Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Eric and Amy

Þau buðu sig fúslega fram – í Gana

Þau buðu sig fúslega fram – í Gana

ÞEKKIR þú bróður eða systur sem hefur flust til lands þar sem mikil þörf er á boðberum Guðsríkis? Hefurðu einhvern tíma velt fyrir þér hvað það er sem hvetur þau til að þjóna Jehóva á erlendri grund? Hvernig búa þau sig undir það? Hefur þú tök á að færa út kvíarnar á þennan hátt? Góð leið til að fá svör við þessum spurningum er auðvitað að ræða við bræður og systur sem hafa gert það. Það er einmitt það sem við ætlum að gera.

HVAÐ HVETUR ÞAU TIL AÐ FARA?

Hvað varð til þess að þú fórst að hugsa um að þjóna Jehóva í landi þar sem þörfin er mikil? Amy er systir frá Bandaríkjunum á miðjum fertugsaldri. Hún segir: „Ég hafði í mörg ár hugsað um að starfa í öðru landi en ég sá ekki að það gæti nokkurn tíma gengið upp.“ Hvað breytti viðhorfi hennar? „Hjón, sem starfa í Belís, buðu mér árið 2004 að heimsækja sig og taka þátt í brautryðjandastarfinu með sér í einn mánuð. Ég þáði boðið og hafði mikla ánægju af! Ári síðar flutti ég til Gana til að starfa þar sem brautryðjandi.“

Aaron og Stephanie

Stephanie er tæplega þrítug systir sem er líka frá Bandaríkjunum. Fyrir nokkrum árum velti hún aðstæðum sínum vel fyrir sér og hugsaði: „Ég er við góða heilsu og hef enga fjölskylduábyrgð. Ég gæti í rauninni gert miklu meira fyrir Jehóva en raun ber vitni.“ Þessi heiðarlega sjálfsrannsókn kveikti hjá henni löngun til að flytja til Gana til að geta gert meira í boðuninni. Filip og Idu, brautryðjendahjón á miðjum aldri frá Danmörku, hafði alltaf dreymt um að flytja á svæði þar sem þörfin er mikil. Þau leituðu leiða til að láta drauminn rætast. Filip segir: „Þegar tækifærið gafst var eins og Jehóva segði við okkur: ,Grípið það!‘“ Árið 2008 fluttust þau til Gana og störfuðu þar í rúm þrjú ár.

Brook og Hans

Hans og Brook eru brautryðjendahjón á fertugsaldri sem búa í Bandaríkjunum. Árið 2005 tóku þau þátt í að veita neyðaraðstoð í kjölfar fellibylsins Katrina. Seinna sóttu þau um að aðstoða við alþjóðlegar byggingarframkvæmdir en fengu ekki boð. Hans segir: „Síðar heyrðum við ræðu á móti þar sem minnst var á að Davíð konungur hafi sætt sig við að hann fengi ekki að byggja musterið og breytti því markmiði sínu. Af þessu skildum við að það er allt í lagi að breyta markmiðum sínum í þjónustu Jehóva.“ (1. Kron. 17:1-4, 11, 12; 22:5-11) Brook bætir við: „Jehóva vildi að við bönkuðum á aðrar dyr.“

Hans og Brook langaði til að prófa að starfa sem brautryðjendur erlendis eftir að hafa heyrt heillandi frásögur vina sinna sem störfuðu í öðrum löndum. Árið 2012 fóru þau til Gana þar sem þau gátu starfað í fjóra mánuði og hjálpað til í táknmálssöfnuði. Þau þurftu síðan að snúa aftur til Bandaríkjanna en reynsla þeirra í Gana var þeim sterk hvatning til að halda áfram að láta ríki Guðs hafa forgang í lífinu. Síðan hafa þau hjálpað til við að byggja deildarskrifstofu í Míkrónesíu.

AÐ NÁ MARKMIÐINU

Hvernig bjóstu þig undir að starfa þar sem þörfin er mikil? „Ég las greinar í Varðturninum sem fjölluðu um starfið þar sem þörfin er mikil,“ segir Stephanie. * „Ég talaði líka við öldungana í söfnuðinum, og farandhirðinn og konuna hans um löngun mína til að starfa erlendis. Umfram allt minntist ég oft á markmið mitt í bænum til Jehóva.“ Stephanie hélt líka áfram að lifa einföldu lífi en það gerði henni kleift að leggja fyrir til að geta séð fyrir sér meðan hún byggi erlendis.

Hans segir: „Við báðum um handleiðslu Jehóva því að við vildum fara þangað sem hann vísaði okkur. Við nefndum líka í bænum okkar daginn sem við ætluðum að koma áætlun okkar í verk.“ Hjónin sendu fjórum deildarskrifstofum bréf. Þau fengu mjög jákvæð viðbrögð frá deildarskrifstofunni í Gana þannig að þau ferðuðust þangað með það í huga að vera þar í tvo mánuði. Hans segir: „Okkur fannst svo gaman að starfa með söfnuðinum að við framlengdum dvölina.“

Adria og George

George og Adria, tæplega fertug hjón frá Kanada, höfðu í huga að Jehóva blessar góðar ákvarðanir, ekki bara góðan ásetning. Þau stigu því markviss skref til að ná markmiði sínu. Þau höfðu samband við systur sem starfaði í Gana þar sem þörfin er mikil og spurðu hana margra spurninga. Auk þess skrifuðu þau bréf bæði til deildarskrifstofanna í Kanada og Gana. Adria segir: „Við leituðum einnig leiða til að einfalda líf okkar enn frekar.“ Þessar ákvarðanir gerðu þeim kleift að flytjast til Gana árið 2004.

AÐ TAKAST Á VIÐ ERFIÐLEIKA

Hvaða erfiðleikum mættirðu eftir að þú fluttir og hvernig tókstu á við þá? Það fyrsta sem Amy þurfti að takast á við var heimþrá. „Allt var svo ólíkt því sem ég var vön.“ Hvað hjálpaði henni? „Fjölskyldan og ættingjar hringdu og sögðu mér hve mikið þau kynnu að meta það sem ég væri að gera. Það hjálpaði mér að muna hvers vegna ég hafði ákveðið að flytja. Við fjölskyldan fórum seinna að nota myndsímaforrit til að tala saman. Hún virtist ekki vera eins langt í burtu þegar við gátum séð hvert annað.“ Amy segir að með því að vingast við reynda systur á staðnum hafi hún kynnst ólíkum siðum og venjum. „Ég leitaði alltaf til þessarar vinkonu minnar þegar ég skildi ekki hvers vegna fólk brást við á vissan hátt. Með hennar hjálp lærði ég hvað ég átti að gera og hvað ég átti að forðast. Það hjálpaði mér að hafa gleði af þjónustu minni.“

George og Adria segja að fyrst eftir að þau fluttu til Gana hafi þeim fundist eins og þau hefðu ferðast aftur í tímann. „Í stað þvottavélar notuðum við fötur. Og okkur fannst það taka tífalt lengri tíma að elda en við vorum vön,“ segir Adria. „En með tímanum fórum við að líta á erfiðar aðstæður sem ákveðna reynslu.“ Brook segir: „Þrátt fyrir þær áskoranir, sem verða á vegi okkar brautryðjendanna, lifum við innihaldsríku lífi. Þegar við tökum saman allt það skemmtilega sem við höfum upplifað myndar það fallegan blómvönd minninga sem er okkur afar kær.“

GEFANDI STARF

Hvers vegna mælirðu með því að starfa þar sem þörfin er mikil? „Það veitir mikla gleði að boða trúna á svæði þar sem fólk getur verið svo ákaft að kynnast sannleikanum að það vill að við aðstoðum það við biblíunám á hverjum degi,“ segir Stephanie. „Að fara og starfa þar sem þörfin er mikil er ein besta ákvörðun sem ég hef tekið!“ Stephanie giftist bróður að nafni Aaron árið 2014 og nú þjóna þau á deildarskrifstofunni í Gana.

„Það er frábær lífsreynsla,“ segir Christine, brautryðjandi frá Þýskalandi sem er rúmlega þrítug. Christine starfaði í Bólivíu áður en hún flutti til Gana. Hún bætir við: „Þar sem ég er svo langt frá fjölskyldunni leita ég alltaf til Jehóva þegar ég þarf á hjálp að halda. Hann er orðinn mér raunverulegri en nokkru sinni fyrr. Ég upplifi líka þá óviðjafnanlegu einingu sem ríkir meðal þjóna hans. Þetta starf hefur gert líf mitt innihaldsríkara.“ Christine giftist nýlega Gideon og þau halda starfi sínu áfram í Gana.

Christine og Gideon

Filip og Ida segja hvað þau gerðu til að hjálpa biblíunemendum að taka framförum. „Við vorum oft með 15 biblíunemendur eða fleiri en við takmörkuðum fjöldann við 10 þannig að við gátum leiðbeint nemendunum betur.“ Nutu þeir góðs af því? Filip segir: „Einn biblíunemenda minna var ungur maður sem heitir Michael. Við höfðum námsstund á hverjum degi og hann var svo vel undirbúinn að við kláruðum bókina Hvað kennir Biblían? á einum mánuði. Eftir það gerðist Michael óskírður boðberi. Fyrsta daginn, sem hann fór út í boðunina, spurði hann mig: ,Geturðu hjálpað mér með biblíunemendurna mína?‘ Ég leit undrandi á hann. Michael sagðist vera kominn með þrjá biblíunemendur og þarfnaðist aðstoðar við kennsluna.“ Hugsaðu þér, þörfin á fleiri kennurum er svo mikil að jafnvel biblíunemendur eru biblíukennarar.

Ida og Filip

Amy gerði sér fljótt grein fyrir hve mikil þörfin var. Hún segir: „Stuttu eftir að ég kom til Gana fór ég ásamt öðrum í lítið þorp til að boða trúna og leita að heyrnarlausum. Við fundum ekki bara einn heyrnarlausan heldur átta, og það í þessu eina þorpi!“ Um svipað leyti giftist Amy Eric og þau starfa nú saman sem sérbrautryðjendur. Þau tilheyra táknmálssöfnuði og aðstoða heyrnarlausa boðbera og áhugasama, en í landinu eru meira en 300 heyrnarlausir boðberar. Með því að starfa í Gana fengu George og Adria að kynnast því af eigin raun hvað þarf til að vera trúboði. Þau voru því himinlifandi þegar þau fengu boð um að sækja Gíleaðskólann með 126. nemendahópnum. Um þessar mundir starfa þau sem trúboðar í Mósambík.

KÆRLEIKURINN KNÝR ÞAU

Það er gleðilegt að sjá svona marga aðflutta bræður og systur vinna hörðum höndum með innfæddum trúsystkinum sínum við uppskeruna. (Jóh. 4:35) Að meðaltali skírast 120 manns í hverri viku í Gana. Kærleikurinn til Jehóva hefur hvatt þúsundir boðbera um heim allan til að bjóða sig fúslega fram líkt og þeir 17 boðberar sem hafa flust til Gana til að starfa þar sem mikil þörf er á boðberum Guðsríkis. Þessir fúsu verkamenn hljóta sannarlega að gleðja hjarta Jehóva mikið! – Sálm. 110:3; Orðskv. 27:11.

^ gr. 9 Sjá til dæmis greinarnar „Getur þú flust þangað sem er meiri þörf fyrir boðbera fagnaðarerindisins?“ og „Geturðu komið yfir til Makedóníu?“ – Varðturninn 15. apríl og 15. desember 2009.