Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

FORSÍÐUEFNI | ÞEGAR ÁSTVINUR DEYR

Dánir fá líf á ný!

Dánir fá líf á ný!

Þú manst kannski eftir því að Gail, sem minnst var á fyrr í þessari greinaröð, efast um að eiga nokkurn tíma eftir að jafna sig á því að missa Rob, manninn sinn. En hún hlakkar til að hitta hann aftur í nýjum heimi sem Guð lofar. Hún segir: „Uppáhalds ritningarstaðurinn minn er Opinberunarbókin 21:3, 4.“ Þar stendur: „Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“

Gail segir: „Þetta loforð segir allt sem segja þarf. Ég kenni í brjósti um þá sem hafa misst einhvern sér nákominn og þekkja ekki vonina um að hitta ástvin sinn aftur.“ Gail breytir eftir því sem hún trúir og notar mikið af tíma sínum til að segja öðrum frá loforði Guðs um framtíðina þar sem „dauðinn mun ekki framar til vera“.

Job var fullviss um að hann fengi líf á ný.

Kannski finnst þér þetta ótrúlegt. Hugleiddu frásöguna um Job. Hann var um tíma veikur og sárþjáður. (Jobsbók 2:7) En þó að Job óskaði þess að deyja hafði hann trú á mátt Guðs til að reisa hann aftur til lífs á jörð. Hann sagði öruggur: „Æ, að þú vildir fela mig í undirheimum ... Þá hrópaðir þú og ég svaraði þér, þú mundir þrá verk handa þinna.“ (Jobsbók 14:13, 15) Job treysti því að Guð myndi sakna hans og þrá að reisa hann upp frá dauðum.

Bráðlega, þegar jörðinni verður breytt í paradís, mun Guð reisa Job – og ótal aðra – upp frá dauðum. (Lúkas 23:42, 43) Í Postulasögunni 24:15 er fullyrt að „upp muni rísa bæði réttlátir og ranglátir“. Og Jesús sagði: „Undrist þetta ekki. Sú stund kemur þegar allir þeir sem í gröfunum eru munu heyra raust hans og ganga fram.“ (Jóhannes 5:28, 29) Job á eftir að sjá þetta loforð verða að veruleika. Hann á það fyrir sér að ,snúa aftur til æskudaga sinna‘ og ,styrkjast af æskuþrótti‘. (Jobsbók 33:24, 25) Það sama á við um alla sem kunna að meta þá gjöf Guðs sem upprisa til lífs á jörðinni er.

Hafirðu misst ástvin í dauðann er eðlilegt að sorgin hverfi ekki alveg þó að þú hafir kynnt þér efnið í þessari greinaröð. En með því að hugleiða loforð Guðs í Biblíunni geturðu eignast sanna von og fengið styrk til að þrauka. – 1. Þessaloníkubréf 4:13.

Langar þig að læra meira um hvernig takast megi á við sorg? Eða veltirðu fyrir þér af hverju Guð leyfir illsku og þjáningar? Við hvetjum þig til að fara inn á vefsíðu okkar jw.org/is og kynna þér gagnleg og hughreystandi svör Biblíunnar.