Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 8

SÖNGUR 130 Fyrirgefum fúslega

Hvernig getum við líkt eftir fyrirgefningu Jehóva?

Hvernig getum við líkt eftir fyrirgefningu Jehóva?

„Eins og Jehóva fyrirgaf ykkur fúslega skuluð þið fyrirgefa öðrum.“KÓL. 3:13.

Í HNOTSKURN

Í þessari námsgrein fáum við góð ráð sem hjálpa okkur að fyrirgefa þeim sem hafa gert á okkar hlut.

1, 2. (a) Hvenær gæti okkur þótt sérstaklega erfitt að fyrirgefa? (b) Hvernig sýndi Denise fúsleika til að fyrirgefa?

 FINNST þér erfitt að fyrirgefa öðrum? Við eigum mörg hver erfitt með það, sérstaklega þegar einhver segir eða gerir eitthvað sem særir okkur djúpt. En við getum tekist á við særðar tilfinningar og fyrirgefið öðrum. Skoðum reynslu systur sem heitir Denise. a Hún var reiðubúinn að fyrirgefa við mjög erfiðar aðstæður. Árið 2017 heimsóttu hún og fjölskylda hennar nýopnaðar aðalstöðvar Votta Jehóva. Þegar þau voru á heimleið missti annar bílstjóri stjórn á bíl sínum með þeim afleiðingum að bílarnir skullu saman. Denise missti meðvitund í árekstrinum. Þegar hún vaknaði aftur til meðvitundar fékk hún að vita að Brian eiginmaður hennar hafði látið lífið og börnin hennar slasast alvarlega. Hún rifjar upp: „Ég var niðurbrotin og ráðvillt.“ Síðar kom í ljós að ökumaðurinn hafði hvorki verið undir áhrifum né nokkuð annað truflað hann og hún bað Jehóva um að gefa sér hugarfrið.

2 Ökumaðurinn var ákærður fyrir manndráp af gáleysi. Ef hann yrði fundinn sekur gæti hann verið dæmdur í fangelsi. En Denise var sagt að dómsúrskurðurinn réðist að miklu leyti af vitnisburði hennar. Hún segir: „Mér leið eins og sárið hefði verið rifið upp og salti nuddað í það þegar ég þurfti að rifja upp versta augnablik lífs míns.“ Nokkrum vikum síðar var Denise í réttarsal til að bera vitni frammi fyrir manninum sem hafði valdið fjölskyldu hennar svo miklum sársauka. Hún bað dómarann að sýna manninum miskunn. b Þegar hún hafði lokið máli sínu grét dómarinn. Hann sagði: „Á 25 ára ferli mínum sem dómari hef ég aldrei heyrt neitt þessu líkt í réttarsalnum. Ég hef aldrei áður heyrt fjölskyldu fórnarlambs biðjast vægðar fyrir sakborninginn. Hér heyrir maður ekki minnst á kærleika og fyrirgefningu.“

3. Hvað gerði Denise kleift að fyrirgefa?

3 Hvað hjálpaði Denise að vera tilbúin að fyrirgefa? Hún hugleiddi hvernig Jehóva fyrirgefur. (Míka 7:18) Þegar við kunnum að meta hvernig Jehóva fyrirgefur okkur erum við fús til að fyrirgefa öðrum.

4. Hvað vill Jehóva að við gerum? (Efesusbréfið 4:32)

4 Jehóva vill að við fyrirgefum öðrum jafn fúslega og hann fyrirgefur okkur. (Lestu Efesusbréfið 4:32.) Hann væntir þess að við séum tilbúin að fyrirgefa þeim sem særa okkur. (Sálm. 86:5; Lúk. 17:4) Í þessari námsgrein skoðum við þrennt sem auðveldar okkur að vera fús að fyrirgefa.

EKKI HUNSA TILFINNINGAR ÞÍNAR

5. Hvernig gæti okkur liðið þegar einhver særir okkur, samanber Orðskviðina 12:18?

5 Það getur sært okkur mjög djúpt ef einhver segir eða gerir eitthvað á hlut okkar, sérstaklega ef það er náinn vinur eða einhver nákominn okkur. (Sálm. 55:12–14) Stundum gætum við orðið svo reið eða sár að okkur líði eins og við höfum verið stungin. (Lestu Orðskviðina 12:18.) Við reynum kannski að bæla niður eða hunsa særðar tilfinningar. En það gæti verið eins og að vera stunginn en hnífurinn síðan skilinn eftir í sárinu. Á líkan hátt getum við ekki vænst þess að særðar tilfinningar hverfi bara með því að hunsa þær.

6. Hvernig bregðumst við kannski við þegar einhver særir okkur?

6 Þegar einhver særir okkur eru oft fyrstu viðbrögðin að reiðast eins og Biblían bendir líka á. En hún varar jafnframt við því að láta tilfinningarnar ná yfirhöndinni. (Sálm. 4:4; Ef. 4:26) Tilfinningar eru nefnilega oft undanfari verka. Og reiði hefur sjaldnast gott í för með sér. (Jak. 1:20) Munum að það að reiðast eru viðbrögð en að vera áfram reiður er val.

Að reiðast eru viðbrögð en að vera reiður er val.

7. Hvernig gæti okkur líka liðið þegar einhver særir okkur?

7 Þegar einhver kemur illa fram við okkur getum við upplifað ýmsar sárar tilfinningar. Systir sem heitir Ann segir: „Þegar ég var lítil yfirgaf pabbi mömmu og giftist barnfóstrunni minni. Mér fannst ég yfirgefin. Þegar þau svo eignuðust börn leið mér eins og mér hefði verið skipt út. Mér leið eins og enginn vildi mig.“ Systir sem heitir Georgette lýsir því hvernig henni leið þegar maðurinn hennar var henni ótrúr: „Við höfðum verið vinir frá því að við vorum krakkar. Við vorum brautryðjendafélagar. Hjarta mitt brast.“ Og systir sem heitir Naomi segir: „Ég hefði aldrei getað ímyndað mér að maðurinn minn myndi særa mig á þennan hátt. Mér fannst hann hafa blekkt mig og svikið þegar hann játaði að hafa horft á klám og falið það fyrir mér.“

8. (a) Af hvaða ástæðum ættum við að fyrirgefa öðrum? (b) Hvaða gagn höfum við af því að fyrirgefa? (Sjá einnig rammann „ Hvað ef einhver hefur sært okkur djúpt?“)

8 Við ráðum því ekki hvað aðrir segja eða gera en við ráðum hvernig við bregðumst við. Og oft er einfaldlega best að fyrirgefa. Hvers vegna? Við elskum Jehóva og hann vill að við séum fús að fyrirgefa. Ef við sleppum ekki takinu á reiðinni og fyrirgefum ekki erum við líklegri til að gera eitthvað heimskulegt og það getur líka komið niður á heilsu okkar. (Orðskv. 14:17, 29, 30) Skoðum hvað henti systur að nafni Christine. Hún segir: „Þegar neikvæðar tilfinningar ná yfirhöndinni brosi ég minna. Ég hef tilhneigingu til að borða óhollari mat. Ég fæ ekki nægilegan svefn og á erfiðara með að hafa stjórn á tilfinningum. Það hefur síðan áhrif á hjónabandið og samskipti við aðra.“

9. Hvers vegna ættum við ekki að ala með okkur gremju?

9 Við getum minnkað skaðann af því þegar einhver særir okkur þótt hann biðji okkur aldrei fyrirgefningar. Georgette, sem áður er minnst á, segir: „Ég náði að sleppa takinu á gremju og reiði í garð fyrrverandi mannsins míns þótt það tæki þó nokkurn tíma. Ég fann fyrir gríðarlegum létti.“ Þegar við hættum að vera gröm komum við í veg fyrir að verða bitur og skemma samskiptin við aðra. Við gerum sjálfum okkur líka gott með því. Við getum haldið áfram með lífið og verið glöð aftur. (Orðskv. 11:17) En hvað geturðu gert ef þú ert ekki enn þá tilbúinn að fyrirgefa?

ÞÚ GETUR TEKIST Á VIÐ TILFINNINGAR ÞÍNAR

10. Hvers vegna ættum við að gefa okkur tíma til að leyfa tilfinningalegum sárum að gróa? (Sjá einnig myndir.)

10 Hvernig getum við tekist á við særðar tilfinningar? Það er mikilvægt að gefa sjálfum sér tíma. Sá sem slasast alvarlega en hefur fengið læknishjálp þarf samt tíma til að gróa sára sinna. Eins getum við þurft tíma til að jafna okkur tilfinningalega áður en við erum tilbúin að fyrirgefa af öllu hjarta. – Préd. 3:3; 1. Pét. 1:22.

Rétt eins og líkamleg meiðsli þarfnast umönnunar og tíma til að gróa þurfa tilfinningaleg sár þess líka. (Sjá 10. grein.)


11. Hvernig getur bænin hjálpað þér að fyrirgefa?

11 Biddu Jehóva að hjálpa þér að vera fús til að fyrirgefa. c Ann, sem áður er minnst á, útskýrir hvernig bænin hefur hjálpað henni. Hún segir: „Ég bað Jehóva um að fyrirgefa hverju og einu okkar í fjölskyldunni fyrir það sem við höfðum ekki gert rétt. Síðan skrifaði ég bréf til pabba og nýju konunnar og sagði að ég hefði fyrirgefið þeim.“ Hún viðurkennir að þetta hafi alls ekki verið auðvelt. Hún bætir við: „Ég vona að þau sjái að ég vil fyrirgefa eins og Jehóva og þau langi þá að kynnast honum betur.“

12. Hvers vegna ættum við að treysta Jehóva frekar en tilfinningum okkar? (Orðskviðirnir 3:5, 6)

12 Treystu Jehóva en ekki tilfinningum þínum. (Lestu Orðskviðina 3:5, 6.) Jehóva veit alltaf hvað er okkur fyrir bestu. (Jes. 55:8, 9) Og hann biður okkur aldrei um að gera neitt sem skaðar okkur. Þegar hann hvetur okkur til að vera fús að fyrirgefa getum við verið viss um að það er okkur fyrir bestu. (Sálm. 40:4; Jes. 48:17, 18) Ef við á hinn bóginn treystum tilfinningum okkar tekst okkur kannski aldrei að fyrirgefa. (Orðskv. 14:12; Jer. 17:9) Naomi, sem vitnað er í áður, segir: „Í fyrstu réttlætti ég fyrir sjálfri mér að fyrirgefa ekki manninum mínum fyrir að horfa á klám. Ég var hrædd um að hann myndi særa mig aftur og gleyma hve miklum skaða hann olli. Ég var viss um að Jehóva skildi hvernig mér leið. En síðan fór ég að átta mig á því að þótt Jehóva skilji tilfinningar mínar þýðir það ekki að hann samþykki þær. Hann veit hvernig mér líður og að ég þarf tíma til að jafna mig en hann vill líka að ég sé fús að fyrirgefa.“ d

RÆKTAÐU JÁKVÆÐAR TILFINNINGAR

13. Hvað þurfum við að gera samkvæmt Rómverjabréfinu 12:18–21?

13 Það er ekki nóg að hætta einfaldlega að tala um það sem gerðist þegar við fyrirgefum einhverjum sem hefur sært okkur djúpt. Ef sá sem hefur sært okkur er líka trúsystkini er markmiðið að sættast. (Matt. 5:23, 24) Við veljum að vera miskunnsöm í stað þess að vera reið og að fyrirgefa í stað þess að ala á gremju. (Lestu Rómverjabréfið 12:18–21; 1. Pét. 3:9) Hvað getur hjálpað okkur til þess?

14. Hvað ættum við að leggja okkur fram við að gera og hvers vegna?

14 Við ættum að leggja okkur fram við að sjá þann sem særði okkur eins og Jehóva sér hann. Jehóva horfir á það góða í fólki. (2. Kron. 16:9; Sálm. 130:3) Venjulega finnum við það sem við leitum að í fari fólks, hvort sem það er gott eða slæmt. Við eigum auðveldara með að fyrirgefa öðrum þegar við horfum á það góða í fari þeirra. Bróðir að nafni Jarrod segir til dæmis: „Ég á auðveldara með að fyrirgefa bróður það sem hann gerði þegar ég minni mig á alla góðu eiginleikana sem hann hefur.“

15. Hvers vegna getur verið gott að láta manneskju vita að þú hafir fyrirgefið henni?

15 Annað sem er gott að gera er að segja þeim sem særði þig að þú hafir fyrirgefið honum. Naomi, sem er minnst á áður, segir: „Maðurinn minn spurði: ‚Ertu búin að fyrirgefa mér?‘ Ég reyndi að segja ‚ég fyrirgef þér‘ en gat það ekki. Ég áttaði mig á því að ég hafði ekki fyrirgefið honum í hjarta mínu. Með tímanum tókst mér að segja þessi áhrifaríku orð: ‚Ég fyrirgef þér‘. Maðurinn minn táraðist, honum var svo létt. Og ég öðlaðist hugarfrið. Síðan þá hef ég lært að treysta honum á ný og við erum aftur bestu vinir.“

16. Hvað hefurðu lært um fyrirgefningu?

16 Jehóva vill að við fyrirgefum fúslega. (Kól. 3:13) En það getur verið mikil barátta fyrir okkur. Við getum það samt ef við hunsum ekki tilfinningar okkar og gerum okkar besta til að takast á við þær. Síðan getum við ræktað nýjar og jákvæðari tilfinningar. – Sjá rammann „ Þrennt sem þú getur gert til að fyrirgefa öðrum“.

HORFÐU Á KOSTINA

17. Hvernig kemur það okkur til góða að fyrirgefa?

17 Það er svo margt jákvætt við það að fyrirgefa. Í fyrsta lagi líkjum við eftir miskunnsömum föður okkar, Jehóva, og gleðjum hann. (Lúk. 6:36) Í öðru lagi sýnum við að við erum þakklát fyrir að Jehóva skuli fyrirgefa okkur. (Matt. 6:12) Og í þriðja lagi njótum við betri heilsu og styrkjum vináttuböndin við aðra.

18, 19. Hvað getur það haft í för með sér ef við erum fús að fyrirgefa?

18 Þegar við fyrirgefum öðrum gerist stundum eitthvað óvænt og gott. Skoðum hvað gerðist í tilfelli Denise. Hún vissi það ekki á þeim tíma en maðurinn sem var valdur að slysinu ætlaði að binda enda á líf sitt eftir réttarhöldin. En hann var svo þakklátur að Denise gat fyrirgefið honum að hann fór að kynna sér Biblíuna með vottum Jehóva.

19 Að fyrirgefa öðrum getur verið eitt það erfiðasta sem við þurfum nokkurn tíma að gera – en það gæti líka reynst vera eitt af því dýrmætasta. (Matt. 5:7) Gerum okkar allra besta til að líkja eftir Jehóva og hvernig hann fyrirgefur.

SÖNGUR 125 „Sælir eru miskunnsamir“

a Sumum nöfnum hefur verið breytt.

b Hver og einn þjónn Jehóva verður að taka persónulega ákvörðun í slíkum aðstæðum.

c Sjá texta söngs 125 „Sælir eru miskunnsamir“ og söngs 130 „Fyrirgefum fúslega“.

d Þótt það sé synd að horfa á klám og hafi særandi áhrif er það ekki biblíulegur grundvöllur fyrir skilnaði.