NÁMSGREIN 50
„Þú verður með mér í paradís“
„Ég lofa þér í dag að þú verður með mér í paradís.“ – LÚK. 23:43.
SÖNGUR 145 Loforð Guðs um paradís
YFIRLIT a
1. Hvað sagði Jesús við glæpamann við hliðina á sér stuttu áður en hann dó? (Lúkas 23:39–43)
JESÚS og glæpamennirnir tveir við hlið hans þjáðust meðan þeir dóu hægum dauða. (Lúk. 23:32, 33) Báðir glæpamennirnir höfðu hæðst að Jesú svo að þeir voru greinilega ekki lærisveinar hans. (Matt. 27:44; Mark. 15:32) En viðhorf annars þeirra breyttist. Hann sagði: „Jesús, mundu eftir mér þegar þú kemur í ríki þitt.“ Jesús svaraði: „Ég lofa þér í dag að þú verður með mér í paradís.“ (Lestu Lúkas 23:39–43.) Ekkert bendir til að glæpamaðurinn hafi áður tekið á móti boðskapnum um „himnaríki“ sem Jesús hafði boðað. Og Jesús sagði ekki að maðurinn yrði í ríkinu á himni. (Matt. 4:17) Jesús var að tala um komandi paradís á jörð. Hvernig vitum við það?
2. Hvað bendir til þess að glæpamaðurinn sem iðraðist hafi verið Gyðingur?
2 Glæpamaðurinn sem iðraðist var líklega Gyðingur. Hann sagði við hinn glæpamanninn: „Óttastu Guð ekki neitt og hefur þó fengið sama dóm og þessi maður?“ (Lúk. 23:40) Gyðingar tilbáðu einn Guð en fólk af þjóðunum trúði á marga guði. (2. Mós. 20:2, 3; 1. Kor. 8:5, 6) Ef glæpamennirnir hefðu ekki verið Gyðingar hefði spurningin líklega verið: „Óttastu guðina ekki neitt?“ Þar að auki var Jesús ekki sendur til fólks af þjóðunum heldur til „týndra sauða af Ísraelsætt“. (Matt. 15:24) Guð hafði sagt Ísraelsmönnum að hann myndi reisa hina dánu upp frá dauðum. Það má vera að glæpamaðurinn sem iðraðist hafi vitað þetta. Og eins og orð hans gefa til kynna gerði hann ráð fyrir að Jehóva myndi reisa Jesú upp til að ríkja í ríki sínu. Maðurinn vonaði augljóslega að Guð myndi reisa hann upp líka.
3. Hvað hefur líklega komið upp í huga iðrunarfulla glæpamannsins þegar Jesús minntist á paradís? Skýrðu svarið. (1. Mósebók 2:15)
3 Ef iðrunarfulli glæpamaðurinn var Gyðingur hefur hann vitað af paradísinni sem Adam og Eva höfðu verið sett í. Hann hefur þá líklega gert sér grein fyrir að Jesús hafi átt við fallegan garð á jörðinni þegar hann talaði um paradís. – Lestu 1. Mósebók 2:15.
4. Hvað ætti það sem Jesús sagði við annan glæpamanninn að hvetja okkur til að hugleiða?
4 Það sem Jesús sagði við glæpamanninn ætti að hvetja okkur til að hugsa um hvernig lífið í paradís verður. Við getum séð það fyrir okkur að einhverju leyti með því að skoða hvernig friður ríkti undir stjórn Salómons konungs. Og við getum búist við því að Jesús, sem er meiri en Salómon, muni vinna að því ásamt meðstjórnendum sínum að gera aðstæður á jörðinni dásamlegar. (Matt. 12:42) Aðrir sauðir hljóta eðlilega að hafa áhuga á að vita hvað þeir þurfa að gera til að lifa að eilífu í paradís. – Jóh. 10:16.
HVERNIG VERÐUR LÍFIÐ Í PARADÍS?
5. Hvernig heldur þú að lífið í paradís verði?
5 Hvað kemur upp í huga þér þegar þú hugsar um lífið í paradís? Kannski sérðu fyrir þér fallegan garð eins og Edengarðinn. (1. Mós. 2:7–9) Þú hugsar kannski líka um spádóminn sem Míka skráði um að þjónar Guðs sitji „hver undir sínum vínviði eða fíkjutré“. (Míka 4:3, 4, Biblían 2010) Þú hugsar kannski líka um biblíuvers sem sýna að það verður nóg að borða. (Sálm. 72:16; Jes. 65:21, 22) Þú sérð því sjálfan þig kannski fyrir þér í fallegum garði sitjandi við borð fullt af gómsætum mat. Þú andar að þér fersku lofti og finnur ilminn af jurtum og blómum. Og þú heyrir líklega óm af hlátri fjölskyldu og vina, þar á meðal þeirra sem hafa fengið upprisu, þegar allir njóta þess að vera saman. Þetta er ekki aðeins draumsýn. Við eigum eftir að upplifa þetta allt saman hér á jörðinni. En lífið í paradís mun líka bjóða upp á endurnærandi vinnu.
6. Hvað munum við gera í paradís? (Sjá mynd.)
6 Jehóva skapaði okkur með hæfileikann til að hafa ánægju af vinnu okkar. (Préd. 2:24) Við munum hafa meira en nóg að gera undir þúsund ára stjórn Krists. Þeir sem komast í gegnum þrenginguna miklu og milljónir sem fá upprisu þurfa fæði, klæði og húsnæði. Það verður ánægjuleg vinna að fullnægja þessum þörfum. Adam og Eva fengu það verkefni að rækta jörðina. Við fáum líka það ánægjulega verkefni að breyta jörðinni í paradís. Ímyndaðu þér líka hversu ánægjulegt það verður að mennta milljónir upprisinna manna sem vita lítið um Jehóva og fyrirætlun hans og aðstoða trúfasta þjóna Jehóva sem lifðu löngu fyrir daga Jesú við að læra meira.
7. Hvað getum við verið viss um og hvers vegna?
7 Við getum verið viss um að lífið í paradís verður friðsamlegt og vel skipulagt og að við munum hafa allt til alls. Hvers vegna? Vegna þess að Jehóva hefur gefið okkur sýnishorn af því hvernig lífið undir stjórn sonar hans verður. Frásagan af Salómon konungi gefur okkur innsýn í það.
STJÓRN SALÓMONS KONUNGS VAR FORSMEKKUR AÐ PARADÍS
8. Hvernig rættust orðin í Sálmi 37:10, 11, 29 eftir að Davíð konungur ritaði þau? (Sjá „Spurningar frá lesendum“ í þessu námsblaði.)
8 Davíð konungi var innblásið að skrifa um hvernig lífið yrði þegar vitur og trúfastur konungur myndi ríkja í framtíðinni. (Lestu Sálm 37:10, 11, 29.) Við lesum oft Sálm 37:11 þegar við ræðum við aðra um paradísina. Það er mjög viðeigandi því að Jesús vitnaði í þau orð í fjallræðunni og sýndi þannig að þau myndu uppfyllast í framtíðinni. (Matt. 5:5) En það sem Davíð sagði sýndi líka hvernig lífið yrði á dögum Salómons konungs. Þegar Salómon var við völd í Ísrael naut fólk Guðs einstaks friðar og velsældar í ,landi sem flaut í mjólk og hunangi‘. Guð hafði sagt: ,Ef þið fylgið ákvæðum mínum … gef ég frið í landinu og þið munuð leggjast til hvíldar og enginn hræða ykkur.‘ (3. Mós. 20:24; 26:3, 6) Þessi loforð rættust í stjórnartíð Salómons. (1. Kron. 22:9; 29:26–28) Jehóva lofaði líka að vont fólk myndi ,ekki vera lengur til‘. (Sálm. 37:10) Orðin í Sálmi 37:10, 11, 29 fengu því uppfyllingu til forna en munu líka uppfyllast í framtíðinni.
9. Hvað sagði drottningin af Saba um stjórn Salómons konungs?
9 Drottningin af Saba fékk fréttir af þeim friði og velmegun sem Ísraelsmenn nutu undir stjórn Salómons konungs. Drottningin kom frá fjarlægu landi til Jerúsalem til að skoða þessar aðstæður með eigin augum. (1. Kon. 10:1) Eftir að hafa kynnt sér stjórn Salómons sagði hún: ,Mér hafði ekki verið sagt frá helmingnum. Menn þínir og þjónar eru lánsamir að vera alltaf hjá þér og heyra visku þína.‘ (1. Kon. 10:6–8) En aðstæður undir stjórn Salómons voru aðeins sýnishorn af því sem Jehóva gerir fyrir mannkynið undir stjórn sonar síns, Jesú.
10. Hvernig er Jesús langtum meiri en Salómon?
10 Jesús er að öllu leyti meiri en Salómon. Salómon var ófullkominn maður og gerðist sekur um alvarlegan dómgreindarbrest sem varð að lokum til þess að fólk Guðs mátti þola erfiðleika. Jesús er á hinn bóginn fullkominn stjórnandi sem gerir engin mistök. (Lúk. 1:32; Hebr. 4:14, 15) Hann var trúfastur Guði þrátt fyrir mjög erfiðar prófraunir frá Satan. Kristur hefur sýnt fram á að hann mun aldrei syndga eða gera nokkuð sem skaðar trúfasta þegna hans. Hann er sannarlega besti konungur sem við getum nokkurn tíma fengið.
11. Hvaða aðstoðar mun Jesús njóta?
11 Jesús mun hafa 144.000 meðstjórnendur sem vinna með honum við að annast mannkynið og framfylgja fyrirætlun Jehóva með jörðina. (Opinb. 14:1–3) Á jörðinni hafa þeir þurft að þola margs konar erfiðleika og prófraunir og verða því færir um að sýna samkennd. Hvaða hlutverk munu þessir meðstjórnendur hafa?
HLUTVERK HINNA SMURÐU
12. Hvaða verkefni mun Jehóva gefa hinum 144.000?
12 Verkefni Jesú og meðstjórnenda hans er langtum stærra en verkefnið sem Salómon fékk. Salómon konungur Ísraels þurfti að sjá um milljónir manna í einu landi. Þeir sem sitja í stjórn Guðs munu annast milljarða manna um alla jörð. Jehóva treystir hinum 144.000 sannarlega fyrir miklu!
13. Hvaða sérstöku ábyrgð fá meðstjórnendur Jesú?
13 Hinar 144.000 munu þjóna sem konungar og prestar rétt eins og Jesús. (Opinb. 5:10) Þegar Ísraelsmenn voru undir Móselögunum áttu prestarnir aðallega að hjálpa fólkinu að lifa heilsusamlegu lífi og viðhalda sterku sambandi við Jehóva. Lögin voru „skuggi hins góða sem átti að koma“. Það er því rökrétt að álykta að meðstjórnendur Jesú hjálpi fólki Guðs að viðhalda góðri líkamlegri heilsu og eiga náið samband við Jehóva. (Hebr. 10:1) Það á eftir að koma í ljós hvernig þessir prestar og konungar munu eiga samskipti við þegna Guðsríkis á jörðinni. Hvernig sem Jehóva skipuleggur þetta getum við verið viss um að í paradísinni munu allir sem á jörðinni búa fá þá leiðsögn sem þeir þurfa. – Opinb. 21:3, 4.
HVAÐ ÞURFA AÐRIR SAUÐIR AÐ GERA TIL AÐ FÁ AÐ LIFA Í PARADÍS?
14. Hvert er samband annarra sauða og litlu hjarðarinnar?
14 Jesús kallaði þá sem myndu stjórna með honum „litla hjörð“. (Lúk. 12:32) Hann talaði líka um annan hóp sem „aðra sauði“. Þessir tveir hópar mynda eina sameinaða hjörð. (Jóh. 10:16) Hóparnir vinna nú þegar saman og halda því áfram þegar jörðin er orðin paradís. Allir sem tilheyra litlu hjörðinni verða þá á himni og aðrir sauðir njóta lífsins á jörðinni og hafa þá von að lifa að eilífu. En aðrir sauðir þurfa að uppfylla vissar kröfur til að fá að lifa í paradís.
15. (a) Hvernig vinna aðrir sauðir með bræðrum Krists? (b) Hvernig geturðu líkt eftir bróðurnum í apótekinu? (Sjá mynd.)
15 Iðrunarfulli glæpamaðurinn dó áður en hann fékk tækifæri til að sýna til fulls að hann kynni að meta það sem Jesús hafði gert fyrir hann. Við sem tilheyrum hópi annarra sauða höfum hins vegar mörg tækifæri til að sýna núna hvaða hug við berum til Jesú. Við sýnum til dæmis að við elskum hann með því hvernig við komum fram við andasmurða bræður hans. Jesús sagðist ákveða hverjir eru sauðir á þeim grundvelli. (Matt. 25:31–40) Við getum sýnt bræðrum Krists stuðning með því að leggja okkur vel fram við að hjálpa þeim við boðunina og kennsluna. (Matt. 28:18–20) Til að gera það viljum við nýta okkur vel biblíunámsgögn sem við fáum eins og bókina Von um bjarta framtíð. Ertu að aðstoða einhvern við biblíunám? Ef ekki, hvers vegna ekki setja þér það markmið að bjóða eins mörgum og þú getur biblíunámskeið?
16. Hvernig búum við okkur undir að lifa í paradís?
16 Við þurfum ekki að bíða þangað til við komum í paradís til að verða þess konar manneskjur sem Jehóva vill hafa þar. Við getum nú þegar unnið að því að vera heiðarleg í orði og verki og sýna hófsemi í venjum okkar. Og við getum sýnt Jehóva, maka okkar og trúsystkinum hollustu. Því betur sem við fylgjum mælikvarða Guðs meðan við lifum í þessum illa heimi þeim mun auðveldara verður fyrir okkur að gera það í paradís. Við getum líka ræktað með okkur aðra eiginleika og færni til að sýna að við búum okkur undir lífið þá. Sjá greinina „Ertu tilbúinn að ,erfa jörðina‘?“ í þessu blaði.
17. Ættum við að burðast með sektarkennd vegna synda sem við drýgðum áður? Skýrðu svarið.
17 Við ættum líka að reyna að hætta að burðast með sektarkennd vegna alvarlegra synda sem við drýgðum kannski áður. Við myndum auðvitað aldrei nota lausnargjaldið sem afsökun fyrir að ,syndga vísvitandi‘. (Hebr. 10:26–31) En við getum verið fullviss um að Jehóva hefur fyrirgefið okkur ríkulega ef við höfum í einlægni iðrast alvarlegra synda okkar, leitað hjálpar Jehóva og öldunganna og breytt hegðun okkar. (Jes. 55:7; Post. 3:19) Mundu það sem Jesús sagði við faríseana: „Ég kom ekki til að kalla réttláta heldur syndara.“ (Matt. 9:13) Lausnarfórnin er nógu öflug til að hylja allar syndir okkar.
ÞÚ GETUR LIFAÐ AÐ EILÍFU Í PARADÍS
18. Hvað myndir þú vilja tala um við glæpamanninn sem dó við hliðina á Jesú?
18 Getur þú séð sjálfan þig í paradís ræða við glæpamanninn sem talaði við Jesú? Þið munuð eflaust báðir tjá þakklæti ykkar fyrir fórn hans. Þú gætir beðið hann að segja þér meira um það sem gerðist síðustu klukkustundirnar í lífi Jesú á jörð og hvernig honum leið þegar Jesús svaraði bón hans. Og hann gæti spurt þig hvernig var að lifa á síðustu dögum í heimskerfi Satans. Það verður einstakt að aðstoða fólk eins og þennan mann við að rannsaka orð Guðs. – Ef. 4:22–24.
19. Hvers vegna verður lífið í paradís ekki leiðinlegt? (Sjá forsíðumynd.)
19 Það verður aldrei leiðinlegt í paradís. Við munum alltaf geta hitt fólk sem er áhugavert að kynnast og alltaf geta unnið tilgangsrík störf. Og það besta af öllu er að við getum kynnst föður okkar á himnum betur á hverjum degi og notið þess sem hann gerir fyrir okkur. Við munum alltaf geta lært meira um hann og það verður svo margt að læra um sköpunarverk hans. Kærleikur okkar til Guðs verður sterkari eftir því sem við lifum lengur. Við erum innilega þakklát Jehóva og Jesú fyrir loforðið um að lifa að eilífu í paradís.
SÖNGUR 22 Ríki Guðs er stofnsett – komi það!
a Hugsarðu oft um hvernig lífið verður í paradís? Það er hvetjandi að gera það. Því meira sem við hugsum um það sem Jehóva ætlar að gera fyrir okkur þeim mun spenntari verðum við að segja öðrum frá nýja heiminum. Þessi námsgrein getur styrkt trú okkar á loforð Jesú um komandi paradís.
b MYND: Bróðir sem vonast til að taka þátt í að aðstoða þá sem fá upprisu við biblíunám er nú þegar að kenna öðrum.