ÆVISAGA
Jehóva hefur verið okkur góður
VIÐ Danièle, konan mín, höfðum nýlokið við að innrita okkur á hótel þegar starfsmaðurinn í móttökunni sagði við mig: „Herra, þú ert vinsamlegast beðinn um að hringja í landamæralögregluna.“ Við höfðum komið nokkrum klukkustundum fyrr til Gabons sem er land í Vestur-Afríku, en starf okkar var bannað þar á áttunda áratug síðustu aldar.
Danièle var fljót að hugsa eins og venjulega og hvíslaði að mér: „Þú þarft ekki að hringja í lögregluna, hún er komin.“ Rétt fyrir aftan okkur stoppaði bíll fyrir framan hótelið. Fáeinum mínútum síðar handtóku hermenn okkur bæði. En vegna þess að Danièle varaði mig við hafði ég tíma til að láta bróður fá nokkur skjöl til vörslu.
Okkur var fylgt á lögreglustöðina og á leiðinni hugsaði ég um hversu lánsamur ég væri að eiga svona hugrakka og andlega sterka eiginkonu. Þetta var bara eitt af mörgum skiptum sem sýndu hversu vel við Danièle unnum saman. Ég skal segja ykkur hvað leiddi til þess að við fórum til landa þar sem hömlur voru á boðuninni.
JEHÓVA OPNAÐI AUGU MÍN
Ég fæddist árið 1930 í Croix, lítilli borg í Norður-Frakklandi, og var alinn upp í kaþólskri trú. Fjölskyldan sótti messu í hverri viku og faðir minn tók heilmikinn þátt í starfi safnaðarins. En þegar ég var næstum 14 ára varð ákveðið atvik til þess að augu mín opnuðust og ég sá hræsni kirkjunnar.
Frakkland var hernumið af þýska hernum í síðari heimsstyrjöldinni. Presturinn hvatti okkur reglulega í prédikunum sínum til að styðja Vichy-stjórnina en hún var hliðholl nasistum. Ræður hans gerðu okkur óttaslegin. Við hlustuðum með leynd, eins og margir í Frakklandi, á Breska ríkisútvarpið sem útvarpaði fréttum Bandamanna. Síðan breytti presturinn algerlega um stefnu og skipulagði þakkargerðarmessu til að halda upp á sókn Bandamanna í september 1944. Mér fannst þetta hneykslanlegt. Ég missti allt álit á prestastéttinni.
Faðir minn lést skömmu eftir stríðið. Eldri systir mín var þá gift og bjó í Belgíu. Þess vegna fannst mér ég þurfa að sjá um móður mína. Ég fékk vinnu í vefnaðariðnaðinum. Yfirmaður minn og synir hans voru kaþólskir og heitir í trúnni. Þótt ég ætti bjarta framtíð fyrir mér innan fyrirtækisins, reyndi brátt á trú mína.
Simone, systir mín, heimsótti okkur árið 1953 en hún var þá orðin vottur Jehóva. Hún notaði Biblíuna af leikni til að afhjúpa falskenningar kaþólsku kirkjunnar um vítiskvalir, þrenninguna og
ódauðleika sálarinnar. Í byrjun var ég ósáttur við að hún notaði ekki kaþólsku biblíuna en ég sannfærðist fljótlega um að það sem hún sagði mér væri satt. Seinna færði hún mér gömul eintök af Varðturninum sem ég las af áfergju á kvöldin í herberginu mínu. Ég áttaði mig fljótt á því að ég hafði fundið sannleikann en óttaðist að ég gæti misst vinnuna ef ég tæki afstöðu með Jehóva.Ég hélt áfram í nokkra mánuði að kynna mér sjálfur Biblíuna og greinar í Varðturninum. Að lokum ákvað ég að fara í ríkissal. Kærleiksríkt andrúmsloft safnaðarins snerti mig. Ég lét skírast í september 1954 en þá hafði ég kynnt mér Biblíuna í sex mánuði með hjálp bróður sem hafði mikla reynslu. Ekki leið á löngu þar til ég varð þeirrar gleði aðnjótandi að sjá móður mína og yngri systur verða votta Jehóva.
VIÐ REIDDUM OKKUR Á JEHÓVA Í ÞJÓNUSTUNNI Í FULLU STARFI
Því miður lést móðir mín nokkrum vikum fyrir alþjóðamótið í New York 1958 sem ég átti kost á að sækja. Þegar ég kom til baka hafði ég ekki lengur fjölskylduábyrgð svo að ég hætti í vinnunni og byrjaði sem brautryðjandi. Um þetta leyti trúlofaðist ég duglegri brautryðjandasystur, Danièle Delie, og í maí 1959 varð hún ástkær eiginkona mín.
Danièle hóf þjónustu sína í fullu starfi í dreifbýlinu í Brittany, langt frá heimahögum sínum. Hún þurfti að vera hugrökk til að boða trúna á þessu kaþólska svæði og ferðast um sveitirnar á hjóli. Henni fannst, eins og mér, að mikið lægi við. Við vissum ekki hve fljótt endirinn kæmi. (Matt. 25:13) Fórnfýsi hennar hjálpaði okkur að halda út og þjóna Jehóva í fullu starfi.
Nokkrum dögum eftir að við gengum í hjónaband vorum við beðin um að taka að okkur farandstarf. Við lærðum að lifa við frekar fábrotnar aðstæður. Það voru 14 boðberar í fyrsta söfnuðinum sem við heimsóttum og enginn þeirra hafði aðstæður til að bjóða okkur gistingu. Þess vegna sváfum við á dýnum á sviðinu í ríkissalnum. Það var ekkert sérstaklega þægilegt eða hentugt en frábært fyrir bakið.
Þrátt fyrir þétta dagskrá gekk Danièle vel að aðlagast farandstarfinu. Hún þurfti oft að bíða eftir mér í litla bílnum okkar þegar ég þurfti óvænt að mæta á öldungafund, en hún kvartaði aldrei. Við vorum bara í tvö ár í farandstarfinu. Við lærðum á þessum tíma hvað það er mikilvægt fyrir hjón að ræða málin í hreinskilni og vinna saman. – Préd. 4:9.
NÝ VERKEFNI Í ÞJÓNUSTU JEHÓVA
Árið 1962 var okkur boðið að sækja tíu mánaða námskeið með 37. nemendahópi Gíleaðskólans í Brooklyn í New York. Í 100 nemenda hópi voru 13 hjón, svo að okkur fannst mikil blessun að fá að sækja skólann saman. Ég á enn þá góðar minningar um kynni okkar af mönnum sem voru máttarstólpar trúarinnar, eins og Frederick Franz, Ulysses Glass og Alexander H. Macmillan.
Í náminu vorum við hvött til að skerpa athyglisgáfuna. Eftir kennslu á laugardögum voru skoðunarferðir um New York-borg stundum hluti af
náminu. Við vissum að við yrðum að skila greinargerð á mánudeginum um það sem við höfðum séð. Við vorum oft örþreytt á laugardagskvöldum en leiðsögumaðurinn, sjálfboðaliði frá Betel, notaði upprifjunarspurningar til að hjálpa okkur að muna aðalatriðin fyrir skriflega prófið. Einn laugardaginn gengum við um borgina allan eftirmiðdaginn. Við fórum á stjörnuathugunarstöð þar sem við lærðum um stjörnuhröp og loftsteina. Á Náttúrusögusafni Bandaríkjanna lærðum við muninn á ýmsum krókódílategundum. Þegar við komum aftur á Betel spurði leiðsögumaðurinn okkur hver væri munurinn á stjörnuhrapi og loftsteini. Danièle var orðin þreytt og svaraði: „Loftsteinar hafa stærri tennur.“Okkur til mikillar undrunar vorum við kölluð til starfa á deildarskrifstofuna í Frakklandi en þar þjónuðum við saman í meira en 53 ár. Árið 1976 var ég útnefndur umsjónarmaður deildarnefndarinnar og var líka beðinn um að heimsækja lönd í Afríku og Mið-Austurlöndum þar sem boðunin sætti hömlum eða banni. Þess vegna vorum við á ferð í Gabon eins og ég sagði frá í upphafi frásögunnar. Satt best að segja fannst mér ég ekki alltaf í stakk búinn til að annast þessa óvæntu ábyrgð. En með hjálp Danièle gat ég tekist á við þau verkefni sem okkur var treyst fyrir.
VIÐ STÓÐUM SAMAN Í ÞREKRAUN
Við vorum alsæl á Betel alveg frá upphafi. Danièle lærði ensku á fimm mánuðum áður en hún fór í Gíleaðskólann og varð leikin í að þýða ritin okkar. Við fundum mikla lífsfyllingu í starfi okkar á Betel en þátttaka í safnaðarstarfinu gerði gleðina enn meiri. Ég minnist þess með hlýju þegar við Danièle tókum neðanjarðarlestina seint á kvöldin, þreytt en ánægð eftir árangursríkt biblíunámskeið. En því miður gerði skyndileg breyting á heilsu Danièle það að verkum að hún gat ekki verið eins virk og hún hefði viljað.
Hún greindist með brjóstakrabbamein árið 1993. Meðferðin reyndist mjög erfið en hún fól í sér uppskurð og kröftuga lyfjameðferð. Fimmtán árum síðar greindist hún aftur með krabbamein en í þetta sinn var það svæsnara. Hún vann samt hvenær sem heilsan leyfði því að þýðingarstarfið var henni svo dýrmætt.
Þrátt fyrir illvígan sjúkdóminn kom okkur aldrei til hugar að hætta á Betel. Það er samt ekki alltaf auðvelt að vera veikur á Betel, sérstaklega þegar aðrir vita ekki hversu alvarlegt ástandið er. (Orðskv. 14:13) Jafnvel þegar Danièle var að nálgast áttrætt var líkamlegt ástand hennar ekki í neinu samræmi við fallegt andlitið og glæsileikann. Hún vorkenndi ekki sjálfri sér heldur einbeitti sér að því að hjálpa öðrum. Hún vissi að hún gat hjálpað þeim sem líður illa með því að vera tilbúin að hlusta. (Orðskv. 17:17) Danièle gaf sig aldrei út fyrir að vera ráðgjafi en hún nýtti sér engu að síður reynslu sína til að hjálpa mörgum systrum að óttast ekki krabbamein.
Við þurftum líka að takast á við nýjar krefjandi aðstæður. Þegar Danièle gat ekki lengur unnið fullt starf á Betel einbeitti hún sér að því að styðja mig á enn fleiri vegu. Hún gerði mikið til að Orðskv. 18:22.
auðvelda mér lífið en það gerði mér kleift að starfa sem umsjónarmaður deildarnefndarinnar í 37 ár. Hún var til dæmis vön að undirbúa allt svo að við gætum fengið okkur hádegismat saman á herberginu okkar og hvílt okkur aðeins á hverjum degi. –DAGLEG BARÁTTA VIÐ KVÍÐA
Danièle var alltaf ótrúlega jákvæð og lífsglöð. En svo fékk hún krabbamein í þriðja sinn. Við fundum til vanmáttar. Stundum gekk lyfjameðferðin og geislameðferðin svo nærri henni að hún gat ekki gengið. Það nísti hjarta mitt að sjá elsku konuna mína, sem var góður þýðandi, berjast við að finna réttu orðin.
Þótt kraftarnir hafi stundum verið á þrotum héldum við áfram að biðja, sannfærð um að Jehóva myndi aldrei leyfa að þjáningarnar yrðu erfiðari en við þyldum. (1. Kor. 10:13) Við reyndum alltaf að vera þakklát Jehóva fyrir þá hjálp sem hann veitti okkur í orði sínu, fyrir læknishjálpina sem við fengum á Betel og kærleiksríkan stuðning andlegu fjölskyldunnar okkar.
Við báðum Jehóva oft um leiðsögn til að vita hvaða læknismeðferð við ættum að velja. Á tímabili var engin meðferð í gangi. Læknirinn, sem annaðist Danièle í 23 ár, gat ekki útskýrt af hverju hún missti meðvitund eftir hvert skipti sem hún fór í lyfjameðferð. Hann gat ekki bent á nein önnur úrræði. Okkur fannst við vera ein á báti og veltum því fyrir okkur hvernig þetta færi. Þá samþykkti annar krabbameinslæknir að annast Daniéle. Það var eins og Jehóva hefði opnað okkur leið til að ráða við kvíðann.
Við lærðum að takast á við kvíðann með því að taka einn dag í einu. Eins og Jesús sagði: „Hverjum degi nægir sín þjáning.“ (Matt. 6:34) Jákvæðni og kímnigáfa komu sér líka vel. Þegar Danièle var til dæmis ekki í lyfjameðferð í tvo mánuði sagði hún við mig brosandi út í annað: „Mér hefur aldrei liðið betur.“ (Orðskv. 17:22) Þó að hún hafi fundið til hafði hún ánægju af því að æfa nýja ríkissöngva og söng þá hátt og snjallt.
Jákvætt hugarfar hennar hjálpaði mér að takast á við mín eigin takmörk. Í þau 57 ár, sem við höfum verið gift, hefur hún í sannleika sagt hugsað um mig á flestum sviðum. Hún vildi ekki einu sinni kenna mér að spæla egg. Þannig að þegar veikindin hömluðu henni verulega varð ég að læra að vaska upp, setja í þvottavél og elda einfaldan mat. Ég hef haft mikla ánægju af að gera ýmislegt til að gleðja hana, þótt það hafi kostað að nokkur glös hafi brotnað hjá mér. *
ÞAKKLÁTUR FYRIR KÆRLEIKA JEHÓVA
Þegar ég lít yfir farinn veg sé ég að þótt elli og heilsuvandamál hafi sett okkur skorður hefur það kennt mér ýmislegt gagnlegt. Í fyrsta lagi ættum við aldrei að vera of upptekin til að sýna maka okkar að okkur þykir vænt um hann. Við þurfum að nota sem best þau ár sem við höfum heilsu til að annast ástvini okkar. (Préd. 9:9) Í öðru lagi ættum við ekki að hafa of miklar áhyggjur af því sem skiptir minna máli því að þá gæti okkur yfirsést blessunin sem við njótum á hverjum degi. – Orðskv. 15:15.
Þegar ég hugsa um þjónustu okkar í fullu starfi finnst mér Jehóva óneitanlega hafa blessað okkur langt fram yfir það sem við gátum ímyndað okkur. Ég hef sams konar tilfinningu og sálmaritarinn sem sagði: „Drottinn gerir vel til [mín].“ – Sálm. 116:7.
^ gr. 32 Systir Danièle Bockaert lést á meðan þessi grein beið útgáfu. Hún varð 78 ára.