Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 34

Lærum af spádómum Biblíunnar

Lærum af spádómum Biblíunnar

„Hinir skynsömu munu skilja það.“ – DAN. 12:10.

SÖNGUR 98 Ritningin er innblásin

YFIRLIT a

1. Hvernig getum við lært að njóta þess að rannsaka biblíuspádóma?

 „MÉR finnst mjög gaman að kynna mér spádóma Biblíunnar,“ segir ungur bróðir að nafni Ben. Ertu sammála? Eða vex þér það kannski í augum? Þér finnst það ef til vill leiðinlegt. En þú gætir skipt um skoðun þegar þú kemst að því hvers vegna Jehóva hefur þá í orði sínu.

2. Hvað verður í brennidepli í þessari námsgrein?

2 Í þessari námsgrein skoðum við hvers vegna við ættum að rannsaka biblíuspádóma og hvernig við getum gert það. Síðan skoðum við tvo spádóma í Daníelsbók til að sjá hvernig skilningur á þeim getur hjálpað okkur núna.

HVERS VEGNA ÆTTUM VIÐ AÐ RANNSAKA SPÁDÓMA BIBLÍUNNAR?

3. Hvað þurfum við að gera til að skilja biblíuspádóma?

3 Við þurfum að biðja um hjálp til að skilja spádóma Biblíunnar. Skoðum dæmi. Ímyndaðu þér að þú sért á ferðalagi á ókunnugum slóðum með vin þinn með þér sem þekkir svæðið vel. Hann veit nákvæmlega hvar þið eruð og hvert leiðin liggur. Vafalaust ertu ánægður að vinur þinn skuli hafa samþykkt að koma með þér. Jehóva er eins og þessi hjálpsami vinur sem veit hvar við erum stödd í tímans rás og hvað er fram undan. Við þurfum því að vera auðmjúk og biðja Jehóva um hjálp til að fá skilning á biblíuspádómum. – Dan. 2:28; 2. Pét. 1:19, 20.

Að rannsaka biblíuspádóma getur hjálpað okkur að vera undirbúin fyrir atburði í framtíðinni. (Sjá 4. grein.)

4. Hvers vegna lét Jehóva skrá spádóma í orð sitt? (Jeremía 29:11) (Sjá einnig mynd.)

4 Jehóva vill að börnin sín eigi hamingjuríka framtíð, rétt eins og allir góðir foreldrar. (Lestu Jeremía 29:11.) En ólíkt öðrum foreldrum getur Jehóva sagt framtíðina nákvæmlega fyrir. Hann lét skrá spádóma í orð sitt svo að við gætum vitað um mikilvæga atburði áður en þeir gerast. (Jes. 46:10) Biblíuspádómar eru kærleiksrík gjöf frá föður okkar á himnum. En hvernig geturðu verið viss um að það sem Biblían segir rætist?

5. Hvað geta unglingar lært af Max?

5 Unga fólkið okkar sem er í skóla er oft umkringt þeim sem ber litla sem enga virðingu fyrir Biblíunni. Það sem þeir segja og gera getur vakið efasemdir í huga ungra votta. Skoðum reynslu bróður sem heitir Max. Hann segir: „Þegar ég var unglingur fór ég að efast um að trú foreldra minna væri sú rétta og að Biblían væri innblásin af Guði.“ Hvað gerðu foreldrar hans? Hann segir: „Ég vissi að þau voru áhyggjufull en samt voru þau róleg.“ Foreldrar Max notuðu Biblíuna til að svara spurningum hans. Max gerði líka eitthvað sjálfur. „Ég fór að kynna mér spádóma Biblíunnar,“ segir hann, „og ræddi það sem ég lærði við aðra unglinga í söfnuðinum.“ Hver var árangurinn? Max segir: „Þaðan í frá var ég sannfærður um að Biblían væri innblásin af Guði.“

6. Hvað þarftu að gera ef þú hefur efasemdir og hvers vegna er það nauðsynlegt?

6 Þú þarft ekki að fá samviskubit ef þú ferð, eins og Max, að efast um að Biblían hafi að geyma sannleikann. En þú verður að gera eitthvað í málinu. Efasemdir eru eins og ryð. Ef við hunsum ryð getur það hægt og bítandi eyðilagt verðmæti. Til að byrja að fjarlægja „ryð“ af trú þinni þarftu að spyrja þig: Trúi ég því sem Biblían segir um framtíðina? Ef þú ert í vafa þarftu að rannsaka biblíuspádóma sem hafa þegar ræst. Hvernig geturðu borið þig að?

HVERNIG GETUM VIÐ RANNSAKAÐ BIBLÍUSPÁDÓMA?

Til að öðlast traust á Jehóva eins og Daníel hafði verðum við að rannsaka biblíuspádóma af auðmýkt, vandvirkni og réttum hvötum. (Sjá 7. grein.)

7. Hvernig er Daníel fyrirmynd í því að rannsaka spádóma? (Daníel 12:10) (Sjá einnig mynd.)

7 Daníel var góð fyrirmynd í að rannsaka spádóma. Hann nálgaðist viðfangsefnið af réttum hvötum. Hann þráði að vita sannleikann. Daníel var einnig auðmjúkur og viðurkenndi að Jehóva gefur þeim skilning sem þekkja hann og lifa í samræmi við hreinan mælikvarða hans. (Dan. 2:27, 28; lestu Daníel 12:10.) Hann sýndi auðmýkt sína með því að treysta á hjálp Jehóva. (Dan. 2:18) Daníel rannsakaði líka spádómana ítarlega. Hann rannsakaði þær innblásnu ritningar sem hann hafði aðgang að. (Jer. 25:11, 12; Dan. 9:2) Hvernig geturðu líkt eftir Daníel?

8. Hvers vegna viðurkenna sumir ekki spádóma Biblíunnar en hvað ættum við að gera?

8 Skoðaðu hvatir þínar. Rannsakarðu spádóma Biblíunnar af því að þig langar einlæglega að vita sannleikann? Ef svo er hjálpar Jehóva þér. (Jóh. 4:23, 24; 14:16, 17) Gætu einhverjir rannsakað Biblíuna af öðrum hvötum? Sumir gætu vonast til að komast að því að Biblían sé ekki innblásin af Guði. Þannig gætu þeir réttlætt að setja eigin mælikvarða á rétt og rangt og fara eftir honum. En við verðum að hafa rétta tilefnið. Auk þess er annar mikilvægur eiginleiki nauðsynlegur til að skilja biblíuspádóma.

9. Hvaða eiginleiki er nauðsynlegur til að skilja spádóma Biblíunnar? Skýrðu svarið.

9 Vertu auðmjúkur. Jehóva lofar að hjálpa þeim sem eru auðmjúkir. (Jak. 4:6) Við þurfum því að biðja hann um hjálp til að skilja biblíuspádóma. Við verðum að viðurkenna að við þurfum að nýta okkur þá boðleið sem hann hefur gefið okkur til að láta okkur í té andlega fæðu á réttum tíma. (Lúk. 12:42) Jehóva Guð er skipulagður svo að það er rökrétt að hann noti aðeins eina boðleið til að hjálpa okkur að skilja sannleikann í orði sínu. – 1. Kor. 14:33; Ef. 4:4–6.

10. Hvað getum við lært af Esther?

10 Rannsakaðu spádómana ítarlega. Byrjaðu á því að rannsaka spádóm sem þú hefur sérstakan áhuga á. Það er einmitt það sem systir að nafni Esther gerði. Hún hafði áhuga á spádómum sem sögðu fyrir um komu Messíasar. „Þegar ég var 15 ára,“ segir hún, „byrjaði ég að leita að sönnunum fyrir því að þessir spádómar hafi verið skrifaðir fyrir daga Jesú.“ Það sem hún las um Dauðahafshandritin sannfærði hana. „Sum þeirra voru skrifuð fyrir daga Krists,“ segir hún, „svo að spádómarnir í þeim hlutu að vera frá Guði.“ Esther viðurkennir að hún hafi þurft að lesa sumt nokkrum sinnum til að skilja það. En hún sér alls ekki eftir því að hafa lagt þetta á sig. Eftir að hafa rannsakað ítarlega nokkra biblíuspádóma segir hún: „Nú er ég algerlega sannfærð um að það sem Biblían segir sé sannleikur.“

11. Hvaða gagn höfum við af því að sanna fyrir okkur að Biblían sé sönn?

11 Þegar við sjáum hvernig sumir biblíuspádómar hafa þegar ræst öðlumst við óbilandi traust á Jehóva og leiðsögn hans. Auk þess gefa spádómar Biblíunnar okkur bjarta framtíðarvon, sama hvaða raunum við lendum í. Skoðum stuttlega tvo spádóma sem Daníel skrifaði og eru að uppfyllast núna. Að skilja þá getur hjálpað okkur að taka viturlegar ákvarðanir.

HVERNIG SNERTA FÆTURNIR ÚR JÁRNI OG LEIR OKKUR?

12. Hvað tákna fæturnir úr ‚járni og mjúkum leir‘? (Daníel 2:41–43)

12 Lestu Daníel 2:41–43. Í draumnum sem Daníel réð fyrir Nebúkadnesar konung voru fæturnir á líkneskinu úr ‚járni blönduðu við mjúkan leir‘. Þegar við berum þennan spádóm saman við aðra í Daníelsbók og Opinberunarbókinni getum við ályktað að fæturnir tákni bandalag Bretlands og Bandaríkjanna, ríkjandi heimsveldi nú á dögum. Daníel sagði um þetta heimsveldi að það yrði „að sumu leyti sterkt og að sumu leyti veikt“. Hvers vegna að sumu leyti veikt? Vegna þess að almenningur, sem mjúki leirinn táknar, kemur í veg fyrir að það geti beitt járnstyrk sínum‘. b

13. Hvaða mikilvægu sannindi hjálpar þessi spádómur okkur að skilja?

13 Það sem Daníel segir um líkneskið í draumnum, sérstaklega fæturna, eru mikilvægar upplýsingar fyrir okkur. Í fyrsta lagi hefur ensk-ameríska heimsveldið sýnt styrk sinn að sumu leyti. Það gegndi til dæmis lykilhlutverki í sigri fyrri og síðari heimstyrjaldarinnar. En styrkur þessa heimsveldis hefur minnkað og heldur áfram að gera það vegna þess að borgarar þess berjast hverjir gegn öðrum og gegn yfirvöldum. Í öðru lagi er þetta síðasta heimsveldið sem ríkir áður en Guðsríki bindur enda á allar stjórnir manna. Þótt aðrar þjóðir ögri stundum ensk-ameríska heimsveldinu munu þær ekki taka við af því. Við vitum það vegna þess að steinninn sem táknar Guðsríki mölvar fæturna, þann hluta líkneskisins sem táknar ensk-ameríska heimsveldið. – Dan. 2:34, 35, 44, 45.

14. Hvernig hjálpar skilningur á spádóminum um fæturna úr járni og leir okkur að taka viturlegar ákvarðanir?

14 Ert þú sannfærður um að spádómur Daníels um fæturna úr járni og leir sé sannur? Ef svo er hefur hann áhrif á líf þitt. Þú leitar þá ekki eftir efnislegu öryggi í heimi sem verður brátt gerður að engu. (Lúk. 12:16–21; 1. Jóh. 2:15–17) Skilningur á þessum spádómi hjálpar þér líka að sjá mikilvægi þess að boða trúna og kenna. (Matt. 6:33; 28:18–20) Hví ekki að spyrja þig nú þegar við höfum skoðað þennan spádóm stuttlega: Sýna þær ákvarðanir sem ég tek að ég sé sannfærður um að Guðsríki bindi brátt enda á allar stjórnir manna?

HVERNIG HAFA KONUNGAR NORÐURSINS OG SUÐURSINS ÁHRIF Á OKKUR?

15. Hverjir eru „konungur norðursins“ og „konungur suðursins“ nú á dögum? (Daníel 11:40)

15 Lestu Daníel 11:40. Í Daníel 11. kafla er talað um tvo konunga, eða stjórnmálaöfl, sem berjast um heimsyfirráð. Þegar við berum þennan spádóm saman við aðra í Biblíunni sjáum við að „konungur norðursins“ er Rússland og bandamenn hans og að „konungur suðursins“ er ensk-ameríska heimsveldið. c

Við getum styrkt trú okkar og forðast óþarfa áhyggjur þegar við skiljum að andstaða ‚konungs norðursins‘ og ‚konungs suðursins‘ er uppfylling á spádómum Biblíunnar. (Sjá 16.–18. grein.)

16. Hvaða erfiðleika upplifa þjónar Guðs sem búa á svæði ‚konungs norðursins‘?

16 Þjónar Guðs sem búa á svæði undir stjórn ‚konungs norðursins‘ þurfa að þola beinar ofsóknir af hans hendi. Sumir vottar hafa verið barðir og fangelsaðir fyrir trú sína. Ofsóknir ‚konungs norðursins‘ hafa ekki hrætt bræður okkar og systur heldur byggt upp trú þeirra. Hvernig stendur á því? Þau vita að ofsóknir á hendur þjónum Guðs uppfylla spádóm í Daníelsbók. d (Dan. 11:41) Að vita það getur líka hjálpað okkur að halda von okkar sterkri og vera trúföst Jehóva.

17. Hvaða áskorunum hafa þjónar Guðs staðið frammi fyrir sem búa á svæði ‚konungs suðursins‘?

17 „Konungur suðursins“ hefur líka gert beinar árásir á þjóna Jehóva. Á fyrri hluta 20. aldarinnar voru mörg trúsystkini okkar fangelsuð vegna kristins hlutleysis og sum börn vottanna voru rekin úr skóla af sömu ástæðu. En á síðari árum hafa þjónar Jehóva sem búa á svæði konungsins staðið frammi fyrir lúmskari prófraunum á hollustu sína við Guðsríki. Í aðdraganda kosninga gæti það verið freisting fyrir þjón Guðs að styðja einn stjórnmálaflokk eða frambjóðanda frekar en annan. Hann gengur kannski ekki svo langt að kjósa en í huga hans og hjarta tekur hann samt afstöðu. Það er mjög mikilvægt að við séum hlutlaus í stjórnmálum, ekki bara í verki heldur líka í hugsun og hjarta. – Jóh. 15:18, 19; 18:36.

18. Hver eru viðbrögð okkar við átökunum milli konunganna tveggja? (Sjá einnig mynd.)

18 Þeir sem trúa ekki biblíuspádómunum geta orðið mjög áhyggjufullir þegar þeir sjá ‚konung suðursins‘ „stangast á“ við ‚konung norðursins‘. (Dan. 11:40, neðanmáls) Báðir konungarnir eiga nægar birgðir af kjarnorkuvopnum til að eyða öllu lífi á jörðinni. En við vitum að Jehóva leyfir þeim ekki að gera það. Hernaðarátök milli ‚konungs norðursins‘ og ‚konungs suðursins‘ styrkja þar af leiðandi trú okkar en koma okkur ekki í uppnám. Þau sanna að endir þessa heims er nálægur.

HÖLDUM ÁFRAM AÐ GEFA GAUM AÐ SPÁDÓMUNUM

19. Hvað ættum við að viðurkenna varðandi biblíuspádóma?

19 Við vitum ekki hvernig sumir spádómar Biblíunnar uppfyllast. Jafnvel Daníel spámaður skildi ekki merkingu alls þess sem hann skrifaði. (Dan. 12:8, 9) En þótt við skiljum ekki fyllilega hvernig spádómur á eftir að rætast þýðir það samt ekki að hann geri það ekki. Við getum verið viss um að Jehóva hjálpar okkur að skilja á nákvæmlega réttum tíma það sem er nauðsynlegt að skilja, rétt eins og hann gerði áður fyrr. – Amos 3:7.

20. Hvaða spennandi biblíuspádómar rætast fljótlega og hvað ættum við að halda áfram að gera?

20 Yfirlýsing um ‚frið og öryggi‘ á eftir að koma. (1. Þess. 5:3) Þá munu stjórnmálaöfl heimsins snúast gegn fölskum trúarbrögðum og eyða þeim. (Opinb. 17:16, 17) Eftir það ráðast þau á þjóna Guðs. (Esek. 38:18, 19) Stríðið við Harmagedón skellur á í kjölfar þessara atburða. (Opinb. 16:14, 16) Við getum verið viss um að þess er ekki lengi að bíða. Þangað til skulum við halda áfram að sýna kærleiksríkum föður okkar á himnum þakklæti með því að gefa biblíuspádómunum gaum og hjálpa öðrum að gera það líka.

SÖNGUR 95 Ljósið verður bjartara

a Hversu slæmt sem ástandið í heiminum verður getum við verið viss um að hamingjurík framtíð bíði okkar. Við fáum þá sannfæringu af því að rannsaka spádóma Biblíunnar. Í þessari námsgrein verður rætt um ástæður fyrir því að við ættum að kynna okkur þá. Við skoðum líka stuttlega tvo spádóma sem Daníel skráði og sjáum hvernig við höfum gagn af því að skilja þá.

b Sjá grein 7–9 í greininni „Jehóva opinberar ,það sem verða á innan skamms‘“ í Varðturninum 15. júní 2012.

c Sjá grein 3 og 4 í greininni „Hver er ,konungur norðursins‘ núna?“ í Varðturninum maí 2020.

d Sjá grein 7–9 í greininni „Hver er ,konungur norðursins‘ núna?“ í Varðturninum maí 2020.