NÁMSGREIN 10
Kærleikur og þakklæti til Jehóva leiðir til skírnar
„Hvað aftrar mér frá því að skírast?“ – POST. 8:36.
SÖNGUR 37 Þjónum Jehóva af allri sálu
YFIRLIT *
1, 2. Hvað fékk eþíópíska hirðmanninn til að láta skírast eins og kemur fram í Postulasögunni 8:27–31, 35–38?
LANGAR þig að láta skírast og verða lærisveinn Krists? Kærleikur og þakklæti hefur fengið marga til að taka þá ákvörðun. Tökum sem dæmi embættismann sem þjónaði við hirð drottningar Eþíópíumanna.
2 Eþíópíumaðurinn brást strax við því sem hann lærði úr ritningunum. (Lestu Postulasöguna 8:27–31, 35–38.) Hvað fékk hann til þess? Hann kunni augljóslega að meta orð Guðs því að hann var að lesa úr Jesajabók á leið sinni í vagninum. Og þegar Filippus ræddi við hann lærði hann að meta það sem Jesús hafði gert fyrir hann. En hvers vegna hafði hann farið til Jerúsalem? Hann hafði þegar byggt upp kærleika til Jehóva. Hvernig vitum við það? Hann hafði verið í Jerúsalem að tilbiðja Jehóva. Hann hafði sagt skilið við barnatrú sína og slegist í fylgd með einu þjóðinni sem var vígð hinum sanna Guði. Og sami kærleikurinn til Jehóva fékk hann til að stíga annað mikilvægt skref, að láta skírast og verða lærisveinn Krists. – Matt. 28:19.
3. Hvað getur komið í veg fyrir að biblíunemandi láti skírast? (Sjá rammann „Hvað býr í hjarta þínu?“)
3 Kærleikur til Jehóva getur fengið þig til að láta skírast. En sterkar tilfinningar geta líka komið í veg fyrir að þú látir skírast. Hvernig þá? Til dæmis getur þér þótt mjög vænt um fjölskyldu og vini sem eru ekki í trúnni og óttast að þeir snúist gegn þér ef þú lætur skírast. Matt. 10:37) Eða kannski hefurðu yndi af einhverjum venjum sem Guð hatar og þér finnst erfitt að losna undan þeim. (Sálm. 97:10) Eða þú hefur kannski alist upp við hátíðir og siði sem tengjast falstrú og þú átt góðar minningar um. Þess vegna getur verið erfitt fyrir þig að láta af þeim þó að Jehóva hafi vanþóknun á þeim. (1. Kor. 10:20, 21) Þú þarft að gera upp við þig hvað eða hvern þú elskar mest.
(SÁ SEM VIÐ ÆTTUM AÐ ELSKA MEST
4. Hver er helsta hvötin til að láta skírast?
4 Það er eflaust margt sem þú kannt að meta og ert þakklátur fyrir. Kannski barstu djúpa virðingu fyrir Biblíunni áður en þú fórst að kynna þér hana með aðstoð votta Jehóva. Og kannski elskaðir þú Jesú þá þegar. Núna hefurðu kynnst vottum Jehóva og hefur líklega ánægju af að verja tíma með þeim. En það er ekki þar með sagt að þig langi til að vígja þig Jehóva og láta skírast. Kærleikur til Jehóva Guðs er helsta hvötin til að láta skírast. Ef þú elskar Jehóva framar öllu læturðu ekkert koma í veg fyrir að þú þjónir honum. Kærleikur til Jehóva fær þig bæði til að láta skírast og að halda áfram að vera honum trúr eftir skírnina.
5. Hvað skoðum við í þessari grein?
5 Jesús sagði að við ættum að elska Jehóva af öllu hjarta, sál, huga og mætti. (Mark. 12:30) Hvernig geturðu lært að elska og virða Jehóva svo mikið? Þegar við hugsum um hve heitt Jehóva elskar okkur förum við að elska hann á móti. (1. Jóh. 4:19) Hvaða aðrar tilfinningar og verk fylgja eðlilega í kjölfar þess að byggja upp þennan mikilvæga kærleika? *
6. Hver er ein leið til að kynnast Jehóva samkvæmt Rómverjabréfinu 1:20?
6 Kynnstu Jehóva með því að virða fyrir þér sköpunarverkið. (Lestu Rómverjabréfið 1:20; Opinb. 4:11) Hugsaðu um hvernig hönnun jurta og dýra ber vitni um visku skaparans. Lærðu dálítið um hversu undursamlega líkami þinn er gerður. (Sálm. 139:14) Og hugsaðu þér hve miklu afli Jehóva gæddi sólina. Og þó er sólin okkar bara ein af milljörðum stjarna. * (Jes. 40:26) Virðing þín fyrir Jehóva eykst þegar þú virðir fyrir þér sköpunarverkið. En samband þitt við Jehóva byggist ekki aðeins á því sem þú veist um visku hans og mátt. Þú þarft að vita meira um hann til að læra að elska hann heitt.
7. Hvað þarftu að vera viss um til að elska Jehóva heitt?
7 Þú þarft að vera viss um að Jehóva sé annt um þig sem einstakling. Finnst þér erfitt að trúa því að skapari himins og jarðar taki eftir þér og láti sér annt um þig? Ef svo er skaltu muna að Jehóva er „ekki langt frá neinum okkar“. (Post. 17:26–28) Hann „rannsakar öll hjörtu“ og, eins og Davíð sagði við Salómon, lofar hann þér að „ef þú leitar hans lætur hann þig finna sig“. (1. Kron. 28:9) Þú ert meira að segja að kynna þér Biblíuna vegna þess að Jehóva hefur dregið þig til sín. (Jóh. 6:44) Því betur sem þú skilur hvað Jehóva hefur gert fyrir þig því dýpri verður kærleikur þinn til hans.
8. Hvernig geturðu sýnt þakklæti þitt fyrir kærleika Jehóva?
8 Ein leið til að sýna þakklæti þitt fyrir kærleika Jehóva er að tala við hann í bæn. Þegar þú segir honum frá því sem þér liggur á hjarta og þakkar honum fyrir allt sem hann hefur gert fyrir þig ferðu að elska hann heitar. Og þegar þú sérð hvernig hann svarar bænum þínum styrkist vinátta ykkar. (Sálm. 116:1) Þú sannfærist um að hann skilur þig. En þú þarft að skilja hvernig Jehóva hugsar til að verða enn nánari honum. Þú þarft einnig að vita til hvers hann ætlast af þér. Og það gerirðu aðeins með námi í orði hans, Biblíunni.
9. Hvernig geturðu sýnt að þú metir Biblíuna mikils?
9 Lærðu að meta orð Guðs, Biblíuna. Sannleikann um Jehóva og fyrirætlun hans með þig er aðeins að finna í Biblíunni. Þú sýnir að þú að metir Biblíuna mikils með því að lesa daglega í henni, undirbúa biblíunámsstundirnar og fara eftir því sem þú lærir. (Sálm. 119:97, 99; Jóh. 17:17) Ertu með biblíulestraráætlun? Ferðu eftir henni og lest á hverjum degi í Biblíunni?
10. Hvað gerir Biblíuna einstaka?
10 Eitt af því sem gerir Biblíuna einstaka er að í henni eru frásögur manna sem sáu Jesú. Hún er eina nákvæma heimildin sem útskýrir hvað Jesús hefur gert fyrir þig. Þegar þú lærir um það sem Jesús sagði og gerði langar þig eflaust að eignast vináttu við hann.
11. Hvernig geturðu lært að elska Jehóva?
11 Lærðu að elska Jesú. Þú elskar Jehóva heitar ef þú elskar Jesú. Hvers vegna? Vegna þess að Jesús endurspeglar eiginleika föður síns fullkomlega. (Jóh. 14:9) Þegar þú kynnist Jesú skilurðu Jehóva betur og lærir betur að meta hann. Hugsaðu um hve mikla samúð Jesús sýndi þeim sem aðrir litu niður á vegna þess að þeir voru fátækir, veikir eða varnarlausir. Hugsaðu líka um hagnýt ráð sem hann gefur þér og hvernig það bætir líf þitt að fara eftir þeim. – Matt. 5:1–11; 7:24–27.
12. Hvað getur þekking á Jesú fengið þig til að gera?
12 Kærleikur þinn til Jesú styrkist eflaust þegar þú hugleiðir vel fórnina sem hann færði til að við gætum fengið fyrirgefningu synda okkar. (Matt. 20:28) Þegar þú gerir þér grein fyrir að Jesús var fús til að deyja fyrir þig finnurðu án efa hvöt hjá þér til að iðrast synda þinna og leita fyrirgefningar Jehóva. (Post. 3:19, 20; 1. Jóh. 1:9) Og þegar þú elskar Jesú og Jehóva laðastu eðlilega að fólki sem elskar þá líka.
13. Hverju sér Jehóva þér fyrir?
13 Lærðu að elska fjölskyldu Jehóva. Fjölskylda þín sem elskar ekki Jehóva og fyrrverandi vinir þínir skilja kannski ekki hvers vegna þú vilt vígja þig Jehóva. Þau gætu jafnvel snúist gegn þér. En Jehóva hjálpar þér með því að sjá þér fyrir andlegri fjölskyldu. Ef þú heldur þig nálægt andlegri fjölskyldu þinni færðu þá umhyggju og stuðning sem þú þarft á að halda. (Mark. 10:29, 30; Hebr. 10:24, 25) Með tímanum fara ættingjar þínir kannski að þjóna Jehóva með þér og lifa eftir meginreglum hans. – 1. Pét. 2:12.
14. Að hverju hefurðu komist varðandi meginreglur Jehóva eins og talað er um í 1. Jóhannesarbréfi 5:3?
14 Lærðu að meta meginreglur Jehóva og fara eftir þeim. Þú settir þér kannski þínar eigin lífsreglur áður en þú kynntist Jehóva en veist núna að meginreglur hans eru betri. (Sálm. 1:1–3; Lestu 1. Jóhannesarbréf 5:3.) Hugsaðu um ráð Biblíunnar handa eiginmönnum, eiginkonum, foreldrum og börnum. (Ef. 5:22–6:4) Hefur það ekki gert fjölskyldu þína ánægðari að þú fylgir þessum ráðum? Hafa venjur þínar ekki breyst til batnaðar eftir að þú fórst að hlýða ráðum Jehóva um að vanda valið á vinum? Ertu ekki glaðari núna? – Orðskv. 13:20; 1. Kor. 15:33.
15. Hvað geturðu gert ef þig vantar aðstoð við að heimfæra meginreglur Biblíunnar?
15 Stundum gæti þér fundist erfitt að vita hvernig þú átt að heimfæra meginreglur Biblíunnar sem þú ert að læra. Þess vegna notar Jehóva söfnuð sinn til að sjá fyrir biblíutengdu efni sem getur hjálpað þér að skilja hvað er rétt og hvað er rangt. (Hebr. 5:13, 14) Þegar þú lest og hugleiðir þetta efni sérðu hversu hagnýtt og hnitmiðað það er og það laðar þig eflaust að söfnuði Jehóva.
16. Hvaða skipulag hefur Jehóva meðal þjóna sinna?
16 Lærðu að elska og styðja söfnuð Jehóva. Jehóva hefur safnað þjónum sínum saman í skipulagða söfnuði og skipað Jesú son sinn höfuð þeirra allra. (Ef. 1:22; 5:23) Jesús hefur valið lítinn hóp andasmurðra manna til að fara með forystuna í að skipuleggja það starf sem hann vill að sé unnið nú á dögum. Hann kallaði þennan hóp ,hinn trúa og skynsama þjón‘ og þjónninn tekur alvarlega þá ábyrgð sína að vernda þig og næra andlega. (Matt. 24:45–47) Ein leið trúa þjónsins til að annast þig er að sjá til þess að hæfir öldungar séu útnefndir til að leiðbeina þér og vernda. (Jes. 32:1, 2; Hebr. 13:17; 1. Pét. 5:2, 3) Öldungarnir eru fúsir til að gera sitt allra besta til að hughreysta þig og hjálpa þér að eignast enn nánara samband við Jehóva. En eitt af því mikilvægasta sem þeir geta gert fyrir þig er að aðstoða þig við að fræða aðra um Jehóva. – Ef. 4:11–13.
17. Hvers vegna tölum við um Jehóva við aðra samkvæmt Rómverjabréfinu 10:10, 13, 14?
17 Hjálpaðu öðrum að læra að elska Jehóva. Jesús sagði fylgjendum sínum að fræða aðra um Jehóva. (Matt. 28:19, 20) Það er hægt að hlýða þessu boði af skyldurækni. En þegar kærleiksböndin við Jehóva styrkjast verður þér eflaust innanbrjósts eins og postulunum Pétri og Jóhannesi, en þeir sögðu: „Við getum ekki hætt að tala um það sem við höfum séð og heyrt.“ (Post. 4:20) Fátt veitir okkur jafn mikla ánægju og að hjálpa öðrum að læra að elska Jehóva. Hugsaðu þér hvað Filippus trúboði hefur verið glaður þegar hann hjálpaði Eþíópíumanninum að kynnast sannleikanum í Ritningunni og láta skírast. Ef þú líkir eftir Filippusi og hlýðir boði Jesú um að boða trúna sýnirðu að þú vilt vera vottur Jehóva. (Lestu Rómverjabréfið 10:10, 13, 14.) Þá spyrðu líklega eins og Eþíópíumaðurinn: „Hvað aftrar mér frá því að skírast?“ – Post. 8:36.
18. Hvað skoðum við í næstu grein?
18 Þegar þú ákveður að láta skírast stígurðu mikilvægasta skref ævinnar. Það er alvarleg ákvörðun og þess vegna þarftu að íhuga vel hvað felst í henni. Hvað þarftu að vita um skírnina? Hvað þarftu að gera áður en þú lætur skírast? Og hvað þarftu að gera eftir að þú lætur skírast? Þessum spurningum er svarað í næstu grein.
SÖNGUR 2 Þú heitir Jehóva
^ gr. 5 Sumir þeirra sem elska Jehóva eru ekki vissir um hvort þeir séu tilbúnir að láta skírast og verða vottar hans. Ert þú í þeim sporum? Í þessari grein skoðum við nokkur hagnýt ráð sem geta hjálpað þér að taka ákvörðun um að láta skírast.
^ gr. 5 Við erum öll ólík og því getur verið að sumir tileinki sér það sem nefnt er í greininni í annarri röð en það er sett upp.
^ gr. 6 Sjá fleiri dæmi í bæklingnum Var lífið skapað? og á jw.org/is undir BIBLÍAN OG LÍFIÐ > VÍSINDIN OG BIBLÍAN.
^ gr. 61 MYND: Systir hittir unga konu þegar hún er að versla og gefur henni smárit.