Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 1

Fullvissaðu þig um að orð Guðs sé sannleikur

Fullvissaðu þig um að orð Guðs sé sannleikur

ÁRSTEXTINN 2023 ER: „Kjarninn í orði þínu er sannleikur.“ – SÁLM. 119:160.

SÖNGUR 96 Bók Guðs er fjársjóður

YFIRLIT a

1. Hvers vegna treysta margir ekki Biblíunni nú á dögum?

 NÚ Á dögum eiga margir erfitt með að treysta öðrum. Þeir vita ekki hverjum þeir geta treyst. Þeir eru ekki vissir um að fólkið sem þeir líta upp til – stjórnmálamenn, vísindamenn og kaupsýslumenn – beri hag þeirra fyrir brjósti. Þar að auki eru prestar kristna heimsins ekki hátt skrifaðir hjá þeim. Það er því engin furða að þeir séu vantrúaðir á bókina sem þessir trúarleiðtogar halda á lofti, Biblíuna.

2. Hvað þurfum við að vera fullviss um samkvæmt Sálmi 119:160?

2 Sem þjónar Jehóva erum við sannfærðir um að hann sé „Guð sannleikans“ og að hann vilji okkur alltaf það besta. (Sálm. 31:5; Jes. 48:17) Við vitum að við getum treyst því sem stendur í Biblíunni, að ,kjarninn í orði Guðs sé sannleikur‘. b (Lestu Sálm 119:160.) Við erum sammála því sem biblíufræðingur einn skrifaði: „Það finnst ekki minnsta vísbending um fals eða mistök í nokkru sem Guð hefur sagt. Fólk Guðs getur treyst því sem hann hefur sagt því að það treystir honum sjálfum.“

3. Hvað verður fjallað um í þessari námsgrein?

3 Hvernig getum við hjálpað öðrum að treysta orði Guðs eins og við gerum? Athugum þrjár ástæður fyrir því að við getum treyst Biblíunni. Við skoðum nákvæmni textans, uppfyllingu biblíuspádóma og mátt Biblíunnar til að breyta lífi fólks.

BOÐSKAPUR BIBLÍUNNAR HEFUR VARÐVEIST ÓBREYTTUR

4. Hvers vegna álíta sumir að Biblíunni hafi verið breytt?

4 Jehóva Guð notaði um það bil 40 trúfasta menn til að skrifa bækur Biblíunnar. En ekkert hinna upprunalegu handrita hefur varðveist fram á okkar daga. Það sem við höfum eru afrit af afritum. Það gerir það að verkum að fólk veltir því fyrir sér hvort það sem við lesum í Biblíunni nú á dögum sé það sama og menn skrifuðu upphaflega. Hefurðu einhvern tíma velt því fyrir þér hvernig við getum verið viss um að svo sé?

Faglærðir afritarar Hebresku ritninganna vönduðu sig einstaklega mikið til að tryggja að afritin sem þeir gerðu af orði Guðs væru nákvæm. (Sjá 5. grein.)

5. Hvernig voru Hebresku ritningarnar afritaðar? (Sjá forsíðumynd.)

5 Jehóva sá til þess að Biblían væri afrituð til að boðskapur hans varðveittist. Hann gaf konungum Ísraels fyrirmæli um að gera eigin afrit af lögmálinu og hann útnefndi Levítana til að kenna fólkinu lögin. (5. Mós. 17:18; 31:24–26; Neh. 8:7) Eftir útlegð Gyðinga í Babýlon fór hópur faglærðra afritara að gera fjölda afrita af Hebresku ritningunum. (Esra. 7:6, neðanmáls) Þetta voru samviskusamir menn. Með tímanum fóru þeir ekki aðeins að telja orðin heldur líka stafina til að vera vissir um að allt væri nákvæmlega afritað. Vegna ófullkomleika manna laumuðust samt smávægilegar villur í biblíutextann. En þar sem mörg afrit voru gerð af sama texta var hægt að koma auga á þessar villur síðar. Hvernig?

6. Hvernig er hægt að koma auga á villur í afritum af Biblíunni?

6 Nútímafræðimenn hafa áreiðanlegar aðferðir til að finna villur sem afritarar gerðu þegar þeir afrituðu biblíutextann. Tökum dæmi: Segjum að 100 menn hafi verið fengnir til að handskrifa afrit af texta. Einn þeirra gerir smávægilega villu þegar hann afritar textann. Ein leið til að koma auga á villuna væri að bera afrit hans saman við afrit allra hinna. Á líkan hátt geta fræðimenn fundið villur sem afritari kann að hafa gert með því að bera saman nokkur biblíuhandrit.

7. Hversu vandvirkir voru margir biblíuafritarar?

7 Þeir sem afrituðu biblíuhandrit gerðu sitt ýtrasta til að gera það nákvæmlega. Skoðum dæmi sem sýnir fram á þetta. Elsta handrit af Hebresku ritningunum í heild er síðan árið 1008 eða 1009. Það er kallað Leningrad Codex. Nýlega hafa hins vegar fundist mörg biblíuhandrit og handritabrot sem eru um 1.000 árum eldri en Leningrad Codex. Sumir gætu haldið að þegar búið er að afrita og endurafrita þessi handrit í 1.000 ár sé textinn í Leningrad Codex-handritinu mjög ólíkur textanum í eldri handritunum. En svo er ekki. Fræðimenn hafa borið saman forn handrit við þau sem hafa síðar fundist og komist að því að það er aðeins lítils háttar munur á orðavali og merkingin hefur ekki breyst.

8. Hvað leiðir samanburður á kristnu Grísku ritningunum og sumum veraldlegum fornum bókum í ljós?

8 Frumkristnir menn fylgdu sömu hefð og afritarar Hebresku ritninganna. Þeir gerðu nákvæm afrit af 27 bókum Grísku ritninganna sem þeir notuðu á samkomum sínum og þegar þeir boðuðu trúna. Fræðimaður sem bar saman handrit Grísku ritninganna við aðrar bækur frá þessum tíma segir um biblíuhandritin: „Almennt eru til fleiri [afrit af Grísku ritningunum] … og þau eru heillegri.“ Bókin Anatomy of the New Testament segir: „Við getum verið fullviss um að það sem við lesum í áreiðanlegri nútímaþýðingu [Grísku ritninganna] sé efnislega það sama og höfundarnir skrifuðu til forna.“

9. Hverju getum við treyst varðandi boðskap Biblíunnar samkvæmt Jesaja 40:8?

9 Vandvirkni margra afritara í gegnum aldirnar hefur stuðlað að nákvæmni Biblíunnar sem við lesum og rannsökum nú á dögum. c Það var auðvitað Jehóva sem sá til þess að boðskapur hans til mannkynsins yrði varðveittur nákvæmlega. (Lestu Jesaja 40:8.) Sumir gætu samt sagt að jafnvel þótt boðskapur Biblíunnar hafi verið varðveittur þýði það ekki að hann hafi verið innblásinn af Guði. Skoðum nokkur rök fyrir því að Biblían sé innblásin af Guði.

BIBLÍUSPÁDÓMAR ERU ÁREIÐANLEGIR

Til vinstri: C. Sappa/​DeAgostini/​Getty Images; til hægri: Image © Homo Cosmicos/​Shutterstock

Biblíuspádómar hafa uppfyllst og eru að uppfyllast. (Sjá 10. og 11. grein.) e

10. Nefndu dæmi um uppfylltan spádóm sem staðfestir það sem segir í 2. Pétursbréfi 1:21. (Sjá myndir.)

10 Biblían hefur að geyma marga spádóma sem rættust sumir hverjir hundruðum ára eftir að þeir voru skráðir. Mannkynssagan staðfestir að þessir spádómar rættust. Það kemur okkur ekki á óvart vegna þess að við vitum að höfundur spádóma Biblíunnar er Jehóva. (Lestu 2. Pétursbréf 1:21.) Tökum sem dæmi spádómana um fall hinnar fornu borgar Babýlonar. Á áttundu öld f.Kr. var Jesaja spámanni innblásið að segja fyrir að Babýlon yrði hertekin, en hún var voldug borg. Hann nafngreindi jafnvel sigurvegarann, Kýrus, og sagði nákvæmlega fyrir hvernig hann myndi sigra borgina. (Jes. 44:27–45:2) Jesaja spáði líka að Babýlon yrði lögð í rúst og algerlega yfirgefin. (Jes. 13:19, 20) Það er nákvæmlega það sem gerðist. Babýlon féll í hendur Meda og Persa árið 539 f.Kr. og þessi borg sem var einu sinni svo öflug er nú rústir einar. – Sjá myndbandið Biblían spáði fyrir um fall Babýlonar í rafrænni útgáfu bókarinnar Von um bjarta framtíð, kafla 03, lið 5.

11. Lýstu því hvernig Daníel 2:41–43 er að uppfyllast núna.

11 Biblían inniheldur ekki aðeins spádóma sem uppfylltust áður fyrr heldur líka spádóma sem eru að uppfyllast fyrir augum okkar. Skoðum sem dæmi magnaða uppfyllingu spádóms Daníels um ensk-ameríska heimsveldið. (Lestu Daníel 2:41–43.) Spádómurinn sagði nákvæmlega fyrir að þetta tvíveldi yrði „að sumu leyti sterkt“ eins og járn en „að sumu leyti veikt“ eins og leir. Það hefur einmitt komið á daginn. Bretland og Bandaríkin sýndu styrk járnsins með því að eiga stóran þátt í að sigra í báðum heimsstyrjöldunum og búa enn yfir miklum hernaðarmætti. En þegnar þeirra hafa veikt mátt þeirra. Þeir hafa risið upp og barist fyrir réttindum sínum og notað til þess verkalýðsfélög, herferðir fyrir borgaralegum réttindum og sjálfstæðishreyfingar. Sérfræðingur í stjórnmálum heimsins segir: „Ekkert annað þróað og iðnvætt lýðræðisríki heims er jafn sundrað og óstarfhæft stjórnmálalega og Bandaríkin.“ Og hinn hluti heimsveldisins, Bretland, hefur verið sérstaklega sundraður undanfarin ár vegna andstæðra skoðana á því hvaða tengsl landið ætti að hafa við lönd í Evrópusambandinu. Þessi óeining hefur gert ensk-ameríska heimsveldinu nær ómögulegt að láta til sín taka með afgerandi hætti.

12. Um hvað sannfæra spádómar Biblíunnar okkur?

12 Margir spádómar Biblíunnar sem hafa þegar uppfyllst styrkja trú okkar á því að fyrirheit Guðs varðandi framtíðina verði að veruleika. Okkur líður eins og sálmaskáldinu sem bað til Jehóva: „Ég þrái frelsunina sem þú veitir því að orð þitt gefur mér von.“ (Sálm. 119:81) Í Biblíunni hefur Jehóva í kærleika sínum gefið okkur „von og góða framtíð“. (Jer. 29:11) Framtíðarvon okkar er ekki háð viðleitni manna heldur byggist hún á loforðum Jehóva. Höldum áfram að styrkja traust okkar á orði Guðs með því að rannsaka vandlega spádóma Biblíunnar.

RÁÐ BIBLÍUNNAR HJÁLPA MILLJÓNUM

13. Hvað fleira sýnir að Biblían er áreiðanleg samkvæmt Sálmi 119:66, 138?

13 Önnur ástæða þess að við getum treyst Biblíunni er að fólk nýtur góðs af því að fara eftir ráðum hennar. (Lestu Sálm 119:66, 138.) Þau hafa hjálpað hjónum sem voru komin að því að skilja að öðlast hamingju á ný. Börnin þeirra njóta þess að vera alin upp í kærleiksríku umhverfi á kristnu heimili þar sem þeim finnst þau örugg og elskuð. – Ef. 5:22–29.

14. Nefndu dæmi um að fólk getur breyst til hins betra með því að fara eftir leiðbeiningum Biblíunnar.

14 Jafnvel hættulegir glæpamenn hafa gert miklar breytingar á lífi sínu þegar þeir hafa farið eftir viturlegum ráðum Biblíunnar. Skoðum hvernig leiðbeiningar hennar höfðu áhrif á fanga sem hét Jack. d Hann var ofbeldisfullur glæpamaður og þekktur sem einn hættulegasti fanginn á dauðadeildinni. En dag einn fylgdist Jack með biblíunámskeiði. Góðvild bræðranna sem héldu námskeiðið snerti hann djúpt og hann fór líka að kynna sér Biblíuna. Þegar hann heimfærði leiðbeiningar Biblíunnar í lífi sínu breyttist hegðun hans og jafnvel persónuleiki til hins betra. Með tímanum varð Jack hæfur til að verða óskírður boðberi og lét skírast. Hann sagði samföngum sínum kappsamur frá Guðsríki og hjálpaði að minnsta kosti fjórum þeirra að kynnast sannleikanum. Þegar sá dagur rann upp að taka átti Jack af lífi var hann breyttur maður. Einn af lögfræðingum hans sagði: „Jack er ekki sami maðurinn og ég þekkti fyrir 20 árum. Kennsla votta Jehóva hefur breytt lífi hans.“ Þótt dauðadóminum yfir Jack hafi verið fullnægt sýnir reynsla hans að við getum treyst orði Guðs og að það hefur kraft til að breyta fólki til hins betra. – Jes. 11:6–9.

Ráð Biblíunnar hafa bætt líf margra og ólíkra einstaklinga. (Sjá 15. grein.) f

15. Hvernig aðgreinir það þjóna Jehóva frá öðrum að þeir lifa í samræmi við sannleika Biblíunnar? (Sjá mynd.)

15 Þjónar Jehóva eru sameinaðir vegna þess að þeir lifa í samræmi við sannleika Biblíunnar. (Jóh. 13:35; 1. Kor. 1:10) Friðurinn og einingin sem ríkir meðal okkar er sérstaklega eftirtektarverð í ljósi þess hve heimurinn er sundraður stjórnmálalega og vegna þjóðernis fólks og stöðu í samfélaginu. Það hafði djúpstæð áhrif á ungan mann sem heitir Jean að sjá eininguna meðal þjóna Jehóva. Hann ólst upp í Afríku. Þegar borgarastríð braust út gekk hann í herinn en flúði síðar til nágrannalands. Þar hitti hann votta Jehóva. Jean segir: „Ég komst að því að þeir sem iðka sanna trú blanda sér ekki í stjórnmál og eru ekki sundraðir. Þeir elska hver annan.“ Hann heldur áfram: „Ég hafði helgað líf mitt því að verja land mitt. En þegar ég kynntist sannleika Biblíunnar ákvað ég að nota líf mitt til að þjóna Jehóva.“ Jean er breyttur maður. Nú berst hann ekki lengur gegn fólki með annan bakgrunn heldur segir öllum sem hann hittir frá sannleika Biblíunnar sem sameinar fólk. Að ráð Biblíunnar skuli virka svona vel fyrir fólk með mismunandi bakgrunn er sterk sönnun þess að við getum treyst orði Guðs.

HÖLDUM ÁFRAM AÐ TREYSTA SANNLEIKANUM Í ORÐI GUÐS

16. Hvers vegna er mikilvægt fyrir okkur að styrkja traust okkar á orði Guðs?

16 Eftir því sem heimurinn fer versnandi verður sífellt meiri áskorun að treysta orði Guðs. Fólk gæti reynt að sá efasemdum í huga okkar – efasemdum um sannleiksgildi Biblíunnar eða um að Jehóva hafi skipað trúan og skynsaman þjón til að leiðbeina tilbiðjendum sínum nú á dögum. En ef við erum sannfærð um að Jehóva segi alltaf satt getum við staðist slíkar árásir á trú okkar. Þá einsetjum við okkur ,að hlýða ákvæðum Jehóva öllum stundum eins lengi og við lifum‘. (Sálm. 119:112) Við skömmumst okkar ekki fyrir að segja öðrum frá sannleikanum og hvetja þá til að lifa í samræmi við hann. (Sálm. 119:46) Og við munum geta haldið út við erfiðustu aðstæður „með þolinmæði og gleði“, þar á meðal andspænis ofsóknum. – Kól. 1:11; Sálm. 119:143, 157.

17. Hvað minnir árstextinn okkur á?

17 Við erum innilega þakklát Jehóva að hann skuli leyfa okkur að þekkja sannleikann. Sannleikurinn gefur okkur stöðugleika, ákveðinn tilgang í lífinu og skýra stefnu í heimi þar sem ríkir stöðugt meiri óreiða og skipulagsleysi. Hann gefur okkur von um betri framtíð undir stjórn Guðsríkis. Megi árstextinn 2023 hjálpa okkur að standa stöðug í þeirri trú að allt orð Guðs – kjarninn í því – sé sannleikur! – Sálm. 119:160.

SÖNGUR 94 Þakklát fyrir orð Guðs

a Trústyrkjandi árstexti hefur verið valinn fyrir árið 2023: „Kjarninn í orði þínu er sannleikur.“ (Sálm. 119:160) Þú ert vafalaust sammála því. En margir trúa hins vegar ekki að Biblían sé sannleikur og að hún gefi okkur áreiðanlegar leiðbeiningar. Í þessari námsgrein skoðum við þrennt sem getur sannfært einlægt fólk um að það geti treyst Biblíunni og ráðum hennar.

b ORÐASKÝRING: Hebreska orðið sem er þýtt „kjarninn“ vísar til einhvers í heild sinni.

c Þú getur fundið frekari upplýsingar um varðveislu Biblíunnar með því að fara á jw.org og slá inn „Mannkynssagan og Biblían“ í leitargluggann.

d Sumum nöfnum hefur verið breytt.

e MYND: Guð sagði fyrir að hinni miklu borg Babýlon yrði eytt.

f MYND: Sviðsett mynd af ungum manni. Hann lærir frá Biblíunni hvernig hann getur lifað í friði við annað fólk og hjálpað því að gera það líka í stað þess að berjast við aðra.