Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

ÆVISAGA

Veikleikar mínir upphefja mátt Jehóva

Veikleikar mínir upphefja mátt Jehóva

ÞEGAR við hjónin komum til Kólumbíu árið 1985 var mikið ofbeldi í landinu. Ríkisstjórnin átti í baráttu við eiturlyfjahringi í borgunum og skæruliða í fjöllunum. Á Medellín svæðinu þar sem við þjónuðum síðar réðu gengi vopnaðra ungra manna lögum og lofum. Þeir seldu eiturlyf, kúguðu fé út úr fólki fyrir vernd og stunduðu leigumorð. Enginn þeirra náði háum aldri. Okkur leið eins og við værum komin í annan heim.

Hvernig lentum við venjulegt fólk frá Finnlandi, einu nyrsta landi á hnettinum, í Suður-Ameríku? Og hvað hef ég lært í gegnum árin?

ÆSKUÁRIN Í FINNLANDI

Ég fæddist árið 1955 og var yngstur þriggja bræðra. Ég ólst upp nálægt suðurströnd Finnlands á svæði sem nú tilheyrir borginni Vantaa.

Móðir mín lét skírast sem vottur Jehóva fáum árum áður en ég fæddist. En faðir minn var andsnúinn sannleikanum og leyfði henni ekki að lesa Biblíuna með okkur bræðrunum eða taka okkur með á safnaðarsamkomur. Hún lagði því grunn að biblíuþekkingu okkar þegar hann var ekki heima.

Ég tók afstöðu með Jehóva þegar ég var sjö ára.

Strax sem barn var ég ákveðinn í að hlýða Jehóva. Eitt sinn þegar ég var sjö ára gamall varð kennarinn minn ofsareiður þegar ég neitaði að borða verilättyjä (finnskar blóðpönnukökur). Hún kreisti á mér kinnarnar með annarri hendinni til að opna munninn og reyndi að þvinga ofan í mig bita af pönnukökunni með hinni hendinni. Mér tókst að slá gaffalinn með bitanum úr hendi hennar.

Þegar ég var 12 ára dó faðir minn. Þá fór ég að sækja samkomur. Bræðurnir í söfnuðinum voru kærleiksríkir og sýndu mér áhuga og það stuðlaði að því að ég tók framförum í trúnni. Ég fór að lesa daglega í Biblíunni og rannsaka vandlega ritin sem voru gefin út af söfnuðinum. Þessar góðu námsvenjur hjálpuðu mér að taka framförum og ég lét skírast 8. ágúst 1969, 14 ára gamall.

Fljótlega eftir að skólagöngunni lauk hóf ég brautryðjandastarf. Innan fárra vikna flutti ég til Pielavesi, sem er nálægt Mið-Finnlandi, til að þjóna þar sem þörfin var meiri.

Í Pielavesi hitti ég Sirkku sem átti eftir að verða eiginkona mín. Ég laðaðist að henni þar sem hún var bæði hógvær og andlega sinnuð. Hún sóttist hvorki eftir sviðsljósinu né efnislegum þægindum. Bæði þráðum við að þjóna Jehóva eftir bestu getu og vorum tilbúin að takast á hendur hvaða verkefni sem var. Þann 23. mars 1974 gengum við í hjónaband. Í stað þess að fara í brúðkaupsferð fluttum við til Karttula þar sem enn meiri þörf var á boðberum fagnaðarboðskaparins.

Húsið sem við leigðum í Karttula í Finnlandi.

JEHÓVA SÁ UM OKKUR

Bíllinn sem bróðir minn gaf okkur.

Jehóva lét okkur strax finna fyrir því að hann sæi um efnislegar þarfir okkar ef við settum ríki hans í forgang. (Matt. 6:33) Við áttum til dæmis engan bíl þegar við fluttum til Karttula. Til að byrja með ferðuðumst við um á hjólum. En síðan kom veturinn og hitastigið fer undir frostmark á þessum slóðum. Við þurftum á bíl að halda til að geta boðað trúna á víðáttumiklu svæði safnaðarins. En við vorum of blönk til að kaupa okkur bíl.

Einn daginn kom eldri bróðir minn óvænt í heimsókn. Hann var svo elskulegur að gefa okkur bílinn sinn. Tryggingarnar voru greiddar og við þurftum bara að borga fyrir bensín. Við höfðum nú fengið farartækið sem við þurftum á að halda.

Jehóva sýndi okkur að hann hefði tekið á sig ábyrgðina að annast efnislegar þarfir okkar. Okkar hlutverk var að leita fyrst ríkis hans.

GÍLEAÐSKÓLINN

Nemendur úr brautryðjandaskólanum árið 1978.

Árið 1978 fórum við í brautryðjandaskólann og einn kennaranna, Raimo Kuokkanen, a hvatti okkur til að sækja um nám í Gíleaðskólanum. Við byrjuðum því að læra ensku til að undirbúa okkur fyrir námið. En við náðum aldrei að skila inn umsókninni því að árið 1980 var okkur boðið að starfa við deildarskrifstofuna í Finnlandi. Þetta var á þeim tíma sem Betelítar gátu ekki sótt um að fara í Gíleaðskólann. Við vildum þjóna þar sem Jehóva teldi okkur koma að mestu gagni í stað þess að reiða okkur á eigið mat. Þess vegna þáðum við boðið um að starfa á Betel. Við héldum samt sem áður áfram að læra ensku ef vera skyldi að við fengjum tækifæri seinna til að sækja um nám í Gíleaðskólanum.

Fáeinum árum síðar ákvað hið stjórnandi ráð að Betelítar gætu sótt um nám í Gíleaðskólanum. Við sóttum strax um en ekki af því að við værum neitt óhamingjusöm á Betel, reyndar leið okkur mjög vel þar. Við vildum bjóða okkur fram til að þjóna þar sem þörfin var enn meiri. Umsóknirnar voru samþykktar og við útskrifuðumst úr 79. bekk Gíleaðskólans í september 1985. Starfssvæðið okkar var Kólumbía.

FYRSTA TRÚBOÐSVERKEFNI OKKAR

Fyrst um sinn þjónuðum við á deildarskrifstofunni í Kólumbíu. Ég gerði mitt besta til að sinna verkefni mínu þar en eftir að hafa verið í ár á deildarskrifstofunni fannst mér við þurfa á einhverri breytingu að halda. Þetta var í fyrsta og eina skipti á ævinni sem ég hef beðið um annað verkefni. Við vorum þá send sem trúboðar til borgarinnar Neivu í Huila-héraði.

Boðunin hefur alltaf veitt mér mikla gleði. Þegar ég var einhleypur brautryðjandi í Finnlandi boðaði ég stundum trúna frá því eldsnemma á morgnana þar til seint á kvöldin. Sem nýgift hjón tókum við oft daginn snemma og störfuðum fram eftir. Þegar við vorum á afskekktum svæðum sváfum við stundum í bílnum. Það gerði okkur kleift að nota minni tíma í ferðalög og byrja næsta boðunardag í bítið.

Trúboðsstarfið endurvakti eldmóð okkar fyrir boðuninni. Söfnuðurinn okkar stækkaði og bræður okkar og systur frá Kólumbíu voru hlýleg, þakklát og kærleiksrík.

MÁTTUR BÆNARINNAR

Í námunda við starfssvæði okkar í Neivu voru bæir þar sem engir vottar bjuggu. Mér var mikið í mun að fólkið þar fengi að heyra fagnaðarboðskapinn. En vegna skæruhernaðar var hættulegt fyrir utanaðkomandi að fara um þessa bæi. Ég bað því til Jehóva að einhver í þessum bæjum yrði vottur. Ég hélt að þessi einstaklingur þyrfti að búa í Neivu til að kynnast sannleikanum. Þess vegna bað ég líka að hann myndi þroskast í trúnni eftir skírnina og snúa aftur til heimabæjar síns til að boða trúna. Ég hefði átt að vita að Jehóva hafði miklu betri lausn en ég.

Stuttu síðar hitti ég ungan mann sem vildi kynna sér Biblíuna. Hann hét Fernando González og bjó í Algeciras, einum af bæjunum þar sem engir vottar bjuggu. Fernando ferðaðist yfir 50 kílómetra í hverri viku til að sækja vinnu í Neivu. Hann undirbjó sig vel fyrir hverja námsstund og mætti á allar samkomurnar. Allt frá upphafi biblíunámskeiðsins safnaði hann saman fólki í heimabæ sínum og kenndi því það sem hann hafði lært af námi sínu.

Við hjónin og Fernando árið 1993.

Fernando lét skírast í janúar 1990, sex mánuðum eftir að við byrjuðum að lesa saman. Fljótlega gerðist hann brautryðjandi. Nú bjó einn vottur í Algeciras, og það heimamaður, og því taldi deildarskrifstofan nógu öruggt að senda sérbrautryðjendur inn á svæðið. Í febrúar 1992 var stofnaður söfnuður í bænum.

Boðaði Fernando aðeins trúna í heimabæ sínum? Nei. Eftir að hann gifti sig flutti hann ásamt konu sinni til San Vicente del Caguán, annars bæjar þar sem engir vottar voru fyrir. Þau aðstoðuðu við að koma söfnuði á laggirnar. Árið 2002 var Fernando útnefndur farandhirðir og sinnir því starfi enn í dag ásamt Olgu, konu sinni.

Þessi reynsla kenndi mér hversu mikilvægt það er að biðja til Jehóva um tiltekin mál sem tengjast verkefnum okkar fyrir hann. Hann gerir það sem við getum ekki. Þegar allt kemur til alls er þetta uppskeran hans en ekki okkar. – Matt. 9:38.

JEHÓVA GEFUR OKKUR „LÖNGUN OG KRAFT“

Árið 1990 fengum við það verkefni að þjóna í farandstarfi. Fyrsta farandsvæðið okkar var í höfuðborginni Bogotá. Þetta verkefni óx okkur í augum. Við erum bara venjulegt fólk með enga sérstaka hæfileika og vorum ekki vön að búa í iðandi stórborg. En Jehóva uppfyllti loforð sitt sem er að finna í Filippíbréfinu 2:13: „Það er Guð sem styrkir ykkur og gefur ykkur bæði löngun og kraft til að gera það sem gleður hann.“

Seinna meir vorum við send á annað farandsvæði, í kringum Medellín, en það er borgin sem ég minntist á í upphafi. Fólkið þar var orðið svo vant götuofbeldi að það kippti sér ekki lengur upp við það. Eitt sinn þegar ég var að halda biblíunámskeið hófst skotbardagi fyrir utan húsið sem ég var gestkomandi í. Ég ætlaði að leggjast á gólfið en biblíunemandinn hélt bara áfram að lesa greinina sallarólegur. Þegar hann var búinn að lesa hana bað hann mig um að hafa sig afsakaðan og fór út úr húsinu. Stuttu síðar kom hann aftur inn með tvö börn og sagði yfirvegaður: „Ég biðst afsökunar en ég þurfti að ná í börnin mín.“

Það gerðist oftar en einu sinni að við vorum hætt komin. Eitt sinn þegar við boðuðum trúna hús úr húsi kom konan mín hlaupandi til mín föl í framan. Hún sagði að einhver hefði reynt að skjóta sig. Þetta gerði mig skelfingu lostinn. Seinna áttuðum við okkur á því að byssumaðurinn hefði ekki miðað á Sirkku heldur mann sem gekk fram hjá henni.

Með tímanum lærðum við að lifa við þetta götuofbeldi. Styrkur og seigla trúsystkina á staðnum veitti okkur kjark en þau þurftu að glíma við þessar aðstæður og höfðu jafnvel lent í verri kringumstæðum. Við hugsuðum sem svo að Jehóva hlyti að hjálpa okkur alveg eins og hann hjálpaði þeim. Við fylgdum alltaf leiðbeiningum öldunganna í söfnuðinum, gerðum nauðsynlegar varúðarráðstafanir og lögðum allt annað í hendur Jehóva.

Sumt sem við lentum í var ekki eins hættulegt og við héldum. Eitt sinn heyrði ég tvær konur garga hvor á aðra með svívirðingum fyrir utan húsið þar sem ég var gestkomandi. Ég hafði nú lítinn áhuga á að hlusta á þetta rifrildi en húsráðandinn taldi mig á að koma út á veröndina. „Rifrildið“ reyndist vera milli tveggja páfagauka sem hermdu eftir nágrönnunum.

NÝ VERKEFNI OG INNRI BARÁTTA

Árið 1997 var ég útnefndur leiðbeinandi fyrir Þjónustuþjálfunarskólann. b Ég var alltaf þakklátur fyrir að mega sækja skólana á vegum safnaðarins en aldrei hefði mér dottið í hug að ég fengi að vera kennari í slíkum skóla.

Seinna þjónaði ég sem umdæmishirðir. Þegar hætt var að útnefna umdæmishirða tóku við ár í farandstarfi. Í yfir 30 ár hef ég verið leiðbeinandi og farandhirðir. Þessi verkefni hafa veitt mér mikla blessun. En það hefur þó ekki alltaf verið dans á rósum. Ég skal skýra málið.

Ég er maður með ákveðnar skoðanir. Það hefur hjálpað mér andspænis erfiðleikum. En stundum hef ég verið of ákafur í að reyna að betrumbæta hluti í söfnuðinum. Ég hef hvatt fólk af miklum eldmóði að sýna meiri kærleika og sanngirni í samskiptum við aðra. En í sannleika sagt skorti mig þessa sömu eiginleika einmitt þegar ég var að hvetja aðra til að sýna þá. – Rómv. 7:21–23.

Gallar mínir hafa stundum dregið úr mér kjark. (Rómv. 7:24) Einu sinni var ég svo niðurdreginn að ég sagði við Jehóva í bæn að það væri best fyrir mig að hætta í trúboðsstarfinu og fara heim til Finnlands. Sama kvöld fór ég á samkomu. Hvatningin sem ég fékk þar sannfærði mig um að ég ætti að halda áfram í trúboðsstarfinu og reyna að vinna í veikleikum mínum. Jehóva svaraði bæn minni og ég er enn snortinn yfir því hvernig hann gerði það. Ég er mjög þakklátur Jehóva fyrir að hjálpa mér á kærleiksríkan hátt að sigrast á veikleikum mínum.

ÉG HORFI ÖRUGGUR TIL FRAMTÍÐAR

Sirkka og ég erum Jehóva innilega þakklát fyrir að hafa getað notað næstum alla okkar ævi í fullu starfi fyrir hann. Ég þakka Jehóva líka fyrir að hafa gefið mér yndislega eiginkonu sem hefur þjónað með mér trúföst öll þessi ár.

Bráðum verð ég sjötugur og læt af störfum sem leiðbeinandi og farandhirðir. En það hryggir mig ekki. Ég er fullviss um að við heiðrum Jehóva mest þegar við þjónum honum af hógværð og af hjarta sem er yfirfullt af ást og þakklæti. (Míka 6:8; Mark. 12:32–34) Við þurfum ekki að vera í sviðsljósinu til að heiðra Jehóva.

Þegar ég lít til baka og hugleiði þau verkefni sem ég hef sinnt geri ég mér fulla grein fyrir að ég fékk þau ekki af því að ég væri betri en aðrir eða vegna sérstakra hæfileika. Langt í frá! Jehóva leyfði mér að sinna þessum verkefnum af því að hann er svo örlátur og góður. Og ég fékk þessi þjónustuverkefni þrátt fyrir veikleika mína. Ég hefði aldrei getað sinnt þeim án hjálpar Jehóva. Ég get því sagt að veikleikar mínir hafa átt þátt í að upphefja mátt Jehóva. – 2. Kor. 12:9.

a Ævisaga Raimo Kuokkanen birtist í Varðturninum 1. apríl 2006 á ensku.

b Skólinn fyrir boðbera Guðsríkis hefur leyst þennan skóla af hólmi.