Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

ÆVISAGA

Ég hef átt ánægjulegt líf í þjónustu Jehóva

Ég hef átt ánægjulegt líf í þjónustu Jehóva

FYRSTA verkefni mitt á Betel í Kanada var að sópa gólfið í byggingunni þar sem prentsmiðjan var til húsa. Þetta var árið 1958 og ég var 18 ára. Lífið var yndislegt. Fljótlega var ég farinn að stjórna vél sem snyrti kantana á blöðunum þegar þau komu úr prentvélinni. Mér fannst frábært að vera á Betel!

Ári síðar var Betelfjölskyldunni tilkynnt að þörf væri á sjálfboðaliðum til að starfa á deildarskrifstofunni í Suður-Afríku vegna þess að ný hverfiprentvél yrði sett upp þar. Ég bauðst til að fara og var mjög spenntur þegar ég var valinn. Þrír aðrir Betelítar voru líka beðnir um að fara, þeir Dennis Leech, Bill McLellan og Ken Nordin. Okkur var sagt að við fengjum miða aðra leiðina.

Ég hringdi í móður mína og sagði: „Mamma, ég er með fréttir handa þér. Ég er að fara til Suður-Afríku!“ Móðir mín var rólyndiskona með sterka trú og gott samband við Jehóva. Hún sagði ekki mikið en ég vissi að hún myndi styðja mig. Hvorki hún né faðir minn gagnrýndu ákvörðun mína þótt þeim fyndist sárt að ég myndi vera svona langt í burtu.

ÉG FER TIL SUÐUR-AFRÍKU

Í járnbrautarlest á leiðinni frá Höfðaborg til Jóhannesarborgar með þeim Dennis Leech, Ken Nordin og Bill McLellan árið 1959.

60 ára endurfundir okkar fjögurra á deildarskrifstofunni í Suður-Afríku árið 2019.

Á Betel í Brooklyn fengum við, bræðurnir fjórir, þriggja mánaða þjálfun í ákveðinni aðferð við prentun með upphleyptu letri. Að þjálfuninni lokinni fórum við um borð í vöruflutningaskip sem sigldi til Höfðaborgar í Suður-Afríku. Ég var nýorðinn tvítugur. Það var komið kvöld þegar við lögðum upp í langa lestarferð frá Höfðaborg til Jóhannesarborgar. Fyrsti viðkomustaðurinn var lítill bær í Karoo sem er eyðimerkursvæði. Það var heitt og rykugt. Við horfðum út um gluggann og veltum fyrir okkur hvers konar staður þetta væri. Hvað vorum við búnir að koma okkur út í? Við heimsóttum þetta svæði aftur nokkrum árum síðar og sáum þá að þetta voru notalegir og friðsamlegir bæir.

Ég hafði það verkefni í nokkur ár að stjórna magnaðri og margslunginni Linotype vél. Ég raðaði blýstöfum í línur til að undirbúa prentun á tímaritunum Varðturninn og Vaknið! Deildarskrifstofan annaðist prentun á mörgum afrískum tungumálum, ekki bara fyrir Suður-Afríku heldur líka mörg önnur lönd í Afríku. Hverfiprentvélin sem varð til þess að við fórum hálfan hnöttinn var mikið notuð.

Seinna fór ég að vinna á skrifstofu í prentsmiðjunni en þar var unnið við ýmislegt sem tengdist prentun, vöruflutningum og þýðingum. Ég var önnum kafinn en ánægður og lífið var tilgangsríkt.

HJÓNABAND OG NÝTT VERKEFNI

Við Laura árið 1968 þegar við vorum sérbrautryðjendur

Árið 1968 kvæntist ég Lauru Bowen sem var brautryðjandi og bjó í grennd við Betel. Hún vann við vélritun á þýðingardeildinni. Í þá daga var nýgiftum hjónum ekki boðið að vera áfram á Betel þannig að við fengum það verkefni að vera sérbrautryðjendur. Ég var svolítið áhyggjufullur. Hvernig áttum við að geta lifað af styrknum sem sérbrautryðjendur fengu eftir að hafa verið tíu ár á Betel þar sem við fengum fæði og húsnæði? Við fengum hvor 25 rönd (sem voru 35 bandaríkjadollarar) á mánuði – ef við uppfylltum kröfur um tímafjölda, endurheimsóknir og ritadreifingu. Fyrir þessa upphæð þurftum við að borga fyrir húsaleigu, mat og ferðir, og líka fyrir læknishjálp og önnur útgjöld.

Við fengum það verkefni að starfa með litlum hópi nálægt bænum Durban við Indlandshaf. Þar bjó mikill fjöldi Indverja en margir þeirra voru afkomendur verkamanna sem komu til Suður-Afríku til að vinna við sykurrækt á seinni hluta 19. aldar. Nú höfðu þeir önnur störf en menningin og matarhefðin breyttust ekki, eins og ljúffengir karrýréttir þeirra eru dæmi um. Og þeir töluðu ensku þannig að við þurftum ekki að læra nýtt tungumál.

Sérbrautryðjendur áttu að nota 150 klukkustundir í boðuninni í hverjum mánuði svo að við Laura ákváðum að nota sex klukkutíma fyrsta daginn. Það var heitt í veðri og rakt loftið. Við vorum ekki með neinar endurheimsóknir eða biblíunámskeið þannig að við urðum að boða trúna hús úr húsi í sex klukkutíma. Þegar við höfðum verið um stund í boðuninni leit ég á klukkuna – aðeins 40 mínútur liðnar! Hvernig áttum að geta gert þetta?

Fljótlega vorum við komin með betra skipulag á starf okkar. Við smurðum daglega samlokur og settum heita súpu eða kaffi á hitabrúsa. Þegar við þurftum að taka okkur hlé lögðum við Volkswagen-bjöllunni okkar í skugganum af tré. Við vorum stundum umkringd fallegum litlum indverskum börnum sem störðu á okkur vegna þess að við vorum öðruvísi. Eftir fáeina daga komust við að raun um að tíminn leið mjög hratt eftir fyrstu tvo, þrjá klukkutímana.

Það veitti okkur mikla gleði að færa þessu gestrisna fólki sannleika Biblíunnar. Indverjarnir voru elskulegir, sýndu öðrum virðingu og elskuðu Guð. Margir hindúar brugðust vel við boðskapnum. Þeir kunnu að meta að læra um Jehóva, Jesú, Biblíuna, nýjan friðsaman heim og vonina um að látnir fái líf á ný. Ári síðar vorum við með 20 biblíunámskeið. Við borðuðum daglega aðalmáltíð dagsins með einni af fjölskyldunum sem við aðstoðuðum við biblíunám. Við vorum mjög ánægð.

En fljótlega fengum við annað verkefni – farandstarf meðfram strönd Indlandshafs. Við gistum í hverri viku hjá fjölskyldu í söfnuðinum og heimsóttum boðbera og vorum með þeim í boðuninni til að hvetja þá. Þeir komu fram við okkur eins og við værum hluti af fjölskyldunni og við nutum þess að vera með þeim, börnum þeirra og gæludýrum. Tvö frábær ár liðu hjá. En dag einn fengum við símtal frá deildarskrifstofunni. Bróðirinn sem hringdi sagði: „Við myndum vilja fá ykkur aftur á Betel.“ Ég svaraði: „Við erum mjög ánægð hér.“ En auðvitað vorum við tilbúin að vera hvar sem við fengum verkefni.

AFTUR Á BETEL

Á Betel starfaði ég í þjónustudeildinni. Þar hafði ég þá ánægju að vinna með mörgum þaulreyndum bræðrum. Í þá daga fengu allir söfnuðirnir bréf frá þjónustudeildinni eftir að farandhirðirinn hafði skilað skýrslu til deildarskrifstofunnar um heimsókn sína. Í bréfinu voru hvatningarorð og leiðbeiningar eftir því sem þörf var á. Þetta var mikil vinna fyrir bræðurna sem sáu um ritarastörfin því að þeir þurftu bæði að þýða bréf úr xhósa, súlú og öðrum tungumálum yfir á ensku og síðan önnur bréf úr ensku yfir á afrísk tungumál. Ég kunni að meta þessa harðduglegu þýðendur en þeir hjálpuðu mér líka að skilja þá erfiðleika sem þeldökk afrísk trúsystkini okkar stóðu frammi fyrir.

Á þeim tíma bjuggu Suður-Afríkumenn við aðskilnaðarstefnu yfirvalda. Hver kynþáttur hafði sitt búsetusvæði þannig að samskipti voru ekki mikil milli fólks af mismundandi kynþáttum. Þeldökk afrísk trúsystkini töluðu sín eigin tungumál, boðuðu trúna á sínum tungumálum og sóttu samkomur í söfnuðum þar sem kennslan fór fram á þeirra tungumálum.

Ég þekkti ekki marga þeldökka Afríkumenn vegna þess að ég hafði alltaf verið í enskumælandi söfnuði. En nú fékk ég tækifæri til að vita meira um þá, menningu þeirra og siðvenjur. Ég kynntist þeim erfiðleikum sem bræður og systur stóðu frammi fyrir vegna siðvenja og trúarkenninga á staðnum. Þau sýndu mikið hugrekki þegar þau höfnuðu óbiblíulegum siðvenjum og þegar þau sættu miklum ofsóknum frá fjölskyldum sínum og þorpsbúum vegna þess að þau neituðu að taka þátt í athöfnum sem tengdust dulspeki. Í dreifbýlinu ríkti mikil fátækt. Margir fengu litla eða enga skólagöngu en þeir báru virðingu fyrir Biblíunni.

Ég vann við nokkur dómsmál þar sem trúfrelsi og hlutleysi komu við sögu. Það var trústyrkjandi að sjá trúfesti og hugrekki barna votta Jehóva sem höfðu verið rekin úr skóla fyrir að neita að taka þátt í bænum og sálmasöng.

Í litlu landi í Afríku, sem þá var kallað Svasíland, stóðu trúsystkini frammi fyrir öðrum erfiðleikum. Þegar Sobhuza II konungur dó var farið fram á að allir íbúar landsins tækju þátt í sorgarathöfnum. Karlmenn áttu að raka af sér hárið og konur að klippa það stutt. Mörg trúsystkini sættu ofsóknum fyrir að neita að taka þátt í þessari siðvenju en hún tengist forfeðradýrkun. Trúfesti þeirra yljaði okkur um hjartarætur. Við lærðum heilmikið um trúfesti og þolgæði af trúsystkinunum okkar í Afríku og það styrkti trú okkar.

AFTUR Í PRENSTSMIÐJUNA

Árið 1981 var ég beðinn um snúa aftur í prentsmiðjuna til að taka þátt í koma á tölvustýrðri prentun. Þetta voru spennandi tímar! Prentaðferðir tóku miklum breytingum. Sölufulltrúi á staðnum lánaði deildarskrifstofunni ljóssetningarvél til prufu og án skuldbindingar. Úr varð að við skiptum níu Linotype vélum út fyrir fimm nýjar ljóssetningarvélar. Ný hverfiprentvél var líka sett upp. Nú jókst prenthraðinn til muna.

Þessi tölvuvæðing leiddi líka til þess að nýjar aðferðir voru þróaðar við að umbrjóta texta en þar kom MEPS-útgáfukerfið við sögu. Tækninni hafði fleygt mikið fram síðan við, fjórir Betelítar frá Kanada, fórum til Suður-Afríku til að vinna í prentsmiðjunni á Betel. (Jes. 60:17) Síðan þá höfðu allir gifst duglegum brautryðjandasystrum sem elskuðu Jehóva. Við Bill þjónuðum enn á Betel. Ken og Dennis höfðu stofnað fjölskyldu og bjuggu í grennd við Betel.

Verkefnum fór fjölgandi á deildarskrifstofunni. Biblíurit voru þýdd og prentuð á sífellt fleiri tungumálum og síðan send til annarra deildarskrifstofa. Þörf var á nýrri deildarskrifstofu. Bræðurnir reistu húsnæði undir hana á fallegu svæði vestur af Jóhannesarborg en hún var vígð árið 1987. Það var ánægjulegt að eiga þátt í þessari aukningu og þjóna í deildarnefndinni í Suður-Afríku í mörg ár.

AFTUR NÝTT VERKEFNI

Það kom okkur mjög á óvart þegar mér var boðið að þjóna í nýmyndaðri deildarnefnd á deildarskrifstofunni í Bandaríkjunum. Okkur fannst erfitt að yfirgefa vini okkar og verkefni í Suður-Afríku en við vorum mjög spennt að hefja nýtt líf sem hluti af betelfjölskyldunni í Bandaríkjunum.

Við höfðum samt áhyggjur af því að skilja móður Lauru eftir en hún var farin að eldast. Við gátum ekki gert mikið fyrir hana frá New York en þrjár systur Lauru buðust til að annast hana líkamlega, tilfinningalega og fjárhagslega. Þær sögðu: „Við getum ekki þjónað í fullu starfi sjálfar, en ef við sjáum um mömmu getið þið haldið áfram í ykkar þjónustu.“ Við erum þeim ákaflega þakklát.

Bróðir minn og konan hans bjuggu í Toronto í Kanada og önnuðust á svipaðan hátt móður mína sem var orðin ekkja. Hún hafði verið á heimili þeirra í meira en 20 ár. Við metum mikils að þau skyldu annast hana og sýna henni kærleika alveg þangað til hún dó stuttu eftir að við komum til New York. Það er mikil blessun að eiga fjölskyldu sem er tilbúin að haga aðstæðum sínum þannig að hún geti annast aldraða foreldra en það getur verið krefjandi á köflum.

Ég vann í nokkur ár í Bandaríkjunum við ritaframleiðslu en hún er orðin nútímavæddari og auðveldari viðureignar. Á síðari árum hef ég starfað í innkaupadeildinni. Það hefur verið ánægjulegt að þjóna á þessari stóru deildarskrifstofu síðastliðin 20 ár en þar starfa nú um 5.000 Betelítar auk 2.000 sjálfboðaliða sem vinna í hlutastarfi.

Fyrir sextíu árum hefði mér ekki dottið í hug að ég myndi vera hér. Laura hefur stutt mig heils hugar öll þessi ár. Ég hef sannarlega átt gott líf. Það er okkur dýrmætt að hafa annast fjölbreytt verkefni og að hafa unnið með mörgu yndislegu fólki, þar á meðal fólki á deildarskrifstofum víða um heiminn sem við höfum heimsótt á vegum deildarskrifstofunnar. Ég er nú kominn yfir áttrætt og vinn ekki jafn mikið og áður þar sem yngri hæfir bræður hafa fengið þjálfun til að sjá um vinnuna.

Sálmaritarinn skrifaði: „Sæl er sú þjóð sem á Drottin að Guði, þjóðin sem hann valdi sér til eignar.“ (Sálm. 33:12) Þetta eru orð að sönnu. Ég er ákaflega þakklátur að hafa fengið hlutdeild í gleðinni sem ríkir hjá hamingjusömu fólki Jehóva.