Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig geturðu náð árangri í baráttunni við kvíða?

Hvernig geturðu náð árangri í baráttunni við kvíða?

KVÍÐI getur hvílt á okkur eins og mara. (Orðskv. 12:25) Hefur þú þurft að glíma við sársaukafullan kvíða? Finnst þér stundum að þú getir ekki meir? Ef svo er ertu ekki einn. Mörg okkar hafa hjúkrað öðrum, misst ásvin, orðið fyrir náttúruhamförum eða komist í aðrar aðstæður sem hafa gert okkur líkamlega, andlega og tilfinningalega orkulaus. En hvað getur hjálpað okkur að takast á við kvíða? a

Við getum lært ýmislegt um að takast á við kvíða með því að hugleiða fordæmi Davíðs konungs. Hann upplifði marga erfiðleika í lífi sínu og lenti jafnvel í lífshættu. (1. Sam. 17:34, 35; 18:10, 11) Hvað hjálpaði Davíð að takast á við kvíða? Hvernig getum við líkt eftir honum?

HVERNIG NÁÐI DAVÍÐ ÁRANGRI Í BARÁTTUNNI VIÐ KVÍÐA?

Davíð glímdi við margvíslega erfiðleika á sama tíma. Veltum til dæmis fyrir okkur aðstæðunum þegar hann var á flótta undan Sál konungi sem vildi drepa hann. Þegar Davíð sneri ásamt mönnum sínum úr herför uppgötvuðu þeir sér til mikillar skelfingar að óvinir höfðu rænt eigum þeirra, brennt heimili og hertekið fjölskyldur þeirra. Hvernig brást Davíð við? „Þá tók Davíð og herinn, sem með honum var, að gráta hástöfum. Þeir grétu þangað til þeir megnuðu ekki að gráta lengur.“ Og til að bæta gráu ofan á svart vildu ,liðsmenn Davíðs grýta hann‘. (1. Sam. 30:1–6) Davíð stóð nú frammi fyrir þrem vandamálum: fjölskylda hans var í hættu, menn hans vildu drepa hann og Sál konungur var á eftir honum. Við getum rétt ímyndað okkur hversu kvíðafullur Davíð hefur verið.

Hvað gerði Davíð þessu næst? Hann beið ekki boðanna og „leitaði styrks hjá Drottni, Guði sínum“. Hvernig ætli Davíð hafi gert það? Hann var vanur að biðja til Jehóva um hjálp og hugleiða hvernig Jehóva hafði hjálpað sér áður. (1. Sam. 17:37; Sálm. 18:3, 7) Davíð vissi að hann þurfti að biðja Jehóva um leiðsögn og leitaði því til hans. Þegar Jehóva hafði gefið honum leiðbeiningar fór hann strax eftir þeim. Það varð til þess að hann og menn hans hlutu blessun Jehóva og endurheimtu fjölskyldur sínar og eigur. (1. Sam. 30:7–9, 18, 19) Tókstu eftir þrennu sem Davíð gerði? Hann bað til Jehóva um hjálp, hugleiddi það sem Jehóva hafði gert áður og fór eftir leiðbeiningum hans. Hvernig getum við líkt eftir Davíð? Athugum hvernig við getum gert það á þrjá vegu.

LÍKJUM EFTIR DAVÍÐ ÞEGAR VIÐ ERUM KVÍÐIN

1. Biðjum. Hvenær sem við byrjum að finna fyrir kvíða getum við beðið Jehóva um hjálp og visku. Við getum létt á okkur með því að taka okkur góðan tíma til að úthella hjarta okkar fyrir honum. Og við getum farið með stutta bæn í huganum ef það er það sem aðstæður okkar bjóða upp á í augnablikinu. Í hvert sinn sem við leitum til Jehóva til að fá hjálp sýnum við sama traust og Davíð sem sagði: „Drottinn, bjarg mitt og vígi, frelsari minn, Guð minn, hellubjarg mitt, þar sem ég leita hælis.“ (Sálm. 18:3) Skilar bænin árangri? Systir að nafni Kahlia er brautryðjandi. Hún segir: „Þegar ég er búin að fara með bæn finn ég hugarfrið. Bænin hjálpar mér líka að samstilla hugsun mína hugsun Jehóva og styrkir traust mitt á honum.“ Bænin er sannarlega dýrmæt gjöf frá Jehóva sem hjálpar okkur að glíma við kvíða.

2. Hugleiðum. Manstu eftir erfiðleikum sem þér tókst að yfirvinna aðeins vegna þess að Jehóva hjálpaði þér? Þegar við rifjum upp hvernig Jehóva hefur stutt okkur og þjóna sína til forna byggjum við upp innri styrk og treystum honum betur. (Sálm. 18:18–20) „Ég er með lista yfir bænir sem ég fengið svar við,“ segir öldungur að nafni Joshua. Það hjálpar mér að gleyma ekki þeim tilfellum þegar ég hef beðið Jehóva um eitthvað sérstakt og hann hefur gefið mér nákvæmlega það sem ég þurfti.“ Þegar við hugleiðum það sem Jehóva hefur þegar gert fyrir okkur endurnýjum við styrk okkar í baráttunni gegn kvíða.

3. Framkvæmum. Áður en við ákveðum hvað við gerum í ákveðnum aðstæðum getum við sótt í orð Guðs til að fá áreiðanlegustu leiðbeiningarnar. (Sálm. 19:8, 12) Margir hafa uppgötvað að þegar þeir rannsaka ákveðið biblíuvers skilja þeir betur hvernig það á við í lífi þeirra. Öldungur sem heitir Jarrod útskýrir: „Þegar ég rannsaka biblíuvers fæ ég meira út úr því og skil betur hvað Jehóva er að segja mér. Það hjálpar mér að trúa því sem ég les og auðveldar mér að fara eftir leiðbeiningum hans.“ Þegar við leitum leiðsagnar Jehóva í Biblíunni og fylgjum henni eigum við auðveldara með að takast á við kvíða.

JEHÓVA MUN HJÁLPA ÞÉR AÐ HALDA ÚT

Davíð skildi að hann þyrfti hjálp frá Jehóva til að takast á við kvíða. Hann var svo þakklátur fyrir stuðning Jehóva að hann sagði: „Með Guði mínum stekk ég yfir múra. Guð gyrðir mig styrkleika.“ (Sálm. 18:30, 33) Erfiðleikar okkar geta verið eins og ókleifur veggur í huga okkar. En með hjálp Jehóva getum við sigrast á öllum erfiðleikum. Þegar við biðjum Jehóva um hjálp, hugleiðum allt sem hann hefur gert fyrir okkur og förum eftir leiðbeiningum hans getum við verið viss um að hann gefur okkur þann styrk og þá visku sem við þurfum til að takast á við erfiðleika okkar.

a Sá sem glímir við alvarlegan kvíða gæti þurft á læknishjálp að halda.