Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 11

Ert þú tilbúinn að láta skírast?

Ert þú tilbúinn að láta skírast?

,Skírnin bjargar ykkur.‘ – 1. PÉT. 3:21.

SÖNGUR 28 Hver er þinn vinur, Guð?

YFIRLIT *

1. Hvað ætti maður að gera áður en hann byrjar að byggja hús?

ÍMYNDAÐU þér mann sem ákveður að byggja hús. Hann veit hvers konar hús hann langar að byggja. Ætti hann að fara strax út í búð að kaupa byggingarefni og hefja verkið? Nei. Hann þarf að gera nokkuð mikilvægt áður en hann byrjar – reikna út hve mikið húsið mun kosta. Af hverju? Af því að hann þarf að vita hvort hann eigi næga fjármuni til að klára að byggja húsið. Ef hann reiknar kostnaðinn áður er líklegra að hann geti lokið við að byggja húsið.

2. Hvað ættirðu að hugsa vel um áður en þú lætur skírast, samanber Lúkas 14:27–30?

2 Hefur kærleikur þinn og þakklæti til Jehóva fengið þig til að hugsa um skírn? Þá stendur þú frammi fyrir svipaðri ákvörðun og maðurinn sem vill byggja hús. Hvernig þá? Hugsaðu um orð Jesú í Lúkasi 14:27–30. (Lestu.) Jesús var að tala um hvað það fæli í sér að vera lærisveinn hans. Til að fylgja honum þurfum við að vera fús til að bera kostnaðinn sem fylgir því, það er að segja að þola erfiðleika og færa fórnir. (Lúk. 9:23–26; 12:51–53) Áður en þú lætur skírast þarftu því að hugsa um allt sem skírnin felur í sér. Þá ertu betur búinn undir að þjóna Guði trúfastlega sem skírður þjónn hans.

3. Hvað skoðum við í þessari grein?

3 Er það þess virði að láta skírast sem lærisveinn Krists? Auðvitað! Skírn opnar leiðina að ríkulegri blessun bæði núna og í framtíðinni. Skoðum nokkrar mikilvægar spurningar um skírnina. Það hjálpar þér að svara spurningunni: „Er ég tilbúinn að láta skírast?“

HVAÐ ÞARFTU AÐ VITA UM VÍGSLU OG SKÍRN?

4. (a) Hvað er vígsla? (b) Hvað merkir það að ,afneita sjálfum sér‘ eins og talað er um í Matteusi 16:24?

4 Hvað er vígsla? Vígslan þarf að eiga sér stað á undan skírninni. Þegar þú vígir þig Jehóva nálgastu hann í innilegri bæn og segir honum að þú ætlir að nota líf þitt í þjónustu hans að eilífu. Þegar þú vígist Guði ,afneitar þú sjálfum þér‘. (Lestu Matteus 16:24.) Eftir það tilheyrir þú Jehóva en það er mikill heiður. (Rómv. 14:8) Þú segir honum að héðan í frá ætlir þú að einbeita þér að þjónustunni við hann en ekki því að þóknast sjálfum þér. Vígsla þín er heit, það er að segja hátíðlegt loforð sem þú gefur Guði. Jehóva þvingar okkur ekki til að vinna slíkt heit. En þegar við gerum það ætlast hann til að við efnum það. – Sálm. 116:12, 14.

5. Hvernig tengjast vígsla og skírn?

5 Hvernig tengjast vígsla og skírn? Vígsla þín er einkamál milli þín og Jehóva. Skírnin er opinber og á sér stað í viðurvist annarra, yfirleitt á móti. Þegar þú lætur skírast sýnirðu öðrum að þú hafir nú þegar vígt þig Jehóva. * Skírn þín lætur því aðra vita að þú elskar Jehóva Guð þinn af öllu hjarta, sál, huga og mætti og að þú ert staðráðinn í að þjóna honum að eilífu. – Mark. 12:30.

6, 7. Hvaða tvær ástæður eru nefndar í 1. Pétursbréfi 3:18–22 fyrir því að það er nauðsynlegt að láta skírast?

6 Er nauðsynlegt að láta skírast? Hugleiddu það sem segir í 1. Pétursbréfi 3:18–22. (Lestu.) Rétt eins og örkin var skýr sönnun um trú Nóa er skírn þín sýnilegt merki þess að þú hafir vígt þig Jehóva. En er nauðsynlegt að láta skírast? Já. Pétur sagði hvers vegna. Í fyrsta lagi „bjargar“ hún þér. Skírn getur bjargað okkur ef við sýnum með verkum okkar að við trúum á Jesú og að hann hafi dáið fyrir okkur, verið reistur upp til himna og sé núna „við hægri hönd Guðs“.

7 Í öðru lagi gerir skírnin okkur kleift að hafa „góða samvisku“. Þegar við vígjum okkur Jehóva og látum skírast eignumst við sérstakt samband við hann. Hann fyrirgefur okkur syndir okkar vegna þess að við iðrumst í einlægni og trúum á lausnargjaldið. Þess vegna getum við haft góða samvisku frammi fyrir honum.

8. Hvers vegna ættirðu að ákveða að láta skírast?

8 Hvers vegna ættirðu að ákveða að láta skírast? Þú hefur lært margt um Jehóva af biblíunámi þínu. Þú hefur kynnst eiginleikum hans og hvernig hann starfar. Það sem þú hefur lært um hann hefur snert hjarta þitt og fengið þig til að elska hann heitt. Kærleikur þinn til Jehóva ætti að vera aðalástæðan fyrir því að þú ákveðir að láta skírast.

9. Hvað merkir að láta skírast í nafni föðurins, sonarins og heilags anda eins og talað er um í Matteusi 28:19, 20?

9 Önnur ástæða fyrir því að þú ákveður að láta skírast er að þú hefur kynnst sannleika Biblíunnar og fest trú á hann. Hugsaðu um það sem Jesús sagði þegar hann gaf boð um að gera fólk að lærisveinum. (Lestu Matteus 28:19, 20.) Jesús sagði að þeir sem láta skírast eigi að gera það „í nafni föðurins, sonarins og heilags anda“. Hvað merkir það? Þú verður að trúa heils hugar sannleikanum um Jehóva, Jesú son hans og heilaga andann. Þessi sannindi eru kraftmikil og geta snert hjarta þitt djúpt. (Hebr. 4:12) Skoðum nokkur þeirra.

10, 11. Hvaða sannindi um föðurinn hefur þú lært og fest trú á?

10 Hugsaðu til baka til þess þegar þú lærðir eftirfarandi sannindi um föðurinn: Hann „heitir Jehóva“, hann er „hinn hæsti yfir allri jörðinni“ og hann einn er „hinn sanni Guð“. (Sálm. 83:18, NW; Jer. 10:10) Hann er skapari okkar og „hjálpin kemur frá Drottni“. (Sálm. 3:9; 36:10) Hann hefur gert ráðstafanir til að bjarga okkur undan synd og dauða og gefið okkur von um eilíft líf. (Jóh. 17:3) Vígsla þín og skírn auðkennir þig sem vott Jehóva. (Jes. 43:10–12) Þá tilheyrir þú alheimsfjölskyldu tilbiðjenda Guðs sem eru stoltir af því að bera nafn hans og segja öðrum frá honum. – Sálm. 86:12.

11 Það er sannur heiður að fá að skilja það sem Biblían kennir um föðurinn. Þegar þú festir trú á þessi dýrmætu sannindi fær það þig til að vígja þig Jehóva og láta skírast.

12, 13. Hvaða sannindi um soninn hefur þú lært og fest trú á?

12 Hver voru viðbrögð þín þegar þú lærðir eftirfarandi sannindi um soninn? Jesús er næstmikilvægasta persónan í alheiminum. Hann er lausnari okkar. Hann gaf líf sitt fúslega í okkar þágu. Þegar við sýnum í verki að við trúum á lausnarfórnina getum við fengið fyrirgefningu synda okkar, ræktað vináttusamband við Guð og hlotið eilíft líf. (Jóh. 3:16) Jesús er æðstiprestur okkar. Hann vill hjálpa okkur að njóta góðs af lausnarfórninni og að eiga náið samband við Guð. (Hebr. 4:15; 7:24, 25) Hann er konungur Guðsríkis og Jehóva notar hann til að helga nafn sitt, binda enda á illsku og veita mönnum eilífa blessun í paradís. (Matt. 6:9, 10; Opinb. 11:15) Jesús er fyrirmynd okkar. (1. Pét. 2:21) Hann setti okkur gott fordæmi með því að helga líf sitt því að gera vilja Guðs. – Jóh. 4:34.

13 Þegar þú festir trú á það sem Biblían kennir um Jesú ferðu að elska þennan ástkæra son Guðs. Þessi kærleikur fær þig til að einbeita þér að því að gera vilja Guðs, eins og Jesús gerði. Það knýr þig til að vígja þig Jehóva og láta skírast.

14, 15. Hvaða sannindi um heilaga andann hefur þú lært og fest trú á?

14 Hvað fannst þér um að læra eftirfarandi sannindi um heilaga andann? Hann er starfskraftur Guðs en ekki persóna. Jehóva notaði heilagan anda til að innblása mönnum hvað þeir ættu að skrifa í Biblíuna og andinn hjálpar okkur að skilja og fara eftir því sem við lesum í henni. (Jóh. 14:26; 2. Pét. 1:21) Með anda sínum gefur Jehóva okkur kraft „sem er ofar mannlegum mætti“. (2. Kor. 4:7) Andinn gerir okkur kleift að boða fagnaðarboðskapinn, standast freistingar, takast á við kjarkleysi og þola prófraunir. Hann hjálpar okkur að sýna fallegu eiginleikana sem „ávöxtur andans“ samanstendur af. (Gal. 5:22) Ef við treystum Guði og biðjum í einlægni um anda hans gefur hann okkur fúslega af honum. – Lúk. 11:13.

15 Það er sannarlega hughreystandi að vita að þjónar Guðs geta reitt sig á hjálp heilags anda til að þjóna Jehóva. Þegar þú festir trú á þau sannindi sem þú hefur lært um heilaga andann fær það þig til að vígja þig Jehóva og láta skírast.

16. Hvað höfum við lært hingað til í greininni?

16 Þú stígur mikilvægt skref þegar þú ákveður að vígja þig Guði og láta skírast. Eins og fram hefur komið þurfum við að vera fús til að bera kostnaðinn sem fylgir því, það er að segja að þola erfiðleika og færa fórnir. En blessunin er margfalt meiri en kostnaðurinn. Skírnin getur bjargað þér og hún gerir þér kleift að hafa góða samvisku frammi fyrir Guði. Ákvörðun þín um að láta skírast ætti fyrst og fremst að byggjast á kærleika til Jehóva. Þú þarft einnig að trúa heils hugar sannleikanum sem þú hefur lært um föðurinn, soninn og heilaga andann. Ert þú tilbúinn að láta skírast? Hverju svarar þú eftir að hafa hugleitt það sem við höfum rætt hingað til?

HVAÐ ÞARFTU AÐ GERA ÁÐUR EN ÞÚ LÆTUR SKÍRAST?

17. Nefndu sumt af því sem þarf að gera áður en maður lætur skírast.

17 Ef þér finnst þú vera tilbúinn til að láta skírast hefurðu eflaust gert margt nú þegar til að byggja upp gott samband við Jehóva. * Þú hefur kynnst Jehóva og Jesú vel af reglulegu biblíunámi þínu. Þú hefur byggt upp trú. (Hebr. 11:6) Þú treystir loforðum Jehóva í Biblíunni fullkomlega og ert sannfærður um að trú þín á fórn Jesú geti bjargað þér undan synd og dauða. Þú hefur iðrast synda þinna. Það þýðir að þú sérð virkilega eftir því slæma sem þú hefur gert og hefur beðið Jehóva um að fyrirgefa þér. Þú hefur breytt um lífsstefnu. Það þýðir að þú hefur algerlega hafnað því slæma sem þú stundaðir áður og ert farinn að hegða þér eins og Guði er þóknanlegt. (Post. 3:19) Þú vilt ákafur segja öðrum frá trú þinni. Þú varðst hæfur til að gerast óskírður boðberi og byrjaðir að boða trúna með söfnuðinum. (Matt. 24:14) Jehóva er stoltur af þér fyrir að stíga þessi mikilvægu skref. Þú hefur virkilega glatt hjarta hans. – Orðskv. 27:11.

18. Hvað fleira þarftu að gera áður en þú getur látið skírast?

18 Það er fleira sem þú þarft að gera áður en þú getur látið skírast. Eins og fram hefur komið þarftu að vígja þig Guði. Biddu til hans í einrúmi og lofaðu honum einlæglega að þú munir nota líf þitt til að gera vilja hans. (1. Pét. 4:2) Síðan skaltu láta umsjónarmann öldungaráðsins vita að þú viljir láta skírast. Hann biður nokkra öldunga um að setjast niður með þér. Vertu ekki kvíðinn fyrir að hitta þá. Þessir kæru bræður þekkja þig án efa nú þegar og elska þig. Þeir fara með þér yfir grundvallarkenningar Biblíunnar sem þú hefur lært. Þeir vilja ganga úr skugga um að þú skiljir þessar kenningar og að þú gerir þér grein fyrir mikilvægi vígslu og skírnar. Ef þeir eru sammála um að þú sért tilbúinn segja þeir þér að þú getir látið skírast á næsta móti.

HVAÐ ÞARFTU AÐ GERA EFTIR AÐ ÞÚ LÆTUR SKÍRAST?

19, 20. Hvað þarftu að gera eftir að þú lætur skírast og hvernig geturðu gert það?

19 Hvað þarftu að gera eftir að þú lætur skírast? * Mundu að vígsla er heit og að Jehóva ætlast til að þú efnir það. Þú verður því að lifa í samræmi við vígsluheit þitt eftir að þú lætur skírast. Hvernig geturðu gert það?

20 Viðhaltu nánu sambandi við söfnuðinn þinn. Sem skírður þjónn Guðs tilheyrir þú ,bræðrasamfélagi‘. (1. Pét. 2:17) Bræður þínir og systur í söfnuðinum eru andleg fjölskylda þín. Þú styrkir sambandið við þau með því að sækja samkomur reglulega. Lestu og hugleiddu orð Guðs á hverjum degi. (Sálm. 1:1, 2) Eftir að hafa lesið úr Biblíunni skaltu taka þér tíma til að hugleiða það sem þú last. Þá nær efnið til hjartans. ,Biddu stöðugt.‘ (Matt. 26:41) Innilegar bænir þínar nálægja þig Jehóva. ,Einbeittu þér fyrst og fremst að ríki Guðs.‘ (Matt. 6:33) Þú getur gert það með því að láta boðunina hafa forgang. Með því að taka reglulega þátt í boðuninni viðheldur þú sterkri trú og getur hjálpað öðrum að komast á veginn til eilífs lífs. – 1. Tím. 4:16.

21. Hvaða leið opnar skírnin?

21 Ákvörðunin um að vígja þig Jehóva og láta skírast er mikilvægasta ákvörðun sem þú munt nokkurn tíma taka. Því fylgir að vísu viss kostnaður en hann er sannarlega þess virði. Allir erfiðleikar sem þú kannt að standa frammi fyrir í þessum gamla heimi „standa stutt og eru léttbærir“. (2. Kor. 4:17) Hins vegar opnar skírnin leiðina að ánægjulegra lífi núna og ,hinu sanna lífi‘ í framtíðinni. (1. Tím. 6:19) Hugsaðu því vel og í bænarhug um svar þitt við spurningunni: „Er ég tilbúinn að láta skírast?“

SÖNGUR 50 Vígslubæn mín

^ gr. 5 Ert þú að hugsa um að láta skírast? Þá hefur þessi grein verið skrifuð sérstaklega með þig í huga. Við ræðum nokkrar grundvallarspurningar um þetta mikilvæga efni. Svör þín hjálpa þér að ákveða hvort þú sért tilbúinn að láta skírast.

^ gr. 17 Sjá 18. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían?

^ gr. 19 Ef þú hefur ekki klárað að fara yfir bækurnar Hvað kennir Biblían? og „Látið kærleika Guðs varðveita ykkur“ ættirðu að halda áfram biblíunámi með aðstoð biblíukennara þar til þú hefur farið yfir báðar bækurnar.