Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 7

Leitist við að vera hógvær og þóknist Jehóva

Leitist við að vera hógvær og þóknist Jehóva

„Leitið Drottins, allir hógværir í landinu ... ástundið auðmýkt.“ – SEF. 2:3.

SÖNGUR 80 Finnið og sjáið að Jehóva er góður

YFIRLIT *

1-2. (a) Hvað segir Biblían um Móse og hverju áorkaði hann? (b) Hvað hvetur okkur til að þroska með okkur hógværð?

BIBLÍAN segir að Móse hafi verið „hógvær maður, hógværari en nokkur annar á jörðinni“. (4. Mós. 12:3) Þýðir það að hann hafi verið veiklyndur, óákveðinn og hræddur við árekstra? Þó að sumir myndu lýsa hógværum manni á þann hátt er sannleikurinn allt annar. Móse var sterkur, ákveðinn og hugrakkur þjónn Guðs. Með hjálp Jehóva stóð hann hugrakkur frammi fyrir voldugum stjórnanda Egyptalands, leiddi þjóð sem var hugsanlega um 3.000.000 manna í gegnum eyðimörk og hjálpaði Ísraelsþjóðinni að sigrast á óvinum sínum.

2 Við þurfum ekki að takast á við sömu erfiðleika og Móse en á hverjum degi þurfum við að takast á við fólk eða aðstæður sem gera okkur erfitt um vik að vera hógvær. Við fáum þó sterka hvatningu til að þroska með okkur þennan eiginleika. Jehóva lofar: „Hinir hógværu fá landið til eignar.“ (Sálm. 37:11) Myndirðu segja að þú værir hógvær? Myndu aðrir lýsa þér þannig? Áður en við getum svarað þessum mikilvægu spurningum þurfum við að vita hvað hógværð felur í sér.

HVAÐ ER HÓGVÆRÐ?

3-4. (a) Við hverju má líkja hógværð? (b) Hvaða fjórir eiginleikar eru nauðsynlegir til að vera hógvær og hvers vegna?

3 Hógværð * er eins og fallegt málverk. Hvernig þá? Rétt eins og listamaður sameinar marga fallega liti til að búa til málverk verðum við að sameina marga aðlaðandi eiginleika til að vera hógvær. Meðal þeirra eru auðmýkt, undirgefni, mildi og innri styrkur. Hvers vegna þurfum við að sýna þessa eiginleika til að þóknast Jehóva?

4 Menn þurfa auðmýkt til að beygja sig undir vilja Guðs en hann vill meðal annars að við séum mild. (Matt. 5:5, NW; Gal. 5:23, NW) Þegar við gerum vilja Guðs verður Satan bálreiður. Þess vegna hatar margt fólk í heimi Satans okkur þó að við séum auðmjúk og mild. (Jóh. 15:18, 19) Við þurfum því innri styrk til að standa á móti Satan.

5-6. (a) Hvers vegna hatar Satan hógvært fólk? (b) Hvaða spurningum fáum við svör við í þessari grein?

5 Andstæðan við hógværð er að vera hrokafullur, sýna stjórnlausa reiði og hlýða ekki Jehóva. Satan er nákvæmlega þannig. Það er því ekki að furða að hann skuli hata hógvært fólk. Það afhjúpar galla hans. Og það sem er enn verra fyrir Satan er að hógvært fólk sannar að hann er lygari. Hann getur ekki fengið hógvært fólk til að hætta að þjóna Jehóva, sama hvað hann segir eða gerir. – Job. 2:3-5.

6 Hvenær gæti okkur fundist erfitt að sýna hógværð? Og hvers vegna ættum við að halda áfram að leitast við að vera hógvær? Til að finna svörin við þessum spurningum skulum við skoða fordæmi Móse, þriggja Hebrea sem voru í haldi í Babýlon og Jesú.

HVENÆR ER ERFITT AÐ VERA HÓGVÆR?

7-8. Hvernig brást Móse við þegar komið var fram við hann af óvirðingu?

7 Þegar okkur er gefið vald: Það getur verið erfitt fyrir þá sem fara með vald að vera hógværir, sérstaklega þegar einhver sem þeir hafa umsjón með sýna þeim óvirðingu eða draga í efa hæfni þeirra til að taka góðar ákvarðanir. Þekkirðu það af eigin raun? Hvernig myndirðu bregðast við ef einhver í fjölskyldunni kæmi þannig fram við þig? Skoðum hvað Móse gerði við slíkar aðstæður.

8 Jehóva fól Móse að vera leiðtogi Ísraelsmanna og veitti honum þann heiður að skrá lög þjóðarinnar. Það lék enginn vafi á að Jehóva studdi Móse. Samt sem áður var Móse gagnrýndur af Mirjam og Aroni, systkinum sínum, og þau drógu í efa hæfni hans til að velja sér konu. Sumir hefðu orðið reiðir og hefnigjarnir í hans sporum – en það var Móse ekki. Hann móðgaðist ekki auðveldlega. Móse sárbændi jafnvel Jehóva að lækna Mirjam af holdsveikinni sem hún var slegin. (4. Mós. 12:1-13) Hvers vegna brást hann við á þennan hátt?

Móse sárbændi Jehóva að lækna Mirjam af holdsveikinni sem hún var slegin. (Sjá 8. grein.)

9-10. (a) Hvað hjálpaði Jehóva Móse að skilja? (b) Hvað geta fjölskyldufeður og öldungar lært af Móse?

9 Móse hafði leyft Jehóva að þjálfa sig. Hann var ekki hógvær þegar hann tilheyrði egypsku konungsfjölskyldunni um 40 árum áður. Hann var þá svo skapbráður að hann drap mann sem honum fannst óréttlátur. Móse gerði sjálfkrafa ráð fyrir að Jehóva yrði sáttur við það sem hann gerði. Jehóva var 40 ár að kenna Móse að það væri ekki nóg að hann væri hugrakkur til að leiða Ísraelsþjóðina heldur þyrfti hann að vera hógvær. Og til að vera hógvær þurfti hann einnig að sýna auðmýkt, undirgefni og mildi. Hann tók vel við kennslunni og varð einstakur umsjónarmaður. – 2. Mós. 2:11, 12; Post. 7:21-30, 36.

10 Fjölskyldufeður og öldungar nú á dögum ættu að líkja eftir Móse. Vertu ekki fljótur að móðgast þegar komið er fram við þig af óvirðingu. Sýndu auðmýkt og viðurkenndu mistök þín. (Préd. 7:9, 20) Vertu undirgefinn leiðbeiningum Jehóva um hvernig eigi að takast á við vandamál. Og svaraðu alltaf mildilega. (Orðskv. 15:1) Fjölskyldufeður og umsjónarmenn, sem gera það, þóknast Jehóva, stuðla að friði og setja öðrum gott fordæmi í hógværð.

11-13. Hvaða fordæmi settu þrír Hebrear?

11 Þegar við erum ofsótt: Mennskir stjórnendur hafa alla tíð ofsótt þjóna Jehóva. Þeir ásaka okkur kannski um ýmsa „glæpi“ en ástæðan er í raun sú að við veljum að ,hlýða Guði framar en mönnum‘. (Post. 5:29) Þeir geta gert okkur að athlægi, fangelsað okkur og jafnvel beitt okkur ofbeldi. En með hjálp Jehóva erum við mild og höldum ró okkar í stað þess að gjalda í sömu mynt.

12 Skoðum fordæmi þriggja Hebrea sem voru í haldi í Babýlon – Hananja, Mísaels og Asarja. * Babýloníukonungur skipaði þeim að falla fram fyrir stóru gulllíkneski. Þeir útskýrðu mildilega fyrir konunginum hvers vegna þeir myndu ekki tilbiðja líkneskið. Þeir voru undirgefnir Guði þrátt fyrir hótun konungsins um að brenna þá í glóandi eldsofni. Jehóva ákvað að bjarga þessum mönnum á staðnum en þeir ætluðust ekki til að hann gerði það. Þeir voru tilbúnir að taka hverju því sem Jehóva leyfði að gerðist. (Dan. 3:1, 8-28) Þeir sönnuðu að hógværð felur í sér hugrekki. Enginn konungur, hótun eða refsing getur fengið okkur til að hætta að sýna Jehóva óskipta hollustu. – 2. Mós. 20:4, 5.

13 Hvernig getum við líkt eftir Hebreunum þrem þegar reynt er á hollustu okkar við Guð? Með því að vera auðmjúk og treysta að Jehóva annist okkur. (Sálm. 118:6, 7) Við svörum þeim sem ásaka okkur um illt mildilega og af virðingu. (1. Pét. 3:15) Og við neitum að gera nokkuð sem gæti skaðað sambandið við kærleiksríkan föður okkar á himnum.

Þegar aðrir úthúða okkur svörum við með virðingu. (Sjá 13. grein.)

14-15. (a) Hvað getur gerst þegar við erum undir álagi? (b) Hvers vegna er Jesús án efa langbesta dæmið um að sýna hógværð undir álagi, samanber Jesaja 53:7, 10?

14 Þegar við erum undir álagi: Við finnum öll fyrir stressi af ýmsum ástæðum. Við gætum hafa orðið stressuð fyrir próf í skólanum eða þegar við þurftum að skila ákveðnu verki í vinnunni. Tilhugsunin um læknismeðferð, sem við þurfum að gangast undir, getur valdið okkur streitu. Þegar maður er undir álagi er erfitt að vera hógvær. Við getum orðið pirruð yfir einhverju sem truflar okkur venjulega ekki og orðið kuldaleg og hörð við aðra. Ef þú hefur verið undir álagi skaltu hugleiða fordæmi Jesú.

15 Jesús var undir gríðarlegu álagi síðustu mánuðina sem hann lifði á jörðinni. Hann vissi að hann yrði líflátinn og þyrfti að líða miklar kvalir. (Jóh. 3:14, 15; Gal. 3:13) Nokkrum mánuðum fyrir dauða sinn sagði hann að það sem væri fram undan hvíldi þungt á sér. (Lúk. 12:50) Og aðeins nokkrum dögum áður en hann dó úthellti hann hjarta sínu í bæn til Guðs og sagði: „Nú er sál mín skelfd og hvað á ég að gera, á ég að segja: Faðir, frelsa mig frá þessari stundu? Nei, ég er kominn til þess að mæta þessari stundu: Faðir, ger nafn þitt dýrlegt!“ Við skynjum á þessari bæn hógværð hans og undirgefni við Guð. (Jóh. 12:27, 28) Þegar tími Jesú kom gaf hann sig hugrakkur á vald óvina Guðs sem líflétu hann á gífurlega niðurlægjandi og kvalafullan hátt. Jesús var hógvær og gerði vilja Guðs þrátt fyrir álagið og kvalirnar sem hann þurfti að þola. Jesús er án efa langbesta dæmið um að sýna hógværð undir álagi. – Lestu Jesaja 53:7, 10.

Jesús er langbesta dæmið um hógværð. (Sjá 16. og 17. grein.) *

16-17. (a) Hvernig reyndu vinir Jesú á hógværð hans? (b) Hvernig getum við líkt eftir Jesú?

16 Síðasta kvöld Jesú sem maður á jörðinni reyndi á hógværð hans vegna þess sem nánustu vinir hans gerðu. Hugsaðu þér hvað Jesús var undir miklu álagi það kvöld. Myndi hann vera fullkomlega trúfastur allt til dauða? Líf milljarða manna var í húfi. (Rómv. 5:18, 19) Og það sem meira máli skipti var að orðspor föður hans var einnig í húfi. (Job. 2:4) Á meðan hann borðaði síðustu máltíðina með nánustu vinum sínum, postulunum, breyttust umræður þeirra og þeir „fóru að metast um hver þeirra væri talinn mestur“. Jesús hafði leiðrétt þá um þetta mál mörgum sinnum, þar á meðal fyrr þetta sama kvöld. Þótt ótrúlegt megi virðast varð Jesús ekki pirraður. Hann svaraði þeim öllu heldur mildilega. Jesús var vingjarnlegur en ákveðinn þegar hann útskýrði enn og aftur fyrir postulunum hvaða viðhorf þeir ættu að hafa. Hann hrósaði þeim síðan fyrir að standa trúfastir með sér. – Lúk. 22:24-28; Jóh. 13:1-5, 12-15.

17 Hvernig hefðir þú brugðist við í hans sporum? Við getum líkt eftir Jesú og haldið ró okkar, jafnvel þegar við erum undir álagi. Verum fús til að hlýða boði Jehóva um að ,umbera hvert annað‘. (Kól. 3:13) Við hlýðum þessu boði ef við höfum í huga að við gerum og segjum öll eitthvað sem fer í taugarnar á öðrum. (Orðskv. 12:18; Jak. 3:2, 5) Og hrósaðu öðrum alltaf fyrir það góða í fari þeirra. – Ef. 4:29.

LEITUMST STÖÐUGT VIÐ AÐ VERA HÓGVÆR

18. Hvernig hjálpar Jehóva hógværum að taka góðar ákvarðanir en hvað þurfa þeir að gera?

18 Við tökum betri ákvarðanir. Jehóva hjálpar okkur að taka góðar ákvarðanir þegar við vitum ekki hvaða stefnu við eigum að taka – en aðeins ef við erum hógvær. Hann lofar að heyra „beiðni hins hógværa“. (Sálm. 10:17, NW) Og hann heyrir ekki aðeins beiðni okkar. Í Biblíunni er þetta loforð: „Hann leiðir hógværa á vegi réttlætisins og vísar auðmjúkum veg sinn.“ (Sálm. 25:9) Jehóva veitir okkur þessa leiðsögn í Biblíunni og í ritum, * myndböndum og á samkomum sem hinn „trúi og hyggni þjónn“ útbýr fyrir okkur. (Matt. 24:45-47) Við verðum að leggja okkar af mörkum með því að vera auðmjúk og viðurkenna að við þurfum á hjálp að halda, rannsaka efnið sem Jehóva sér okkur fyrir og fara fúslega eftir því sem við lærum.

19-21. Hvaða mistök gerði Móse í Kades og hvað getum við lært af því?

19 Við gerum færri mistök. Skoðum aftur sögu Móse. Hann var hógvær og þóknaðist Jehóva áratugum saman. En þegar Ísraelsmenn höfðu verið í eyðimörkinni í næstum 40 ár gerði Móse mistök og sýndi ekki hógværð. Systir hans, að öllum líkindum sú sem átti þátt í að bjarga lífi hans í Egyptalandi, var nýlega dáin og hafði verið jörðuð í Kades. Og nú kvörtuðu Ísraelsmenn aftur yfir því að ekki væri séð nógu vel fyrir þeim. „Fólkið ásakaði Móse,“ í þetta sinn vegna vatnsleysis. Það kvartaði þó að Jehóva hefði unnið mörg kraftaverk fyrir milligöngu Móse og þrátt fyrir að Móse hefði verið óeigingjarn leiðtogi þeirra í langan tíma. Það kvartaði ekki aðeins vegna vatnsleysis heldur einnig yfir Móse, eins og það væri honum að kenna að fólkið var þyrst. – 4. Mós. 20:1-5, 9-11.

20 Móse rauk upp í reiði og gleymdi hógværðinni. Í stað þess að ávarpa klettinn í trú, eins og Jehóva hafði sagt honum að gera, talaði Móse reiðilega við fólkið og gaf sjálfum sér heiðurinn af kraftaverkinu. Síðan sló hann tvisvar á klettinn og mikið vatn streymdi út úr honum. Stolt og reiði varð til þess að honum urðu á alvarleg mistök. (Sálm. 106:32, 33) Móse fékk ekki að ganga inn í fyrirheitna landið vegna þess að hann skorti hógværð um stund. – 4. Mós. 20:12.

21 Við getum dregið verðmætan lærdóm af þessu atviki. Í fyrsta lagi þurfum við stöðugt að vera hógvær. Ef við vanrækjum það, jafnvel um stutta stund, getum við orðið stolt aftur og farið að tala og hegða okkur heimskulega. Í öðru lagi getur streita gert okkur veikari fyrir og því þurfum við að leggja okkur fram um að vera hógvær þó að við séum undir álagi.

22-23. (a) Hvers vegna ættum við að halda áfram að leitast við að vera hógvær? (b) Hvað gefur Sefanía 2:3 til kynna?

22 Það er okkur til verndar. Bráðlega fjarlægir Jehóva alla illa menn af jörðinni og aðeins hinir hógværu verða eftir. Þá verður jörðin sannarlega friðsæl. (Sálm. 37:10, 11) Verður þú meðal þeirra hógværu sem fá að lifa? Þú getur verið það ef þú ferð eftir hlýlega boðinu sem Sefanía spámaður skráði. – Lestu Sefanía 2:3.

23 Hvers vegna segir í Sefanía 2:3: „ef til vill veitist yður hæli“? Það þýðir ekki að Jehóva sé ófær um að vernda þá sem vilja þóknast honum og eru honum kærir. Þetta gefur öllu heldur til kynna að við þurfum að gera eitthvað sjálf til að fá vernd. Við höfum möguleika á að lifa af „á reiðidegi Drottins“ og hljóta eilíft líf ef við leitumst við að vera hógvær og þóknast Jehóva núna.

SÖNGUR 120 Líkjum eftir hógværð Krists

^ gr. 5 Hógværð er ekki meðfæddur eiginleiki. Við þurfum að þroska með okkur hógværð. Okkur gæti fundist auðvelt að sýna hógværð í samskiptum við friðsamt fólk en erfitt að halda henni í samskiptum við þá sem eru hrokafullir. Í þessari grein ræðum við um nokkra erfiðleika sem við gætum þurft að sigrast á til að geta þroskað með okkur þennan fallega eiginleika.

^ gr. 3 ORÐASKÝRINGAR: Hógværð. Sá sem er hógvær er nærgætinn í samskiptum við aðra og bregst mildilega við, jafnvel þegar honum er ögrað. Auðmýkt. Sá sem er auðmjúkur er laus við stolt og hroka. Hann lítur svo á að aðrir séu honum fremri. Þegar talað er um að Jehóva sé auðmjúkur er átt við að hann sé kærleiksríkur og miskunnsamur við þá sem eru undir hann settir.

^ gr. 12 Babýloníumenn gáfu þessum Hebreum nöfnin Sadrak, Mesak og Abed-Negó. – Dan. 1:7.

^ gr. 18 Sjá meðal annars greinina „Heiðraðu Guð með ákvörðunum þínum“ í Varðturninum 15. apríl 2011.

^ gr. 59 MYND: Jesús sýnir mildi og leiðréttir lærisveina sína á rólegan hátt eftir að þeir höfðu verið að metast um hver væri mestur.