43:10) Í Sálmi 96 er lögð áhersla á að lofa Jehóva. Hugsaðu um á hvaða vegu þú getir veitt Jehóva það lof sem hann á skilið þegar við skoðum nokkur vers í þessum sálmi.
HVERNIG GETUM VIÐ VEITT JEHÓVA ÞAÐ LOF SEM HANN Á SKILIÐ?
8. Nefndu dæmi um hvernig við getum lofað Jehóva. (Sálmur 96:1–3)
8 Lestu Sálm 96:1–3. Við getum lofað Jehóva með því sem við segjum um hann. Í þessum versum er sagt við þjóna Jehóva: „Syngið fyrir Jehóva, lofið nafn hans. Boðið gleðifréttirnar um frelsun … Segið frá dýrð hans meðal þjóðanna.“ Við getum lofað himneskan föður okkar á alla þessa vegu. Trúfastir Gyðingar og kristnir menn á fyrstu öld hikuðu ekki við að segja öðrum frá öllu því góða sem Jehóva hafði gert fyrir þá og að verja nafn hans. (Dan. 3:16–18; Post. 4:29) Hvernig getum við gert það líka?
9, 10. Hvað geturðu lært af reynslu Angelenu? (Sjá einnig mynd.)
9 Tökum reynslu Angelenu a sem dæmi, en hún er systir sem býr í Bandaríkjunum. Hún varði nafn Jehóva hugrökk í vinnunni. Þar sem Angelena var nýbyrjuð hjá fyrirtækinu var henni boðið á fund þar sem hún og aðrir nýir starfsmenn fengu tækifæri til að segja vinnufélögunum frá sjálfum sér. Hún undirbjó myndasýningu til að sýna hversu ánægjulegt líf hún ætti sem vottur Jehóva. En rétt áður en kom að henni kynnti vinnufélagi hennar sig. Hann sagðist hafa verið alinn upp sem vottur Jehóva og fór að hæðast að trú okkar. Angelena segir: „Ég var mjög stressuð. En ég hugsaði með mér: ‚Ætla ég að leyfa honum að ljúga upp á Jehóva? Eða ætla ég að verja Jehóva?‘“
10 Þegar vinnufélaginn var búinn fór Angelena með stutta bæn í hljóði. Síðan ávarpaði hún hann vingjarnlega og sagði: „Ég er með svipaðan bakgrunn og þú. Ég var líka alin upp sem vottur Jehóva, og ég er enn þá vottur.“ Það var spenna í loftinu. En Angelena hélt ró sinni, sýndi myndir af ánægjulegum viðburðum á vegum safnaðarins og varði trú sína af háttvísi. (1. Pét. 3:15) Hver var árangurinn? Þegar Angelena var búin með kynninguna hafði maðurinn mildast. Hann viðurkenndi meira að segja að hann ætti góðar minningar af því að alast upp sem vottur Jehóva. Angelena segir: „Jehóva á skilið að við verjum hann. Það er heiður að fá að segja sannleikann um hann.“ Við höfum líka þann heiður að fá að lofa Jehóva, jafnvel þegar aðrir smána hann.
11. Hvernig hafa sannir tilbiðjendur Jehóva í gegnum söguna fylgt meginreglunni í Sálmi 96:8?
11 Lestu Sálm 96:8. Við getum lofað Jehóva með efnislegum eigum okkar. Sannir tilbiðjendur Jehóva hafa alltaf heiðrað hann á þann hátt. (Orðskv. 3:9) Til dæmis gáfu Ísraelsmenn af efnislegum eigum sínum til að byggja musterið og viðhalda því. (2. Kon. 12:4, 5; 1. Kron. 29:3–9) Umhyggjusamir lærisveinar Krists studdu hann og postulana „með eigum sínum“. (Lúk. 8:1–3) Kristnir menn á fyrstu öld veittu auk þess trúsystkinum sínum neyðaraðstoð. (Post. 11:27–29) Við getum líka lofað Jehóva með frjálsum framlögum okkar.
12. Hvernig getum við notað framlögin okkar til að lofa Jehóva? (Sjá einnig mynd.)
12 Skoðum eitt dæmi um hvernig við notum framlögin okkar til að lofa Jehóva. Í skýrslu frá 2020 segir frá áhrifum langvarandi þurrka í Simbabve. Milljónir manna áttu á hættu að svelta, þar á meðal systir sem heitir Prisca. Þrátt fyrir þurrkana hélt Prisca áfram þeirri venju sinni að fara í boðunina á miðvikudögum og föstudögum, jafnvel á þeim tíma sem menn voru að plægja. Nágrannar hennar hæddust að henni fyrir að fara í boðunina í staðinn fyrir að vinna á ökrunum og sögðu: „Þú átt eftir að deyja úr hungri.“ Prisca svaraði alltaf örugg: „Jehóva hefur aldrei yfirgefið þjóna sína.“ Stuttu seinna fékk hún neyðaraðstoð frá söfnuðinum. Þessi neyðaraðstoð var framlögum okkar að þakka. Nágrannar Priscu sögðu við hana: „Guð hefur alltaf staðið við bakið á þér svo að okkur langar til að læra meira um hann.“ Sjö nágrannar hennar fóru að sækja samkomur.
13. Hvernig getum við lofað Jehóva með hegðun okkar? (Sálmur 96:9)
13 Lestu Sálm. 96:9. Við getum lofað Jehóva með hegðun okkar. Prestarnir sem þjónuðu við musteri Jehóva þurftu að vera líkamlega hreinir. (2. Mós. 40:30–32) En hrein hegðun er jafnvel enn mikilvægari en líkamlegur hreinleiki. (Sálm. 24:3, 4; 1. Pét. 1:15, 16) Við þurfum að leggja hart að okkur til að afklæðast „hinum gamla manni“ – óhreinni hegðun og viðhorfum – og íklæðast „hinum nýja manni“ – hugsunarhætti og hegðun sem endurspeglar dýrlega eiginleika Jehóva. (Kól. 3:9, 10) Með hjálp Jehóva getur jafnvel fólk sem hefur lifað mjög siðlausu og ofbeldisfullu lífi breytt sér og íklæðst hinum nýja manni.
14. Hvað geturðu lært af reynslu Jacks? (Sjá einnig mynd.)
14 Skoðum reynslu Jacks, en hann var ofbeldisfullur og hættulegur maður sem hafði fengið viðurnefnið Fjandinn. Jack var dæmdur til dauða fyrir glæpina sem hann framdi. En á meðan hann beið eftir að dóminum yrði fullnægt þáði hann biblíunámskeið hjá bróður sem heimsótti fangelsið. Þrátt fyrir allt það slæma sem Jack hafði gert afklæddist hann hinum gamla manni og varð hæfur til að láta skírast. Jack hafði breyst svo mikið að þegar kom að því að lífláta hann kvöddu sumir fangavarðanna hann með tárin í augunum. Aðstoðarvarðstjóri í fangelsinu sagði: „Jack var einn af verstu föngunum í fangelsinu en núna er hann einn af þeim bestu.“ Haldnar voru samkomur vikulega í fangelsinu. Bræðurnir sem komu í vikunni eftir að Jack var tekinn af lífi hittu fanga sem var að koma á samkomu í fyrsta sinn. Hann ákvað að koma vegna þess að honum fannst svo merkilegt að sjá hvernig Jack hafði breytt hegðun sinni og hann vildi vita hvað hann þyrfti að gera til að tilbiðja Jehóva. Hegðun okkar getur klárlega veitt himneskum föður okkar lof. – 1. Pét. 2:12.
HVERNIG GERIR JEHÓVA NAFN SITT DÝRLEGT Í NÁINNI FRAMTÍÐ?
15. Hvernig mun Jehóva bráðlega sanna að hann á skilið að allir tilbiðji hann? (Sálmur 96:10–13)
15 Lestu Sálm 96:10–13. Þessi lokavers Sálms 96 lýsa Jehóva sem réttlátum dómara og konungi. Hvernig gerir Jehóva nafn sitt dýrlegt í náinni framtíð? Hann gerir það með dómum sínum. Bráðlega eyðir hann Babýlon hinni miklu fyrir að hafa smánað nafn hans. (Opinb. 17:5, 16; 19:1, 2) Sumir sem verða vitni að eyðingu Babýlonar hinnar miklu sameinast okkur kannski í sannri tilbeiðslu. Jehóva mun að lokum eyða öllu heimskerfi Satans í Harmagedón. Hann útrýmir öllum þeim sem standa gegn honum og lasta nafn hans en bjargar öllum þeim sem elska hann og hlýða og eru stoltir af því að lofa nafn hans. (Mark. 8:38; 2. Þess. 1:6–10) Eftir lokaprófið við lok þúsundáraríkis Krists hefur Jehóva sannað að hann á skilið að allir tilbiðji hann. (Opinb. 20:7–10) Þá verður jörðin „full af þekkingu á dýrð Jehóva eins og vatn hylur sjávardjúpið“. – Hab. 2:14.
16. Hvað ætlar þú að gera? (Sjá einnig mynd.)
16 Hugsaðu þér hve ánægjulegt það verður þegar allir veita Jehóva það lof sem nafn hans á skilið! En þangað til getum við lagt okkar af mörkum og lofað Guð við hvert tækifæri. Til að leggja áherslu á þessa mikilvægu ábyrgð okkar hefur stjórnandi ráð valið Sálm 96:8 sem árstexta 2025: „Veitið Jehóva það lof sem nafn hans á skilið.“
SÖNGUR 12 Jehóva, hinn mikli Guð
a Sumum nöfnum hefur verið breytt.