Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 26

Kærleikur hjálpar okkur að sigrast á ótta

Kærleikur hjálpar okkur að sigrast á ótta

„Drottinn er með mér, ég óttast eigi.“ – SÁLM. 118:6.

SÖNGUR 105 „Guð er kærleikur“

YFIRLIT *

1. Nefndu dæmi um það sem fólk óttast gjarnan.

 SKOÐUM nokkrar reynslusögur. Hjónin Nestor og Maríu langaði til að þjóna þar sem þörfin var meiri. * Til að geta það þurftu þau að vera sparsamari. En þau höfðu áhyggjur af að þau yrðu ekki hamingjusöm ef þau þénuðu minna. Biniam gerðist vottur Jehóva í landi þar sem starfsemi okkar mætir andstöðu og hann gerði sér grein fyrir að hann gæti orðið fyrir ofsóknum sem þjónn Guðs. Það hræddi hann. En hann óttaðist meira viðbrögð fjölskyldu sinnar þegar hún kæmist að því að hann hefði tekið nýja trú. Valérie greindist með ágengt krabbamein og hún átti í vandræðum með að finna skurðlækni sem var tilbúinn að virða óskir hennar varðandi blóðið. Eðlilega óttaðist hún um líf sitt.

2. Hvers vegna þurfum við að læra að sigrast á því sem við óttumst?

2 Mörg okkar hafa fundið fyrir slíkum ótta. Ef við lærum ekki að hafa stjórn á óttanum tökum við líklega slæmar ákvarðanir sem gætu jafnvel skaðað samband okkar við Jehóva. Satan vill það. Hann reynir líka að nýta sér óttann til að fá okkur til að óhlýðnast lögum Jehóva, þar á meðal fyrirmælunum um að boða fagnaðarboðskapinn. (Opinb. 12:17) Satan er vondur, grimmur og voldugur. En þú getur varið þig fyrir honum. Hvernig?

3. Hvað hjálpar okkur að sigrast á ótta?

3 Satan getur ekki hrætt okkur ef við erum sannfærð um að Jehóva elski okkur og að hann standi með okkur. (Sálm. 118:6) Til dæmis var sá sem skrifaði Sálm 118 oft í erfiðum aðstæðum. Hann átti marga óvini, suma þeirra í háum stöðum (9. og 10. vers). Stundum var hann undir miklu álagi (13. vers). Og Jehóva hafði agað hann harðlega (18. vers). En samt söng hann: „Ég óttast eigi.“ Hvað gerði hann svona öruggan? Hann vissi að Jehóva elskaði hann þó að hann hefði agað hann. Hann var sannfærður um að kærleiksríkur Guð hans væri alltaf tilbúinn að hjálpa honum í hvaða aðstæðum sem væri. – Sálm. 118:29.

4. Hvers konar ótta getum við sigrast á ef við treystum að Guð elski okkur?

4 Við verðum að vera sannfærð um að Jehóva elski okkur. Sú sannfæring hjálpar okkur að sigrast á þrenns konar ótta: (1) Ótta við að geta ekki séð fyrir fjölskyldunni, (2) ótta við menn og (3) ótta við dauðann. Þau sem eru nefnd í fyrstu greininni gátu sigrast á ótta sínum vegna þess að þau voru sannfærð um að Guð elskaði þau.

ÓTTI VIÐ AÐ GETA EKKI SÉÐ FYRIR FJÖLSKYLDUNNI

Bróðir með son sinn með sér vinnur við fiskveiðar til að sjá fyrir efnislegum þörfum fjölskyldu sinnar. (Sjá 5. grein)

5. Hverju getur höfuð fjölskyldunnar haft miklar áhyggjur af? (Sjá forsíðumynd.)

5 Kristinn maður sem hefur fyrir fjölskyldu að sjá tekur þá ábyrgð sína alvarlega. (1. Tím. 5:8) Ert þú í þeirri stöðu? Kannski hefur verið töluverð hætta á því í faraldrinum að þú misstir vinnuna. Þú hafðir kannski áhyggjur af því að eiga ekki fyrir mat fyrir fjölskylduna eða geta ekki borgað fyrir húsnæðið. Og kannski hafðirðu áhyggjur af því að geta ekki fundið nýja vinnu ef þú yrðir atvinnulaus. Eða kannski hefurðu hikað við að gera breytingar á vinnunni sem myndu hafa áhrif á lífsstíl þinn, rétt eins og Nestor og María sem minnst var á áður. Satan hefur tekist vel að nýta sér slíkan ótta.

6. Hvað reynir Satan að telja okkur trú um?

6 Satan reynir að telja okkur trú um að Jehóva standi á sama um okkur og að hann muni ekki hjálpa okkur að sjá fyrir fjölskyldunni. Ef við trúum því getur okkur fundist við þurfa að halda í núverandi vinnu sama hvað það kostar, jafnvel þó það þýði að brjóta meginreglur Biblíunnar.

7. Hvað fullvissar Jesús okkur um?

7 Jesús þekkir föður okkar á himnum betur en nokkur annar og hann fullvissar okkur um að Guð ,viti hvers við þörfnumst, jafnvel áður en við biðjum hann‘. (Matt. 6:8) Og Jesús veit að Jehóva er tilbúinn að sjá okkur fyrir því sem við þurfum. Sem þjónar Guðs tilheyrum við fjölskyldu hans. Jehóva er höfuð fjölskyldu sinnar og við megum vera viss um að hann fari eftir þeirri meginreglu sem hann lét skrá í 1. Tímóteusarbréf 5:8.

Jehóva sér til þess að við höfum það sem við þurfum. Hann notar stundum trúsystkini til þess. (Sjá 8. grein.) *

8. (a) Hvað hjálpar okkur að sigrast á óttanum við að geta ekki séð fyrir fjölskyldunni? (Matteus 6:31–33) (b) Hvernig getum við líkt eftir fordæmi hjónanna á myndinni sem færa systur mat?

8 Ef við erum sannfærð um að Jehóva elski okkur og fjölskyldu okkar efumst við ekki um að við munum hafa það sem við þurfum. (Lestu Matteus 6:31–33.) Jehóva langar til að sjá fyrir okkur og hann gerir það mjög örlátlega. Þegar hann skapaði jörðina gerði hann meira en að sjá okkur fyrir lífsnauðsynjum. Í kærleika sínum fyllti hann jörðina af öllu mögulegu sem við getum glaðst yfir. (1. Mós. 2:9) Og þó að við höfum stundum bara rétt það sem við þurfum höfum við það sem við þurfum vegna þess að Jehóva sér fyrir okkur. (Matt. 6:11) Við þurfum að hafa í huga að þó að við færum einhverjar efnislegar fórnir núna eru þær ekkert í samanburði við það sem Jehóva mun gefa okkur, bæði núna og í framtíðinni. Nestor og María komust að raun um það. – Jes. 65:21, 22.

9. Hvað getum við lært af Nestor og Maríu?

9 Nestor og María lifðu þægilegu lífi í Kólumbíu. Þau segja: „Við hugsuðum um að einfalda lífið og auka þjónustuna en óttuðumst að við yrðum ekki ánægð með að hafa minna efnislega.“ Hvað hjálpaði þeim að sigrast á óttanum? Þau rifjuðu upp hvernig Jehóva hefði á marga vegu sannað að hann elskaði þau. Þau voru sannfærð um að hann myndi alltaf sjá fyrir þeim svo að þau sögðu upp vel launaðri vinnu, seldu húsnæðið og fluttust á annan stað í landinu þar sem þörf var á fleiri boðberum. Hvernig líður þeim með þessar breytingar? Nestor segir: „Við höfum sannreynt það sem segir í Matteusi 6:33. Okkur hefur aldrei skort neitt efnislega. Og við erum ánægðari.“

ÓTTI VIÐ MENN

10. Hvers vegna er skiljanlegt að menn óttist hver annan?

10 Mennirnir hafa lengi skaðað hver annan. (Préd. 8:9) Til dæmis misbeita menn valdi sínu, glæpamenn fremja ofbeldisverk, krakkar leggja skólafélaga sína í einelti og hóta þeim og sumir koma jafnvel grimmilega fram við fjölskyldu sína. Það er ekki skrýtið að menn óttist hver annan. Hvernig notfærir Satan sér ótta okkar við menn?

11, 12. Hvernig notfærir Satan sér ótta okkar við menn?

11 Satan notar ótta við menn til að reyna að þvinga okkur til að hætta að boða trúna og gefa eftir á öðrum sviðum. Undir áhrifum Satans hafa yfirvöld bannað starfsemi okkar og ofsótt okkur. (Lúk. 21:12; Opinb. 2:10) Heimur Satans dreifir villandi upplýsingum og illgjörnum lygum um votta Jehóva. Fólk sem trúir þessum lygum gæti hæðst að okkur eða jafnvel beitt okkur ofbeldi. (Matt. 10:36) Aðferðir Satans koma okkur ekki á óvart vegna þess að hann notaði þær líka á fyrstu öld. (Post. 5:27, 28, 40)

Við getum treyst að Jehóva elski okkur, jafnvel þó að fjölskyldan veiti okkur mótstöðu. (Sjá 12.–14. grein.) *

12 Satan notar fleiri vopn en andstöðu frá yfirvöldum. Sumir óttast viðbrögð fjölskyldunnar við sannleikanum meira en að vera beittir líkamlegu ofbeldi. Þeim þykir innilega vænt um fjölskyldu sína og þeir vilja að hún kynnist Jehóva og læri að elska hann. Þeim þykir sárt að heyra fjölskylduna tala af virðingarleysi um hinn sanna Guð og þá sem þjóna honum. En stundum taka þeir við sannleikanum sem sýndu andstöðu til að byrja með. Hvernig myndum við bregðast við ef fjölskyldan sliti öll tengsl við okkur af því að við tökum við sannleikanum?

13. Hvernig er hjálp í því að vita að Guð elskar okkur ef fjölskyldan hafnar okkur? (Sálmur 27:10)

13 Fallegu orðin í Sálmi 27:10 geta hughreyst okkur. (Lestu.) Ef við munum hversu heitt Jehóva elskar okkur erum við örugg þrátt fyrir andstöðu. Og við treystum því að hann umbuni okkur fyrir þolgæði okkar. Jehóva sér betur en nokkur annar fyrir líkamlegum, tilfinningalegum og andlegum þörfum okkar. Biniam, sem minnst var á áður, komst að raun um það.

14. Hvað getum við lært af Biniam?

14 Biniam gerðist vottur Jehóva þó að hann vissi að hann gæti orðið fyrir grimmilegum ofsóknum. Skoðum hvernig það hjálpaði Biniam að sigrast á ótta við menn að vita að Jehóva elskar hann. „Ofsóknirnar voru verri en ég hafði ímyndað mér,“ segir hann. „En ég óttaðist andstöðu fjölskyldunnar enn meira en ofsóknir yfirvalda. Ég óttaðist að ákvörðun mín um að verða vottur Jehóva myndi valda föður mínum sem var ekki vottur vonbrigðum og að fjölskyldan myndi líta niður á mig.“ En Biniam var sannfærður um að Jehóva sæi alltaf um þá sem hann elskar. Hann segir: „Ég rifjaði upp hvernig Jehóva hefur hjálpað öðrum að þola fjárhagserfiðleika, fordóma og múgárásir. Ég vissi að ef ég væri Jehóva trúr myndi hann blessa mig. Ég var handtekinn mörgum sinnum og jafnvel pyntaður. Þá fann ég hve mikla hjálp við fáum í neyð frá Jehóva ef við erum honum trúföst.“ Biniam fór að líta á Jehóva sem föður sinn og þjóna hans sem fjölskyldu sína.

ÓTTI VIÐ DAUÐANN

15. Hvers vegna er eðlilegt að óttast dauðann?

15 Biblían segir að dauðinn sé óvinur. (1. Kor. 15:25, 26) Við óttumst kannski tilhugsunina um dauðann, sérstaklega ef við eða einhver nákominn okkur er alvarlega veikur. Hvers vegna óttumst við dauðann? Vegna þess að Jehóva skapaði okkur með löngun til að lifa að eilífu. (Préd. 3:11) Heilbrigður ótti við dauðann getur verið okkur til verndar. Hann getur til dæmis fengið okkur til að taka góðar ákvarðanir í sambandi við mataræði og hreyfingu, fara til læknis eða taka lyf þegar það er nauðsynlegt og forðast að setja okkur í óþarfa lífshættu.

16. Hvernig notfærir Satan sér eðlilegan ótta okkar við dauðann?

16 Satan veit að okkur er annt um lífið. En hann staðhæfir að við myndum fórna öllu sem við eigum – jafnvel vináttunni við Jehóva – til að halda í líf okkar. (Job. 2:4, 5) Það er fjarri lagi! En þar sem hann „hefur mátt til að valda dauða“ notfærir hann sér eðlilegan ótta við dauðann til að reyna að fá okkur til að yfirgefa Jehóva. (Hebr. 2:14, 15) Stundum notar Satan fólk sem er undir áhrifum hans til að hóta þjónum Jehóva lífláti ef þeir afneita ekki trúnni. Og stundum notfærir Satan sér aðstæður sem ógna lífi okkar til að reyna að fá okkur til að gefa eftir. Læknar eða ættingjar sem eru ekki í trúnni gætu þrýst á okkur að þiggja blóðgjöf, en það myndi brjóta lög Guðs. Eða einhver gæti reynt að fá okkur til að þiggja aðra meðferð sem stangast á við meginreglur Biblíunnar.

17. Hvers vegna þurfum við ekki að óttast dauðann eins og fram kemur í Rómverjabréfinu 8:37–39?

17 Við viljum að sjálfsögðu ekki deyja, en við vitum að Jehóva hættir ekki að elska okkur þó að það gerist. (Lestu Rómverjabréfið 8:37–39.) Þegar vinir Jehóva deyja man hann eftir þeim eins og þeir væru lifandi. (Lúk. 20:37, 38) Hann þráir að vekja þá til lífs á ný. (Job. 14:15) Jehóva hefur greitt hátt gjald svo að við getum ,hlotið eilíft líf‘. (Jóh. 3:16) Við vitum hve innilega annt Jehóva er um okkur. Þess vegna yfirgefum við hann ekki þegar við erum veik eða stöndum frammi fyrir dauðanum heldur leitum til hans til að fá huggun, visku og kraft. Valérie og maðurinn hennar gerðu það. – Sálm. 41:4.

18. Hvað lærum við af Valérie?

18 Valérie var 35 ára þegar hún greindist með sjaldgæft og ágengt krabbamein. Skoðum hvernig kærleikur hjálpaði henni að sigrast á óttanum við dauðann. Hún segir: „Greiningin breytti lífi okkar á einni nóttu. Ég þurfti að fara í stóra skurðaðgerð til að halda lífi. Ég talaði við marga skurðlækna en þeir neituðu allir að gera aðgerð án blóðgjafar. Ég var hrædd en það kom ekki til greina að brjóta lög Guðs og þiggja blóðgjöf. Jehóva hefur alltaf sýnt að hann elskar mig mikið. Núna hafði ég tækifæri til að sýna að ég elska hann. Í hvert sinn sem ég fékk slæmar fréttir varð ég ákveðnari í að gera Jehóva stoltan af mér og leyfa Satan ekki að vinna. Að lokum fór ég í aðgerð án blóðgjafar sem tókst vel. Þó að ég glími enn við veikindi hefur Jehóva alltaf séð okkur fyrir því sem við þurfum. Til dæmis var farið yfir greinina ,Tökumst hugrökk á við mótlæti‘ á samkomu hjá okkur helgina áður en ég fékk greininguna. * Þessi grein var ótrúlega dýrmæt fyrir okkur. Við lásum hana aftur og aftur. Greinar eins og þessi og góð andleg dagskrá hefur gefið okkur hjónunum innri frið og hjálpað okkur að hafa jafnvægi og taka góðar ákvarðanir.“

AÐ SIGRAST Á ÓTTA

19. Hvað gerist bráðlega?

19 Þjónum Jehóva um allan heim hefur tekist með hans hjálp að sigrast á erfiðum aðstæðum og standa gegn Djöflinum. (1. Pét. 5:8, 9) Þú getur það líka. Mjög bráðlega mun Jehóva segja Jesú og meðstjórnendum hans að „brjóta niður verk Djöfulsins“. (1. Jóh. 3:8) Eftir það munu þjónar Guðs á jörð ,ekki þurfa að óttast og vera fjarri allri skelfingu‘. (Jes. 54:14; Míka 4:4) En þangað til þurfum við að leggja hart að okkur til að sigrast á ótta.

20. Hvað hjálpar okkur að sigrast á ótta?

20 Við þurfum að halda áfram að styrkja traust okkar á að Jehóva elski þjóna sína og verndi þá. Að hugleiða og tala við aðra um hvernig Jehóva hefur verndað þjóna sína áður hjálpar okkur að gera það. Og við getum haft í huga hvernig hann hefur hjálpað okkur persónulega að takast á við erfiðar aðstæður. Með hjálp Jehóva getum við sigrast á ótta. – Sálm. 34:5.

SÖNGUR 129 Reynumst þolgóð

^ Það er eðlilegt að finna til ótta og hann getur verndað okkur gegn hættum. En það getur hins vegar verið hættulegt að láta undan óheilnæmum ótta vegna þess að Satan notar óttann gegn okkur. Það er greinilega erfitt að hafa stjórn á slíkum ótta. Hvað hjálpar okkur til þess? Eins og við sjáum í þessari grein getum við sigrast á hvaða ótta sem er ef við erum sannfærð um að Jehóva sé með okkur og að hann elski okkur.

^ Sumum nöfnum hefur verið breytt.

^ MYND: Hjón í söfnuðinum færa duglegri systur og fjölskyldu hennar mat.

^ MYND: Ungur bróðir mætir andstöðu frá foreldrum sínum. En hann treystir á stuðning Guðs.