Brugðist við lúðrakalli nú á dögum
ÖLL erum við sannfærð um að Jehóva leiðbeinir þjónum sínum og varðveitir trú þeirra á þessum „síðustu dögum“. (2. Tím. 3:1) Eðlilega verður hvert og eitt okkar að bregðast við leiðsögn hans. Við getum líkt stöðu okkar við stöðu Ísraelsmanna í eyðimörkinni. Þeir þurftu að bregðast við þegar þeir heyrðu blásið í lúðra.
Jehóva bað Móse að smíða tvo lúðra úr hömruðu silfri „til að kalla saman söfnuðinn og til að gefa hernum merki til brottfarar“. (4. Mós. 10:2) Prestarnir áttu að blása í lúðrana á mismunandi vegu til að gefa til kynna hvað fólkið átti að gera. (4. Mós. 10:3–8) Nú á dögum leiðbeinir Guð þjónum sínum með ýmsum hætti. Skoðum þrennt sem minnir á það þegar blásið var í lúðra í Ísrael til forna. Það er þegar þjónum Guðs er boðið á fjölmennar samkomur, þegar útnefndir umsjónarmenn fá þjálfun og þegar söfnuðurinn fær nýjar leiðbeiningar eða leiðbeiningum er breytt.
ÞEGAR OKKUR ER BOÐIÐ Á FJÖLMENNAR SAMKOMUR
Prestarnir blésu í báða lúðrana þegar Jehóva vildi að „allur söfnuðurinn“ safnaðist saman fyrir framan inngang samfundatjaldsins. (4. Mós. 10:3) Allir ættbálkarnir, sem voru í tjaldbúðum í fjórum fylkingum umhverfis tjaldbúðina, heyrðu hljóðið greinilega. Þeir sem voru tiltölulega nálægt innganginum gátu líklega brugðist við kallinu innan nokkurra mínútna. Þeir sem voru lengra í burtu þurftu hugsanlega aðeins lengri tíma og gátu þurft að leggja meira á sig til að mæta. Jehóva vildi að allir söfnuðust saman til að þiggja leiðsögn hans óháð því hvar þeir dvöldu.
Okkur er ekki boðið að mæta við samfundatjald en það er mikilvægt að fólk Guðs safnist saman. Það á við um svæðismót og aðra sérstaka viðburði þar sem við fáum mikilvægar upplýsingar og leiðbeiningar. Þjónar Jehóva fylgja sömu dagskrá um allan heim. Allir sem þiggja boðið á þessar samkomur eru því hluti af stórum ánægðum hópi. Sumir þurfa að ferðast lengra en aðrir. Engu að síður finnst öllum sem sækja þessar samkomur það vera vel þess virði.
Hvað um þá sem tilheyra afskekktum hópi langt frá staðnum þar sem fjölmenn samkoma er haldin? Þökk sé nútímatækni geta margir notið góðs af sömu dagskránni og jafnvel fundist þeir vera viðstaddir samkomuna. Sem dæmi má nefna að deildarskrifstofan í Benín sendi dagskrána út til Arlit í Níger þegar fulltrúi aðalstöðvanna var í heimsókn. Tuttugu og eitt trúsystkini og áhugasamir komu saman í þessum námubæ í Saharaeyðimörkinni. Þótt
þau væru í órafjarlægð fannst þeim þau hluti af fjölmennri samkomunni þar sem 44.131 maður var viðstaddur. Bróðir nokkur skrifaði: „Við þökkum ykkur af öllu hjarta fyrir að streyma þessum viðburði. Það sýndi okkur enn á ný hversu heitt þið elskið okkur.“ÞEGAR ÖLDUNGUM ER BOÐIÐ AÐ ÞIGGJA ÞJÁLFUN
Þegar blásið var bara í annan lúðurinn áttu aðeins „foringjarnir ... höfuðsmenn Ísraels þúsunda“ að koma saman við samfundatjaldið. (4. Mós. 10:4, Biblían 1981) Þar gátu þeir fengið upplýsingar og kennslu frá Móse. Það myndi hjálpa þeim að sinna skyldum sínum gagnvart ættbálki sínum. Hefðir þú ekki gert allt sem þú gætir til að vera viðstaddur og njóta góðs af kennslunni ef þú hefðir verið einn af þessum foringjum?
Öldungar safnaðarins eru ekki ,foringjar‘ og þeir drottna ekki heldur yfir hjörð Guðs sem hann hefur falið þeim að gæta. (1. Pét. 5:1–3) Þvert á móti gera þeir sitt besta til að annast hjörðina. Þeir bregðast þess vegna vel við þegar þeir fá boð um að þiggja þjálfun, eins og í Ríkisþjónustuskólanum. Þar læra öldungarnir hvernig þeir geta sinnt málum safnaðarins enn betur. Þessi þjálfun styrkir trú þeirra og trú þeirra sem þeir annast. Þó að þú hafir ekki sótt svona skóla hefurðu líklega haft gagn af því að aðrir gerðu það.
ÞEGAR KALLAÐ ER EFTIR BREYTINGUM
Prestar Ísraelsmanna blésu stundum í lúðrana með breytilegum hljómi. Það merkti að Jehóva vildi að allir ættbálkarnir færðu sig um set. (4. Mós. 10:5, 6, NW) Það kostaði mikla skipulagningu og þýddi að allir þyrftu að taka til hendinni. Þetta gat stundum vakið blendnar tilfinningar hjá sumum. Hvers vegna?
Kannski fannst þeim boðin um flutning koma of oft og óvænt. Stundum var skýið „yfir tjaldbúðinni næturlangt og hóf sig upp að morgni“. Og stundum var það „tvo daga, einn mánuð eða lengur“. (4. Mós. 9:21, 22) Hversu oft þurfti að færa búðirnar? Í 33. kafla fjórðu Mósebókar segir frá 40 stöðum þar sem Ísraelsmenn tjölduðu.
Stundum tjölduðu þeir þar sem forsælu var að finna. Það hlýtur að hafa verið gott í þeirri „miklu og skelfilegu eyðimörk“ sem þeir voru í. (5. Mós. 1:19) Það gat því hafa verið auðvelt að hugsa sem svo að flutningur væri breyting til hins verra.
Þegar ættbálkarnir byrjuðu að flytja sig gæti sumum hafa fundist erfitt að bíða eftir að röðin kæmi að sér. Allir heyrðu lúðrakallið en ekki gátu allir farið á sama tíma. Breytilegur hljómurinn í lúðrunum merkti að ættbálkarnir sem tjölduðu austan megin, ættbálkur Júda, Íssakars og Sebúlons, ættu að leggja af stað. (4. Mós. 2:3–7; 10:5, 6) Þegar þeir voru farnir blésu prestarnir í lúðrana öðru sinni með breytilegum hljómi til merkis um að ættbálkarnir þrír sem voru með tjöld sín sunnan megin mættu fara. Prestarnir héldu þessu áfram þar til allir ættbálkarnir höfðu lagt af stað.
Kannski hafðir þú blendnar tilfinningar þegar gerðar voru einhverjar breytingar innan safnaðarins. Þér hefur kannski fundist yfirþyrmandi þegar nokkrar óvæntar breytingar voru gerðar hver á fætur annarri. Eða kannski varstu ánægður með vissar ráðstafanir og hefðir óskað þess að þeim hefði ekki verið breytt. Þér gæti hafa fundist erfitt að sýna þolinmæði meðan þú varst að aðlagast breytingunum. En ef við reynum að taka breytingum eins og við vitum að við ættum að gera sjáum við líklega að þær eru okkur til góðs og við finnum að Guð hefur velþóknun á okkur.
Á dögum Móse leiddi Jehóva milljónir karla, kvenna og barna gegnum eyðimörkina. Þau hefði ekki lifað af hefði hann ekki annast þau og leiðbeint. Við getum varðveitt trú okkar og styrkt hana vegna þess að Jehóva leiðbeinir okkur. Við skulum því öll bregðast við leiðsögn hans eins og trúfastir Ísraelsmenn brugðust við kalli lúðranna!