Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vissir þú?

Vissir þú?

Hvernig vissi fólk á biblíutímanum hvenær nýr mánuður eða nýtt ár hófst?

HJÁ Hebreum til forna byrjaði venjulegt ár um mánaðamótin september–​október, þegar þeir hófust handa við að plægja og sá.

Árið í tunglalmanaki er styttra en sólarár þegar tunglárið spannar 12 mánuði með 29 eða 30 dögum í hverjum mánuði. Mismunandi aðferðir hafa verið notaðar til að jafna þennan mun. Ein leið til þess var að bæta við fleiri dögum eða setja inn aukamánuð, hugsanlega í upphafi komandi árs. Með því að gera þetta varð samræmi milli almanaksins og tímabila fyrir sáningu og uppskeru.

En á tímum Móse sagði Guð fólki sínu að trúarlegt ár ætti að hefjast í abíb, eða nísan, en það samsvarar mars–​apríl. (2. Mós. 12:2; 13:4) Í þessum mánuði var haldin hátíð þar sem bygguppskeran kom við sögu. – 2. Mós. 23:15, 16.

„Það var einfalt að taka ákvörðun um hvort ætti að bæta við mánuði,“ segir sagnfræðingurinn Emil Schürer í bók sinni The History of the Jewish People in the Age of Jesus Christ (175 f.Kr.–​135 e.Kr.). „Páskahátíðina átti að halda þegar tungl var fullt í nísanmánuði (14. nísan) eftir vorjafndægur … Ef það kom í ljós í árslok að páskahátíðina myndi árið eftir bera upp á dag fyrir vorjafndægur var 13. mánuðinum bætt við á undan nísanmánuði.“

Vottar Jehóva taka mið af þessari reglu þegar þeir ákveða hvaða dagsetning að vori samsvarar 14. nísan í almanaki Hebrea. Söfnuðir um alla jörð halda kvöldmáltíð Drottins á þessum degi en þeir fá upplýsingar um dagsetninguna fyrir fram. *

En hvernig vissu Hebrear hvenær einum mánuði lauk og annar byrjaði? Þú kíkir kannski bara á dagatal á prenti eða í snjalltæki. En á biblíutímanum var það ekki alveg svona einfalt.

Á dögum Nóaflóðsins voru mánuðirnir 30 daga langir. (1. Mós. 7:11, 24; 8:3, 4) Síðar takmarkaðist mánuður hjá Hebreum ekki við 30 daga. Nýr mánuður í almanaki Hebrea hófst um leið og nýtt tungl varð sýnilegt. Það var 29 eða 30 dögum eftir að mánuðurinn á undan hófst.

Bæði Davíð og Jónatan töluðu um byrjun nýs mánaðar þegar þeir sögðu: „Á morgun er nýtt tungl.“ (1. Sam. 20:5, 18) Það lítur því út fyrir að á þeirra dögum hafi lengd mánaða verið reiknuð út fyrir fram. Hvernig vissu Ísraelsmenn hvenær nýr mánuður hófst? Einhverjar upplýsingar um það er að finna í Mishna, safni munnlegra laga og erfðakenninga Gyðinga. Þar kemur fram að eftir að Gyðingar komu til baka úr útlegðinni í Babýlon hafi Æðstaráð Gyðinga átt hlut að máli. Í sjö af mánuðum ársins hittist ráðið á 30. degi mánaðarins. Þessir menn báru ábyrgð á því að ákveða hvenær næsti mánuður á eftir hæfist. Hvernig gerðu þeir það?

Menn voru staðsettir í kringum Jerúsalem þar sem var hægt var að fylgjast með næturhimninum þegar fyrstu merki um nýtt tungl sáust. Þeir létu Æðstaráðið vita sem fyrst. Þegar menn í ráðinu töldu sig hafa nægar sannanir fyrir nýju tungli lýstu þeir yfir að nýr mánuður væri hafinn. En hvað ef ský eða þoka kom í veg fyrir að varðmennirnir sæju þegar nýtt tungl hófst? Þá miðaðist mánuðurinn við 30 daga og nýr mánuður gat hafist eftir það.

Í Mishna er sagt frá því að ákvörðun Æðstaráðsins hafi verið tilkynnt með því að eldur var tendraður efst á Olíufjalli, nálægt Jerúsalem. Til að dreifa fréttunum voru eldar líka kveiktir á öðrum stöðum í Ísrael en þeir sáust víða að. Á síðari tímum fóru sendiboðar með skilaboðin. Þannig fengu Gyðingar í Jerúsalem, um alla Ísrael og annars staðar að vita hvenær nýr mánuður hófst. Allir gátu þannig haldið hátíðir á sama tíma.

Það getur verið gagnlegt að skoða meðfylgjandi töflu til að átta sig á tengslunum á milli mánaða, hátíða og árstíða í almanaki Gyðinga.

^ Sjá Varðturninn 1. mars 1990, bls. 13.