Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 27

Líkjum eftir þolgæði Jehóva

Líkjum eftir þolgæði Jehóva

„Ef þið eruð þolgóðir varðveitið þið líf ykkar.“ – LÚK. 21:19.

SÖNGUR 114 Verum þolinmóð

YFIRLIT *

1, 2. Hvaða loforð í Jesaja 65:16, 17 hjálpar okkur að halda út?

„GEFUMST EKKI UPP!“ Stef umdæmismótsins 2017 var sannarlega hvetjandi. Dagskráin sýndi fram á hvernig við getum haldið út í prófraunum. Síðan eru liðin fjögur ár, og hér erum við enn og höldum út í þessum illa heimi.

2 Hvað hefur þú þurft að glíma við undanfarið? Hefurðu kannski misst ættingja eða kæran vin? Ertu að glíma við banvænan sjúkdóm? Eða ertu að glíma við erfiðleikana sem fylgja því að eldast? Hefurðu þurft að þola náttúruhamfarir, ofbeldi eða ofsóknir? Eða tekstu á við afleiðingarnar af sjúkdómi, eins og til dæmis COVID-19 faraldrinum? Við þráum þann dag þegar allt þetta verður að baki – löngu gleymt og kemur aldrei aftur. – Lestu Jesaja 65:16, 17.

3. Hvað þurfum við að gera núna og hvers vegna?

3 Lífið í þessum heimi er erfitt og við getum þurft að þola enn fleiri erfiðleika í framtíðinni. (Matt. 24:21) Við þurfum augljóslega að styrkja þolgæði okkar. Hvers vegna? Vegna þess að Jesús sagði: „Ef þið eruð þolgóðir varðveitið þið líf ykkar.“ (Lúk. 21:19) Við getum styrkt þolgæði okkar með því að hugleiða hvernig aðrir hafa haldið út í svipuðum erfiðleikum og við þurfum að glíma við.

4. Hvers vegna er Jehóva besta fyrirmyndin í þolgæði?

4 Hver er besta fyrirmyndin í að sýna þolgæði? Jehóva Guð. Kemur það þér á óvart? Kannski – þangað til þú hugleiðir málið betur. Þessi heimur er undir stjórn Djöfulsins og vandamálin blasa við alls staðar. Jehóva hefur vald til að binda enda á þennan heim tafarlaust. En hann bíður eftir ákveðnum degi til að gera það. (Rómv. 9:22) Þangað til sá tími kemur sýnir Guð þolgæði. Skoðum hvernig Jehóva sýnir þolgæði á níu sviðum.

ÞAÐ SEM JEHÓVA ÞARF AÐ ÞOLA

5. Hvernig hefur nafn Guðs verið lastað og hvað finnst þér um það?

5 Nafn Jehóva er lastað. Jehóva elskar nafn sitt og vill að allir virði það. (Jes. 42:8) En í um sex þúsund ár hefur nafn hans verið lastað. (Sálm. 74:10, 18, 23) Þetta byrjaði í Edengarðinum þegar Djöfullinn (sem þýðir ,rógberi‘) ásakaði Guð um að meina Adam og Evu um eitthvað sem þau þyrftu til að vera hamingjusöm. (1. Mós. 3:1–5) Allar götur síðan hefur Jehóva verið ranglega ásakaður um að neita mönnum um það sem þeir þurfa. Óhróðurinn sem nafn föður hans varð fyrir olli Jesú áhyggjum. Hann kenndi því lærisveinum sínum að biðja: „Faðir okkar á himnum, við biðjum að nafn þitt helgist.“ – Matt. 6:9.

6. Hvers vegna hefur Jehóva látið svona langan tíma líða áður en hann útkljáir deilumálið um yfirráð?

6 Margir standa gegn Guði og yfirráðum hans. Jehóva einn hefur óskoraðan rétt til að ríkja yfir himni og jörð og stjórnarhættir hans eru alltaf þeir bestu. (Opinb. 4:11) En Djöfullinn hefur reynt að telja englum og mönnum trú um að Guð hafi ekki þennan rétt. Það var ekki hægt að útkljá þetta deilumál um rétt Jehóva til að fara með yfirráð á einni nóttu. Guð hefur í visku sinni leyft mönnum að stjórna í nægilega langan tíma til að sýna fram á að þeir geti ekki stjórnað sjálfum sér óháðir skaparanum, að slík stjórn sé dæmd til að mistakast. (Jer. 10:23) Vegna þolinmæði Guðs verður deilumálið útkljáð í eitt skipti fyrir öll. Hann verður hreinsaður af öllum ákærum þegar hann sýnir fram á að aðeins ríki hans getur komið á sönnum friði og öryggi á jörðinni.

7. Hverjir hafa gert uppreisn gegn Jehóva og hvað ætlar hann að gera við þá?

7 Sum barna Jehóva hafa gert uppreisn. Jehóva skapaði englana og mennina fullkomna, eða gallalausa. En uppreisnargjarn andasonur hans, Satan (sem þýðir ,andstæðingur‘) sneri fullkomnu mönnunum, Adam og Evu, gegn Jehóva. Aðrir englar og menn slógust í lið með uppreisnarseggjunum. (Júd. 6) Seinna höfnuðu honum jafnvel margir af Ísraelsþjóðinni, útvalinni þjóð Guðs, og fóru að tilbiðja falsguði. (Jes. 63:8, 10) Jehóva leit réttilega á það sem svik við sig. En hann hefur sýnt þolgæði og gerir það áfram þangað til sá tími kemur að hann afmáir alla uppreisnarseggi. Það verður mikill léttir fyrir trúfasta þjóna hans sem ásamt honum þola illt í þessum heimi.

8, 9. Hverju hefur verið logið um Jehóva og hvernig getum við brugðist við?

8 Lygar Djöfulsins eru linnulausar. Satan ákærði trúfastan þjón Jehóva, Job, og sagði í raun að allir trúfastir þjónar Jehóva þjónuðu honum af eigingjörnum hvötum. (Job. 1:8–11; 2:3–5) Djöfullinn hefur haldið áfram að ásaka menn allt fram á þennan dag. (Opinb. 12:10) Við getum gert okkar til að sanna Satan lygara með því að sýna þolgæði í prófraunum og halda áfram að vera trúföst Jehóva vegna þess að við elskum hann. Jehóva blessaði Job fyrir þolgæðið og hann mun einnig blessa okkur. – Jak. 5:11.

9 Fyrir atbeina leiðtoga falskra trúarbragða heldur Satan því fram að Jehóva sé grimmur og ábyrgur fyrir þjáningum manna. Þegar lítil börn deyja segja sumir jafnvel að það hafi verið Guð sem tók þau af því að hann vantaði engla á himnum. Hvílík óvirðing við Guð! Við vitum betur. Við ásökum aldrei Guð þegar við glímum við alvarleg veikindi eða þegar einhver sem við elskum deyr. Nei, við trúum því að sá dagur renni upp að hann muni lækna sjúka og reisa dána aftur til lífs. Við segjum öllum sem vilja hlusta hversu kærleiksríkur Guð Jehóva er. Þegar við gerum það getur Jehóva svarað þeim sem smána hann. – Orðskv. 27:11.

10. Hvað segir um Jehóva í Sálmi 22:24, 25?

10 Ástkærir þjónar Jehóva þjást. Jehóva er samúðarfullur Guð. Það tekur hann mjög sárt að sjá okkur þjást, til dæmis vegna ofsókna, veikinda eða ófullkomleika okkar. (Lestu Sálm 22:24, 25.) Jehóva skilur sársauka okkar. Hann vill binda enda á hann og hann mun gera það. (Samanber 2. Mósebók 3:7, 8; Jesaja 63:9.) Sá dagur kemur að „hann mun þerra hvert tár af augum [okkar] og dauðinn verður ekki til framar. Engin sorg, angistaróp né kvöl verður heldur til.“ – Opinb. 21:4.

11. Hvers saknar Jehóva í sambandi við trúfasta þjóna sína sem eru dánir?

11 Jehóva getur ekki haft samskipti við vini sína sem eru dánir. Hvernig hugsar Jehóva til trúfastra manna og kvenna sem hafa dáið? Hann þráir að sjá þau aftur. (Job. 14:15) Geturðu ímyndað þér hversu mikið Jehóva saknar Abrahams vinar síns? (Jak. 2:23) Eða Móse sem hann talaði við „augliti til auglitis“? (2. Mós. 33:11) Og hann hlýtur að hlakka til að hlusta á Davíð og aðra sálmaritara syngja fallegu lofsöngvana sína. (Sálm. 104:33) Þótt þessir vinir Jehóva séu dánir hefur hann ekki gleymt þeim. (Jes. 49:15) Hann man eftir þeim í minnstu smáatriðum. Á vissan hátt eru þeir „allir lifandi í augum hans“. (Lúk. 20:38) Sá dagur mun koma að hann reisir þá aftur til lífs og þá mun hann enn á ný hlusta á einlægar bænir þeirra og viðurkenna tilbeiðslu þeirra. Ef einhver sem þú elskar er dáinn getur þessi vitneskja veitt þér hughreystingu og huggun.

12. Hvað veldur Jehóva sérstaklega sorg á þessum síðustu vondu dögum?

12 Illir menn kúga aðra. Þegar uppreisnin hófst í Eden vissi Jehóva að ástandið myndi versna áður en það myndi batna. Jehóva hatar illskuna, óréttlætið og ofbeldið sem ríkir í heiminum. Hann hefur alltaf haft sérstaka samúð með þeim sem eru hvað viðkvæmastir fyrir – veikir og varnarlausir, munaðarlausir og ekkjur. (Sak. 7:9, 10) Jehóva finnur sérstaklega til sorgar þegar hann sér að trúfastir þjónar hans eru kúgaðir og settir í fangelsi. Þið megið vera viss um að hann elskar ykkur öll sem sýnið þolgæði ásamt honum.

13. Hvaða hnignun mannkynsins hefur Jehóva þurft að horfa upp á og hvernig ætlar hann að bregðast við henni?

13 Mannkyninu fer hnignandi. Satan hefur yndi af því að spilla mönnum sem voru skapaðir eftir Guðs mynd. Þegar Jehóva sá að „illska mannanna var mikil orðin á jörðinni“ á dögum Nóa „iðraðist hann þess að hafa skapað mennina á jörðinni og hann hryggðist í hjarta sínu“. (1. Mós. 6:5, 6, 11) Hefur ástandið batnað síðan þá? Alls ekki. Það hlýtur að gleðja Djöfulinn að sjá hve útbreitt kynferðislegt siðleysi er orðið í öllum sínum myndum, þar á meðal siðlaus hegðun milli fólks af gagnstæðu kyni og fólks af sama kyni. (Ef. 4:18, 19) Það gleður Satan sérstaklega mikið þegar hann getur fengið einhvern sem stundar sanna tilbeiðslu til að drýgja alvarlega synd. Þegar þolinmæði Jehóva er á enda lætur hann í ljós hve mikla vanþóknun hann hefur á allri siðlausri hegðun.

14. Hvernig fara menn með jörðina og lífið á henni?

14 Menn eru að eyðileggja jörðina. Það er ekki nóg með að ,einn maður drottni yfir öðrum honum til ógæfu‘ heldur fara menn líka illa með jörðina og dýrin sem Jehóva fól þeim að annast. (Préd. 8:9; 1. Mós. 1:28) Sumir sérfræðingar segja að milljón tegunda lífvera gæti dáið út á fáeinum árum vegna hegðunar manna. Það er engin furða að þeir skuli segja að lífríkið sé í vanda statt. Sem betur fer hefur Jehóva lofað „að eyða þeim sem eyða jörðina“ og breyta allri jörðinni í paradís. – Opinb. 11:18; Jes. 35:1.

HVAÐ GETUM VIÐ LÆRT AF ÞOLGÆÐI JEHÓVA?

15, 16. Hvað ætti að hvetja okkur til að halda út ásamt Jehóva? Lýstu með dæmi.

15 Hugsaðu þér öll íþyngjandi vandamálin sem himneskur faðir okkar hefur þurft að þola um þúsundir ára. (Sjá rammann  „Það sem Jehóva þarf að þola“.) Jehóva gæti bundið enda á þennan illa heim hvenær sem er. En þolinmæði hans hefur komið okkur til góða. Tökum dæmi. Segjum að maður og konan hans fái að vita að ófætt barn þeirra sé alvarlega veikt, að barnið muni eiga erfitt líf og deyja ungt. Foreldrarnir taka vel á móti barninu jafnvel þótt það eigi eftir að reyna mikið á að annast það. Þeir elska barnið og eru þess vegna tilbúnir að þola hvaða erfiðleika sem er til að annast það og gefa því besta lífið sem mögulegt er.

16 Á svipaðan hátt fæðast allir afkomendur Adams og Evu ófullkomnir en Jehóva elskar þá og annast. (1. Jóh. 4:19). Og ólíkt foreldrunum í dæminu getur Jehóva gert eitthvað í málunum. Hann hefur ákveðið dag þegar hann ætlar að fjarlægja allar þjáningar mannkynsins. (Matt. 24:36) Ætti kærleikur hans ekki að hvetja okkur til að halda út eins lengi og það er nauðsynlegt?

17. Hvernig getur það sem segir um Jesú í Hebreabréfinu 12:2, 3 hvatt okkur til að halda áfram að sýna þolgæði?

17 Jehóva er fullkomin fyrirmynd um þolgæði. Jesús líkti eftir þolgæði föður síns. Þegar hann var á jörðinni þurfti hann að þola fjandsamlegt tal, smán og að vera hengdur á kvalastaur í okkar þágu. (Lestu Hebreabréfið 12:2, 3.) Fordæmi Jehóva í að sýna þolgæði gaf Jesú eflaust styrk til að halda út. Það getur styrkt okkur líka.

18. Hvernig hjálpar 2. Pétursbréf 3:9 okkur að skilja hverju þolinmæði Jehóva kemur til leiðar?

18 Lestu 2. Pétursbréf 3:9Jehóva veit hvenær er rétti tíminn til að binda enda á þennan vonda heim. Það er þolinmæði hans að þakka að mikill múgur sem telur milljónir manna hefur safnast saman til að tilbiðja hann og lofa. Þeir eru allir þakklátir að Jehóva skyldi hafa sýnt þolgæði nógu lengi til að þeir gætu fæðst, lært að elska hann og vígst honum. Þegar milljónir manna hafa haldið út allt til enda verður augljóst að það var rétt af Jehóva að ákveða að vera þolinmóður.

19. Hvað ættum við að vera staðráðin í að gera og hvernig verður okkur launað?

19 Við getum lært af Jehóva að vera þolgóð með gleði. Þrátt fyrir alla þá sorg og þjáningar sem Satan hefur valdið er Jehóva samt sem áður „hinn hamingjusami Guð“. (1. Tím. 1:11) Við getum líka verið glöð meðan við bíðum þolinmóð eftir að Jehóva helgi nafn sitt, réttlæti drottinvald sitt, bindi enda á alla illsku og leysi öll vandamál okkar. Verum staðráðin í að vera þolgóð og hughraust, vitandi að himneskur faðir okkar sýnir þolgæði líka. Þá verður hægt að segja um okkur öll: „Sá sem er þolgóður í prófraunum er hamingjusamur því að þegar hann hefur staðist prófið fær hann kórónu lífsins sem Jehóva hefur lofað þeim sem elska hann staðfastlega.“ – Jak. 1:12.

SÖNGUR 139 Sjáðu sjálfan þig í nýja heiminum

^ gr. 5 Við glímum öll við einhver vandamál. Við sumum þeirra er engin lausn í sjónmáli, við verðum einfaldlega að halda út. En við erum ekki ein á báti. Jafnvel Jehóva þarf að þola margt. Í þessari grein skoðum við hvernig hann sýnir þolgæði á níu mismunandi sviðum. Við skoðum líka hverju þolgæði Jehóva hefur komið til leiðar og hvað við getum lært af fordæmi hans.